Afnám tekjuskatts á láglaunafólki er eitt af þremur meginatriðum í frumvarpi til skattalaga, sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram á alþingi. Þetta er í stórum dráttum sama stefna og viðreisnarstjórnin fékk lögfesta árið 1960 í upphafi ferils síns. Þá eins og nú voru tekjuskattar almennings orðnir óbærilegir.
Í nýja frumvarpinu eru persónufrádrættirnir við það miðaðir, að skattfrjálsar séu tekjur almenns verkamanns, sem vinnur meira en dagvinnu, eða í 51 stund á viku í fullar 52 vikur á ári. Einnig er gert ráð fyrir því, að skattvísitalan taki töluvert tillit til verðbólgunnar, svo að þessi hagur láglaunafólks glatist ekki með árunum.
Annað meginatriði nýja frumvarpsins er, að tekjuskattar fari samtals ekki yfir 50% af tekjum manna og að það sé aðeins raunverulegt hátekjufólk, sem greiði svo háa skatta. Með þessu er stefnt að því að létta hinni óhóflegu skattbyrði af miðlungstekjufólkinu, beztu mjólkurkú núverandi skattkerfis.
Nú er ástandið þannig, að 72% skattgreiðenda greiða skatt á hæsta skattþrepi. Þeir borga í tekjuskatta um 55% af hverri krónu, sem þeir afla sér til viðbótar, þegar þeir eru komnir á þetta skattþrep. Samkvæmt nýja frumvarpinu á þetta miðlungstekjufólk að lenda á mun lægra skattþrepi, auk þess sem hámark tekjuskatta á að vera tæp 50%.
Þriðja meginatriðið er sérsköttun hjóna, sem er gamalt stefnumál sjálfstæðismanna. Byggist það á þeirri skoðun, að hjón taki hvort um sig þátt í að afla tekna heimilisins, jafnvel þótt konan vinni ekki utan heimilisins. Í slíku tilfelli hafa hjónin aðeins skipt með sér verkum og tekjurnar eru jafnt konunnar sem mannsins.
Í frumvarpinu er einnig tekið sérstakt tilliti til þess, að hjón verða beint eða óbeint fyrir miklum aukakostaði vegna heimilishalds, ef þau vinna bæði úti, og sá kostnaður eykst með auknum barnafjölda. Þessi frádráttur nemur í frumvarpinu 124.000 krónum á hjón og 13.500 á hvert barn þeirra.
Þessi atriði, skattfrelsi láglauna, veruleg minnkun skattbyrði miðlungslauna, lækkaður hámarksskattur og sérsköttun hjóna eru réttlætismál, sem þola ekki bið, eins og ástandið er núna. Vitanlega er nauðsynlegt að gera margar fleiri breytingar á skattkerfinu, og telja flutningsmennirnir frumvarp sitt aðeins vera áfanga á langri leið nauðsynlegra endurbóta.
Höfundar frumvarpsins eru alþingismennirnir Gunnar Thoroddsen, Geir Hallgrímsson, Magnús Jónsson, Þorvaldur G. Kristjánsson, Matthías Bjarnason og Matthías Á. Mathiesen og eru hinir tveir síðastnefndu flutningsmenn þess. Ýmsir sérfræðingar í skattamálum og efnahagsmálum hafa aðstoðað við gerð þess.
Gert er ráð fyrir því, að frumvarpið mundi á næsta ári rýra tekjur ríkisins um fjóra milljarða króna eða um 13-14%, ef það yrði að lögum. Þetta kann að sýnast stór biti, en er þó ekki meiri en svo, að skattheimta ríkisins yrði samt stærri hluti þjóðarteknanna en hún var á viðreisnartímanum.
Benda höfundar frumvarpsins, á, að á móti geti komið niðurskurður fjárlaga, hagræðing í ríkisrekstri, breytt efnahagsstefna og síðan óbeinir skattar að því marki, sem framangreind atriði nægja ekki. Þetta var hægt árið 1960 og ætti eins að vera hægt nú.
Jónas Kristjánsson
Vísir