Reiðibréf Magnúsar

Greinar

Reykjavík stendur nú í umfangsmiklum hitaveituframkvæmdum til þess að tryggja, að borgarbúar hafi næga hitaveitu í framtíðinni. Þáttur í þessum framkvæmdum er lagning viðbótarleiðslu frá Mosfellssveit til Reykjavíkur.

Borgin hefur samið við Kópavog og Hafnarfjörð um sölu á heitu vatni til að dreifa kostnaðinum af endurnýjun hitaveitunnar. Samningur þessi er mjög hagkvæmur fyrir íbúa Reykjavíkur og beggja kaupstaðanna. Hann tryggir Reykjavíkursvæðinu ódýra og örugga húsahitun langt fram í tímann.

Ríkið tók lán hjá Alþjóðabankanum, sem það endurlánaði Reykjavíkurborg til að kosta þessar framkvæmdir. Lán bankans er bundið því skilyrði, að hitaveitan sé ekki rekin með tapi, heldur skili hún 7% arði á hverju ári á lánstímanum.

Nú vissi Reykjavíkurborg, að ríkið stendur ekki alltaf við sitt. Þess vegna setti hún það skilyrði í samningana við Kópavog og Hafnarfjörð, að hin tilskilda arðsemi næðist. Ríkið ræður arðsemi hitaveitunnar með því að leyfa eða banna hækkanir á gjaldskrá hennar.

Það kom svo á daginn, að ríkið hafði meiri áhuga á að sauma að fjárhag Reykjavíkur en standa við gerða samninga við Alþjóðabankann. Það svaraði ekki einu sinni bréfi Reykjavíkurborgar um 12% hækkun, sem átti fyrir löngu að vera komin til framkvæmda.

Þessi afstaða ríkisins ónýtti samninga Reykjavíkur við Kópavog og Hafnarfjörð. Þingmenn af þessu svæði risu þá upp til andmæla og þvinguðu ríkisstjórnina til undanhalds. 12% hækkunin var leyfð nú í vikunni.

Leyfinu fylgdi ákaflega ruddalegt bréf Magnúsar Kjartanssonar hitaveituráðherra. Eftir að ríkisstjórn hans hafði mánuðum saman reynt að rjúfa samkomulagið við Alþjóðabankann, hótar hann Reykjavík öllu illu, ef hún standi ekki við samningana við Kópavog og Hafnarfjörð.

Engum í þessum sveitarfélögum hefur dottið í hug, að Reykjavikurborg stæði ekki við gerða samninga. Ráðherra hefur enga siðferðilega heimild til að vera með hótanir, því að Reykjavík hefur ekki gefið neitt tilefni til þess. Það var hins vegar ríkisstjórnin, sem reyndi árangurslaust að svíkja samninginn um lánið.

Jafnframt heimtar ráðherra í bréfinu, að hitaveitan láti sér í té alls kyns gögn, sem ráðuneytið geti notað í könnun á, hvernig megi flýta hitaveituframkvæmdum á Reykjavikursvæðinu. Í þessari kröfu felast dulbúnar dylgjur um, að ríkið þurfi að koma til skjalanna í þessu máli.

Ekki er kunnugt um, að misbrestur hafi verið á því, að opinberar stofnanir láti hverja aðra hafa upplýsingar, er komið geti öðrum að gagni. Ráðherra getur fengið allar upplýsingar hjá hitaveitunni án þess að krefjast þeirra í opinberu hótunarbréfi.

Annað hvort hefur ráðherradómurinn stigið Magnúsi Kjartanssyni til höfuðs eða þá að hann er að veita innibyrgðri gremju útrás. Reiðin stafar þá af því, að Reykjavík, Kópavogur og Hafnarfjörður hafa sýnt, að með frjálsu samstarfi geta sveitarfélög unnið meiri stórvirki en miðstjórnarvald ríkisins, sem ráðherrarnir hafa svo mikið dálæti á.

Jónas Kristjánsson

Vísir