Misráðin og ranglát lög um kosningar og kjördæmaskipun eru ein af undirstöðum spillingar og annarra vandræða í íslenzkum stjórnmálum. Það kann ekki góðri lukku að stýra, er annar kjósandinn hefur fimmfaldan atkvæðisrétt á við hinn. Það kann ekki heldur góðri lukku að stýra, er alþingi fyllist af litlausum andlitum úr öruggum sætum á flokkslistum.
Samstarfshópur fulltrúa æskulýðssamtaka flestra stjórnmálaflokkanna hefur lagt fram skynsamlegar tillögur um endurbætur á lögunum um kosningar og kjördæmaskipun. Þessar tillögur vöktu nokkra athygli, þegar þær litu dagsins ljós í fyrra. En því miður hefur verið allt of hljótt um þær að undanförnu.
Eitt hið athyglisverðasta við tillögurnar var, að ungir framsóknarmenn stóðu að þeim. Er það raunar alveg nýtt, að þar í flokki sé ekki barizt með kjafti og klóm gegn afnámi ójafnaðar í kosningarétti. En í þátttöku ungu framsóknarmannanna kemur einmitt fram skilningur á því, að óbærilegt ástand á þessu sviði getur ekki haldizt til eilífðarnóns.
Eins og einn þeirra sagði í blaðagrein nýlega: “Framsóknarmenn hafa áður orðið að sæta því að vera settir hjá, þegar þessi málefni hafa verið til umræðu og ákvörðunar. Það er á okkar valdi sjálfra, að svo verði ekki einu sinni enn.”
Tvö meginatriði fólust í tillögunum. Annað var, að atkvæðisréttur eftir landshlutum yrði jafnari en hann er nú. Hitt var, að kjör þingmanna yrði persónulegt. Ungu mennirnir vildu taka upp kosningakerfi Íra og Ástralíumanna.
Þeir mæltu ekki með einmenningskjördæmum Breta og Bandaríkjamanna og ekki heldur með hinu blandaða kerfi í Vestur-Þýzkalandi og Danmörku. Írska kerfið hefur líka þann kost, að það krefst ekki umfangsmikilla breytinga á sjálfri kjördæmaskipuninni.
Írska kerfið felur það í sér, að kosningin er um leið prófkjör innan flokkanna. Kjósendur setja sjálfir númer fyrir framan nöfn frambjóðenda flokks þess, sem þeir vilja styðja. Flokksvélarnar geta ekki troðið óvinsælum flokksómögum í örugg sæti, því að þeir einir ná kosningu, sem kjósendur setja fremst í númeraröðina.
Þetta kerfi felur það líka í sér, að kjósendur geta að vild sett frambjóðendur úr öðrum flokkum inn í þessa númeraröð. Sterk þingmannsefni geta á þennan hátt fengið fleiri atkvæði en fylgi flokks þeirra segir til um.
Sérstök reikningsaðferð á að tryggja, að þingsæti skiptist jafnt milli stjórnmálaflokka eftir fylgi þeirra, þótt kosningin sjálf sé persónuleg. Og helzti gallinn við þetta annars ágæta kerfi er, að það gerir ekki ráð fyrir neinu sérstöku prósentulágmarki, er flokkur þurfi að ná til að komast á blað. Þótt margt sé í ólagi hjá okkur, þurfum við þó sízt á fjölgun stjórnmálaflokka að halda.
Ástæða er til að ætla, að kosningakerfið megi byggja upp á þann hátt, að ekki myndist ótal smáflokkar. Með fyrirvara um það mælir Dagblaðið með tillögum ungu mannanna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið