Áður fyrr létu þingmenn sér nægja að útvega kjósendum sínum víxla og varahluti. Sú minni háttar spilling er auðvitað enn í fullum gangi, en hefur getið af sér stórkarlalegri afkvæmi á síðustu árum.
Stjórnmálamennirnir hafa smám saman byggt upp fjármálakerfi, sem ekki á sinn líka á Vesturlöndum. Þetta kerfi miðar að því, að peningarnir streymi ekki í þá staði, þar sem þeir skila mestum arði, heldur streymi þeir til atkvæðakaupa þingmanna og þingmannsefna.
Flokkarnir hafa sjálfrátt og ósjálfrátt gert með sér samsæri gegn þjóðinni. Þeir hegða sér eins og ræningjaflokkar, sem arðræna þjóðina og skipta með sér ránsfengnum í hlutfalli. við aðstöðu sína hverju sinni. Þess vegna býr hér láglaunaþjóð í hátekjuríki.
Sum bein útgjöld fjárlaga eru hluti þessa ránsfengs, svo sem níu milljarðar landbúnaðarins. En mikilvægasti þáttur hans eru lánveitingar á veróbólgutíma. Þegar verðbólgan er 30-50% á ári eins og hún hefur verið og verður enn um sinn, jafngilda lánin gjöfum.
Fulltrúar flokkanna sitja í bankaráðum og bankastjórnum og misnota þar nokkurn hluta útlánanna. Þar eru þingmannavíxlarnir afgreiddir á færibandi. En þetta er löngu hætt að nægja ræningjaflokkunum.
Fyrst var tekin upp svokölluð “frysting” sparifjár. Í rauninni er þar um að ræða nýja tegund lánveitinga á vegum Seðlabankans, sumpart í formi sjálfvirkra og eyrnamerktra lána eins og afurðalána. Mörg hver hafa þessi lán neikvætt þjóðhagsgildi.
Ennfremur hefur Seðlabankinn tekið að sér að hella brennivíni upp í þann ofdrykkjusjúkling, sem ríkissjóður er orðinn. Bankinn hleypur alltaf undir bagga, þegar ríkissukkið keyrir um þverbak.
Hápunkturinn á fjársvikum stjórnmálaflokkanna er Framkvæmdastofnunin og fjármögnun hennar. Með verðtryggðum ríkisskuldabréfum er krækt í hreyfanlegt sparifé, sem annars færi í banka og atvinnurekstur. Þessar tekjur eru svo notaðar til að kosta ýmsa lánasjóði, sem eru innan og utan Framkvæmdastofnunarinnar.
Í Framkvæmdastofnun sitja svo fulltrúar stjórnmálaflokkanna og skipta ránsfengnum eftir flokkum og kjördæmum. Þegar spurt er um arðsemi þeirra fyrirtækja, sem peningagjafirnar eiga að fá, er óskhyggjan og bjartsýnin látin ráða.
Enn hrikalegri verða dæmin, þegar um sérstök vildarverkefni er að ræða á borð við Þörungavinnsluna hf. Þá er fyrirgreiðslan þvílík, að hún jafnast á við fyrirgreiðslu við stóriðju erlendra aðila. Tollar og skattar eru lagaðir til, lagðir vegir og byggðar hafnir, borað eftir heitu vatni og lagðir rafstrengir.
Ef fyrirfram er sýnt fram á, að fyrirtækið geti ekki borið sig, er augunum bara lokað. Efasemdamennirnir eru reknir burt og sóað heilum milljarði af almannafé til einskis, eins og gert hefur verið í Þörungavinnslunni.
Það er einokun stjórnmálamanna á fjármagni þjóðarinnar, sem veldur því, að hér býr láglaunaþjóð í hátekjuríki.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið