Persónulegi þátturinn

Greinar

Allur þorri manna tekur einungis þann þátt í stjórnmálum að velja milli lista í kosningum. Þessi þátttaka er að sjálfsögðu hornsteinn lýðræðisins. En hins vegar væri æskilegt, að hinn þögli almenningur léti að sér kveða á fleiri sviðum stjórnmálanna.

Þegar þessi þorri manna tekur einnig þátt í að velja nöfn frambjóðenda á þá lista, sem síðan er kosið um, er stigið skrefi lengra í átt til lýðræðis. Með opnum og bindandi prófkjörum hjá stjórnmálaflokkunum fær almenningur þetta pólitíska vald í hendur.

Æskilegast væri, að stjórnmálaflokkarnir héldu sameiginlegt prófkjör, eins konar forkosningu. Þeir hefðu þá sameiginlegan kjördag og kjörstaði í prófkjörinu og fólk.veldi þá um, hjá hvaða flokki það vildi taka þátt í prófkjöri.

Því miður er lítill áhugi á prófkjörum hjá flestum stjórnmálaflokkanna. Fyrir fjórum árum var Framsóknarflokkurinn að fara inn á þessa braut. En nú veldur klofningurinn í flokknum því, að leiðtogar hans óttast, að prófkjör mundu ýfa sárin. Í undirbúningi sveitarstjórnakosninga vorsins er það því Sjálfstæðisflokkurinn einn, sem leggur áherzlu á prófkjör.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og víðar eiga því kost á lýðréttindum umfram aðra. Þeir geta tekið þátt í persónulegri kosningu milli manna. Þetta er mikilvægt atriði í því ópersónulega kosningakerfi, sem ríkir hér á landi.

Hin góða reynsla, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur af prófkjörum, mætti gjarnan leiða til aukins áhuga annarra flokka á þessu tæki lýðræðisins. Með tíð og tíma gætu þá ákvæði um forkosningu komizt inn í stjórnarskrána til eflingar lýðræði á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

Vísir