Persónulegur sigur

Greinar

Úrslit prófkjörs sjálfstæðismanna í Reykjavík eru mikill persónulegur sigur fyrir hinn unga borgarstjóra, Birgi Ísleif Gunnarsson. Hann hlaut um 92% atkvæða, sem er betri útkoma en menn hafa áður fengið í slíkum prófkjörum hér á landi.

Í úrslitunum felst einnig yfirlýsing um traust á þeim mönnum, sem starfað hafa í borgarstjórn að undanförnu. Í öðru til fimmta sæti urðu Albert Guðmundsson, Ólafur B. Thors, Markús Örn Antonsson og Elín Pálmadóttir. Þau hlutu öll yfir helming atkvæða og náðu því bindandi úrslitum

Tveir nýir menn eru í sjötta og sjöunda sæti, fulltrúar verzlunarmanna og skólamanna. Þeir eru Magnús L. Sveinsson, framkvæmdastjóri Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, og Ragnar Júlíusson skólastjóri. Í áttunda og níunda sæti urðu tveir valinkunnir læknar, Úlfar Þórðarson og Páll Gíslason.

Birgir Ísleifur hefur nú verið borgarstjóri á annað ár. Vakið hefur athygli á þessum skamma tíma, hve vel í smáatriðum hann er öllum hnútum kunnugur í rekstri borgarinnar Margir töldu hann í fyrstu of ungan og óreyndan, en reynslan hefur sýnt, að hann hefur góð tök á þessu vandasama starfi.

Margvíslegar nýjungar hafa fylgt í kjölfar Birgis. Ungir og athafnasamir menn hafa tekið við ábyrgðarstöðum hjá. borginni. Þetta hefur leitt til þess, að nýir málaflokkar hafa komið fram í sviðsljósið. Þar njóta Birgir og menn hans þess, hve vel hefur gengið að framkvæma áætlanir um varanlega gatnagerð og hitaveitu fyrir alla Reykvíkinga.

Meðal þeirra mála, sem hæst rísa hjá Birgi Ísleifi og mönnum hans, eru umhverfismálin. Þeir hafa að undanförnu skipulagt myndarlegt átak á þeim sviðum. Munu Reykvíkingar njóta þessa starfs í ríkum mæli á næstu árum, ef Birgir Ísleifur heldur meirihlutanum í hinum tvísýnu kosningum í vor.

Birgir Ísleifur stefnir að því að klæða borgarlandið grasi og gróðri á næstu árum og stórbæta aðstöðu gangandi vegfarenda, hjólreiðamanna, hestamanna, siglingamanna, trillukarla og annarra þeirra, sem útilíf stunda, svo að ekki sé minnzt á stórframkvæmdirnar í Laugardal, sem eru talsvert á veg komnar.

Grunntónn stefnunnar er að efla hið mannlega í borginni, stuðla að líkamlegum og andlegum þroska, að svo miklu leyti, sem slíkt er hægt með opinberum aðgerðum. Þetta er unnt að ráðast í núna, þegar tekizt hefur að koma hitaveitu og varanlegum götum til svo að segja allra borgarbúa.

Birgir Ísleifur er réttur maður með rétta stefnu á réttum tíma. Þetta fundu sjálfstæðismennirnir, sem gerðu prófkjörið að persónulegum sigri hans.

Jónas Kristjánsson

Vísir