Póstur hverfur víða

Punktar

Man ekki til þess, að póstur týndist í gamla daga, þegar hann var ríkisstofnun. Eftir að hann var einkavinavæddur fyrir skít og kanil, komu öðru hverju fréttir af týndum pósti. Síðast af týndum pósti í hverfum 107, 108 og 170. Sama er að segja um nágrannalönd, þar sem nýfrjálshyggja hefur kallað á einkavinavæðingu. Í Svíþjóð týndust 5,5 milljón sendibréfa hjá Postnord. Í Örebro hafa sumir ekki fengið póst í tvo mánuði hjá Bring. Allar tilraunir til einkavinavæðingar hér og annars staðar leiða til verri þjónustu. Það gildir um útivistun pósts, kennslu, heilsugæzlu, skurðlækninga, sjúkrahótela og mötuneyta. Þetta er fullreynt mál.