Ógeðfelldar eru hetjur Sturlungu. Sumar geðveikar, einkum Sturla Sighvatsson og Órækja Snorrason. Flestar lögðust á lítilmagnann, einkum Kolbeinn ungi og Þórður kakali. Kolbeinn vildi útrýma Vestfirðingum, en drapst í tæka tíð. Hins vegar voru þeir óskaplegir ferðagarpar við aðstæður, sem voru lakari en nú, bæði fatnaður og reiðtygi. Kolbeinn ungi djöflaðist yfir Arnarvatnsheiði að vetri til að drepa Þórð kakala. Notalegra hefði verið að liggja heima í laug. Ég þykist vera reyndur í hestaferðum, en aldrei væri hægt að bjóða mér ferð á borð við átján stunda reið Þórðar kakala úr Skálholti í Stykkishólm.