Rakið til ráðherra

Greinar

Ákvörðunin um að reyna að hindra eðlilega verðhækkun dagblaða var pólitísk ákvörðun, sem tekin var í viðskiptaráðuneytinu og ekki byggð á neinum framlögðum gögnum um hækkun á rekstrarkostnaði þeirra í einstökum liðum.

Þetta kom fram í yfirheyrslum Verðlagsdóms yfir Björgvin Guðmundssyni, formanni verðlagsnefndar. Björgvin sagðist sitja í nefndinni í umboði viðskiptaráðherra og ekki leggja nein mál þar fyrir án samráðs við hann. Svo hefði einnig verið í þetta sinn.

Þar með er búið að rekja ákvörðunina um 10% hækkun til Svavars Gestssonar viðskiptaráðherra, sem áður var í viðtölum við ýmsa menn búinn að segja 20% vera eðlilega hækkun og jafnvel í tæpasta lagi.

Margt athyglisvert kom fram í ummælum Björgvins fyrir dómi. Mátti þar greina ákveðna verkskiptingu milli hans og verðlagsstjóra í tillögum fyrir verðlagsnefnd. Verðlagsstjóri leggur þar fram tillögur, sem byggðar eru á gögnum og útreikningum. Formaður nefndarinnar leggur hins vegar fram pólitískar tillögur, sem ekki byggjast á slíkum gögnum.

Björgvin vildi láta líta svo út sem verðlagsnefnd hefði haft einhver gögn um afkomu blaðanna til að styðjast við. Samt gat hann ekki nefnt nein slík gögn né neinar tölur upp úr þeim. Hefðu slík gögn þó verið eðlilegt veganesti hans, er hann var kallaður fyrir rétt út af málinu.

Lögmenn dagblaðanna flettu ofan af tvískinnungi, sem felst í tillögu verðlagsnefndar um 20% hækkun dagblaðaauglýsinga og 10% hækkun dagblaðaeintaka. Eintakahækkunin kemur nefnilega fram í vísitölunni, en auglýsingahækkunin ekki.

Ef eitthvert vit hefði hins vegar verið í tillögu nefndarinnar, mundi hún vera byggð á gögnum verðlagsstjóra um, að dagblöð, sem treystu mjög á auglýsingatekjur, þyldu meiri hækkun en hin. Þar með ættu Morgunblaðið og Dagblaðið að þola meiri hækkun en hin, að mati verðlagsstjóra. En þetta eru þó einmitt blöðin, sem standa undir sér.

Björgvin Guðmundsson gat auðvitað engu svarað um þetta atriði fremur en önnur efnisatriði, sem spurt var um. Hann gat ekki einu sinni upplýst, hvers vegna blaðburðarbörn og sölubörn ættu að fá minni hækkun en aðrir starfshópar í þjóðfélaginu.

Allur var framburðurinn lýsandi dæmi um gerræðið, sem þrífst í þjóðfélaginu. Framburðurinn er rakinn því sem næst orðrétt í Dagblaðinu í dag og væri óskandi, að sem flestir hefðu aðstöðu til að kynna sér hann ofan í kjölinn.

Í orði kveðnu er látið líta svo út sem settar séu upp skrifstofa verðlagsstjóra og verðlagsnefnd til að hafa eftirlit með verðlagi í landinu, byggt á hlutlægum upplýsingum. Í rauninni er þetta svo bara vettvangur stjórnvalda til að falsa vísitöluna og að braska með pólitísk áhrif.

Svavar Gestason hefur ákveðið að bæta flokksblöðunum upp tekjutapið með auknum styrkjum af almannafé. Sú viðleitni mun koma í ljós á sínum tíma. Og þá munu menn átta sig á, að auknir styrkir til flokksblaðs samhliða tilraunum til að halda söluverði Dagblaðsins undir kostnaðarverði er bein skerðing á málfrelsi í landinu.

Enda sagði umboðsmaður Svavars fyrir réttinum, að mikil hækkun á verði blaðanna gæti dregið úr sölu þeirra. Auðvitað á hann við flokksblöðin. Allt ber því að brunni árásar á prentfrelsi utan stjórnmálaflokkanna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið