Peningarnir og lífið

Greinar

Fjárglæfrar, svik og stórþjófnaðir eru algeng og alvarleg tegund glæpa hér á landi, bæði innan og utan ramma laganna. Í sömu vikunni fréttum við, að deildarstjóri í banka hafði haft tugi milljóna af einu fyrirtæki og að 30 alþingismenn hafi haft hundruð milljóna af skattgreiðendum í einum húsakaupum.

Þá sjaldan sem kerfið ákveður, að framtakssamir menn á þessu sviði hafi farið út fyrir ramma laganna, er tekið í taumana af eðlilegri og nauðsynlegri festu. Glæframennirnir eru hnepptir í gæzluvarðhald. Fjölmiðlar birta nöfn þeirra og eiga að tjaldabaki sæmilegan aðgang að öðrum upplýsingum, að minnsta kosti ef þeir hirða um að bera sig eftir þeim.

Stundum minnir þetta á friðþægingarfórnir. Það er eins og kerfið sé með aðgerðum sínum að reyna að telja fólki trú um, að fjárglæfrarnir séu afmörkuð fyrirbæri, en ekki eðlislægur þáttur kerfisins eins og þeir eru í raun og veru. Samt veit fólk, að samtenging stjórnmálaflokka, lánastofnana og gæðinga felur í sér mun stærri fjárglæfra en þá, sem uppvísir verða.

Kerfið sýndi svipaða festu í morðmálum þeim, sem dæmt var í fyrir jólin. Nafnbirting og langt gæzluvarðhald var undanfari ævilangra refsidóma. Allt var þetta í fyllsta máta eðlilegt, en samt í ósamræmi við slappa meðferð kerfisins á öðrum ofbeldismálum.

Flestir munu telja nauðganir barna og barsmíðar til örkumla ákaflega alvarlega glæpi, að minnsta kosti alvarlegri glæpi en stuld á nokkrum tugum eða hundruðum milljóna króna. Líf, limir og sál eru mikilvægari en peningar.

Afbrotamenn á sviðum barnanauðgana og örkumlunar njóta sérstakrar verndar kerfisins, þótt um síbrotamenn sé að ræða. Þeir eru ekki frystir í löngu gæzluvarðhaldi, heldur jafnóðum sleppt út til frekari afbrota. Fjölmiðlar koma að lokuðum dyrum og fá ekki einu sinni gefin upp nöfn afbrotamannanna.

Dagblaðið hafði óvenjumikið fyrir því að afla sér utan kerfis nafns síbrotamanns þess, sem nýlega var tekinn höndum fyrir ofbeldi gagnvart ungum dreng suður með sjó. Hefði þó verið sjálfsagt, að kerfið dreifði myndum af síbrotamanninum til fjölmiðla, svo að fólk mætti vara sig og sína á honum, úr því að kerfið þykist ekki geta haldið honum utan almannafæris.

Þetta dæmi er ekkert einstakt. Annálaðir barsmíðamenn ganga lausir með hnefana á lofti, meðan fórnardýr þeirra staulast um án ráðs og rænu. Dómarnir í Geirfinnsmálinu eru raunar eina dæmið um, að kerfið taki á slíkum málum af nauðsynlegri festu.

Kerfið er skrítið. Það semur langa lagabálka um svik og pretti, en er orðfærra um ofbeldi. Sennilega finnst kerfinu peningar vera mikil- vægari en nokkuð annað í heiminum. Slíkt kerfi er ekki nógu mannlegt.

En svona verður ástandið í þjóðfélagi, þar sem sjálf þjóðmálin snúast um verðbólgu, brask, fyrirgreiðslu, lán og aðra lögverndaða fjárglæfra. Í slíku þjóðfélagi verður peningurinn upphaf og endir allra hluta. Þar má enginn vera að því að huga að vandamálum ofbeldis.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið