“Hallærisfyrirtækin mega fara á hausinn”, sagði Þjóðviljinn í leiðara á fimmtudaginn. Þar gagnrýndi blaðið kveinstafi frystihúsaeigenda og varaði við því, að ríkið færi að styrkja þá á einhvern hátt.
Ofur eðlilegt er það sjónarmiða, að fyrirtæki megi fara á hausinn, ef þau ná ekki endum saman. Það er alveg ófært, að atvinnugrein sé stikkfrí gagnvart lögmálum góðs rekstrar og geti látið ríkið borga mismuninn.
Athyglisverðast er samt, að Þjóðviljinn er sjálfur einmitt í þeirri aðstöðu, sem frystihúsin vilja komast í. Hann lifir á ríkisstyrkjum eins og hin flokksblöðin, Morgunblaðið, Vísir, Tíminn og Alþýðublaðið.
Eftir öllum sólarmerkjum leiðara Þjóðviljans að dæma hefur höfundur hans enga hugmynd um, að hann er að kasta steinum úr glerhúsi. Svo rótgróið er styrkjalíf Þjóðviljans orðið, að hann þorir að segja: “Hallærisfyrirtækin mega fara á hausinn”.
Kannski alþingi taki mark á þessu og hætti að styrkja flokksblöðin. Hitt er þó líklegra, að ráðamenn telji sjálfsagt, að heilar atvinnugreinar liggi uppi á ríkinu, bæði flokksblöð og frystihús.
Að minnsta kosti kom það fram í leiðara Tímans á föstudaginn, að stjórnmálamönnum þjóðarinnar þykir einstaklega grunsamlegt, ef einhverjir kunna að reka fyrirtæki. Ef þeir starfrækja Dagblaðið eru þeir kallaðir “fjáraflamenn” í leiðara Tímans, og af samhenginu er greinilegt, að ekki ber að skilja orðið sem hól.
Það er ekki von, að íslenzka ríkið sé vel rekið.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið