Yfirstjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins er eitt greinilegasta dæmið um hina grófu stjórnmálaspillingu, sem ríkir hér á landi. Þar sitja á toppnum tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og úthluta eftir pólitískum geðþótta fjórum milljörðum króna á ári.
Þetta er jafnfráleit útlánaaðferð og sú, sem var fyrir síðustu kosningar, þegar kommissarar Framkvæmdastofnunarinnar voru þrír, fulltrúar Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna. Með þessari aðferð eru stjórnmálaflokkarnir að gera sig að skipulögðum ræningjaflokkum, sem berjast um herfangið, er þeir kreista úr langþreyttum skattgreiðendum.
Allir flokkarnir eru samsekir í þessu kerfi, en sök Sjálfstæðisflokksins er þyngst, af því að hann hefur með þessu svikið kjósendur sína. Sigur sinn í siðustu kosningum vann hann meðal annars vegna gagnrýni sinnar á Framkvæmdastofnuninni og kommissarakerfi hennar. Nú hefur hann verið víð völd í meira en ár án þess að gera neitt í málinu.
Ellert B. Schram alþingismaður benti á þetta í kjallaragrein í Dagblaðinu fyrir nokkru. Svik flokksins á stefnu sinni kallaði hann réttilega “pólitískt siðleysi af versta tagi”.
Í alvörulöndum er fagmönnum falið að sjá um útlán. Þeir meta stöðu þeirra fyrirtækja og stofnana, sem óska eftir lánum, meta endurgreiðslugetu þeirra og arðsemi þeirrar starfsemi, sem lánað er til. Nokkur vísir að þessu er í bankakerfi okkar, þótt stjórnmálaflokkarnir geti þar haft ýmis óbein afskipti.
En bankakerfið hér er mjög fjárvana. Ríkisvaldið undirbýður það með sölu verðtryggðra spariskírteina, sem það endurgreiðir síðan með nýjum spariskírteinum. Siðar eiga börnin okkar að borga þennan ránsfeng, þegar þau eru orðin skattgreiðendur. Við þetta bætast svo mörg hundruð milljóna á fjárlögum, sem stjórnmálamennirnir sækja beint í vasa skattgreiðenda.
Herfanginu er svo skipt milli Framkvæmdastofnunarinnar og ýmissa annarra sjóða, sem lúta beinni pólitískri stjórn þeirra ræningjaflokka, sem eru ofan á hverju sinni. Samtals er þetta fé verulegur hluti af því fjárfestingarfé, sem þjóðin hefur til umráða.
Reynsla er fyrir því bæði hér á landi og annars staðar, að pólitískar lánveitingar bjóða heim spillingu, klíkuskap, ofsóknum, ívilnunum, mismunun og mútum. Þær breyta stjórnmálaflokkunum í ræningjaflokka og grafa undan fjármálasiðferði í þjóðfélaginu.
Það er engin furða, þótt okkur gangi illa í efnahagslífinu, þegar við köstum takmörkuðu fjármagni okkar á glæ með því að afhenda það stjórnmálamönnum til ráðstöfunar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið