Íbúar Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis verða að þessu sinni sviknir um bættan kosningarétt. Í desember verða þeir að ganga að kjörborði með aðeins einn sjötta hluta úr atkvæðisrétti annarra landsmanna.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett minnihlutastjórn Alþýðuflokksins skilyrði, sem jafngilda því, að kosningaréttur íbúa Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis verði ekki bættur. Sjálfstæðisflokkurinn heimtar, að minnihlutastjórnin geri ekkert annað en að rjúfa þing í grænum hvelli.
Auðvitað væri unnt að lagfæra atkvæðisréttinn, ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði á því nokkurn áhuga. Það er bæði lagalega og tæknilega kleift, þótt kosningar yrðu haldnar annan eða níunda desember.
Gunnar G. Schram prófessor hefur sýnt fram á, að kosningaréttinn má leiðrétta um helming með einfaldri breytingu á kosningalögum. Sú breyting fæli í sér, að uppbótarþingsætum sé eingöngu úthlutað eftir atkvæðatölu en ekki atkvæðahlutfalli og að hver flokkur geti fengið fleiri en einn uppbótarmann í hverju kjördæmi.
Slík uppfærsla atkvæðisréttar íbúa Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis úr einum sjötta í einn þriðja hluta er það minnsta, sem leiðtogar þjóðarinnar gátu gert í þágu lýðræðis að þessu sinni.
Í stað þess að rjúfa þing strax gæti minnihlutastjórnin lýst því yfir, að hún mundi rjúfa þing að þremur vikum liðnum og efna til kosninga með styttum framboðs- og kosningafresti. Vikurnar þrjár væru svo notaðar til að knýja breytingu á kosningalögum fram á þingi.
Búast hefði mátt við miklu málþófi í báðum deildum alþingis. Framsóknarmenn hefðu ólmazt gegn réttlætinu eins og þeir gerðu árið 1959, þegar þáverandi minnihlutastjórn Alþýðuflokksins lagfærði kosningaréttinn með hjálp Sjálfstæðisflokksins og forvera Alþýðubandalagsins.
Framsóknarmenn mundu reyna að breyta kosningunum úr dómi þjóðarinnar yfir ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar í dóm hennar um breytingar á kosningalögunum. Með hjálp Lúðvíks Jósepssonar og sumra fleiri þingmanna Alþýðubandalagsins mundu þeir geta tafið málið í þrjár vikur.
Þetta er höfuðástæða þess, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur svikið íbúa Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis. Sjálfstæðisflokkurinn vill, að kosningarnar verði strax og snúist eingöngu um feril ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar.
Hin ástæðan er sú, að þingmenn eru almennt sammála um, að þeim komi illa að vera í þrjár vikur bundnir við þingstóla og geta ekki einbeitt sér að prófkjörs- og kosningabaráttu. Eins og hin fyrri er þessi ástæða skiljanleg en ekki stórmannleg.
Telja verður, að lagfæring kosningaréttar sé svo brýnt siðferðismál, að þægindi þingmanna og sérstök áhugamál Sjálfstæðisflokksins eigi að víkja. Það gengur hvorki í Rhodesíu né hér, að svertingjar, – í þessu tilviki íbúar Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis -, hafi aðeins brot úr atkvæðisrétti.
Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að lýðræði ríkir ekki hér, nema kosningaréttur sé nokkurn veginn jafn. Flokkarnir hafa ekkert siðferðilegt umboð til að hafa kosningar án þessa lýðræðis.
Stjórnmalaflokkarnir hafa sínar ástæður fyrir svikunum við íbúa Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis. En þær ástæður eru bara ekki gildar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið