Þungatakmarkanir á vegum eru jafnan vottur þess, að vorið sé að koma. Frostið hverfur smám saman úr jörðu eftir langan vetur. Hægt og sígandi vaknar gróðurinn til skammrar sumarævi. Utan malbiks og steypu vaða menn aurinn í ökkla og bílar rista sundur vegi.
Þetta viðkvæma tímabil er eitt af sérkennum íslenzkrar náttúru, alveg eins og þúfurnar. Hvort tveggja er einkenni lands á mörkum freðmýrabeltisins, einkenni lands, sem þolir lítið sem ekkert álag. Ísland er svo norðarlega, að barrskógur þrífst ekki nema á skjólsælum stöðum.
Þegar landnámsmenn komu hingað á hlýviðrisskeiði fyrir ellefu öldum, var hin viðkvæma náttára í ósnortnu jafnvægi. Landið virtist vel til búskapar fallið. Þá hófst strax sú rányrkja, sem æ hefur staðið síðan og kölluð er landbúnaður.
Ár eftir ár var náttáran rupluð og rænd. Svo var á landnámsöld og svo er enn þann dag í dag. Gróðurrannsóknir síðustu ára sýna að enn fer gróðri hnignandi á afréttum langflestra sýslna landsins. Landið er enn að blása upp, þrátt fyrir þjóðargjöfina frægu.
Á þessari ellefu alda göngu hefði þjóðin fallið úr hor, ef fiskveiðar hefðu ekki fljótlega tekið við af landbúnaði sem hornsteinn atvinnulífsins. Auðlindirnar við strendur landsins gerðu þjóðinni kleift að skrimta á mörkum freðmýrabeltisins.
Ný tækni kom til sögunnar um og eftir síðustu aldamót, fyrst línuveiðarar og síðan togarar. Þá gátu Íslendingar rétt ár kútnum og orðið ríkir á auðæfum hafsins. Stríðsgróði og hermang hjálpaði nokkuð. En velsæld þjóðarinnar byggist þó fyrst og fremst á sjávarútveginum.
Landbúnaðurinn á engan þátt í endurreisn þjóðarinnar. Hann er og hefur alltaf verið baggi á landi og þjóð. Hann var og er rányrkja, sem menn hafa stundað, af því að þeir áttu ekki annarra kosta völ. Hann er versti atvinnuvegur, sem unnt er að stunda á mörkum freðmýrabeltisins.
Auður sjávarútvegsins hefur endurnýjað allt þjóðfélagið, líka landbúnaðinn, sem er orðinn tæknivæddur og hefur lítt takmarkaðan aðgang að fjármagni. En allt hefur komið fyrir ekki. Byrðin eykst stöðugt á herðum skattgreiðenda. Hún verður um þrjátíu milljarðar á þessu ári.
Á sama tíma vita auðþjóðir tempraða beltisins alls ekki, hvernig þær eiga að losna við stórfellda offramleiðslu hræódýrra landbúnaðarafurða. Efnahagsbandalagið selur smjörið sitt á rúmar 100 krónur kílóið meðan íslenzkur landbúnaður selur sitt smjör skattgreiðendum og neytendum á rúmar 3000 krónur kílóið.
Á þessu ári mun það kosta skattgreiðendur um sjö til átta milljónir á hvert býli að halda uppi rányrkju landbúnaðar. Til viðbótar borga svo neytendur gífurlegar fjárhæðir í of dýrum afurðum. Hvorki land né þjóð hafa efni á þessu brjálæði.
Það er alveg sama, hvað bændur strita, landbúnaðarsérfræðingar tæknivæða og stjórnmálamenn fjármagna. Nútíma landbúnaður verður aldrei stundaður af neinu viti hér á mörkum freðmýrabeltisins.
Margir halda, að nægilegt sé að draga svo saman í landbúnaði, að skattgreiðendur losni við útflutningsuppbæturnar. Slíkt væri auðvitað betra en ekki neitt. En samt værum við áfram að láta arðræna náttúruna til að framleiða á 3000 krónur smjör, sem kostar 100 krónur frá tempruðu löndunum.
Lögmál hnattstöðunnar, sem endurspeglast í þúfum og vorbleytum, lætur ekki að sér hæða.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
