Rétti endinn er til

Greinar

Óskhyggja ótal embættismanna ræður niðurstöðum fjárlaga hér á landi eins og raunar í sumum öðrum löndum. Embættismönnum er í upphafi falið að setja fram tillögur um fjárþörf embættanna.

Af ótta við niðurskurð fjármálaráðuneytisins áætla þeir fjárþörfina ríflega. Síðan sker ráðuneytið þessar áætlanir niður í það, sem embættismennirnir töldu sig raunverulega þurfa.

Fjármálaráðherra leggur síðan fram fjárlagafrumvarp, sem fylgir verðbólgunni, þegar bezt tekst til. Ef fjármálaráðherrann er Matthías Mathiesen, hækkar frumvarpið meira en verðbólgan.

Síðan taka við strengbrúður þrýstihópanna, alþingismennirnir. Þeir bæta við brú hér, skóla þar, útflutningsuppbótum hér, niðurgreiðslum þar, þingflokkastyrkjum hér og flokksblaðastyrkjum þar.

Niðurstaðan verður oft sú, að hækka verður skatta eða finna upp nýja til að hindra hallarekstur ríkissjóðs. Útgöngudyr skattahækkana eru hinar einu, sem íslenzkir stjórnmálamenn koma auga á.

Í sumum löndum hafa stjórnmálamenn hins vegar lært af stjórnendum einkafyrirtækja, sem verða að haga útgjöldum eftir tekjum, svo að fyrirtækin verði ekki gjaldþrota.

Stjórnendur einkafyrirtækja geta ekki skattlagt viðskiptavini sína, þótt tekjur fyrirtækjanna nægi ekki fyrir kostnaði af öllum þeim framkvæmdum og rekstri, sem þeir gætu óskað sér að hafa með höndum.

Við slíkar aðstæður hefst gerð fjárlaga með því, að áætlaðar eru tekjur ríkisins á næsta ári að óbreyttri skattheimtu. Síðan er gert ráð fyrir minnkun skattheimtu, t.d. um 5%.

Niðurstöðutalan sýnir, hve há útgjöld ríkisins á næsta ári megi vera. Henni er síðan skipt niður á einstaka málaflokka og í framhaldi af því á einstök embætti.

Hver embættismaður stendur þá andspænis þeirri staðreynd, að hann hefur ákveðna fjárupphæð til ráðstöfunar, nokkru lægri en honum líkar. En á móti fær hann svigrúm til að ákveða sjálfur, hvernig þessi upphæð nýtist sem bezt.

Auðvitað kemur svo í ljós, að peningarnir endast. Embættismaðurinn þarf aðeins að sýna meiri útsjónarsemi en ella. Hann fær svo þar á ofan á tilfinninguna, að hann sé með verðmæti milli handa en ekki skít.

Gerum svo í raunsæi okkar ráð fyrir, að þrýstihóparnir heimti meira af strengbrúðum sínum á alþingi. Þá er unnt að grípa til 5%, sem lögð voru til hliðar í upphafi og nota þau í gæluverkefni og gælustyrki.

Fyrir þetta geta þingmenn reist sínar Borgarfjarðarbrýr og keypt sín Víðishús, án þess að nýjar byrðar séu lagðar á skattgreiðendur. Aðeins þarf að gæta þess, að heimskan og siðleysið fari ekki fram úr 5%.

Kjarni þessa máls er, að fjárlög á að byggja á gildandi tekjustofnun ríkisins, en ekki á óskhyggju embættismanna.

Á þetta eru þingmenn minntir núna, þegar þeir eru að samþykkja allt of há fjárlög með margvíslegum útgjöldum, sem kjósendur kæra sig ekki um.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið