Tilsjónarmaður ómerktur

Greinar

Ekki er von á góðu í sjúkrahúskostnaði landsins, þegar heilbrigðisráðherra tekur hvorki mark á tilsjónarmanni, sem hún skipaði yfir Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði, né á sérstakri nefnd, sem skipuð var til að athuga, hvort tillögur tilsjónarmannsins væru ráðlegar.

Venja er, að ráðherrar skipi aðeins þá tilsjónarmenn, sem þeir treysti til að ná þeim markmiðum, sem stefnt er að. Þess vegna hefði mátt búast við, að heilbrigðisráðherra samþykkti fyrir sitt leyti tillögur tilsjónarmannsins til að grafa ekki undan getu hans til að gera gagn.

Ef tilsjónarmenn geta ekki reiknað með, að ráðherrar, sem skipa þá, standi við bakið á þeim, hætta þeir að geta starfað eins og tilsjónarmenn verða að gera. Þeir verða í þess stað fangar heimamanna, sem berjast um á hæl og hnakka gegn hvers konar hugmyndum um sparnað.

Það var strax til marks um staðfestuleysi heilbrigðisráðherra, að hún treysti sér ekki til að styðja tilsjónarmann sinn, heldur skipaði nefnd til að fara yfir tillögur hans. Sú nefnd komst að sömu niðurstöðu og tilsjónarmaðurinn, en samt bilaði kjarkur ráðherrans.

Hagsmunafulltrúar Hafnarfjarðar lentu í minnihluta í nefndinni, en höfðu samt sitt fram. Þetta sjá sjúkrahússtjórnir og sveitastjórnarmenn um allt land. Þeir munu nú eflast og notfæra sér ístöðuleysi og vandræðagang ráðherrans til að drepa sparnaðarhugmyndum á dreif.

Ástandið á Sankti Jósefsspítala er hlutfallslega margfalt lakara en það er á ríkisspítölunum. Hallinn á rekstrinum er fimmtungur kostnaðarins. Ef ráðherrann nær ekki fram sparnaði við slíkar aðstæður, er vonlaust, að hún geti rekið sjúkrahús landsins af neinu viti.

Vandræði sjúkrahúsgeirans við afgreiðslu fjárlaga á Alþingi byggist einmitt á því, að heilbrigðisráðherra hefur ekki bein í nefinu til að hafa hemil á eyðsluöflunum. Þess vegna verða niðurstöðutölur svo háar, að skera þarf niður það, sem brýnna er en sukkið sjálft.

Tillögur tilsjónarmanns Sankti Jósefsspítala og nefndarinnar fólu í sér, að bráðavaktir yrðu lagðar þar niður og helgarvaktir flyttust til ríkisspítalanna í Reykjavík. Reiknað var út, hver kostnaðaraukinn yrði á móti á ríkisspítölunum og var það dæmi afar hagstætt.

Hlálegast í máli þessu er, að tillögur tilsjónarmanns og nefndar hefðu leitt til meira öryggis Hafnfirðinga um helgar, því að þá mundu þeir hafa beinan aðgang að sjúkrahúsum með margfalt öflugri sérhæfingu í læknisfræði heldur en fæst í Hafnarfirði einum.

Berserksgangur hagsmunagæzlumanna Hafnarfjarðar hefur því leitt til þess, að bráðaöryggi Hafnfirðinga verður minna um helgar en það hefði orðið, ef tillögurnar hefðu náð fram að ganga. Þetta veit ráðherrann mæta vel, en lét samt bugast í þessu máli sem ýmsum öðrum.

Slæm reynsla er af heilbrigðisráðherranum eftir rúmlega hálfs árs starf hennar. Með ráðleysi sínu hleður hún upp vandamálum í ráðuneytinu, sem síðan leiðir til, að allt fer á annan endann og niðurskurður brýnna þátta í heilbrigðiskerfinu verður miklu meiri en ella.

Versti þáttur þessarar reynslu er, að tilsjónarmenn og annað trúnaðarfólk ráðherrans getur ekki treyst á hana, er hún ráfar út og suður í ákvörðunum og skiptir um sjónarmið eftir frekjunni í tilfallandi hagsmunagæzlu hverju sinni. Hvergi er fastan punkt að finna.

Dæmigert fyrir þessi vinnubrögð er að skipa tilsjónarmann og skilja hann síðan eftir hangandi sem ómerking í lausu lofti með tillögur, sem ekki er farið eftir.

Jónas Kristjánsson

DV

Vopnaðir atvinnumenn

Greinar

Bankaránið á mánudaginn vekur athygli á nokkrum atriðum, sem einkenna íslenzk afbrot í vaxandi mæli. Ber þar einna hæst aukna aðild atvinnumanna, sem eru vel skipulagðir og fremja ekki afbrot sín undir þungum áhrifum læknalyfja, áfengis eða fíkniefna.

Reynslan sýnir, að íslenzkir rannsóknamenn eru vanbúnir að fást við glæpi af þessu tagi. Algengast er, að ræningjar finnist ekki og þurfi því ekki að svara til saka. Þannig hafa til dæmis ekki enn fundizt þeir, sem í febrúar rændu tvo benzínafgreiðslumenn á leið í banka.

Mikilvægt er, að rannsóknamenn nái sem fyrst tökum á þessari tegund glæpa til þess að draga úr fordæmisgildi þeirra. Með aukinni þjálfun, erlendri fræðslu og bættum mannskap á að vera unnt að upplýsa fleiri mál af þessu tagi og fækka afbrotum atvinnumanna.

Að ýmsu leyti eru aðstæður til rannsókna á afbrotum betri hér á landi en annars staðar. Landamæri ríkisins eru ljós og þjóðfélagið er í senn fámennt og heildstætt. Hér á landi ætti fremur en annars staðar að vera unnt að einangra undirheimana og skyggnast inn í þá.

Vopnaburður eða hótanir um vopnabeitingu eru annað atriði, sem í vaxandi mæli einkennir afbrot hér á landi. Skiptir þá litlu, hvort um raunveruleg vopn er að ræða eða ekki, því að fólkið, sem fyrir þeim verður, hefur enga aðstöðu til að ganga úr skugga um slíkt.

Aukinn vopnaburður afbrotamanna kemur raunar ekki á óvart frekar en aukin atvinnumennska þeirra. Hvort tveggja hefur í vaxandi mæli einkennt afbrot í nágrannalöndunum. Og rannsóknamenn á Norðurlöndum hafa einnig átt í mesta bazli með slík mál.

Vopnaburðurinn er alvarlegri en atvinnumennskan. Hún setur óbreytta borgara í hættu, sem atvinnumennskan ein gerir ekki. Raunar má gera því skóna, að atvinnumenn séu fólki minna hættulegir en skyndiglæpamenn, sem eru ruglaðir af notkun lyfja eða áfengis.

Bankar og aðrar stofnanir, sem hafa mikla peninga með höndum, geta aukið varúðarráðstafanir sínar langt umfram það, sem nú tíðkast hér á landi, og þannig lagt steina í götu atvinnumanna. Aukin gætni og aukin tækni í gæzlu peninga getur þannig haft mikil áhrif.

Öðru máli gegnir um vopnaburðinn. Ekki er hægt að verjast honum á sama hátt og atvinnumennskunni. Í því efni duga ekki varnir, heldur þarf að sækja inn í skúmaskot þjóðfélagsins og lýsa þau upp. Í því efni er nauðsynlegt að beina athyglinni að rótum vandans.

Íslenzka þjóðfélagið dregur því miður óhjákvæmilega dám af umhverfi sínu. Það er að verða flóknara og margbreytilegra. Gjár eru að myndast milli þjóðfélagshópa. Ekki sízt er taumlaus græðgi í vaxandi mæli höfð að leiðarljósi í öllum þrepum þjóðfélagsstigans.

Á efri þrepum eru ótal tækifæri til að þjóna græðginni innan ramma laganna. Í neðri þrepunum telja menn sig fremur þurfa að stytta sér leið út fyrir þann ramma, en hafa um leið óbeina fyrirmynd af hinum, sem greinilega þjóna græðgi sinni, þótt innan rammans sé.

Með betri innsýn í hugarheim og þjóðfélagsaðstæður vopnaðra atvinnumanna eiga rannsóknamenn að geta náð betri árangri við að upplýsa glæpi þeirra. Brýnt er að koma þeim skilaboðum á framfæri við upprennandi afbrotamenn, að þess háttar glæpir borgi sig ekki.

Hinn ljúfi tími viðskipta við vímaða kunningja lögreglunnar er að byrja að víkja fyrir tíma baráttu við alvöru glæpamenn eins og þeir tíðkast úti í hinum harða heimi.

Jónas Kristjánsson

DV

Kaleikur Alþingis

Greinar

Við afgreiðslu fjárlaga ber Alþingi að hafna tillögu ríkisstjórnarinnar um að fresta gildistöku nýlegra laga frá því í vor um greiðslur bóta til þolenda afbrota. Þessi tillaga er í senn ósiðleg og sýnir Alþingi um leið óvirðingu, því að bótagreiðslurnar eru nýkomnar í lög.

Með tillögunni lætur ríkisstjórnin eins og Alþingi sé eins konar bjálfastofnun, sem viti ekki, hvað hún geri, heldur samþykki eitthvað út í loftið, sem síðan verði að draga til baka hálfu ári síðar. Með því að samþykkja frestunina væri Alþingi að staðfesta þetta niðrandi álit.

Vel kann að vera, að Alþingi sé skipað bjálfum. En lögin frá því í vor um greiðslur bóta til þolenda afbrota eru alls ekki dæmi um það. Þvert á móti eru þetta afar brýn lög, sem kosta lítið og eru í samræmi við tilfinningu þjóðarinnar fyrir því, hvað sé rétt og rangt.

Fjárlagafrumvarpið er að venju fullt af óþörfum og jafnvel hættulegum útgjöldum, sem Alþingi getur skorið brott, áður en röðin kemur að jafn sjálfsögðum þætti eðlilegs velferðarkerfis og þessar bótagreiðslur eru. Þær munu fela í sér 40-50 milljóna króna kostnað á ári.

Ofbeldismenn, sem skaða fólk líkamlega eða andlega, eru yfirleitt ekki borgunarmenn fyrir skaðabótum, sem þeir eru dæmdir til að greiða fórnardýrum sínum. Reynslan sýnir, að þeir geta ekki eða vilja ekki greiða þessa peninga og komast yfirleitt upp með það.

Ríkisvaldið hefur tekið sér hlutverk öryggisvarðarins í þjóðfélaginu. Fyrsta hlutverk ríkisins og raunar helzta afsökunin fyrir tilveru þess er, að það gæti öryggis borgaranna inn á við og út á við. Það er til dæmis brýnna hlutverk en fræðsla, samgöngur og heilsugæzla.

Þegar ríkið bregzt í hlutverki öryggisvarðarins, ber það að nokkru leyti ábyrgð á tjóni, sem fólk verður fyrir. Þetta öryggisnet er að vísu að umtalsverðu leyti framkvæmt með gagnkvæmum skyldutryggingum, en að öðru leyti er það réttilega á vegum opinberra aðila.

Ekki er eðlilegt, að þolendur afbrota njóti ekki sama aðgangs að öryggiskerfinu og aðrir. Það er tilgangslítið að dæma ofbeldismenn til greiðslu bóta, sem þeir munu aldrei greiða. Þess vegna á ríkið að greiða þessar bætur sjálft og endurkrefja síðan afbrotamennina.

Oft hafa þolendur afbrota skerta getu til að reyna að innheimta slíkar skaðabætur af ofbeldismönnum, hafa til dæmis ekki ráð á að borga innheimtustofu fyrir vonlitlar fjárheimtutilraunir. Ríkið hefur hins vegar burði til að stunda slíkar innheimtur af hörku.

Upphæðirnar eru ekki háar á mælikvarða sameiginlegs sjóðs landsmanna. Samkvæmt lögunum eru hámarksbætur fyrir líkamstjón fimm milljónir króna og hámarks miskabætur ein milljón króna. Fyrir missi framfæranda eru hámarksbætur þrjár milljónir.

Með því að samþykkja lög um siðræna meðferð slíkra mála gaf Alþingi í vor fórnardýrum ofbeldismanna von um, að byrjað yrði að greiða bætur í sumar sem leið. Siðlítið dómsmálaráðuneyti Þorsteins Pálssonar fann sér króka til að fresta framkvæmdinni til áramóta.

Siðlítil ríkisstjórn hyggst nú fá Alþingi til að bíta höfuðið af skömminni með því að fresta framkvæmd laganna um ár í viðbót hið minnsta. Alþingi ber skýlaus siðferðisskylda til að neita að taka við þessum kaleik. Alþingi á að láta lögin gilda eins og önnur lög í landinu.

Alþingi rís að öðrum kosti ekki undir samanburði á þessum 50 milljóna króna útgjöldum og ýmsum hærri fjárlagaliðum, sem byggja á minni þörf og minna réttlæti.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvert fór bjartsýnin?

Greinar

Eftir rúmlega sex ára ferð um himingeiminn er geimfarið Galileo komið á braut umhverfis reikistjörnuna Júpíter, þar sem það mun verða næstu tvö árin og væntanlega senda mikilvægar upplýsingar til jarðar. Tæplega fjögurra milljarða kílómetra leið liggur að baki þess.

Geimskotið í árslok 1989 markaði endalok stórhuga tímabils í geimkönnun, sem náði hámarki frægðar, þegar maður steig fæti á tunglið. Í árslok 1995 eru viðhorfin til sóknar út í geiminn önnur en þau voru á þessum árum. Nú er lítið um djarfar ráðagerðir af þessu tagi.

Þótt Bandaríkin séu núna miklu ríkari en þau voru á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum, hafa þau núna síður ráð á könnun geimsins eða öðrum tímamótaverkum. Almennt má segja, að vestrænar þjóðir virðist ekki lengur hafa efni á að víkka sjóndeildarhring sinn.

Bjartsýni fyrri áratuga hefur hopað fyrir svartsýni nútímans, þótt árleg landsframleiðsla vestrænna þjóða hafi aukizt. Fyrir nokkrum áratugum taldi ungt fólk sér alla vegi færa. Nú telur fólk sig sleppa þolanlega, ef það fær yfirleitt pláss við færibönd atvinnulífsins.

Fyrir þremur áratugum var ungt fólk sannfært um að geta lagt stund á hvaða háskólanám sem væri og síðan fengið góða vinnu við hæfi. Nú geta ekki einu sinni nýútskrifaðir læknar og verkfræðingar verið vissir um, að umheimurinn telji sig þurfa á þeim að halda.

Svo virðist sem auknar tekjur þjóða hafi gufað upp í enn meiri aukningu á hversdagslegum útgjöldum, þannig að kraftur til nýrra verka hefur farið minnkandi. Sérstaklega er þetta áberandi í ríkisfjármálum, þar sem peningar sogast hraðar inn og verða að engu.

Það er ekki séríslenzkt fyrirbæri, að rekstrarkostnaður þenjist út á sjálfvirkan hátt, ryðji framkvæmdakostnaði til hliðar og gleypi smám saman allt það fé, sem er til ráðstöfunar. Við sjáum þetta um allan hinn vestræna heim, sem áður hafði ráð á að láta gamminn geisa.

Hinn óbærilegi hversdagsleiki hefur tekið við af ævintýraljómanum. Núna dettur engum í hug að senda mann til tunglsins eða geimfar til Júpíters. Allir eru önnum kafnir við að gæta hagsmuna sinna í fjárlagakökum af ýmsu tagi. Vesturlönd eru orðin að músarholu.

Þegar Ísland var fátækt nýríki lét þjóðin sig ekki muna um að reisa sér á örskömmum tíma Landsbókasafn, sem stendur fegurst húsa sem minnisvarði um bjartsýna þjóð. Þegar þjóðin var orðin rík, lenti hún í sífelldum töfum við að reisa arftaka í Þjóðarbókhlöðu.

Fyrir nokkrum áratugum lögðu íslenzk fyrirtæki að fótum sér freðfiskmarkaðinn í Bandaríkjunum og áætlunarflugið yfir Atlantshaf. Nú sitja menn bara tugum saman í nefndum á nefndir ofan til að spjalla um upplýsingaþjóðfélagið. Blaðrið hefur leyst verkin af hólmi.

Enn er verið að gera góða hluti. Íslenzk fyrirtæki eru að hasla sér völl á erlendum markaði. Töluverð gróska er í listum og menningu. En það er eins og topparnir séu mun lægri en áður. Flatneskjan verður smám saman meira áberandi í flestum greinum íslenzks þjóðlífs.

Þjóðin þarf að hætta að kaupa ný hús handa ríkinu til að fylla þau kontóristum og ráðstefnuliði. Þjóðin þarf að hætta að nota ríkið eins og úthlutunarskrifstofu handa þurftarfrekum atvinnuvegum fortíðarinnar. Í staðinn á hún að kasta fé sínu í ævintýri framtíðarinnar.

Ef það verða varanleg örlög þjóðarinnar að híma yfir fjárlagahalla og framtaksleysi, verður ekki mikið rúm fyrir bjartsýni til að þeyta okkur inn í 21. öldina.

Jónas Kristjánsson

DV

Hömlur á heilsukostnaði

Greinar

Heilbrigðisgeiri ríkisins hefur vikizt undan því að taka í alvöru á sjálfvirkri aukningu kostnaðar af óbreyttri þjónustu. Slagurinn um innritunargjöld á spítala er afleiðing af, að heilbrigðisgeirinn hefur ekki náð tökum á útgjöldunum, einkum þeim hluta, sem fer til sjúkrahúsa.

Sjúkrahústækni eykst sífellt og verður dýrari. Ný og dýrari lyf eru sífellt að koma til sögunnar. Heilbrigðisgeirinn er í vonlausu kapphlaupi við þessa þróun, sem hefur aðeins jaðaráhrif á heilbrigði þjóðarinnar. Í staðinn er vanrækt það, sem einfaldara er og árangursríkara.

Ríkisspítalarnir fara ekki eftir fjárlögum og segja slíkt ekki hægt. Þar sem ráðamenn þeirra og heilbrigðisráðuneytið skirrast við að fara eftir leikreglum þjóðfélagsins, er fjármálaráðuneytið að reyna að ná mismuninum með því að koma innritunargjöldum í fjárlagafrumvarpið.

Það mun ekki takast í þetta sinn. Í staðinn verður skorið af þjónustu ríkisspítalanna. Því miður verður skorið eitthvað, sem er einfalt og nytsamt, en reynt að halda í nýjustu og dýrustu tízkulækningarnar, sem koma heilbrigðismálum þjóðarinnar aðeins að jaðargagni.

Þannig mun darraðardansinn halda áfram, unz heilbrigðisráðuneytið og ríkisspítalarnir fara að spyrja um skilvirkni kerfisins og byrja að raða verkefnum í forgangsröð með nokkurri hliðsjón af lækkunaráhrifum þeirra á veikinda- og slysakostnað þjóðarinnar.

Þessir aðilar neyðast til að átta sig á, að þak er komið á útgjöld þjóðarinnar til heilbrigðismála. Þjóðin hefur einfaldlega ekki ráð á meiri útþenslu. Það er svo verkefni ráðuneytis og ríkisspítala að byrja að velja og hafna af viti, rétt eins og hver önnur hagsýn húsmóðir.

Allir aðilar í þjóðfélaginu þurfa að velja og hafna. Sumt af þessu vali getur verið mjög erfitt í framkvæmd. Í heilbrigðisgeiranum þurfa mannúð og hagsýni að koma saman að málum, svo að niðurstaðan verði í senn skilvirk og réttlát. En það þýðir ekki að draga lappirnar.

Innritunargjald er aðeins ein leiðanna til að draga úr aðsókn að sjúkrahúsum og ekki endilega sú bezta. Með aukinni heilsugæzlu á frumstigi vandamálanna og hreinum forvörnum má einnig draga úr þörfinni á þjónustu hátæknivæddra stofnana á borð við ríkisspítalana.

Sumar forvarnir geta meira að segja staðið undir sér fjárhagslega. Til dæmis mætti setja gjald á sykur- og sætuefnainnihald matvæla með sama hugarfari og gjald er sett á tóbak og áfengi og nota tekjurnar til að fræða fólk um heilsuspillandi áhrif sykurs og sætuefna.

Ef hægt væri með slíkum hætti að minnka notkun þjóðarinnar á þessum efnum um fjórðung, væri sjálfkrafa búið að snarminnka álagið á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um alveg ókannaða stigu í heilbrigðisgeiranum.

Pillu- og tækjasalar eru fyrirferðarmiklir í heilbrigðisgeiranum. Læknatímaritin eru fjármögnuð af slíkum aðilum utan úr heimi. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra, enda byggjast vandræði heilbrigðisgeirans á oftrú ráðamanna hans á nýjustu pillur og nýjustu tæki.

Heilbrigðisgeirinn þarf allur að endurskoða tilgang sinn og tilverurétt í þjóðfélaginu. Hann þarf að leita að upphafi sínu, finna rætur sínar og hugsa dæmið á nýjan leik. Hann verður hvort sem látinn hætta að leika lausum hala í kostnaðarliðum ríkisfjárlaga og ríkisreikninga.

Darraðardansinn um kostnað heilbrigðisgeirans er þegar farinn að skaða þjónustu hans við fólkið í landinu. Mál er, að honum linni og við taki vitrænn sparnaður.

Jónas Kristjánsson

DV

Ókristilegir kirkjugarðar

Greinar

Skátar á Akureyri afla sér fjár með því að bjóða fólki að setja upp raflýsta krossa á leiði í kirkjugörðum um jól og taka 1.200 krónur fyrir það. Á vegum Kirkjugarða Reykjavíkur eru líka sett upp ljós um jól og kostaði það rúmlega 5.000 krónur, þangað til DV benti á okrið.

Kirkjugarðar Reykjavíkur fela tveimur aðilum að annast þetta og hefur hvor aðili um sig einokun á sínum garði. Þetta einokunarkerfi er svo sem ekki öðruvísi en annars staðar á landinu, þar sem veitt er þjónusta á þessu sviði, en er langsamlega dýrast í Reykjavík.

Sums staðar á landinu er þjónusta af þessu tagi veitt ókeypis. Til dæmis er á Raufarhöfn fyrir hver jól komið fyrir rafmagnstöflu, sem aðstandendur hafa aðgang að. En sá er munurinn, að vegalengdir eru stuttar í þeim kirkjugarði, svo að hver getur haft sinn kapal.

Í stórum kirkjugörðum eins og á Reykjavíkursvæðinu þarf greinilega skipulag á lagningu rafmagnskapla. En slíkt skipulag getur leitt til einokunar og okurs, ef ekki er rétt staðið að málum. Okrið í Reykjavík er ýkt mynd af því, sem getur gerzt við slíkar aðstæður.

Kirkjugarðar Reykjavíkur hafa verið mikið í fréttum á undanförnum árum. Þeir hafa sætt dómi fyrir ólögmæta viðskiptahætti, sem fólust í, að þeir notuðu hluta af kirkjugarðsgjöldum fólks til að greiða niður gjaldskrá jarðarfara til að undirbjóða einkaaðila í útförum.

Prófastsembættin í Reykjavík og þjóðkirkjan báru blak af Kirkjugörðum Reykjavíkur meðan á þessum málaferlum stóð og óhreinkuðu sig af því. Nú láta prófastsembættin og þjóðkirkjan kyrrt liggja, þótt einokunarstofnunin sé að láta okra á aðstandendum látinna á jólunum.

4.000-5.000 krónur eru mikið fé fyrir sumt fólk, þótt kirkjunnar menn telji það ef til vill vera smámuni. Í hópi þeirra, sem vilja skreyta leiði fyrir jólin, eru til dæmis ekklar og ekkjur, sem búa við of þröngan kost. Engin ástæða er til að níðast svona á þessu fólki.

Sem betur fer getur aðhaldssamt fólk komizt hjá einokun kirkjugarðanna með því að kaupa ljósker eða krossa, sem ganga fyrir rafhlöðum og kosta miklu minna en kirkjugarðsrafmagnið. Einokunin er því ekki alger, en ekki er öllum kunnugt um þessar undankomuleiðir.

Stjórnendur Kirkjugarða Reykjavíkur hafa orðið sér til svo mikillar skammar á undanförnum árum, að þeim ber að láta af störfum. Í staðinn á að fá fólk, sem stundar kristilega viðskiptahætti og lendir ekki í réttvísinni fyrir að undirbjóða eða okra í krafti einokunarstöðu.

Bezta leiðin til að skipuleggja jólaskreytingar á leiðum í borginni er, að Kirkjugarðar Reykjavíkur bjóði út verkið og afhendi það þeim, sem býðst til að gera það fyrir lægst verð. Verðið yrði væntanlega nær 1.000 krónum en 4.000 krónum og sennilega innan við 1.000 krónur.

Prófastsembættunum og þjóðkirkjunni ber að líta alvarlegum augum á vandræðin í Kirkjugörðum Reykjavíkur og gera ráðstafanir til að þau endurtaki sig ekki. Ástæðulaust er fyrir þessa aðila að láta blett á sig falla fyrir að halda verndarhendi yfir ókristilegu athæfi.

Allt of mikið er um það hér á landi, að látið sé kyrrt liggja, þótt menn í ábyrgðarstöðum standi sig illa. Alls staðar er verið að sýna óhæfu fólki umburðarlyndi og gera þjóðfélagið þar með óskilvirkara og dýrara en það væri, ef ábyrgðarstöður þess væru betur mannaðar.

Fyrir næstu jól ber prófastsembættunum og þjóðkirkjunni að sjá um, að Reykvíkingar geti fengið raflýsingu á leiði fyrir 1.000 krónur eða lægra verð.

Jónas Kristjánsson

DV

Kreppan skipti stéttum

Greinar

Klofningurinn í Alþýðusambandinu endurspeglar vaxandi mismun á hagsmunum fólks í stéttarfélögum landsins, sem leiðir af vaxandi stéttaskiptingu í þjóðfélaginu upp á síðkastið. Sumir eru með í þjóðfélagsbreytingunum, en aðrir eru í vaxandi mæli að verða útundan.

Að baki forustu Alþýðusambandsins eru einkum þrjú sjónarmið. Eitt þeirra er tiltölulega einfalt og fámennt, en áhrifamikið, af því að það varðar einkum forustufólkið. Það eru hagsmunir yfirstéttarinnar í samtökunum, sem sitja í stjórnum lífeyrissjóða og hafa það gott.

Þetta fólk hefur mikla hagsmuni af því, að þjóðarsáttir séu gerðar og haldizt. Þetta er atvinnufólk í félagsmálum, sem sómir sér eins vel í bankastjórastólum og í forsetastóli Alþýðusambandsins. Það er vant að höndla peninga í lífeyrissjóðum og er hluti yfirstéttar landsins.

Traustasta stuðningsfólk þessarar greinar yfirstéttarinnar er það, sem á sínum tíma var uppnefnt sem uppmælingaraðall. Það er að vísu of þröng skilgreining á hópnum, sem felur í sér alla þá, sem hafa nokkuð góð lífskjör, þrátt fyrir tiltölulega lága kauptaxta.

Þetta fólk er hluti af velmegunarþjóðfélaginu. Það ákveður að taka hluta af þeim 1.500 sætum, sem bjóðast skyndilega í spánnýjum Bahamaferðum. Það spókar sig á götum Dyflinnar og kemur heim með troðnar ferðatöskur. Það tekur virkan þátt í lífsgæðakapphlaupinu.

Við vitum, að þetta er fjölmennur hópur, þótt kauptaxtar séu lágir hjá flestum stéttarfélögum. Við sjáum af neyzluvenjum fólks, að meirihluti þjóðarinnar býr við ljúfan kost, þótt kauptaxtar séu hér á landi að meðaltali helmingi lægri en hliðstæðir taxtar í Danmörku.

Fólk nær velmegun á ýmsan hátt, sumt með uppmælingu og annað með aðgangi að mikilli aukavinnu. Enn aðrir gera það með því að fara á námskeið eða læra eitthvað, sem gerir vinnu þeirra verðmætari. Algengast er að fólk geri það með því að hjón vinni bæði úti.

Þriðji hópurinn hefur sætt rýrnandi lífskjörum, en styður samt forustu Alþýðusambandsins, af því að hann vill ekki tapa jólauppbót og missa tekjur í verkföllum eða skæruhernaði. Þetta fólk vill ekki rugga bátnum og vonar, að samdráttartímabil undanfarinna ára sé á enda.

Sumt af þessu fólki hefur sætt minni tekjum vegna samdráttar í greiðslum, sem eru umfram bera kauptaxta. Í kreppunni hafa fyrirtæki getað sparað sér útgjöld með því að draga úr greiðslum af þessu tagi og raunar komizt þannig hjá að segja upp fólki.

Fólk, sem lendir í þessum aðstæðum, bregzt við á tvennan hátt. Sumir beygja sig og hugsa sem svo, að betra sé að sæta minni tekjum en að missa vinnu, enda þurfi fyrirtækin að lifa, svo að þjóðarhagur hrynji ekki. Aðrir vilja aðgerðir til að endurheimta lífskjörin.

Þessi fjórði og síðasti hópur er sá, sem ræður því, að nokkur stærstu verkamannafélög landsins hafa sagt eða eru að segja upp kjarasamningum. Í þessum félögum er einmitt flest fólkið, sem er í þriðja og fjórða hópi og sér stöðu sína versna, meðan aðrir gera það nokkuð gott.

Hér verður ekki gerð tilraun til að meta, hversu fjölmennir séu hinir einstöku hópar. Erfitt er að spá í hug þeirra, sem hafa sig lítið í frammi og taka ekki þátt í atkvæðagreiðslum. Hitt er ljóst, að klofningurinn veldur því, að ófriðlegt er um sinn á vinnumarkaðinum.

Herkostnaður kreppunnar felst einkum í aukinni stéttaskiptingu í þjóðfélaginu og aukinni hættu á skaðlegum átökum um stöðu þeirra, sem lakast eru settir.

Jónas Kristjánsson

DV

Dónaskapur á netinu

Greinar

Hér á landi gætir þeirrar skoðunar eins og víða annars staðar, að dónaskapur á netinu og þá sérstaklega á vefnum sé alvarlegt mál, sem þurfi að bregðast við með einhverjum hætti. Hefur meðal annars verið lögð fram á Alþingi ályktunartillaga um meiðyrði á netinu.

Þegar fjallað er um þessi mál, er gott að gera greinarmun á samgöngutækjunum annars vegar og samgönguleiðinni og tækninni að baki samgöngutækjanna hins vegar. Þetta má skýra af dæmum af öðrum sviðum samgangna, sem geta verið dónaleg og ofbeldishneigð.

Vegakerfi landsins er notað af glæpamönnum á leið þeirra til dóna- og ofbeldisverka og frá þeim. Engum dettur í hug að kæra Vegagerðina fyrir þessa hættulegu notkun vegakerfisins, né heldur dettur nokkrum í hug að kæra framleiðendur bíla fyrir sama athæfi.

Pósturinn er gamalkunnug samgönguleið dónaskapar og ofbeldisáráttu. Menn senda frá sér alls kyns póst, bæði til þeirra, sem vilja fá slíkan póst, og til hinna, sem kæra sig ekkert um hann eða eru honum jafnvel andvígir. Enginn kærir Póst og síma fyrir þessa notkun.

Síminn hefur frá upphafi verið notaður af glæpamönnum til að skipuleggja verk sín. Ennfremur er hann töluvert notaður af ýmiss konar geðbiluðu fólki til að koma á framfæri sjúkleika sínum, til dæmis til starfsmanna Þjóðarsála af ýmsu tagi og annarra, sem hlusta vilja.

Enginn kærir Póst og síma fyrir þessa notkun símans. Menn geta hins vegar kært Þjóðarsálir og starfsmenn þeirra fyrir að ritstýra ófögnuðinum út í ljósvakann. Og menn geta kært beint þá geðbiluðu, ef þeir hringja með ófögnuðinn í þá, sem vilja ekki hlusta á hann.

Pappír hefur öldum saman verið ein merkasta samgönguleiðin. Hann er notaður af alls konar fólki til að skrifa alls konar hluti, suma dónalega eða ofbeldishneigða. Sumt af þessu er fjölritað með ýmsum hætti og jafnvel prentað og fer í tímarit, blöð og bækur.

Pappírnum eða framleiðendum hans er ekki kennt um misnotkun hans, né heldur framleiðendum fjölritunar- og prentunartækja. Það er ekki fyrr en einhver fer að fjölfalda dónaskapinn og dreifa honum, að unnt er að gera einhvern ábyrgan, ritstjóra eða útgefanda.

Filmur og myndbönd eru mest notuðu samgönguleiðirnar til að koma á framfæri dónaskap. Ábyrgðin á því efni liggur hjá framleiðendum kvikmynda og dreifingaraðilum, en ekki í samgönguleiðunum, sem þeir nota, hvorki filmum og myndböndum né ljósvakanum.

Þegar til sögunnar kemur ný samgönguleið, til dæmis netið og sú sérstaka hlið þess, sem kölluð er vefurinn, er skynsamlegt að átta okkur á, að þetta er bara samgönguleið og sem slík ekki ábyrg fyrir innihaldinu. Það er ekki einu sinni, að menn sendi neitt á vefnum.

Eðli vefsins er, að efnið liggur í tölvum manna hér og þar um heiminn. Til þess að fá dónaskapinn til sín verða menn að sækja hann á vefnum inn í tölvur annarra. Dreifingin er af völdum viðtakenda en ekki framleiðanda. Þeir deila því með sér ábyrgðinni á athæfinu.

Það erfiða í þessu eins og í annarri fjölmiðlun er, að foreldrar geta ekki stýrt notkun barna sinna, þegar þeir eru ekki viðlátnir. Börn ná því í dónablöð og dónaspólur, opna dónapóst, hlusta á dónasímalínur, kveikja á dónarásum sjónvarps og sækja dónaskap á neti og vef.

Til úrbóta er bezt að framleiða hugbúnað í tölvur, síma og sjónvarpstæki, sem gerir foreldrum kleift að grisja dónalegt efni, þannig að það komist síður þar í gegn.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólitísk búsetuskil

Greinar

Í síðustu skoðanakönnun DV kom fram, að fjórir íslenzkir stjórnmálaflokkar eru eindregnir flokkar höfuðborgarsvæðisins að fylgi til, þótt þess sjáist ekki merki í gerðum þeirra allra. Þetta eru Sjálfstæðisflokkurinn, Alþýðuflokkurinn, Kvennalistinn og Þjóðvaki.

Sjálfstæðisflokkurinn hafði 55% fylgi á höfuðborgarsvæðinu á móti 39% fylgi á landsbyggðinni. Alþýðuflokkurinn hafði 15% fylgi á höfuðborgarsvæðinu á móti 10% fylgi á landsbyggðinni. Kvennalistinn hafði á sama hátt 6% og 2% fylgi og Þjóðvaki hafði 3% og 1% fylgi.

Aðeins einn þessara flokka tekur umtalsvert tillit til sjónarmiða höfuðborgarsvæðisins. Það er Alþýðuflokkurinn. Hinir flokkarnir, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar, keppast um að þjónusta byggðastefnu af ýmsu tagi, þar á meðal misjafnan kosningarétt kjósenda.

Framsóknarflokkurinn er hinn eini, sanni landsbyggðarflokkur að fylgi til. Hann hefur 31% fylgi á landsbyggðinni og tæplega 10% fylgi á höfuðborgarsvæðinu. Í humátt á eftir kemur Alþýðubandalagið með 16% fylgi á landsbyggðinni og 12% fylgi á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt þessum tölum er eðlilegt, að Framsóknarflokkurinn sé helzti hagsmunaflokkur landsbyggðarinnar og að Sjálfstæðisflokkurinn sé helzti hagsmunaflokkur höfuðborgarsvæðisins. Í reynd eru þessir tveir flokkar hins vegar sömu megin borðsins í hagsmunagæzlunni.

Merkilegasti þáttur þessa máls er, að Sjálfstæðisflokkurinn sækir fylgi sitt til höfuðborgarsvæðisins og notar það til að gæta sérhagsmuna landsbyggðarinnar. Þetta gefst honum afar vel, enda sýna skoðanakannanir mikið og vaxandi fylgi flokksins á höfuðborgarsvæðinu.

Ein afleiðinga þessa misræmis er, að sjaldan og lítið gerist nokkuð í jöfnun atkvæðisréttar, þótt stundum sé masað mikið um hana fyrir kosningar. Þannig tregðaðist Sjálfstæðisflokkurinn í síðustu ríkisstjórn við að ýta málinu áfram, svo að nánast ekkert varð úr verki.

Af því að kjósendum á höfuðborgarsvæðinu er flestum sama um, þótt hvorki gangi né reki í þessu réttlætismáli, nær Sjálfstæðisflokkurinn þeim árangri að hala inn fylgi þeirra, sem hann vinnur gegn. Andstaðan við atkvæðamisréttið ristir því ekki djúpt hjá kjósendum.

Í framkvæmd lítur dæmið þannig út, að meirihluta Alþingis skipa landsbyggðarþingmenn, sem eru önnum kafnir við að gæta sérhagsmuna heimamanna, og minnihlutann skipa þingmenn frá höfuðborgarsvæðinu, sem leiða sérhagsmunastríðið að mestu hjá sér.

Þetta byggist auðvitað á því, að kjósendur á höfuðborgarsvæðinu líta á sig sem íslenzka kjósendur og ætlast ekki til sérhagsmunagæzlu af pólitískum umboðsmönnum, en kjósendur á landsbyggðinni líta á sig sem heimakjósendur og krefjast hagsmunagæzlu sinna manna.

Þannig verður sú verkaskipting á Alþingi að þingmenn höfuðborgarsvæðisins sérhæfa sig í almannahagsmunum og þingmenn landsbyggðarinnar sérhæfa sig í staðbundnum hagsmunum. Ef þessir hagsmunir rekast á, eru almannahagsmunir yfirleitt látnir víkja.

Þannig er til dæmis þrengt að stóru sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu og lokað þar deildum á sama tíma og verið er að stækka sjúkrahús á landsbyggðinni, þótt ekki sé þar aðstaða til að sinna sjúklingum í samræmi við kröfur nútímans. Á öllum sviðum eru dæmin svona.

Þannig mun þetta verða áfram meðan kjósendur eru í raun sáttir við að stjórnmálamenn og -flokkar þjóni þröngum og staðbundnum sérhagsmunum af ýmsu tagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Byrjar Evrópa hér?

Greinar

Til skamms tíma hafa margir íslenzkir stjórnmálamenn vonað, að Norðurlönd Evrópusambandsins mundu ekki gerast aðilar að Schengen-samkomulaginu um sameiginleg ytri landamæri, án þess að um leið yrði varðveitt gamla Norðurlandasamstarfið á sama sviði.

Nú er hins vegar að koma í ljós, að Danmörk, Finnland og Svíþjóð munu ekki bíða eftir Íslandi og Noregi. Ríkin þrjú í Evrópusambandinu telja sig hafa svo mikilla hagsmuna að gæta á meginlandi Evrópu, að þau geti ekki lengi neitað sér um aðild að samkomulaginu.

Meira máli skiptir fyrir Danmörku, Finnland og Svíþjóð að hafa sameiginleg landamæri með Evrópusambandinu öllu heldur en að hafa samning um vegabréfafrelsi við Ísland og Noreg. Þetta mál sýnir í hnotskurn meira aðdráttarafl evrópsks en norræns samstarfs.

Á öllum hagkvæmnissviðum er norrænt samstarf dauðans matur öðruvísi en sem norrænt samstarf innan Evrópu. Hnignunareinkennin hafa lengi verið ljós á norrænu samstarfi, því að fátt merkilegt hefur gerzt á því sviði á meðan evrópskt samstarf geysist fram.

Til þess að leysa málið hefur Íslandi og Noregi verið boðin aðild að tilraunum til að finna leið fyrir þessi tvö lönd til að vera innan sameiginlegra landamæra Evrópusambandsins. Það þykir fýsilegur kostur, en kostar umfangsmiklar breytingar á flugstöð Keflavíkurvallar.

Við þurfum að sjá um, að óæskilegt fólk komist ekki á Keflavíkurvelli inn fyrir hlið Evrópu, gerast aðilar að upplýsingakerfi Schengen-samkomulagsins um hættulegt fólk og að aukinni lögreglusamvinnu á þessu sviði. Þetta kostar nýjar framkvæmdir og aukinn rekstur.

Við þurfum að koma upp sérstakri og aðskilinni aðstöðu til að taka við fólki, sem kemur inn fyrir landamæri Evrópu á Keflavíkurvelli, einkum fólki í áætlunarflugi frá Norður-Ameríku. Þetta fólk kemur flest á skömmu tímabili snemma morguns á degi hverjum.

Við stöndum því andspænis tveimur kostum. Annars vegar missum við núverandi hagræði af norrænu vegabréfafrelsi. Hins vegar þurfum við að borga hundruð milljóna í framkvæmdir og tugi milljóna í árlegan rekstur aðildar að nýju og meira samgöngufrelsi í Evrópu.

Danir, Finnar og Norðmenn efast ekki um, að það henti þeim að fórna norræna vegabréfasamstarfinu og leggja í kostnað við að taka að sér gæzlu ytri landamæra Evrópu. Við munum eiga erfiðara með að gera upp hug okkar, því að okkur vex kostnaðurinn í augum.

Þjóðir eins og Danir eiga auðvelt með að sjá haginn af opnum landamærum til suðurs, af því að þeir eru góðir kaupsýslumenn. Við erum hins vegar lélegir kaupsýslumenn og sjáum fyrst og fremst kostnaðinn af því að hrekjast inn fyrir sameinuð landamæri Evrópu.

Við munum smám saman þurfa að taka fleiri ákvarðanir af þessu tagi. Hvenær sem gamalt samstarf Norðurlanda rekst á við nýtt samstarf Evrópu, mun norræna samstarfið verða að víkja. Við munum velja um aukna einangrun eða dýra aðild að auknu Evrópusamstarfi.

Meðan við erum enn svo einangrunarsinnuð, að við treystum okkur ekki til að taka áhættu af tækifærunum við að vera í Evrópusambandinu, getur aðild að samningum á borð við Schengen brúað bilið fram að ákvörðun og gert okkur gjaldgenga aðila í fyllingu tímans.

En þjóðarsátt er hér á landi um einangrunarstefnu, sem ríkisstjórnin fylgir eindregið. Því er hætta á, að við verðum að sinni að kúldrast utan landamæra Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV

Vilji er allt sem þarf

Greinar

Með friðarsamningum erfðaríkja Júgóslavíu hafa Bandaríkin á ný tekið upp forustuhlutverk sitt sem eina heimsveldið. Þau hafa tekið við evrópsku klúðri og knúið málsaðila til að semja um niðurstöðu, sem unnt verður að láta þá standa við með góðu eða illu.

Ekkert er í sjálfu sér að marka undirskriftir málsaðila frekar en fyrri daginn. Þess vegna skiptir máli, að samkomulagið felur í sér, að komið verður í fyrsta skipti upp alvöru friðargæzlu á ófriðarsvæðunum, svo að friðargæzluliðar verða ekki framar gíslar óaldarmanna.

Sextíu þúsund manna herlið Atlantshafsbandalagsins í Bosníu og Króatíu verður grátt fyrir járnum og hefur ströng fyrirmæli um að láta óaldarlýðinn ekki hafa sig að fífli, svo sem hingað til hefur verið raunin hjá misheppnaðri friðargæzlu Sameinuðu þjóðanna á svæðinu.

Aðeins einni mikilvægri spurningu er ósvarað. Hún fjallar um úthald Bandaríkjamanna. Það hefur reynzt afar lítið í fyrri vandræðamálum af þessu tagi, svo sem dæmin sýna frá Líbanon og Sómalíu. En ástæða er til að ætla, að málið sé mun betur undirbúið núna.

Friðurinn í Bosníu er ekki sanngjarn, en hann er friður. Serbar fá of mikið land út úr samningunum. Verra er þó, að samningamenn Bandaríkjamanna hafa undir borðið fallizt á að reyna að bregða fæti fyrir, að verstu stríðsglæpamenn Serba verði dregnir fyrir dóm.

Bandaríkjastjórn lét stríðsglæpadómstólnum í Haag ekki í té loftmyndir af fjöldagröfunum í Srebrenica fyrr en blöðin voru farin að segja frá myndunum og hefur enn ekki látið dómstólinn hafa mikilvægar hleranir af símtölum milli Milosevic, Karadzic og Mladic.

Hafa verður í huga, að þeir þremenningar eru áreiðanlega ekki minni stríðsglæpamenn en þeir, sem voru hengdir eftir réttarhöldin í N”rnberg, ef tillit er tekið til hins skamma tíma, sem þremenningarnir hafa haft til verka sinna. Þeir verða blettur á heiðri Nató.

Ekki verður á allt kosið, þegar áður er búið að klúðra málum. Ef frönsk og einkum þó brezk stjórnvöld hefðu ekki tregðazt við að sýna Serbum í tvo heimana, meðan þessi ríki höfðu forustu fyrir Vesturlöndum í máli þessu, hefði aðeins brot stríðsglæpanna verið framið.

Engin furða er, þótt Bandaríkin hafi ekki viljað taka þátt í brezk-frönskum fíflaskap varnarlauss friðargæzluliðs á landi, og lagt áherzlu á, að Serbar yrðu teknir í gegn úr lofti. Enda kom í ljós, að koma þurfti friðargæzluliðinu í skjól til að geta hafið lofthernað.

Mál þetta hefur sannað, að Vestur-Evrópa er ófær um að taka við hlutverki Bandaríkjanna sem gæzluaðili friðar í eigin heimshluta. Annaðhvort er í Evrópu bandarískur friður eða alls enginn friður. Bandaríkin eru eini aðilinn, sem hefur siðferðisþrótt til slíks hlutverks.

Hernaðarlega var Bretland eitt sér eða Frakkland eitt sér fært um að knýja fram þann frið, sem nú er orðinn í erfðaríkjum Júgóslavíu. En þau höfðu ekki til slíks þrótt, hvorki ein sér, saman eða í samlögum við önnur lönd í samtökum á borð við Evrópusambandið.

Friðurinn hefur endurvakið Atlantshafsbandalagið, sem var komið að fallanda fæti eftir hvarf Sovétríkjanna og var búið að afla sér háðungar í þjónustunni hjá Sameinuðu þjóðunum við friðargæzlu. Nú fær bandalagið aftur hlutverk, sem gefur því framhaldslíf að sinni.

Aftur og aftur sjáum við í veraldarsögunni, að efnahags- og hernaðarmáttur skiptir litlu í samanburði við innri styrk. Vilji er raunar allt sem þarf.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslendingar eru sóðar

Greinar

Þjónustulipur yfirdýralæknir gengur misjafnlega rösklega til verks eftir því, hvort mengun er þjóðleg og íslenzk eða óþjóðleg og útlenzk. Hann ofsækir ímyndaða salmonellu frá Svíþjóð og Hollandi og heldur verndarhendi yfir áþreifanlegri og innlendri salmonellu.

Íslenzk matvælafyrirtæki sunnan og norðan fjalla og austan og vestan eru vaðandi í salmonellu. Þótt niðurstöður mælinga séu aftur og aftur hinar sömu, fá fyrirtækin vinsamleg áminningarbréf, en mengaður reksturinn heldur áfram eins og ekkert hafi í skorizt.

Ástandið í íslenzkri matvælaframleiðslu er lakara en í nágrannalöndunum. Orsökin er einfaldlega óvenjulega mikill sóðaskapur Íslendinga, sem nota ár og skurði fyrir skolpræsi og bera úrgang sinn á opna hauga. Um þetta hafa verið ótal dæmi í fréttum allra síðustu árin.

Fræg er mengunin í Rangá frá Hellu og akstur saurs um Hvolsvöll, svo og langvinn mengun í eyfirzkum kjúklingum. Og nú eru það sviðin frá Selfossi. Allt byggist þetta á því, að við höfum of litla tilfinningu fyrir nauðsyn þess að umgangast náttúruna af gætni og virðingu.

Þess vegna er mengunin orðin að hluta íslenzkrar náttúru. Fuglar komast í opna mengun frá mannabyggðum og koma henni í hringrás, sem lendir í afurðum landbúnaðarins á borði neytenda. Opinberir eftirlitsaðilar senda mönnum síðan vinsamlegar ábendingar.

Sem dæmi um kerfið má nefna, að hagsmunir landbúnaðarins hafa ráðið því, að ekki er skylt að hafa rotþrær við sveitabæi, þótt skylt sé að hafa þær við sumarbústaði. Þetta er gert til að lækka stofnkostnað í landbúnaði, en leiðir til víðtækrar mengunar um land allt.

Hagsmunir landbúnaðarins og einkum þó vinnslustöðva landbúnaðarins ráða því einnig, að mengaður rekstur er ekki stöðvaður og að yfirdýralæknir er látinn eyða tíma sínum í ofsóknir gegn ímyndaðri mengun í innfluttum matvælum í kjölfar GATT-samkomulagsins.

Ofan á linkind við mengun í landbúnaði og vinnslu búvöru bætist linkind í garð sveitarstjórna, sem vilja verja fjármunum sínum til annars en mengunarvarna. Grátbroslegt dæmi er Hveragerði, sem kallar sig heilsubæ, en ber ábyrgð á einna menguðustu á landsins.

Útbreiðsla mengunar í náttúru landsins kemur ekki aðeins fram á borðum íslenzkra neytenda. Hún kemur líka fram í útflutningsafurðum okkar, svo sem í fiskimjöli. Ástandið getur hæglega leitt til verulegs hnekkis í langtímahagsmunum útflutningsatvinnuvega.

Bjartsýnir menn eru að reyna að gera íslenzkt vatn að söluvöru. Ef útlendingar komast að raun um, hveru mikill er sóðaskapurinn í náttúru Íslands, er hinni nýju atvinnugrein stefnt í voða. Sama er að segja um tilraunir til að selja lífræna búvöru frá Íslandi.

Andvaraleysið kemur meðal annars í ljós hjá Hollustuvernd. Hún er dæmigerð skriffinnskustofnun, sem kemur litlu í verk. Hún sér til dæmis ekki um, að innlend neyzluvara sé rétt merkt á sama hátt og innflutt neyzluvara. Þetta má sjá af vörum, sem eru hlið við hlið í búðum.

Hér á landi eru mengunarvarnir og hollustuvernd innantóm hugtök, sem höfð eru að yfirvarpi þjónustulipurðar við innlenda hagsmunaaðila og notuð til að hindra innflutning eða spilla götu hans. Þetta er farið að koma okkur í koll og mun valda okkur meiri vandræðum.

Við skulum fara að byrja að læra stafrófið í umgengni við umhverfi okkar. Það er eina leiðin til að reyna að tryggja framtíð innlendrar matvælaframleiðslu.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestrænir ábyrgðarmenn

Greinar

Kvörn stríðsglæpadómstólsins í Haag malar hægt en örugglega. Dómstóllinn hefur þegar einn Serba í haldi og hefur ákært nokkra tugi Serba og nokkra Króata fyrir stríðsglæpi. Glæpir þeirra eru taldir miklu ógeðfelldari en glæpir nazista í síðari heimsstyrjöldinni.

Komið hefur í ljós, að ekki eiga við rök að styðjast kenningar ýmissa bjálfa á Vesturlöndum um, að stríðsglæpir Serba séu uppfinning auglýsingastofu á vegum Bosníustjórnar. Þvert á móti hefur verið vanmetið, hve víðtækir og alvarlegir glæpirnir hafa verið.

Þá hefur breytilegt gengi stríðsaðila opnað aðgang blaðamanna að svæðum, sem áður voru bannsvæði. Þeim hefur með hjálp sjónarvotta tekizt að opna fjöldagrafir, sem staðfesta, að Serbar hafa framið miklu víðtækari og skipulegri fjöldamorð en áður hafði verið talið.

Þessar uppljóstranir hafa ennfremur leitt í ljós, að ýmsir æðstu embættismenn Sameinuðu þjóðanna í löndum fyrrverandi Júgóslavíu hafa reynt að leyna ógnarverkum Serba til þess að draga úr kröfum frá Vesturlöndum um réttarhöld gegn stríðsglæpamönnum.

Ömurleg frammistaða þessara embættismanna Sameinuðu þjóðanna er í stíl við samábyrgð samtakanna á nýjustu stríðsglæpum Serba í Srebrenica, þar sem 6000 borgurum undir yfirlýstum verndarvæng Sameinuðu þjóðanna var slátrað undir þeim sama verndarvæng.

Þrátt fyrir mikið umtal á Vesturlöndum hafa Serbar haldið áfram óbreyttum stríðsglæpum alveg frá upphafinu í Vukuvar til endalokanna í Srebrenica. Enginn einstakur glæpur nazista í síðari heimsstyrjöldinni var stórtækari en hinn nýlegi glæpur Serba í Srebrenica.

Eftir því sem sönnunargögnin hlaðast upp verður síður hægt að komast hjá því áliti, að Serbar séu geðbilaðir þúsundum saman, trylltir af sagnfræðilegu rugli og eigi alls ekki heima í siðuðu samfélagi Vesturlanda. Öll hin krumpaða þjóð verður að bera glæpinn fram á veginn.

Forustumenn Serba í Bosníu, Radovan Karadzic og Ratko Mladic, hafa verið ákærðir af stríðsglæpadómstólnum í Haag. Síðan hefur bætzt við ábyrgð Mladics á morðunum í Srebrenica, sem hann stjórnaði persónulega. Sjónarvottar eru að því Evrópumeti í glæpum.

Bönd stríðsglæpadómstólsins í Haag berast smám saman nær Slobodan Milosevic Serbíuforseta, sem stóð fyrir ógnaröldinni á Balkanskaga og stefnu þjóðahreinsana, sem fæddi af sér stríðsglæpina. Tveir foringjar Serbíuhers hafa þegar verið ákærðir af dómstólnum.

Því miður eru horfur á, að Milosevic sleppi, því að hann hefur nú snúið við blaðinu og þykist vera friðarsinni. Ef hann nær völdum í hinum serbneska hluta Bosníu af Karadzic og Mladic og sér um, að friðarsamningar haldi, verður hann líklega látinn njóta þess.

Uppljóstranir stríðsglæpanna í Serbíu eru svo vel á veg komnar, að ólíklegt er, að ráðamönnum og embættismönnum á Vesturlöndum takizt að stöðva framgang réttarhalda og dómsniðurstaðna í Haag, þótt þeir hafi margir hverjir reynt að hefta framgang málsins.

Helztu aðferðirnar gegn dómstólnum hafa hingað til falizt í að reyna að koma í veg fyrir, að hann komizt yfir leyndarskjöl um stríðsglæpina. Það hefur aðeins tekizt að hluta. Næst verður reynt að draga úr fjármögnun dómstólsins og svelta hann til að rifa seglin.

Þegar stríðsglæpir Serba verða krufnir til beins, verður ekki gleymt aðild ýmissa vestrænna ráðamanna og embættismanna, sem reyna enn að drepa málinu á dreif.

Jónas Kristjánsson

DV

Drýgindalegar hótanir

Greinar

Verkalýðsrekendur landsins virðast ekki ætla að ríða feitum hesti frá tilraunum sínum til að feta í fótspor formanns verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Drýgindalegar yfirlýsingar þeirra um óhjákvæmileg átök á vinnumarkaði eru smám saman að verða að spjalli um vöruverð.

Dagsbrúnarformaðurinn hefur löngum tamið sér stíl, sem felst í að sofa á verðinum mestan hluta ársins og vakna síðan til meðvitundar um skamman tíma í senn og flytja þjóðinni þá drýgindalegar yfirlýsingar og hótanir um, að hans fólki láti sko ekki að sér hæða.

Þessar uppákomur, sem eru skemmtilegastar í sjónvarpi, hafa verið marklausar með öllu. Þær eru vanmáttug tilraun til að sýnast sterkur. Þær blekkja tæpast félagsmenn, hvað þá aðra. Áreiðanlega eru áratugir síðan Dagsbrún hafði einhvern árangur, sem máli skiptir.

Kosningareglur í Dagsbrún eru svo þunglamalegar, að mótframboð gegn formanni fela í sér, að menn verða að setja fram heilan lista yfir stjórn og trúnaðarmenn, án þess að neitt nafnið sé hið sama og á lista stjórnar. Þetta jafngildir eins konar æviráðningu formannsins.

Þetta er skýringin á því, hvers vegna formaðurinn heldur áfram að vera formaður. Það er ekki vegna drýgindalegra ummæla hans og innihaldslausra hótana í sjónvarpi með löngu millibili, heldur þrátt fyrir þær. Þess vegna geta þær tæpast orðið öðrum til eftirbreytni.

Þegar forustumenn annarra stéttarfélaga og Alþýðusambandsins í heild fara að tala drýgindalega og hóta út í loftið að hætti þessa lata og lélega formanns, er eitthvað meira en lítið orðið að í hreyfingu launafólks. Hún er þá greinilega komin í erfiða tilvistarkreppu.

Staðreyndir kjaramála eru tiltölulega einfaldar að þessu sinni. Einu sinni sem oftar hafa Alþýðusambandið og helztu aðildarsambönd þess staðið að þjóðarsátt, sem ekki tryggir hagsmuni umbjóðenda þeirra. Launajöfnunarstefna sáttarinnar endurspeglast ekki hjá ríkinu.

Forustumenn launafólks gátu ekkert aðhafzt, þegar ríkið samdi betur við sitt fólk en atvinnurekendur höfðu samið við sitt. Forustumenn launafólks höfðu gleymt að setja fyrirvara í þjóðarsáttina um, að ríki og vinnuveitendasamband tækju ábyrgð á launajöfnunarstefnunni.

Síðan ætluðu forustumenn launafólks að bjarga sér út úr mistökunum með því að hengja hagsmuni sína á almenna reiði fólks í sumar út af tilraunum Alþingis til að koma alþingismönnum undan hörðum lögum, sem það hafði sjálft sett um almenning í þjóðfélaginu.

Reiði almennings hafði þau áhrif, að Alþingi hætti við sérstök skattsvik alþingismanna. Þar með var ekki lengur hægt að kvarta yfir öðru en því, að laun þingmanna hækkuðu meira en fólks eins og raunar laun embættismanna og ýmissa hópa opinberra starfsmanna.

Erfitt er að byggja kjarabaráttu á, að sumir hafi fengið of mikið, og enn síður á því, að draga þurfi þá launahækkun til baka. Enda eru málsaðilar nú farnir að tala um þá niðurstöðu úr upphlaupi verkalýðsrekenda, að ríkisstjórnin afturkalli nýlega verndartolla á búvöru.

Auðvitað er hið þarfasta mál, að ríkisstjórnin verði knúin til að víkja frá stefnu aukinnar verndar innlends landbúnaðar og lækki þar með matarverð í landinu. En það er ekki beinlínis sú kjarajöfnun, sem menn héldu, að þeir væru að semja um í síðustu þjóðarsátt.

Drýgindalegar yfirlýsingar og hótanir verkalýðsrekenda að hætti formanns Dagsbrúnar um átök á vinnumarkaði stinga í stúf við spjall þeirra um vöruverð.

Jónas Kristjánsson

DV

Hættunni var leynt

Greinar

Komið hefur í ljós, að valdir aðilar, einkum sveitarstjórnarmenn, hafa í heilan áratug vitað um raunverulega snjóflóðahættu á Íslandi, en ekkert farið eftir þeirri vitneskju og reynt að sporna gegn því, að hún breiddist út. Hingað til hafa hættumörk því verið sett af handahófi.

Vitneskjan um, að hættan væri meiri en sveitarstjórnarmenn vildu vera láta, kom í ljós á tvennan hátt. Í fyrsta lagi vann Hafliði Jónsson veðurfræðingur að snjóflóðamati árin 1980-1984. Og í öðru lagi var fengin skýrsla um málið frá Norges Geotekniske Institutt árið 1985.

Hafliði var til dæmis búinn á sínum tíma að teikna upp snjóflóð í Súðavík, sem var að umfangi eins og það sem rann fyrr á þessu ári. Og norska jarðtæknistofnunin var á sínum tíma búin að teikna upp snjóflóð á Flateyri, sem var að nokkru eins og það, sem rann nú í vetur.

Í skýrslu Norðmanna kemur skýrt fram, að það vekur undrun þeirra, að byggt hafi verið á augljósum hættusvæðum án þess að reyna að meta áhættuna. Skýrslu þeirra var stungið undir stól og haldið áfram að byggja villt og galið upp í fjallshlíðar víða um land.

Það er rangt, sem reynt hefur verið að halda fram að undanförnu, að þekking manna á snjóflóðahættu sé of lítil. Þvert á móti hafa vísindamenn raunar spáð þeim snjóflóðum, sem orðið hafa. Það hefur bara verið sveitarpólitísk samstaða um að þegja þekkinguna í hel.

Viðbrögð bæjarstjórnar Ísafjarðar við upplýsingum um snjóflóðið á Engjavegi eru dæmigerð fyrir þessi ábyrgðarlausu viðhorf. Bæjarstjórinn sagði upp áskrift að héraðsfréttablaðinu, sem birti fréttir af flóðinu, og heimtaði raunar lögreglurannsókn á heimild blaðsins.

Héraðsblaðið birti mynd af snjóflóði, sem féll ofan við sorpeyðingarstöðina í vor. Reynt var að fá það til að hætta við birtinguna til þess að valda ekki óróa í bæjarfélaginu. Einmitt á þessum stað voru mannslíf í hættu um daginn, þegar snjóflóð rústaði sorpeyðingarstöðina.

Ástandið er því í stórum dráttum þannig, að sveitarstjórnir halda leyndum upplýsingum, sem auka öryggi almennings, og fara alls ekki að tíu ára gömlum ráðleggingum vísindamanna, en eyða orku sinni í að amast við því, að sagt sé frá staðreyndum, sem varða öryggi fólks.

Núna hefur harkalega komið í ljós, að svokallað hættumat í sveitarfélögum byggist ekki á vísindalegum niðurstöðum, sem hafa legið í skúffum valinna aðila í heilan áratug, heldur á sveitarpólitísku mati á því, hvort hættumatið geti rýrt verðgildi fasteigna á svæðinu.

Svo forstokkaðir eru valdamenn, að tvö mannskæð snjóflóð á þessu ári urðu ekki til þess, að málsaðilar vitkuðust og drægju gamlar skýrslu upp úr skúffunum. Það var DV, sem gróf upp hina tíu ára gömlu norsku skýrslu og birti rækilega frásögn af henni í gær.

Um leið hefur komið í ljós, að ófært er að láta sveitarstjórnir um að meta hættuna. Setja þarf lög um, hvernig hættumat sé unnið, án þess að óviðeigandi hagsmunir hafi áhrif á það. Og til bráðabirgða er hægt að setja reglugerð um, að norska skýrslan gildi frá deginum í dag.

Meginatriði málsins er, að tilgangslaust er að vinna á móti náttúrunni með því að láta sveitarpólitík ryðja náttúruvísindum til hliðar, setja upp gersamlega gagnslausar snjóflóðavarnir og halda áfram að byggja undir fjallshlíðum. Menn verða í staðinn að laga sig að náttúruöflunum.

Við þurfum að vera sveigjanleg, byrja að viðurkenna vísindin og byrja að virða náttúruöflin, í stað þess að haga okkur eins og við séum herrar jarðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV