Reykvísk óveðursský

Greinar

Óveðursský eru farin að hrannast upp á efnahagshimni Reykjavíkur. Atvinnutækifærum við framleiðslu fækkar í borginni. Sömuleiðis fækkar fólki á bezta aldri í borginni. Og meðaltekjur á íbúa eru orðnar lægri en gengur og gerist í landinu.

Þessi uggvænlega afturför er rakin í skýrslu, sem nokkrir embættismenn Reykjavíkurborgar hafa samið að tilhlutan Birgis Ísleifs Gunnarssonar borgarstjóra. Verður skýrslan nú lögð til grundvallar tilrauna til að stöðva afturförina.

Sumpart stafar afturförin af hinni opinberu byggðastefnu, sem rekin hefur verið af miklum þunga á skeiði tveggja síðustu ríkisstjórna. Framkvæmdastofnunin og efling Byggðasjóðs eru þungamiðja stefnunnar.

Alkunnugt er, að fyrirtæki eiga mjög erfitt með að fjárfesta hér á landi nema eiga mikinn aðgang að lánsfé. Slíkt fé rennur í hríðvaxandi mæli um sali Framkvæmdastofnunarinnar. Og þaðan fæst yfirleitt ekki fé nema til framkvæmda úti á landi.

Um leið og útgerð, fiskvinnsla og iðnaður hafa sogazt frá Reykjavík, hefur margvísleg þjónusta, einkum hin stóraukna opinbera þjónusta sogazt til Reykjavíkur. Þannig sérhæfist borgin sem þjónustuborg, meðan margir aðrir kaupstaðir sérhæfast sem framleiðslustaðir.

Þessi sérhæfing er hættuleg fyrir báða aðila. Opinbera þjónustu þarf að flytja meira út á land og framleiðslu til Reykjavíkur. Með því fæst betra atvinnujafnvægi á báðum stöðum.

Fleiri atriði hafa stuðlað að vaxandi sérstöðu Reykjavíkur. Eftirlaunafólk hefur mikið flutzt til Reykjavíkur, þar sem heilsugæzla og ýmis félagsleg þjónusta er á hærra stigi en víðast hvar úti á landi og þar sem aðgangur er tiltölulega greiður að fjölmennu liði ættingja og kunningja.

Ekki má heldur gleyma hinu, sem oft er þagað yfir, að utangarðsfólk sækir mjög til Reykjavíkur. Slíkt fólk á auðveldara með að lifa í fjölmenninu. Þar er hægara að fljóta með félagslegri aðstoð að feigðarósi.

Einnig er orsaka að leita í misjafnri skipulagsstefnu sveitarfélaganna á Reykjavíkursvæðinu. Höfuðborgin hefur ekki vikizt undan þeirri ábyrgð og skyldu að skipuleggja fjölbreytt íbúðahverfi með mikilli áherzlu á litlar íbúðir í stórum fjölbýlishúsum fyrir tiltölulega tekjulágt fólk.

Sum sveitarfélögin í nágrenni Reykjavíkur hafa hins vegar skipulagt tiltölulega einhæfa byggð einbýlishúsa og raðhúsa fyrir þá, sem betur mega sín. Þannig hafa þessi sveitarfélög sogað til sín margt það fólk, sem hæst útsvör getur borgað.

Í heild má segja, að afturförin í Reykjavík sé sumpart að kenna byggðastefnu, sumpart misræmi í skipulagi og sumpart sjálfvirkum öflum í nútíma þjóðfélagi. Engin ein lausn er til á þessum fjölþætta vanda. Þess vegna þarf að ráðast gegn honum með margvíslegum samræmdum aðgerðum.

Skýrsla Reykjavíkurborgar er mikilvægur grunnur undir slíkt starf. Þar hefur vandinn verið kortlagður.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið