Réttlætið tapaði

Greinar

Forvígismenn tveggja daga verkfallsins reiknuðu með að fá 40.000-50.000 af 65.000 félagsmönnum launþegasamtakanna til að taka þátt í verkfallinu. Vegna samstöðu Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja átti þetta að verða víðtækasta verkfall í sögu þjóðarinnar.

Þegar til kastanna kom, tóku aðeins um 25.000 manns þátt í verkfallinu. Sú tala er fengin með útreikningum á Dagblaðinu og fer raunar bil beggja milli fullyrðinga aðila vinnumarkaðsins. Það var þannig einungis þriðji hver launþegi í verkfalli.

Áhugaleysi launamanna kom greinilega fram í því, hversu misjafnlega þeir fylgdu forustumönnunum eftir því, hvort þeir höfðu mælt með verkfalli eða ekki. Í þeim samtökum, þar sem forustumennirnir vildu ekki verkfall, var nærri alger samstaða um að vinna. Hins vegar mætti að meðaltali um helmingur til vinnu í þeim samtökum, þar sem forvígismennirnir studdu verkfallið.

Raunar voru það aðeins tveir stórir og áhrifamiklir starfshópar, sem voru í víðtæku verkfalli, auk nokkurra félaga iðnaðarmanna og staðbundinna félaga. Þetta voru Dagsbrúnarmenn og kennarar. Forustumönnum þessara tveggja starfshópa tókst helzt að halda aga á liði sínu.

Dagsbrúnarmenn voru ekki með glöðu geði í verkfalli. Þar gengu verkfallsverðir óvenju hart fram og knúðu fram lokun vinnustaða gegn greinilegri andstöðu viðkomandi starfsmanna. Þurftu ráðamenn Dagsbrúnar að beita hörku til að halda aga á félagsmönnum sínum.

Kennarar höfðu mjög skiptar skoðanir um verkfallið, unz fáránlegar hótanir fjármálaráðherra byrjuðu að dynja á eyrum þeirra á þriðjudaginn. Þessar hótanir héldu engum manni að vinnu, en fóru svo í taugar kennara, að heilu vinnustaðirnir snarsnérust og fóru í verkfall.

Segja má því, að fjármálaráðherra hafi með stuðningi ríkisstjórnarinnar bjargað því sem bjargað varð hjá verkfallsmönnum. Ef þessir einkennilega lítið lífsreyndu ráðherrar hefðu látið sér nægja að beita þegjandi og hljóðalaust sömu viðurlögum og venjulega er beitt gegn fjarvistum, hefði verkfall BSRB ekki farið hálfa leið heldur alla leið út um þúfur.

Það er fáránlegt að ætla sér á síðustu stundu að breyta reglugerðum um slíkar fjarvistir til að hræða menn til hlýðni. Hótun fjármálaráðherra á eftir að verða þjóðinni dýrkeypt í vinnudeilum, því að hann neyðist líklega til að standa við hana, svo að menn ímyndi sér, að hann sé kaldur karl.

Í heild var verkfallið misheppnað, þrátt fyrir aðstoð ráðherra. Flestir forustumenn verkfallsins misstu tök á liði sínu og aðrir þurftu að taka á öllu til að halda liðinu saman. Þeir munu án efa hugsa sig um tvisvar, áður en þeir leggja aftur út í hliðstæðar aðgerðir.

Verkfallið var ósigur í réttlátri baráttu launamanna gegn kjaraskerðingu ríkisstjórnarinnar og svikum hennar við samninga, sem hún hefur sjálf undirritað.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið