Ráðherrann reiði

Greinar

Matthías Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur borið á torg gremju sína út af því, að ákvörðun Hafrannsóknastofnunar um hækkun lágmarksstærðar veiðanlegs þorsks úr 58 sentímetrum í 64 hafi ekki farið rétta boðleið um virðingarstiga stjórnmálanna.”Hafrannsóknastofnunin sýndi mér þá kurteisi að láta mig ekkert vita af þessari breytingu, svo róttæk sem hún er”, sagði ráðherra. Þessi orð hans minna örlítið á yfirlýsingu hans frá í fyrra: “Tillögurnar fundust mér lítið rökstuddar og hafa þær lítið vísindalegt yfirbragð”.

Þá var hinn móðgunargjarni ráðherra að tala um tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar um 275 þúsund tonna hámarksafla af þorski á ári næstu tvö árin. Áður var stofnunin búin að leggja til 230 þúsund tonna hámarksafla, en hækkaði sig upp til að taka tillit til skammtímasjónarmiða ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

Skætingur ráðherrans birtist einmitt, þegar Gundelach, framkvæmdastjóri hjá Efnahagsbandalaginu, kom til landsins til að semja um undanþágur til veiða í fiskveiðilögsögunni. Nær landráðum er ekki auðvelt að komast, er Gundelach hafði orð ráðherrans fyrir því, að kenningar íslenzkra fiskifræðinga um friðunarþörf væru þvæla.

Sjávarútvegsráðherra hefur oftar reynzt reiðigjarn. Hann fyrtist, þegar útgerðarmenn lögðu fram raunsæjar og framsýnar hugmyndir um minnkun sóknar í þorskstofninn. Hann sagði þær óframkvæmanlegar. Þar með gerði hann sig persónulega ábyrgan fyrir því útsæðisáti á þorskinum, sem framið var í fyrra.

Yfirleitt hefur hinum reiðigjarna ráðherra fundizt allt ómögulegt, sem af viti hefur verið sagt og lagt til um björgun þorskstofnsins. Mest hefur Hafrannsóknastofnunin farið í taugarnar á honum og hefur hann gengið berserksgang í tilraunum til að hefta málfrelsi fiskifræðinga.

Þegar lágmarksstærð þorsks er hækkuð úr 58 sentímetrum í 64, hefur hann ekkert efnislega um málið að segja. Ekkert kemst að fyrir bræði út af því, að honum sem ráðherra sé ekki sýnd tilhlýðileg virðing!

Annað er uppi á teningnum í samskiptum ráðherrans og félaga hans í ríkisstjórninni við útlendinga. Hvað eftir annað hafa ráðherrarnir verið komnir á fremsta hlunn með að gefa útlendingum síðustu bröndurnar. Fjölmiðlar og áhugamenn hafa þurft að hafa stöðugar gætur á þeim og að ganga í skrokk á þeim hvað eftir annað.

Brezk blöð halda því nú fram, að íslenzka ríkisstjórnin hafi gert Gundelach tilboð. Ríkisstjórnin þykist ekkert við það kannast. En brezku blöðin hafa áður reynzt hafa rétt fyrir sér við slíkar aðstæður. Til öryggis þurfum við því enn einu sinni að lemja ríkisstjórnina til hlýðni við þjóðarvilja og þjóðarhagsmuni.

Að öllu samanlögðu er réttmætt að endurtaka það, sem áður hefur verið sagt á þessum vettvangi, að sjávarútvegsráðherrann er stórhættulegur. Framtíð þjóðarinnar má ekki vera háð erfiðri lund manns, sem nú neitar meira að segja að segja upp undanþágusamningum, sem komnir eru í eindaga.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið