Útsala á orku

Greinar

Komið hefur í ljós, hvers vegna Landsvirkjun vill ekki segja frá orkuverðinu, sem samdist um við Alusuisse-Lonza vegna fyrirhugaðrar stækkunar Ísals. Það stafar einfaldlega af, að Landsvirkjun skammast sín fyrir orkuverðið, sem er um 10 mills á kílóvattstundina.

Þetta útsöluverð Landsvirkjunar á raforku þýðir, að næstu sjö árin mun þjóðin niðurgreiða um það bil helminginn af verði orkunnar, sem Ísal fær. Það kostar nefnilega upp undir 20 mills að framleiða hana. Eftir þessi sjö ár mun orkuverðið síðan færast í þolanlegra horf.

Útsöluverðið á raforku er engan veginn alvont, því að það er breyting til batnaðar frá núverandi ástandi, er þjóðin greiðir ein fyrir umframorkuna frá Blöndu. Það er skárra að búa við hálfan skaða í sjö ár en allan skaðann, úr því að orkuverið stendur þarna fullbúið.

Sala á niðurgreiddri orku er ekki eina hlið málsins, en það er sú hlið, sem snertir Landsvirkjun. Þjóðin hefur þar fyrir utan margvíslegt gagn af stækkun álversins, svo sem tímabundna þenslu í atvinnulífinu og varanlega aukningu þjóðarframleiðslunnar um 0,7% á ári.

Þriðja hlið málsins má ekki heldur gleymast. Mengunarvarnir hins nýja hluta álversins verða svipaðar og eldri hlutanna, en ekki eins miklar og þær eru yfirleitt í nýlegum álverum á Vesturlöndum. Hálfgerður þriðja heims bragur er því á þessum þætti samkomulagsins.

Orkuverðið segir mikla sögu um samkeppnisstöðu Landsvirkjunar og Íslands. Til skamms tíma var óþarfa orkuverið við Blöndu varið með því, að það mundi gera okkar mönnum kleift að ná hagstæðum stóriðjusamningum, af því að orkan væri tilbúin til afhendingar.

Raunveruleikinn varð annar. Blönduvirkjun varð ekki tromp á hendi seljenda stóriðjuhugmynda, heldur myllusteinn um háls þeirra. Þeir náðu ekki í neina tilfallandi auðjöfra með heimilislaus álver undir hendinni og neyddust að lokum til að setja orkuna á rýmingarsölu.

Þessi niðurstaða ætti að vera einkar athyglisverð fyrir þá mörgu kjósendur, sem trúðu því á sínum tíma, að virkjun Blöndu væri hið bezta mál og að það væri fínt að eiga eitt afgangs orkuver til að grípa stóriðjugæsina. Þeir ættu nú að vita, að þeir voru hafðir að fífli.

Niðugreiðsla raforkunnar segir líka mikla sögu um stöðu Íslands á Vesturlöndum. Við erum og verðum frumframleiðsluþjóð, sem er í raun hluti þriðja heimsins, þótt góð tækni og framleiðni í sjávarútvegi hafi fært okkur ótryggar tekjur af vestrænni stærðargráðu.

Við slíkar aðstæður gera menn orkusamninga á borð við þann, sem gerður hefur verið um stækkunina í Straumsvík. Hann felur í sér játningu um, að Landsvirkjun og ríkið hafa verið rekin af slíku þriðja heims rugli, að viðsemjendur geti sjálfir valið sér orkuverð.

Það er nauðsynlegt, að menn átti sig á bláköldum raunveruleika orkuverðsins og fari loksins að læra af reynslunni, um leið og ástæða er til að fagna því, að loksins er hægt að eygja, að eftir sjö ár muni skattgreiðendur sleppa við að niðurgreiða orkuverið við Blöndu.

Að vísu munu afkomendur okkar ekki losna svona auðveldlega við afleiðingar ruglsins í valdhöfum lands og Landsvirkjunar. Afborganir skulda, sem stofnað var til vegna virkjunar Blöndu, munu halda áfram langt fram á næstu öld, afkomendum okkar til hrellingar.

Ekki er unnt að kenna orkuverðssamningnum um tjónið, sem varð, þegar orkuverið var reist. Hann er til bóta, af því að hann mildar timburmenn virkjunaræðisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Vaxandi velgengni

Greinar

Notkun fjölmiðla fer vaxandi samkvæmt niðurstöðum nýjustu fjölmiðlakönnunar Félagsvísindastofnunar, einkum dagblaða og sjónvarps. Einna mest er aukningin hjá DV, sem hefur samkvæmt sömu tölum hækkað um þrjú prósentustig frá því í marz og fram í október.

Morgunblaðið hefur staðið í stað á sama tíma, svo að heildarnotkun dagblaða hefur aukizt á tímabilinu. Einna mest hefur breytingin orðið á helgarblaði DV, sem hefur hækkað úr 50% lestri í 56% lestur á þessu hálfa ári. Sex prósentustiga aukning er mikil á svo skömmum tíma.

Vaxandi lestur DV endurspeglar töluverðar endurbætur, sem gerðar hafa verið á einstökum efnisþáttum blaðsins og verið er að gera um þessar mundir. Þegar þessum endurbótum lýkur, verður DV væntanlega mun betur en áður búið undir að mæta þörfum lesenda sinna.

Helgarblað DV var einna fyrst á ferðinni í haust í þessum endurbótum, enda hefur lestur þess aukizt mest. Miklar breytingar hafa einnig verið gerðar á þriðjudagsblaði DV, en þær eru alveg nýjar af nálinni og skila sér væntanlega betur í síðari fjölmiðlakönnunum.

Tölur Félagsvísindastofnunar eru einkar athyglisverðar í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu. Síðustu árin hafa verið erfið öllum almenningi. Fólk hefur þurft að spara meira við sig en oftast áður. Búast hefði mátt við, að þessi samdráttur kæmi fram í minni notkun fjölmiðla.

Ef litið er yfir gamlar og nýjar tölur fjölmiðlakannana, sést vel, hversu traust er staða stóru fjölmiðlanna. Sjö öflugir fjölmiðlar hafa lengi náð hver fyrir sig til augna og eyrna mikils meirihluta þjóðarinnar, tvær sjónvarpsstöðvar, tvö dagblöð og þrjár útvarpsstöðvar.

Ef notaðar eru tölur síðustu fjölmiðlakönnunar um, hversu mikill hluti þátttakenda notaði fjölmiðlana eitthvað á einu ári, sést, að Ríkissjónvarpið er notað af 98% landsmanna, Stöð 2 af 91%, Rás 2 af 90%, Morgunblaðið af 88%, DV af 86%, Gufan af 82% og Bylgjan af 81%.

Sennilega er sjaldgæft annars staðar í heiminum, að svona margir fjölmiðlar hafi svona mikla og langvinna útbreiðslu meðal heillar þjóðar. Þetta þýðir í raun, að fólkið í landinu býr ekki við sams konar fáokun á þessu sviði og hún býr því miður við á mörgum öðrum sviðum.

Mikilvægt er fyrir þjóðfélagið, að fólk hafi aðgang að fjölbreyttum fjölmiðlum, sem eru innbyrðis ólíkir og spegla þjóðfélagið með margvíslegum hætti. Þetta eykur þekkingu þjóðarinnar á því, sem er að gerast innan lands og utan og treystir þannig lýðræðið í landinu.

Mikilvægur hluti þessarar fjölbreytni felst í, að landsmenn notfæra sér aðgang að fimm öflugum og fullburðugum fréttastofum, sem spanna fréttir frá öllu landinu og frá útlöndum. Þetta þýðir, að enginn einn valdaaðili getur ákveðið, hvað sé fréttnæmt og hvað ekki.

Þessi góða staða hér á landi væri ótrygg, ef mikið ójafnvægi væri í styrk stóru fjölmiðlanna, þannig að einhver þeirra eða einhverjir þeirra væru á undanhaldi í samkeppninni. En staðan er einmitt trygg, af því að ótrúlega mikið jafnvægi er í útbreiðslu stærstu sjö fjölmiðlanna.

Langt er síðan kom í ljós, að hér á landi er rúm fyrir tvö stór dagblöð, tvær stórar sjónvarpsrásir og þrjár stórar útvarpsrásir. Engin ástæða er til að efa, að svo verði áfram enn um skeið. Raunar bendir stofnun nýrra sjónvarpsrása til, að möguleikarnir séu ekki fullnýttir.

DV ætlar sér góðan hlut að þessu mynztri á næstu árum. Því mun blaðið laga sig á hverjum tíma að breyttum þörfum þjóðar, sem lifir í hraðri tímans rás.

Jónas Kristjánsson

DV

Gárur á kyrrstöðupolli

Greinar

Ákvörðun Alusuisse-Lonza um stækkun Ísals er óneitanlega töluverður léttir. Hún hefur ekki aðeins áhrif á þjóðarhag, heldur einnig á þjóðarsál. Hún dregur úr þeim ugg, að Ísland sé orðið slíkur kyrrstöðupollur, að enginn vilji fjárfesta hér, ekki einu sinni út á lágu launin.

Talið er, að það kosti tólf milljarða króna að stækka álverið í Straumsvík og að nokkur hundruð manns muni starfa við bygginguna. Það mun um skeið efla atvinnu á Suðvesturlandi og einkum verða lyftistöng í byggingaiðnaðinum, sem hefur verið að veslast upp að undanförnu.

Þungu fargi er létt af Landsvirkjun og okkur eigendum hennar, því að stækkun Ísals leiðir til aukinnar orkusölu um 900 gígawattstundir á ári. Sú er einmitt umframorkan, sem hefur verið ónotuð, síðan lokið var við Blönduvirkjun. Og nú verður raunar hægt að virkja meira.

Langtímaáhrif í atvinnumálum verða minni. Þegar stækkun álversins er lokið, munu aðeins 70 manns starfa þar til viðbótar við þá, sem fyrir eru. Álver eru ekki þess eðlis, að rekstur þeirra skapi mikla vinnu. Þess vegna frestar stækkun Ísals bara atvinnukreppunni.

Okkur veitir ekki af þessum létti. Undanfarin misseri hefur fjölgað þeim, sem missa trú á kyrrstöðupolli Íslands og leita sér að atvinnu úti í heimi, þar sem laun eru tvöföld íslenzk laun. Fólk hefur í auknum mæli orðið þreytt á endalausu basli lífsbaráttunnar á Íslandi.

Á laugardaginn birtust hér í blaðinu viðtöl við fiskverkafólk, sem flutzt hefur til Hanstholm í Danmörku, hefur þar meira en 1.000 krónur á tímann, kaupir sér einbýlishús og býr við félagslega velferð, sem er langt umfram þá, sem komið hefur verið á fót hér á landi.

Fólkið í Hanstholm á tæpast orð til að lýsa mismuninum á Danmörku og Íslandi. Fjárhagslegar áhyggjur hafa horfið eins og dögg fyrir sólu og fólkið segist meira að segja hafa efni á að eignast börn. Það velur misheppnuðum þjóðarleiðtogum Íslands fremur ófögur orð.

Íslendingarnir segjast hafa flúðið spillingu og fátækt á Íslandi, skrípaleik og skuldasöfnun, virðingarleysi og öryggisleysi, og leitað á náðir manneskjulegra þjóðfélags, sem veiti vinnufúsu fólki góðar tekjur. Þeir segjast nú hafa oftar en áður ráð á að fara til Reykjavíkur.

Ísland er ekki vont við alla. Það er gott við sæmilega stæða og miðaldra Íslendinga, sem hafa komið sér fyrir í lífinu. Það er hins vegar vont við unga fólkið og alla þá, sem þurfa á brattann að sækja í lífinu. En það eru hinir fyrrnefndu, sem stjórna kyrrstöðunni á Íslandi.

Meirihluti Íslendinga er sáttur við kyrrstöðuna og vill brenna milljörðum króna á hverju ári til að varðveita búsetu um allt land, jafnvel þótt það kosti þjóðina mikla skatta, hátt matarverð og lág laun. Þessi íhaldssami meirihluti telur sig samt vera ofan á í lífinu.

Hér á landi vantar pólitískan vilja til að brjóta hlekki fortíðarinnar og sækja inn í framtíðina, skipta út atvinnuvegum og taka þátt í Evrópusambandinu. Hér vilja menn helzt að ekkert gerist, af því að það raskar sem minnst ró þeirra. Þetta er dæmigerður kyrrstöðupollur.

Stækkun Ísals leysir ekki þennan vanda. Hún getur jafnvel leitt til, að landsfeðurnir telji sér fremur en ella óhætt að halda áfram að gera ekki neitt annað en að stunda ferðalög. Þeir kunna að vilja telja sér trú um, að efnahagsvandinn hafi verið leystur í Straumsvík.

Megináhrif fréttarinnar um stækkun Ísals eru þó önnur og betri. Þau endurvekja þá tilfinningu, að eitthvað sé að gerast, að gárur séu komnar á kyrrstöðupollinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofstækið afhjúpað

Greinar

Morðið á Itzhak Rabin heftir ekki hina hægu friðarþróun í Palestínu og Ísrael. Það mun þvert á móti spilla tækifærum róttækra friðarandstæðinga meðal Ísraelsmanna til að halda áfram að grafa undan friði. Ísraelsmönnum verður mörgum ljós leikur þeirra að eldinum.

Hinir hófsamari meðal Ísraelsmanna sjá, að morðið á Rabin er afleiðing múgsefjunar, sem róttækir friðarandstæðingar meðal Ísraelsmanna hafa kynt undir á undanförnum árum. Þeir sjá, að tímabært er að stinga við fótum og reyna að verjast áhrifum ofstækismannanna.

Slagkraftur róttæklinganna er fyrst og fremst í landnemabyggðum Ísraelsmanna í Palestínu. Þar hefur myndazt krumpað hatursþjóðfélag vopnaðra og ofsatrúaðra yfirgangsmanna, sem staðið hafa í vegi samkomulags Ísraelsmanna og Palestínumanna um frið.

Byggð ísraelskra landmena í Palestínu er ólögleg samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum, sem Ísrael hefur staðfest. Óheimilt er að koma á fót slíku landnámi í hernumdum löndum. Stjórnir Ísraels hafa um langt árabil að þessu leyti gerzt sekar um glæp gegn mannkyninu.

Meðferð stjórnar Ísraels á Palestínumönnum á hernumdu svæðunum stríðir einnig gegn alþjóðlegum sáttmálum, sem Ísrael hefur staðfest. Þar á meðal eru pyndingar í fangelsum, sem krumpuð lög Ísraels leyfa og sannanlega hafa óspart verið notaðar á undanförnum árum.

Töluvert vantar á, að fjölmiðlar á Vesturlöndum geri sér og öðrum grein fyrir raunveruleikanum í Palestínu. Sem dæmi um það má nefna, að fréttastofa íslenzka ríkissjónvarpsins kallar það “skotbardaga”, þegar Ísraelsher og landnemar skjóta óvopnaða Palestínumenn.

Fyrir tilverknað ólöglegs landnáms í Palestínu, úlfúðar í kjölfar þess og ólöglegra aðgerða Ísraelsstjórnar gegn andófi Palestínumanna hefur þjóðarsálin í Ísrael verið að afmyndast. Ísraelsmenn hafa verið að breytast í átt til herraþjóðar að hætti Þýzkalands Hitlerstímans.

Algengt er, að Ísraelsmenn líti á Palestínumenn sem hunda og umgangist þá sem slíka. Ofbeldishneigðir Ísraelsmenn vaða vopnaðir um byggðir Palestínumanna og hreykja sér á sama hátt og SS-sveitir Hitlers gerðu á hernumdum svæðum í síðari heimsstyrjöldinni.

Á hernumdu svæðunum hefur myndazt hættuleg ofstækisblanda, sem leitar stuðnings hjá hinum grimma og hefnigjarna guði Gamla Testamentisins og hugmyndinni um hina drottins útvöldu þjóð, sem rýfur múra Jeríkó og útrýmir nágrönnum með aðstoð drottins.

Trúarrugl og aðstæður á hernumdu svæðunum sameinast í að framleiða skrímsli á borð við það, sem myrti Rabin forsætisráðherra. Óhjákvæmilegt er, að ríki, sem lætur ofbeldi og ofstæki viðgangast og ræktar það jafnvel, verði að sæta óvæntum afleiðingum af slíku tagi.

Tvö öfl birtu og myrkurs hafa lengi togazt á í Ísrael og hefur ýmsum veitt betur. Stjórn Ísraels hefur miðað hægt við að framkvæma þegar undirritaða samninga um framgang friðarferilsins í Palestínu. Hvað eftir annað hefur hún farið langt fram úr samþykktum tímamörkum.

Málinu hefur þó miðað fram hægt og bítandi. Ástandið fyrir morðið á Rabin var orðið mun friðvænlegra og traustara en það hafði verið um langt árabil. Og morðið mun enn frekar opna augu manna fyrir hættunum af trúarofstæki og vopnaofstæki ísraelskra landnema.

Til skamms tíma mun morðið þjappa saman fleiri Ísraelum en ella um varnir gegn friðarspillum úr eigin röðum og efla hægfara friðarþróun Ísraels og Palestínu.

Jónas Kristjánsson

DV

Fimm fréttastofur

Greinar

Gott er að hafa fimm öflugar fréttastofur í landinu. Í því felst nægileg og nauðsynleg samkeppni í fréttum. Ekki er unnt að ákveða á einum stað í landinu eða með samráði fákeppnisaðila, hvað sé fréttnæmt og hvað ekki. Í fimm fréttastofum felst valddreifing í þjóðfélaginu.

Fullburðugar fréttastofur, sem spanna allt landið og eru í föstu tölvusambandi við erlendar fréttastofur, eru á tveimur dagblöðum, DV og Morgunblaðinu, ein sameiginlega á Stöð 2 og Bylgjunni og tvær á Ríkisútvarpinu, önnur á hljóðvarpinu og hin á sjónvarpinu.

Fleiri fréttastofur eru til og taka þátt í samkeppninni, en þessar fimm skera sig úr vegna mannafla og búnaðar annars vegar og útbreiðslu hins vegar. Engin ein þeirra er ráðandi á markaðnum. Þvert á móti ríkir nokkuð gott og hagkvæmt jafnvægi milli þeirra allra.

Ríkisendurskoðun hefur nú lagt til, að fréttastofunum verði fækkað um eina með sameiningu hljóðvarps og sjónvarps á þessu sviði. Hún leggur til, að ríkisvaldið grípi með handafli sínu inn í markaðinn og reyni að spara með því að sameina sínar tvær fréttastofur.

Verið getur, að ekki sé rúm fyrir fimm fréttastofur í landinu. Það er hlutverk markaðarins að ákveða slíkt. Ef ríkið seldi fjölmiðla sína, kæmi í ljós, hvort markaðurinn í landinu stendur undir fimm fréttastofum. Með handafli Ríkisendurskoðunar kemur slíkt ekki í ljós.

Ef ríkisvaldið fer að tillögu Ríkisendurskoðunar, hlýtur fjölmiðlun í landinu að færast sem því nemur í átt til hinnar skaðlegu fákeppni, sem ríkir á allt of mörgum sviðum í landinu, svo sem hjá bankastofnunum, tryggingafélögum, olíufélögum og flugfélögum.

Vegna fámennis þjóðarinnar hefur reynzt erfitt að halda uppi heilbrigðri samkeppni margra fyrirtækja, sem er hornsteinn valddreifðs markaðsbúskapar í lýðræðisríkjum Vesturlanda. Vont er, ef ríkið hyggst með handafli hafa forgöngu um að draga úr samkeppni.

Fleiri blikur eru á lofti en skaðleg tillaga Ríkisendurskoðunar. Á vegum Þjóðvaka hefur verið lagt fram þingmál, er felur í sér anga af hinni sívirku forræðishyggju, sem einkennir íslenzka stjórnmálamenn umfram stjórnmálamenn nágrannaríkjanna í austri og vestri.

Samkvæmt hugmynd Þjóðvaka þarf Alþingi að skilgeina og skipuleggja fjölmiðlun og fjölmiðla í landinu, væntanlega á þeim forsendum, að fjölmiðlarnir séu valdastofnanir, sem hið sívakandi ríkisvald þurfi að hafa auga með og fela einhver hlutverk innan kerfisins.

Við sjáum fyrir okkur margvíslegar fleiri útfærslur á forræðishyggju af þessu tagi. Hugsanlega vildu stjórnmálamenn reyna að skilgreina og skipuleggja skipafélög og fela þeim einhver hlutverk, sem stjórnvöldum finnst æskileg, fram hjá venjulegum markaðslögmálum.

Bjálfaleg lög af þessu tagi geta orðið atvinnuskapandi fyrir vandamálasérfræðinga af ýmsu tagi, sem geta fengið vinnu við eftirlits- og úttektarstofnanir, er komið yrði á fót til að tryggja framgang forræðishyggjunnar. En þau mundu skerða samkeppnishæfni atvinnugreinanna.

Yfirgnæfandi markaðshlutdeild í útgerð kaupskipa getur framkallað valdastöðu, sem kann að vera áhyggjuefni á markaðnum. Hins vegar er vandséð, að neitt lagist við, að vandamálasérfræðingar komi til skjalanna, vopnaðir lögum og reglugerðum forræðissinna.

Ríkisvaldið á að forðast aðgerðir, sem fela í sér minni samkeppni á markaði og meiri tilraunir ríkisins til afskipta og áhrifa á gang mála á óviðkomandi sviðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Atgervisflóttinn vex

Greinar

Háskólarektor vakti um helgina athygli á tölum um atgervisflótta frá Íslandi, sem sýna, að erlendis búa 15% þeirra, sem útskrifuðust á tíu ára tímabili frá Háskóla Íslands, 1979-1988. Fjölmennastir í þessum hópi eru læknar og raunvísindamenn, svo og hugvísindamenn.

Öruggt má telja, að hlutfall atgervisflóttans sé mun hærra hjá þeim Íslendingum, sem útskrifuðust á þessu tímabili frá erlendum háskólum og tóku aldrei upp þráðinn hér heima, sumpart vegna þess að tækifæri eru lítil, atvinnuvegir einhæfir og laun háskólafólks léleg.

Framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs hefur lýst áhyggjum af ástandinu, sem háskólarektor rakti. Hann telur, að viðhorf gömlu atvinnuveganna sé neikvætt í garð háskólamenntunar og að það endurspeglist í stofnunum þjóðfélagsins, þar á meðal í fjármálastofnunum.

Háskólinn var seinn að átta sig á, hverjar væru þarfir atvinnulífsins. Lengst af miðaðist framboð hans á námi einkum við embættisþarfir þjóðfélagsins. Hann framleiddi einkum lækna og lögfræðinga, presta og kennara, sem komu atvinnulífi að takmörkuðu gagni.

Þetta hefur verið að lagast í seinni tíð, en þá koma í ljós rótgrónar efasemdir í atvinnulífinu um, að fólk úr nýjum kennslugreinum í gömlum embættismannaskóla geti tekið til hendinni. Erfitt hefur reynzt að þvo skrifborðs- og hvítflibbastimpilinn af Háskólanum.

Verra er, að afturhaldssemi er rík í þjóðfélaginu og ræður gerðum valdamanna þjóðarinnar. Ef tala má um pólitískar forsendur valdakerfisins, þá felast þær í að vernda gamlar atvinnugreinar fyrir nýjum, þótt sú stöðnun geri landið að varanlegu láglaunasvæði.

Einum eða tveimur tugum milljarða er til dæmis sóað til einskis á hverju einasta ári til að reyna að fresta hruni hinna hefðbundnu þátta landbúnaðarins. Það fé er ekki notað til að hlúa að nútímalegum atvinnuvegum, sem þurfa á að halda vel stæðu háskólafólki.

Afturhaldssemi stjórnvalda og þjóðar veldur því til dæmis, að skilyrði fyrir hugbúnaðarframleiðslu og margmiðlun eru lakari hér en í samkeppnislöndum okkar beggja vegna Atlantshafsins. Það kemur m.a. fram í hægari og dýrari tölvusamskiptum hér á landi.

Hinar dýru aðgerðir ráðamanna ríkisins við varðveizlu fortíðar í atvinnuháttum hafa svelt getu þess til að greiða vísindamönnum hins opinbera mannsæmandi laun. Þetta kemur fram í kjörum háskólakennara og sérfræðinga við rannsóknastofnanir ríkisins.

Margir hinna hæfustu hafa því leitað á önnur mið og náð árangri, sumpart vegna þess að nýju og framsæknu háskólagreinarnar eru alþjóðlegar að eðlisfari, nýtanlegar um heim allan, og sumpart vegna þess, að hinir hæfustu geta komið hæfni sinni á framfæri í útlöndum.

Að stofni til er þessi vítahringur fyrst og fremst pólitískur. Vitsmunalegir undirmálsmenn stjórna afturhaldssamri þjóð og geta engan veginn lyft sér upp úr þrengstu hagsmunagæzlu fyrir hin hefðbundnu gæludýr kerfisins. Hér felst pólitík í dreifingu herfangs.

Að meirihluta er þetta í samræmi við vilja þjóðar, sem er með mosann í skegginu og velur sér nærri eingöngu Framsóknarflokka til stjórnar. Ekkert gerist meðan þjóðin vill, að tilvera sín snúist um varðveizlu eins konar Árbæjarsafns fyrir landbúnað í miðju Atlantshafi.

Sumir kunna sitthvað, sem stofnanir og fyrirtæki í útlöndum vilja kaupa dýru verði. Þeir freistast auðvitað til að flýja lygnan poll stöðnunar og afturhalds.

Jónas Kristjánsson

DV

Forviða ferðafólk

Greinar

Þegar skemmtiferðaskipið Royal Viking Sun var hér í sumar, birtist grein í dagblaði farþeganna um verðlagið á Íslandi. Greinin var öll í vinsamlegum tón og reyndi að útskýra, að rosalegt verðlag væri ekki okurfíkn Íslendinga að kenna, heldur sérstökum aðstæðum í landinu.

Greinin er gott dæmi um eitt helzta umræðuefnið í samskiptum leiðsögufólks og ferðafólks. Aðkomufólk á Íslandi er forviða á verðlaginu og leiðsögufólk reynir að útskýra, hvernig standi á ósköpunum. Ísland er eina vestræna landið, þar sem þetta er aðalumræðuefnið.

Ef farið er í ferðabókabúðir í útlöndum og flett leiðsögubókum um Ísland eða bókarköflum, þar sem Íslands er getið, sker alls staðar í augu, að varað er við ofurháu verðlagi á Íslandi. Þeir, sem skoða slíkar upplýsingar, eru ekki líklegir til að þora að koma hingað.

Íslendingar geta séð sjálfa sig í sporum erlends ferðafólks, sem er að kynna sér ferðalög til Íslands. Við mundum hugsa okkur um tvisvar áður en við færum til lands, sem hefði sérstakt orð á sér fyrir að vera dýrara en nokkurt annað land í Evrópu og Ameríku samanlagt.

Þeir, sem komast yfir þennan aðvörunarmúr og stefna ótrauðir til Íslands, eru þó ekki betur undirbúnir á þessu sviði en svo, að leiðsögumenn þurfa sífellt að svara furðu lostnu ferðafólki eða vara það við verðlaginu í tæka tíð, svo sem dagblað skemmtiferðaskipsins gerði.

Þetta hefur þær beinu afleiðingar, að erlent ferðafólk á Íslandi er mun færra en það væri ella og að það ferðafólk, sem kemur, heldur mun fastar um pyngjuna en það mundi ella gera. Þetta er alvarlegt mál, sem skaðar þjóðarhag, en er engan veginn versta afleiðing verðlagsins.

Verra er, að Íslendingar þurfa sjálfir að sæta þessu sama verðlagi með tilsvarandi skerðingu lífskjara, óhóflegri vinnu og taugaveiklun. Við sitjum dag eftir dag og ár eftir ár í súpunni, sem hræðir ferðafólk frá því að koma hingað í nokkra daga og að kaupa hér nauðsynjar.

Verst af öllu er, að við erum orðin samdauna þessu. Flestum Íslendingum finnst verðlagið í landinu vera eins konar náttúrulögmál á svipaðan hátt og flestum fannst haftakerfi og gjaldeyrisskömmtun vera óviðráðanlegt náttúrulögmál, áður en slíkt var snögglega aflagt.

Á fyrstu árum Viðreisnarstjórnarinnar þorðu ráðamenn að höggva drauga fortíðarinnar. Nú vantar hins vegar pólitískan viljastyrk til að takast á við slíka drauga. Stjórnmálamenn nútímans þora ekkert og allra sízt að hrófla við forsendum matvælaverðsins í landinu.

Dagblað skemmtiferðaskipsins rakti, hvernig bannað er að flytja inn búvöru, sem telst í samkeppni við innlenda búvöru, og hvernig offramleiðslu er haldið uppi í óhagkvæmum landbúnaði, sem framleiðir of dýrar vörur fyrir neytendur á kostnað skattgreiðenda.

Dagblað skemmtiferðaskipsins gerði ekki grín að þessari heimsku Íslendinga, heldur spurði í einlægni, hvernig Íslendingar færu yfirleitt að að lifa við þessar aðstæður, sem lýstu sér í margþættum vandræðum, lágum launum, háum sköttum, dýru verði og miklum skuldum.

Nokkur raun er að þurfa að lesa texta, sem lætur í ljós samúð með Íslendingum sem svo greindarskertu og undirgefnu fólki, að það sætti sig við að líta á óeðlilegar aðstæður sem náttúrulögmál og geri ekki byltingu gegn kerfinu, sem er myllusteinn um háls þess.

Þótt ferðamenn séu sífellt að reka upp stór augu yfir ástandinu á Íslandi, er meirihluti heimamanna enn samdauna kerfisbundinni framleiðslu fátæktar í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Höggvum Evrópuhnútinn

Greinar

Þegar aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins hefjast loksins, mun tiltölulega fljótt koma í ljós, hvort grundvöllur er fyrir samningum. Ágreiningsefnin verða fá. Allt stendur raunar og fellur með skilgreiningu málsaðila á eðli og eignarhaldi fiskimiðanna við Ísland.

Áhugamál okkar eru önnur en þeirra, sem hingað til hafa samið um aðild. Reynslan sýnir, að við eigum sem aðilar að Efnahagssvæði Evrópu auðvelt með að laga okkur að reglum, sem eiga uppruna sinn í Evrópusambandinu. Við erum í rauninni sveigjanleg þjóð.

Töluvert af reglunum, sem við notum í daglegu lífi okkar, koma beint eða óbeint frá Evrópusambandinu. Samkvæmt reynslunni finnst okkur ekkert athugavert við að nota margvíslega fyrirhöfn þess og þýða beint fyrir okkar þarfir og spara þannig tíma og kostnað.

Hins vegar hafa sumar þjóðir, sem með ærinni fyrirhöfn og kostnaði hafa komið sér upp eigin reglum, sem ekki falla að reglum Evrópusambandsins, sumpart átt erfitt með að sætta sig við að þurfa að hliðra til. Í mörgum tilvikum höfum við ekki slíka fortíðarbagga.

Þegar til kastanna kemur, verða nærri öll mál fljótafgreidd í viðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Eina erfiða umræðuefnið verður eðli og eignarhald fiskimiðanna við Ísland. Þar munum við hljóta að standa föst á skilgreiningu, sem endurspeglar raunveruleikann.

Við lítum svo á, að fiskimiðin séu jafn fastgróinn hluti sögu okkar og hagkerfis og tilveru okkar yfirleitt og akrar eða námur eru í öðrum löndum. Þar sem slíkar auðlindir séu ekki sameiginlegar þar, þurfi fiskimiðin hér ekki heldur að vera sameiginleg auðlind.

Hvort sem samningsaðilar Evrópusambandsins fallast á slíka skilgreiningu eða ekki, þá munu þeir skilja hana. Þeir munu fljótlega sjá, að Ísland tapar á aðild að sambandinu, ef þetta er ekki rétt skilgreint og muni ekki skrifa undir samninga um óhagkvæma niðurstöðu.

Flestir geta skilið, að fólk skrifar ekki undir samninga, sem leiða til tjóns fyrir það. Eðli samninga er, að verið er að reyna að finna niðurstöðu, sem málsaðilum er til hagsbóta. Takist slíkt ekki, verður ekki gagn að samningaviðræðum og þær falla niður af sjálfu sér.

Það á ekki að vera erfitt fyrir Evrópusambandið að fallast á, að fiskimiðin við Ísland séu af sagnfræðilegum og efnahagslegum ástæðum öðruvísi tengd landi og þjóð en fiskimið við önnur lönd. Um þetta munu viðræður okkar og Evrópusambandsins fyrst og fremst snúast.

Samningaviðræður, sem snúast um eitt grundvallaratriði, eru fljótlegri en viðræður, sem snúast um endalausa röð smáatriða. Þess vegna verða viðræður okkar við Evrópusambandið auðveldari en viðræður Svía, Finna og Austurríkismanna voru á sínum tíma.

Meðan ekki reynir á þetta, missum við af margvíslegum hagnaði af aðild að Evrópusambandinu, öðrum en þeim, sem lýtur að þessu eina atriði. Þess vegna hefur verið og er ástæðulaust að bíða bara og bíða. Enda veit raunar enginn, eftir hverju er verið að bíða.

Andstæð þjóðarhagsmunum er sú stefna flestra núverandi og fyrrverandi ráðamanna þjóðarinnar að núa saman höndum í vandræðum sínum, fara undan í flæmingi, stinga höfðinu í sandinn, reyna að fresta málinu og segja aðild ekki vera til umræðu á þessu stigi málsins.

Við þurfum að höggva hnútinn. Við þurfum annaðhvort að ganga í Evrópusambandið eða hætta endalausri bið eftir einhverju, sem enginn veit hvað er.

Jónas Kristjánsson

DV

Breyttar forsendur

Greinar

Af hinu mannskæða snjóflóði á Flateyri getum við lært ýmislegt, sem auðveldar okkur að varast slíka atburði í framtíðinni. Mikilvægast er að átta sig á, að kaupstaðabyggð undir fjallshlíðum er óráðleg, svo sem sagt var hér í leiðara blaðsins 19. janúar síðastliðinn.

Snjóflóð hafði áður fallið niður að kirkjunni á Flateyri, svo að reynsla er fyrir því, að snjóflóð renna eins langt þar og þau gerðu núna, þótt þau geri það að vísu sjaldan. En miða verður við sjaldgæfa atburði, þegar reynt er að tryggja öryggi fólks á hættusvæðum.

Gagnsleysi snjóflóðavarna er það, sem sker mest og sárast í augu að þessu sinni. Á Flateyri hafði verið komið upp tveimur varnargörðum gegn snjóflóðum. Svo virðist, sem flóðið hafi lítið sem ekkert mark tekið á þeim. Það fór beint yfir annan og yfir jaðar hins.

Snjóflóðið kennir okkur, að ekki dugir að bæta fyrir fjárfestingarmistök síðustu áratuga í sjávarplássum landsins með því að reisa mannvirki til varnar byggðinni. Náttúruöflin eru einfaldlega kraftmeiri en þau mannvirki, sem maðurinn reisir sér til varnar.

Við þurfum að átta okkur fljótt á þessari nýju lexíu, þótt við höfum verið lengi að átta okkur á hinni gömlu, að ekki er ráðlegt að víkka byggð af sjávareyrum upp í brekkur, sem eru undir fjallshlíðum. Við verðum að viðurkenna ósigurinn og byrja aðgerðir með hreint borð.

Raunar átti reynsla forfeðranna að segja skipuleggjendum kaupstaða, að ekki skuli reisa hverfi utan sjávareyra og fjarðarbotna. Undanfarna áratugi hefur verið sýnt mikið andvaraleysi í þessum efnum, sem mun kosta þjóðfélagið milljarða króna á næstu árum og áratugum.

Þjóðin hefur á hverri öld mátt þola tímabil veðurofsa og hamfara, þótt á milli hafi liðið tiltölulega friðsælir áratugir. Margt bendir til, að nú sé gengið í garð nýtt tímabil stórviðra. Við þær aðstæður þurfum við að muna eftir fyrri tímabilum af því tagi í sögu landsins.

Stöðva ber allar framkvæmdir undir fjallshlíðum og hætta þar með í eitt skipti fyrir öll að tjalda til einnar nætur í sjávarplássunum. Í þess stað þarf að þétta byggð á eyrum og færa hana sumpart inn í fjarðarbotna, þar sem hvorki er hætta á snjóflóðum né flóðbylgjum.

Við þurfum að muna eftir, að snjóflóð og aurskriður að ofan eru ekki eina hættan, sem steðjar að fjarðabyggð. Flóðbylgjan á Suðureyri minnir okkur á, að einnig ber að kanna, hversu vel eða illa fjarðabyggðin er búin undir náttúruhamfarir að neðan, frá hafinu.

Á endanum er þetta svo peningadæmi. Þótt ofanflóðasjóður hafi verið efldur, er greinilegt, að hann ræður ekki við dæmið eftir að snjóflóðið á Flateyri hefur breytt forsendum þess. Við stöndum hreinlega andspænis útgjöldum, sem eru margfalt hærri á ári hverju.

Jafnframt þarf í alvöru að svara þeirri spurningu, hvort yfirleitt sé vit í að leggja mikið fjármagn til endurbygginga við aðstæður, þar sem landþrengsli eru mikil. Það hlýtur að verða áleitið að auðvelda fólki frekar að færa sig til staða, sem veita meira öryggi.

Ísland er stórt land og þjóðin á öflug skip, sem eru fljót á miðin. Það er ekki lengur nauðsynlegt að gera út frá hverjum firði. Nú er kominn tími til að fara að greiða götu þeirra, sem vilja losna úr átthagafjötrum verðlausrar fjárfestingar í landþröngum sjávarplássum.

Þjóðfélagið þarf að spara á öðrum sviðum til að geta losað fólk út úr þessum fjárfestingum og stutt það til framkvæmda við að skjóta rótum á öruggum stöðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Forseti Rússlands er róni

Greinar

Í beinni útsendingu frá blaðamannafundi fyrir helgina rak dauðadrukkinn forseti Rússlands utanríkisráðherra landsins úr embætti og réð hann aftur daginn eftir á flugvellinum í Moskvu, einnig í beinni útsendingu frá blaðamannafundi, illa haldinn af langvinnri ofdrykkju.

Síðan hefur forsetinn leikið hlutverk fíflsins vestur í Bandaríkjunum, þar sem hann sótti valdsmannaþing Sameinuðu þjóðanna og hitti Bandaríkjaforseta. Þar hefur forseti Rússlands velkzt um, útblásinn og þrútinn og tínt af sér fúla brandara drykkjusjúklings.

Heita má, að síðustu misserin sjáist ekki til forsetans öðruvísi en timbraðs, drukkins eða kófdrukkins á almannafæri. Þetta ástand er honum og Rússlandi til vansæmdar. Enn verri eru þó áhrifin, sem þetta óeðlilega ástand hlýtur að hafa á stjórn erfiðra Rússlandsmála.

Þessi fyrrverandi þjóðhetja Rússlands hefur misst tökin á stjórn landsins og hrekst úr einu víginu í annað undan andstæðingum sínum. Flestir umbótamennirnir í kringum hann eru horfnir á braut eða búa við skert áhrif, en gagnslausir jámenn eru setztir í stólana.

Svo djúpt er Rússland sokkið, að foringi lífvarðar forsetans er orðinn annar valdamesti maður landsins út á það að hjálpa forsetanum í rúmið á morgnana og sinna öðrum þörfum drykkjurútsins. Þekkt er í mannkynssögunni, að lífvarðarforingjar stjórna fyrir róna.

Umbætur eru um það bil að fjara út í Rússlandi. Glæpaflokkar hafa sig æ meira í frammi og hafa tekið við raunverulegri stjórn mála á ýmsum sviðum. Rússneska mafían veldur vaxandi áhyggjum á Vesturlöndum vegna mikilla umsvifa og óvenju grófra vinnubragða.

Greinilega kom fram í eftirleik átakanna í Tsjetsjeníu fyrr á þessu ári, að forsetinn réði ekki við málið, þannig að forsætisráðherra landsins varð að lokum að grípa í taumana. Enda má ljóst vera, að sídrukkinn forseti getur ekki brugðizt skynsamlega við uppákomum.

Undir stjórn Jeltsíns hefur Rússland orðið að óróaafli í umheiminum eins og Íran eða Írak eða Kína. Það sáir til vandræða í ríkjum Sovétríkjanna fyrrverandi og á Balkanskaga. Það er orðið illa útreiknanlegt og óvinsælt og nýtur ekki nauðsynlegs stuðnings að utan.

Í stað þess að nota pólískan mátt Rússlands til að búa til valdamikla virðingarstöðu þess á fjölþjóðlegum vettvangi, fær þessi máttur í vaxandi mæli útrás á neikvæðan hátt og leiðir ekki til þeirrar virðingar og áhrifa, sem efni ættu að standa til við eðlilegar aðstæður.

Verst er tilhugsunin um, að það er annað mesta kjarnorkuveldi heimsins, sem hefur fordrukkinn forseta með puttana við atómstjórntöskuna og getur hleypt af stað kjarnorkustríði í óráði og minnisleysi. Þess vegna er nauðsynlegt að vekja athygli á ástandi forsetans.

Áfengi hefur löngum verið flótti Rússa frá vandamálum líðandi stundar. Þar í landi er ríkjandi rótgróin linkind gagnvart geigvænlegum afleiðingum almennrar ofdrykkju á öllum stigum þjóðfélagsins. Þar í landi er alger róni talinn nothæfur sem æðsti maður ríkisins.

Vestrænir fjölmiðlar taka á máli þessu með silkihönskum og stuðla þannig að þeirri sjálfsblekkingu margra Rússa, að þjóðarlöstur þeirra sé frambærilegur og að þolanlegt sé að hafa drykkjurúta í æðstu embættum. Betra er að tala hreint og skiljanlega um vandamálið.

Það er botnlaus niðurlæging fyrir Rússland að forseti landsins skuli vera róni, sem veltist blindfullur um heiminn, útblásinn og þrútinn af langvinnum ólifnaði.

Jónas Kristjánsson

DV

Ögrun er ágæt

Greinar

Í grundvallarverki sínu um mannkynssöguna notaði Arnold Toynbee sagnfræðingur Íslendinga sem dæmi um mikilvægi ögrunar í sögu þjóða. Hann benti á, hvernig landnámsmenn urðu að skilja við vini og ættingja, eignir og mestan hluta bústofns til að halda út á hafið.

Það er mikil ákvörðun að brjóta brýr að baki sér og halda út í óvissuna. Að mati Toynbees felst í því ögrun, sem getur lyft heilum þjóðum. Þannig hafi norrænar bókmenntir verið samdar og skráðar á Íslandi, en ekki hjá þeim, sem urðu eftir á heimaslóðum forfeðranna.

Toynbee taldi, að ögrun gæti gengið of langt og benti á Grænland sem dæmi um það. Þar hafi óblíð náttúra orðið norrænum mönnum of viðamikið viðfangsefni, þannig að þar reis ekki norræn hámenning og að þar fjaraði norrænt landnám út á nokkrum öldum.

Þessi dæmi eru aðeins tvö af mörgum, sem Toynbee rekur til stuðnings þeirri kenningu, að nauðsynlegt sé fyrir fólk og þjóðir að lenda í erfiðleikum. Slíkt hvetji til átaka við verkefni, hvort sem þau eru á sviði atvinnu eða efnahags, vísinda eða tækni, lista eða menningar.

Þetta hljómar ekki ókunnuglega. Margir þekkja samlíkinguna við deiga járnið, sem herðist í eldinum. Fólk og þjóðir hafa tilhneigingu til að koðna niður í aðgerðalitlum þægindum, ef allt gengur í sífellu sinn vanalega gang. Vandamál og tækifæri rekur þá ekki á fjörurnar.

Tuttugasta öldin hefur gefið okkur tækifæri til að mæta ögrun, sem minnir á landnámsmenn, þótt hún sé ekki eins róttæk. Það er búseturöskunin í landinu. Um aldamót bjuggu níu af hverjum tíu Íslendingum í strjálbýli, en nú býr þar innan við einn af hverjum tíu.

Þetta stuðlaði að innri spennu, sem varð sumum helztu rithöfundum þjóðarinnar yrkisefni á fyrri áratugum. Þeir fjölluðu um bóndasoninn, sem flúði á mölina og glataði sálu sinni. Raunveruleiki flestra flóttamanna var þó annar og betri. Þeir festu rætur á nýjum stað.

Höfuðborgarsvæðið er niðurstaða þessara miklu þjóðflutninga Íslendinga á tuttugustu öld. Þar eru sífelldir tónleikar og listsýningar. Þar eru leikhúsin og kaffihúsin. Þar eru gefin út blöð og ljósvakamiðlar. Þar fer fram meginþorri allrar sköpunar í vísindum og listum.

Myndun nútímalegs menningarsvæðis í þéttbýlinu við Faxaflóa er hin síðari af tveimur byltingum Íslendingasögunnar. Flóttinn á mölina varð þjóðinni sú ögrun, sem lyfti henni inn í menningarlegan nútíma eftir fremur ömurlega tilveru á nokkrum myrkum eymdaröldum.

Fólkið, sem flutti til höfuðborgarsvæðisins kannast almennt ekki við að hafa skaðazt af þessari röskun. Þvert á móti varð flutningurinn flestum til gæfu og gengis, þótt undantekningar séu á því eins og öðru. Röskun búsetu í landinu var Íslendingum mikið heillaskref.

Af pólitískum afturhaldsástæðum hefur verið reynt að sporna gegn þessari röskun og draga úr ögruninni. Vörnin lagðist í fast kerfi á sjöunda áratugnum, þegar farið var að greiða mönnum stórfellda og sjálfvirka styrki til að fá þá til að halda áfram búskap í strjálbýli.

Viðnámið hefur borið þann skaðlega árangur, að mjög hefur dregið úr flutningi fólks úr strjálbýli í þéttbýli á síðasta aldarfjórðungi. Það hefur sparað mörgum að lenda í röskun og ögrun búferlaflutninga og að freista gæfunnar í ótal tækifærum höfuðborgarsvæðisins.

Hin afturhaldssama skoðun, að röskun sé skaðleg og að hið opinbera eigi að hamla gegn henni, styðst ekki við reynslu Íslendinga og annarra landnámsþjóða.

Jónas Kristjánsson

DV

Trúgirni

Greinar

Samkvæmt auglýsingum trúa sumir Íslendingar því, að þeir geti frelsazt frá ofáti og grennst með því að kaupa nuddtæki eða ákveðnar tegundir af aðskornum nærbuxum. Samkvæmt vöruúrvali nýaldarverzlana trúa sumir Íslendingar beinlínis á stokka og steina.

Nokkrum sinnum hefur komið fram í fréttum í haust, að fólk trúir því, sem ráðherrar segja. Menn trúa, þótt dæmin sanni, að ráðherrar standa ekki einu sinni við það, sem þeir skrifa undir. Þeir treysta sér ekki einu sinni til að fylgja því eftir í fjárlagafrumvarpi.

Svo langt gengur réttaróvissan hér á landi, að ráðherrar fresta framkvæmd samþykktra laga, sem margir aðilar hafa miðað við í áætlunum sínum. Þannig kippa ráðherrar með geðþótta sínum undan vissunni um leikreglur, sem er hornsteinn lýðræðis og markaðshyggju.

Vitanlega ættu ráðherrar ekki að lofa neinu eða skrifa undir neitt, nema með fyrirvara um samþykki Alþingis, sem hefur fjárveitingavaldið. En þeim ætti þó að vera skylt að fylgja skriflegum loforðum sínum eftir í fjárlagafrumvarpi, sem ríkisstjórnin leggur fyrir Alþingi.

Reynslan sýnir, að þeir gera þetta ekki, ef geðþótti þeirra býður annað. Reynslan sýnir líka, að ríkisstjórnir standa ekki við sinn hlut af þjóðarsáttum, sem þær gera með aðilum vinnumarkaðarins til að halda niðri verðbólgu í landinu og koma á stöðugu efnahagslífi.

Þannig hefur það orðið fastur liður í nýjum þjóðarsáttum, að ríkisstjórnir lofa að standa við það, sem þær lofuðu í síðustu þjóðarsátt. Þótt foringjar samtaka launafólks hafi langa reynslu af þessu, létu þeir enn einu sinni trúgirni ráða ferð við gerð núgildandi kjarasamninga.

Blekið var varla þornað af síðustu þjóðarsátt, þegar ríkið fór sjálft að semja á hærri nótum við ýmsa starfshópa sína. Niðurstaðan er, að láglaunafólkið, sem þjóðarsáttin átti að afhenda meiri kjarabætur en öðrum, hefur borið minnst úr býtum eins og nærri alltaf áður.

Trúgirni foringja samtaka launafólks var svo mikil, að þeir létu undir höfuð leggjast að setja í samningana uppsagnarákvæði, sem tengdust vanefndum af hvers konar toga. Eina atriðið, sem sjálfkrafa losar samningana, er almenn verðþróun í landinu á samningstímanum.

Þar sem verðbólgan nær ekki viðmiðunarmarki á næstunni, losna samningar ekki, þótt foringjar samtaka launafólks þykist nú bíta í skjaldarrendur. Ef þeir æða út í vinnudeilur, munu þeir tapa þeim málum fyrir þar til bærum dómstólum. Þeir sitja í neti eigin trúgirni.

Frammistaða trúgjarnra foringja samtaka launafólks er smánarleg. Þeir sýna hvað eftir annað vanhæfni í starfi, en verður þó ekki velt úr sessi vegna takmarkandi ákvæða um gagnframboð í stéttarfélögum. Vangeta þeirra dafnar í skjóli óbeinnar æviráðningar.

Þessir foringjar eru við hæfi trúarlega frumstæðrar þjóðar, sem trúir á stokka og steina og sem er svo trúgjörn, að hún telur sig geta frelsazt undan ofáti og grennst með því að láta stytta garnir sínar eða kaupa sér nuddtæki eða ákveðnar tegundir af aðskornum nærbuxum.

Fólk, sem trúir á aðskornar nærbuxur sér til varnar gegn matarfíkn sinni, trúir því auðvitað líka, að ráðherrar standi við skriflegar yfirlýsingar sínar og að ríkisstjórnir standi við þátt sinn í þjóðarsáttum. Hún gerir ekki raunhæfar ráðstafanir meðan hún trúir og trúir.

Engin furða er, þótt happdrættin blómstri og happdrættisfélög auglýsi, að kaup á happdrættismiðum sé vænleg leið til að ná endum saman í heimilisbókhaldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjármunir taldir fólki æðri

Greinar

Kveðnir voru upp tveir athyglisverðir dómar í vikunni. Annars vegar var dæmt í fimmtán mánaða fangelsi fyrir manndráp og hins vegar í átján mánaða fangelsi fyrir 2,7 milljón króna fölsun. Af þessu má ráða, að kerfið meti mannslífið á tvær og hálfa milljón króna.

Í leiðurum þessa blaðs hefur nokkrum sinnum verið vakin athygli á öðrum dómum, sem sýna, að löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið í landinu líta strangari augum á auðgunarbrot en ofbeldisbrot. Þetta eru leifar þess tíma, er fjármunir voru fólki æðri.

Hér er ekki haldið fram, að annar dómurinn sé vitlausari en hinn, heldur að saman sýna þeir misræmi, sem endurspeglar ekki á þá staðreynd, að samkvæmt almennri siðfræði Vesturlanda nútímans er maðurinn æðra fyrirbæri en dauðir hlutir á borð við peninga.

Burtséð frá deilum um, hversu þungir eða léttir dómar eigi að vera, ætti að geta verið samkomulag um, að peningar séu bara peningar, en mannslíf sé þó mannslíf. Því miður verður þessa innsæis ekki vart í lögum Alþingis, ákærum saksóknara og úrskurðum dómstóla.

Vandamálið byrjar í ráðuneytunum. Þar eru samin lagafrumvörp, sem gera ráð fyrir, að stuldur sé verri en ofbeldi. Þessi frumvörp gerir Alþingi síðan að lögum. Ákæruvaldið fer svo í lægri kantinn í kröfum í ofbeldismálum og endahnútinn binda svo dómstólarnir.

Verstur er þáttur dómstólanna, þar á meðal Hæstaréttar. Í þessum stofnunum hefur mótazt sú venja, að heimildir til þyngdar refsingar eru notaðar að mjög litlu leyti í ofbeldismálum, en að miklu leyti í peningamálum. Siðgæðis-innsæi dómara er áfátt á öllum dómstigum.

Verst er ástandið í nauðgunarmálum. Ástæða er til að vara konur eindregið við að kæra nauðgun, því að það kostar endurteknar nauðganir, fyrst í yfirheyrslum hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins og síðan af hálfu dómarastéttarinnar. Og ástandið hefur síður en svo lagazt.

Að baki hinna krumpuðu viðhorfa í valdakerfinu er forneskjuleg hugsun yfirstétta fyrri alda, sem byggðu rammskakkt réttarkerfi til að varðveita eigur sínar fyrir undirstéttunum, en höfðu minni áhyggjur af innbyrðis ofbeldi og manndrápum innan undirstéttanna.

Afleiðing misræmisins er, að ofbeldi og ómennska veður uppi í þjóðfélaginu. Frægt er ástandið í miðbæ Reykjavíkur, sem ekki er manngengur að næturlagi um helgar, af því að lögreglan sinnir ekki skyldum sínum. Ekki eru dæmi um slíkt í miðbæjum annarra höfuðborga.

Í vikunni gerði auðnuleysingi misheppnaða tilraun til að ræna banka. Daginn eftir var búið að keyra málið á fullu og kveða upp dóm yfir honum. Þessi hraði á misheppnuðu auðgunarmáli stingur mjög í stúf við almennan og vítaverðan seinagang í dómsmálum hér á landi.

Seinlætið er almennt svo mikið, að fólk nær ekki rétti sínum fyrir dómstólum. Fræg eru dæmin um, hvernig tryggingafélögunum hefur tekizt að tefja árum saman, að fólk fái lögboðnar bætur fyrir örorku sína, svo að það neyðist til smánarsamninga utan réttarsala.

Óöryggið og misræmið á þessum sviðum fer saman við geðþóttaákvarðanir embættis- og stjórnmálamanna í framkvæmdavaldinu. Allt leiðir þetta saman í þann farveg, að Ísland getur ekki talizt heilbrigt réttarríki, heldur gróðrarstía ranglætis, ójafnaðar og siðleysis.

Moka þarf flórinn á þessum sviðum, fá siðaða dómara til starfa, hraða gangi dómsmála, svo og setja manngildi ofar auðgildi í verðmætamati laga og dómsúrskurða.

Jónas Kristjánsson

DV

Listinn sem ekki er til

Greinar

Listinn yfir hæst launuðu starfsmenn ríkisins og greiðslur ríkissjóðs til þeirra er enn ríkisleyndarmál, þótt margir hafi hvatt til birtingar hans, þar á meðal forsætisráðherra og félagsráðherra. Fjármálaráðherra hefur lagt sig fram um að komast hjá birtingu hans.

Athyglisvert er, að fjármálaráðherra neitar í öðru orðinu tilvist lista, sem samráðherrar hans fjalla um sem raunveruleika, og rekur í hinu orðinu hverjir séu á þessum lista, sem hann neitar, að sé til. Með þessu hefur hann slegið persónulegt met í tvöföldu orðalagi.

Listinn er ófullkominn, af því að hann nær aðeins til greiðslna úr ríkissjóði, en ekki til stofnana í svonefndum B-hluta fjárlaga. Þess vegna vantar marga opinbera starfsmenn á listann og hjá sumum eru ekki skráðar þar allar greiðslur, sem þeir fá hjá stofnunum ríkisins.

Eðlilegt er að bætt sé úr þessu og allar launagreiðslur á vegum ríkisins og einstakra stofnana þess verði dregnar saman í einn lista, svo að sjá megi rétta heildarniðurstöðu í málinu. Það er eðlilegt framhald af trúnaðarbresti, sem orðinn er í kjaramálum þjóðfélagsins.

Ráðherrar hafa látið í ljósi efasemdir um, að rétt sé að birta listann með nöfnum, heldur nafnlausan og þá með einstökum starfsstéttum í pökkum. Slík nafnleynd er eðlileg á millistigum kerfisins, en gengur ekki á toppnum, þar sem menn hafa aðstöðu til uppgripa á tekjum.

Valdamiklir embættismenn hafa komizt upp með að láta ríkið greiða sér mun meiri tekjur en hingað til hefur verið gefið í skyn, að þeir fái hjá ríkinu. Þeir hafa notað til þess Kjaradóm og Kjaranefnd og búið til margvíslegar sjónhverfingar á borð við ómælda og óunna yfirvinnu.

Kjaradómur og Kjaranefnd hafa ekki orðið við ósk forsætisráðherra um að birta forsendur niðurstaðna sinna. Það stafar af, að forsendurnar halda ekki vatni. Þessar leynistofnanir í þágu embættismanna eru því rúnar öllu trausti og hafa glatað tilgangi sínum.

Listinn frægi, sem stundum er til og stundum ekki til, sýnir, að tveir opinberir starfsmenn fá hvor um sig meira en sex milljónir króna á ári af A-hluta fjárlaga. Þegar tölur eru orðnar svo háar, er ekki lengur hægt að verja, að þær séu einkamál, sem ekki megi birta.

Eðlilegt er að setja eitthvert birtingarmark, til dæmis við fjórar milljónir á ári og miða þá við samanlagðar tekjur manna hjá ríkinu og stofnunum þess. Stjórnmálamenn þurfa að sæta birtingu tekna sinna, þótt þeir hafi í mörgum tilvikum mun lægri tekjur en fjórar milljónir.

Reglur um nafnleynd í kjaramálum eiga aðeins að ná til venjulegra starfsmanna. Þegar þeir eru komnir í valdaaðstöðu, sem meðal annars felur í sér völd til að hafa áhrif að tjaldabaki á eigin tekjur, á ekki að vera lengur hægt að skjóta sér á bak við nafnleynd.

Listinn frægi sýnir, að það eru ekki stjórnmálamennirnir, sem eru lagnastir við að framleiða tekjur handa sér umfram skráð laun. Það eru fyrst og fremst þeir, sem ráða ferðinni að tjaldabaki, embættismennirnir, sem eru stórtækastir og hugmyndaríkastir í sjálfsbjörginni.

Stjórnmálamenn telja sig raunar eina hafa orðið blóraböggul fyrir tekjubrask, sem embættismenn hafi ekki síður stundað. Þeir hafa því rekið á eftir því, að listinn frægi yrði birtur. Þess vegna er að bresta þagnarmúrinn um leynilega fengnar tekjur embættismanna ríkisins.

Þegar hagsmunir stjórnmálamanna og embættismanna hafa þannig skilizt í sundur, er hugsanlegt, að leynimakkið verði að víkja fyrir almannahagsmunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Góð forsetaefni

Greinar

Núna eins og jafnan áður mun koma í ljós, að ekki er skortur á hæfum forsetaefnum á Íslandi. Fyrstu kannanir á fylgi þekktra einstaklinga benda til, að val á prýðilega hæfu fólki til framboðs í forsetakosningum verði að þessu sinni ekki erfiðara en venjulega hefur verið.

Skoðanakönnun DV í gær bendir til, að fólk hafi þegar tekið fremur jákvæða afstöðu til ýmissa einstaklinga, er nefndir hafa verið að undanförnu sem æskilegir frambjóðendur. Samt er ekki liðinn nema hálfur mánuður síðan ljóst varð, að forsetakosningar yrðu í vor.

Reikna má með, að hugmyndir um enn aðra einstaklinga eigi eftir að koma í ljós á næstu vikum, því að nægur tími er til stefnu og fólk er enn að átta sig á, að val á nýjum forseta verður raunverulegt verkefni á næsta ári. Tilnefningar verða því nægar, þegar framboð hefjast.

Hitt er fremur líklegra, að ástæða sé til að hvetja stuðningsmenn hinna tilnefndu einstaklinga til að fara varlega í sakirnar á þessu stigi málsins, svo að frambjóðendur verði ekki of margir. Tveir eða þrír frambjóðendur eru af ýmsum ástæðum æskilegri en fjórir eða fleiri.

Því fleiri, sem frambjóðendur eru, þeim mun meira dreifist fylgið og þeim mun minni möguleikar verða á eindreginni kosningu næsta forseta. Það styður nýjan forseta í fyrstu skrefum hans að hafa náð kjöri með miklu fylgi, sem næst tæpast með mörgum frambjóðendum.

Fæstir þeirra, sem tilnefndir hafa verið, hafa tekið afstöðu til þess, hvort þeir geti hugsað sér að fara í framboð. Líklegt er, að sumir þeirra, sem ofarlega eru í hugum fólks, eigi erfitt með að sætta sig við tilhugsunina um að taka ábyrgð forsetaembættisins á herðar sínar.

Hinir eru svo enn fleiri, sem eiga erfitt með að sætta sig við óþægindin af langri kosningabaráttu, er kallar á fjölmennan hóp stuðningsfólks, sem er reiðubúið til að leggja fram tíma eða fé til baráttunnar. Ýmsir hinna tilnefndu munu því ekki fallast á að fara í framboð.

Bezt er, ef niðurstaðan verði sú, að einungis tveir eða þrír fari raunverulega í framboð, þegar skýrt er orðið, að þeir njóta víðtæks stuðnings í skoðanakönnunum og að í kringum þá safnast nokkur fjöldi stuðningsfólks, sem er tilbúið að standa undir framboðinu.

Málið er í ágætis farvegi. Núverandi forseti hefur skýrt frá ákvörðun sinni með hæfilegum fyrirvara, svo að val á nýjum forseta fær rúman meðgöngutíma. Fyrstu tvær vikur þess tíma benda til, að hann nýtist vel og málið fái farsælan endi að þessu sinni sem jafnan áður.

Þess verður oft vart, þegar forseti hefur verið kosinn, að fólk á erfitt með að hugsa sér annan forseta en þann eina. Þetta leiðir til þess, að seta á erfiðum forsetastóli verður lengri en æskilegt er. Það er ekki auðvelt að sitja undir slíku álagi í þrjú eða fjögur kjörtímabil.

Hingað til hefur verið tilhneiging til að ætlast til þess af forseta, að hann sitji sem lengst. Við sjáum hins vegar af umræðu síðustu tveggja vikna, að of mikið er gert úr erfiðleikum þjóðarinnar við að skipta um forseta. Það kemur maður í manns stað á þessu sviði sem öðrum.

Reynslan sýnir líka, að of mikið hefur verið gert úr sárindum og sundrungu, sem getur fylgt því, að margir eru kallaðir og aðeins einn útvalinn. Komið hefur í ljós, að vandamál af því tagi leysast fljótlega af sjálfu sér. Eftirleikur kosningabaráttu er tímabundinn vandi.

Íslendingar eiga við margvísleg vandamál að stríða. Val á nýjum forseta er ekki í þeim hópi. Það getur þvert á móti orðið þjóðinni ánægjulegt verkefni í vetur.

Jónas Kristjánsson

DV