Rétt spor á göngugötu

Greinar

Góð reynsla er fengin af þeim tæpa mánuði, sem Austurstræti hefur verið göngugata. Breytingin hefur notið almennra vinsælda og verður því vafalaust til frambúðar. Vegfarendur gera sér tíðförulla en áður um Austurstræti, og viðskiptalífið blómgast.

Einróma lof hefur breytingin samt ekki fengið. Í upphafi voru framsóknarmenn í borgarstjórn mjög andvígir henni og kvörtuðu um afnám þeirra 20 bílastæða, sem voru við götuna. En ekki riðu þeir feitum hesti frá þeirri gagnrýni.

Aðrir nöldrarar hafa bent á bráðabirgðasvipinn, sem er á nýbreytninni. Sumir eru á móti því að sjá tré standa í stömpum og listaverk á tréstöllum. En menn mega ekki gleyma því, að þetta var tilraun, sem gat mistekizt. Þess vegna varð að vera auðvelt að ná trjám, bekkjum og listaverkum í burtu aftur, ef á þyrfti að halda.

Nú virðist ljóst, að tilraunin muni takast. Það má því í vetur vinna að skipulagi varanlegs umbúnaðar göngugötunnar næsta vor og stefna að því,að þá verði trjám og listaverkum komið fyrir með varanlegum hætti.

Margir eru ekki ánægðir með ferðir strætisvagna um götuna. Um það fæst nú samanburður, því að nú er komið að síðari hluta tilraunarinnar, er götunni verður lokað fyrir strætisvögnum sem öðrum bílum. Ætti þá að fást reynsla, sem geri borgaryfirvöldum kleift að ákveða örlög strætisvagna Austurstrætis.

Bent hefur verið á, að strætisvagnastjórar séu þeir bílstjórar, sem vanastir séu að gæta sín á gangandi fólki. En það er ekki víst, að sú reynsla nægi í Austurstræti. Í göngugötu vill fólk geta sleppt hendinni af börnunum án þess að eiga það á hættu, að þau hlaupi fyrir bíl. Borgarbragurinn er orðinn annar og meiri síðan Austurstrætið varð göngugata. Borgin hefur á ný öðlazt þungamiðju eða ás, eins konar “forum” fyrir borgarbúa.

Menn dreymir líka um, að síðar verði unnt að ganga lengra á þessu sviði. Rætt er um að byggja yfir götuna með glerþaki í framtíðinni og hita hana upp, svo að borgarbúar geti haft fullt gagn af henni, þrátt fyrir vinda og vetur. Einnig er rætt um að halda með göngugötuna áfram upp Bankastræti og Laugaveg inn á Hlemmtorg. Fyrir því er raunar gert ráð í aðalskipulagi borgarinnar, en það kostar umfangsmiklar breytingar á umferðaræðum, sem ekki verða gerðar að bragði.

Með breytingunni á Austurstræti hafa borgaryfirvöld stigið spor í rétta átt. Hér eftir verður sem betur fer ekki við snúið, þótt nöldur heyrist úr einstaka átt.

Mosaik í stað áls og glers

Önnur stórkostleg breyting hefur orðið á miðbæ Reykjavíkur. Mosaikmynd Gerðar Helgadóttur á Tollstöðinni er kærkominn borgarauki og ánægjuleg tilbreyting frá gler- og álveggjum þeim, sem verið hafa í tízku á undanförnum árum. Af slíkum skreytingum ættu húsbyggjendur í miðbænum að gera meira.

Jónas Kristjánsson

Vísir