Hver er framleiðni einstakra atvinnuþátta hér á landi í innbyrðis samanburði og í samanburði við útlönd? Hve lengi er fjárfesting að skila sér í hverjum atvinnuþætti fyrir sig? Hvert er hagkvæmast að beina því takmarkaða fjármagni, sem þjóðin hefur til umráða?
Þetta eru meðal mikilvægustu spurninga í efnahagslífi okkar. Við höfum hagstofu, þjóðhagsstofnun og ótal hagdeildir í bönkum og öðrum stofnunum, en fáum samt ekki svör við þessum spurningum. Þessar stofnanir vinna mikilvægt starf í öflun tölfræðilegra upplýsinga, en virðast ekki þora að stíga skrefið til fulls.
Ef til vill eru þetta of viðkvæm atriði til þess, að hagfræðingar geti fjallað um þau. Þeir vilja ef til vill ekki láta stimpla sig sem þjóðníðinga, ef niðurstöður þeirra henta ekki hagsmunaaðilum í þjóðfélaginu. Þeir óttast ef til vill reynslu annarra, sem hafa verið að fikta við þessa útreikninga og hafa uppskorið skítkast af hálfu hagsmunaaðila.
En þessi þögn sérfræðinganna stuðlar að því, að umræður um efnahagsmál haldast á lágu stigi hér á landi. Kjaftasnakkar komast upp með að rugla fólk í ríminu. Þeim hefur tekizt að stilla heilum atvinnuvegum upp sem heilögum kúm, er ekki megi stugga við á neinn hátt. Utan um heilögu kýrnar hefur svo myndazt fjölmenn prestastétt, sem ræðst gegn sérhverri tilraun til að mæla heilögu kýrnar í tölum framleiðni vinnu og fjármagns.
Að sjálfsögðu þarf þjóðin að vita, hvaða atvinnuþættir okkar eru samkeppnishæfir í samanburði við hliðstæða erlenda atvinnuþætti, hvaða atvinnuþættir hafa góða von um að verða samkeppnishæfir í slíkum samanburði og hvaða atvinnuþættir eru í vonlausri samkeppnisaðstöðu. Þetta er unnt að reikna út, en er ekki gert.
Ísland hefur ekki náð að safna miklum þjóðarauði. Takmarkað fjármagn er til umráða til fjárfestingar á ári hverju og það þarf að nýta sem bezt. Við höfum grun um, að í sumum atvinnuþáttum skili fjármagnið sér alls ekki, í öðrum seint og illa og í enn öðrum með mjög skjótum hætti. Þetta er unnt að reikna út, en er ekki gert.
Þjóðin þarf að sjálfsögðu að fá að vita, hverjar eru heilögu kýrnar í efnahagslífi landsins, kýrnar, sem soga til sín fjármagn og eyða því til lítils eða einskis. Með slíkri vitneskju væri auðveldara að beina fjármagni og starfsorku til þeirra greina, sem fljótastar eru að skila þjóðarbúinu arði, sem síðan er unnt að leggja í nýja fjárfestingu.
Við slíkt mat koma að vísu önnur sjónarmið til álita en hið hreina peningalega sjónarmið. Við teljum til dæmis eðlilegt að stuðla að vissu marki að jafnvægi í byggð landsins. En enginn veit, hve mikið atriði eins og byggðastefnan kostar að öllu samanlögðu,-byggðasjóði, lánakjörum, styrkjum, uppbótum, niðurgreiðslum, verðjöfnun og ýmsum framkvæmdum. Ef þetta væri vitað, væri auðveldara að meta, hve mikilli byggðastefnu þjóðfélagið hefur efni á.
Hagstofnanir þjóðarinnar eiga að hefja störf á þessum sviðum, þótt slíkt muni kosta nokkurn úlfaþyt. Við höfum hreinlega ekki efni á að láta þessi reikningsdæmi bíða.
Jónas Kristjánsson
Vísir