Pólitísk taflmennska

Greinar

Meirihluti stjórnar Alþýðusambandsins hefur samþykkt að hvetja aðildarfélögin til að segja upp samningum vegna gengislækkunarinnar. Þessi harða afstaða lofar ekki góðu um árangur þeirra viðræðna, sem nú eru að hefjast milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins.

Þessi sami meirihluti hafði hægt um sig fram að þessari gengislækkun, þótt áður væri komin svipuð lækkun frá því samningar voru gerðir í vetur. Og þessi sami meirihluti hafði líka hægt um sig meðan Alþýðubandalagið. Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn náðu í stjórnarmyndunartilraunum sínum samstöðu um fleiri kjaraskerðingaratriði en gengislækkun eina, þar á meðal frystingu kaupgreiðsluvísitölu.

En þannig sveiflast afstaðan eftir því, hverjir skipa ríkisstjórn. Það ræður meiru en hagsmunir félagsmanna Alþýðusambandsins. Meirihluti stjórnar Alþýðusambandsins sýndi fráfarandi stjórn mildi en vill mæta nýju stjórninni með hörku. Er þó nýja stjórnin að minnsta kosti að því leyti vinsamlegri en vinstri flokkarnir, að hún ætlar að hafa samráð við Alþýðusambandið um hækkun söluskatts og frystingu kaupgreiðsluvísitölu, sem flestir vinstri flokkarnir voru sammála um að hafa ekki.

Við stjórnarskiptin hefur afstaða ríkisstjórnarinnar orðið vinsamlegri en afstaða meirihluta stjórnar Alþýðusambandsins orðið fjandsamlegri. Þetta sýnir hve mikil áhrif flokkspólitíkin hefur á sjónarmið margra forustumanna Alþýðusambandsins. Það er ekki furða, þótt þeir séu stundum kallaðir “verkalýðsrekendur”.

Stjórn Alþýðusambandsins er samt vel kunnugt um niðurstöður sérfræðinga á úttekt efnahagslífsins. Hún veit vel, að þjóðin lifir um efni fram og á ekki yfir neinum töfrabrögðum að ráða til að gera það áfram. Hún veit, að kjaraskerðing er óhjákvæmileg.

Sú kjaraskerðing yrði enn meiri, ef ríkisstjórnin héldi að sér höndum og léti atvinnulífið reka á reiðanum. Með samræmdum aðgerðum er unnt að koma aftur fótunum undir atvinnulífið og halda kjaraskerðingunni í skefjum. Tillögur sérfræðinganna miðast við að kjörin þurfi ekki að rýrna meira en svo, að þau verði svipuð og þau voru árið 1971. Þar til viðbótar eru svo ráðgerðar sérstakar aðgerðir til að draga úr kjaraskerðingu hinna lægst launuðu.

Væru hagsmunir félagsmanna Alþýðusambandsins hafðir á oddinum, mundi stjórn þess vinna með stjórnvöldum að því að ná þeim markmiðum, sem tillögur sérfræðinganna stefna að.

Ef flokkspólitísk verðalýðsrekendasjónarmið verða hins vegar látin ráða, segja sjálf lögmál efnahagslífsins til sín og valda stórfelldu atvinnuleysi og kjaraskerðingu, hvað svo sem stjórnvöld reyna að hamla á móti og hvaða flokkar sem eru við völd.

Styrjaldaryfirlýsingar meirihluta stjórnar Alþýðusambandsins eru inngangur að sjálfsmorðsstefnu, ef litið er á málið frá sjónarhóli lífskjaranna. En vitanlega eru þær fyrst og fremst leikur í flokkspólitísku tafli, þar sem verkalýðsrekendur virða hagsmuni umbjóðenda sinna að vettugi. Slík taflmennska á ekki heima í núverandi efnahagsástandi.

Jónas Kristjánsson

Vísir