Undralyf á undanhaldi

Greinar

Undralyfin hafa lengi fylgt trúgjörnu mannkyni. Fólk tekur fegins hendi einföldum lausnum á flóknum vandamálum. Einna fyrirferðarmesti flokkur einfaldra lausna er trúin á, að til séu undursamleg lyf, sem virki eins og töfrasproti gegn þrálátum heilsubresti.

Offita er orðin að bezta markaði undralyfja. Lífshættir nútímans stuðla að offitu, en fegurðarmat nútímans krefst hins gagnstæða. Spennan milli raunveruleika offitunnar og ímyndar spengileikans reynist mörgum óbærileg. Þeir sjá ekki aðra leið en undralyfin.

Sumpart felst vandinn í, að sumar algengustu fæðutegundir nútímans eru fitandi. Sumpart felst hann í, að enn algengari fæðutegundir virka eins og fíkniefni á heilabúið og framkalla þar þörf fyrir meiri neyzlu. Sykur magnar virkni sæluboðefnis í heilanum.

Fólk missir tök á mataræði sínu, rétt eins og fíkniefnaneytendur missa tök á neyzlu sinni. Það getur ekki hætt að borða, þótt það hafi þegar innbyrt meira en gæfulegt má telja. Þetta eru fæðufíklarnir, sem árangurslaust reyna hverja megrunarleiðina á fætur annarri.

Fólki reynist um megn að fara flóknu leiðina, sem er gamalkunn og áhrifamikil. Hún felst í að strika yfir viðbættan sykur og önnur lystaukandi fíkniefni í fæðunni, borða hóflegt magn á matmálstímum og borða ekki milli mála. Þetta er auðvitað hægara sagt en gert.

Í þeirri stöðu koma undralyf á borð við Herbalife eins og sending af himnum ofan. Sumir ná tímabundnum árangri með því að draga matarneyzlu sína niður í þúsund hitaeiningar á dag. Á þessu sæluskeiði vitna þeir í auglýsingum um undursamleg áhrif lyfsins.

Herbalife hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu. Það er dýr vara með vafasömu innihaldi, sem seld er á sama hátt og fíkniefni. Menn fjármagna neyzlu sína með því að gerast sölumenn vörunnar. Úr þessu verður píramídakerfi, sem krefst stöðugrar útþenslu.

Bandaríska fjármálaritið Forbes spáði nýlega illa fyrir Herbalife, af því að framboðið á aulum í heiminum væri takmarkað. Fyrr eða síðar kæmist fólk að því, að verið væri að blekkja það. Þá yrði fyrirtækið að finna nýja markaði í öðrum heimshornum eða hrynja ella.

Í Frakklandi hefur salan á Herbalife hrapað úr 97 milljónum dollara árið 1993 niður í 12 milljónir dollara árið 1996. Í Þýzkalandi hefur salan hrapað á þessum tíma úr 196 milljónum dollara niður í 54 milljónir dollara. Af ýmsum slíkum ástæðum riðar fyrirtækið til falls.

Fyrrverandi starfsfólk Herbalife hefur sakað fyrirtækið um að reyna að semja við rússnesku mafíuna um að komast inn á fíkniefnamarkaðinn þar eystra. Það er einnig að reyna að koma sér fyrir í þriðja heiminum og er jafnvel farið að skjóta upp kollinum á Íslandi.

Ekki bætir úr skák, að heilbrigðisyfirvöld eru farin að elta Herbalife uppi. Í Bandaríkjunum hafa verið settar reglugerðir, sem takmarka notkun þess. Í Evrópu er hreinlega sums staðar farið að banna vöruna. Einnig hér á landi eru heilbrigðisyfirvöld farin að kanna málið.

Herbalife er bóla, sem rís og hjaðnar. Markaðurinn fyrir slík undralyf heldur samt áfram að vera til. Nútíminn er þess eðlis, að þeim fjölgar alltaf, sem misst hafa stjórn á mataræði sínu. Í hópi fæðufíkla eru alltaf einhverjir, sem taka fegins hendi hverri nýrri bólu.

Draumur ævintýranna um áhrifamikinn sprota töframannsins er ekki liðinn. Á miðri tækniöld væntir fólk þess enn, að Jón Óttar breyti því úr froski í prins.

Jónas Kristjánsson

DV

Málamiðlun um lénsherrahag

Greinar

Nefnd um ný lífeyrislög náði vondu samkomulagi um helgina. Frumvarpið, sem kemur frá henni, gætir fyrst og fremst rótgróinna hagsmuna lífeyrissjóðanna. Það hrindir ekki af stað þeirri samkeppni, sem þarf að vera milli sjóða til þess að þeir nái árangri í rekstri.

Það eina góða við samkomulagið er, að það varðveitir þá meginhugsun gamla kerfisins, að lífeyrir veiti sameiginlega tryggingavernd, hvort sem menn eiga stutt eða langt ævikvöld og hvort sem þeir verða öryrkjar eða ekki. Upp að vissu marki gildir þessi hugsun áfram.

Þegar náð hefur verið greiðslustigi, sem felur í sér rétt til lágmarkslífeyris upp á 56% af launum, geta lífeyrissjóðir boðið félagsmönnum fjölbreyttari lífeyri fyrir þær iðgjaldagreiðslur, sem umfram eru. Sá lífeyrir getur verið í séreignaformi, sem hefur rutt sér til rúms.

Frumvarpið gerir hins vegar fólki ekki kleift að velja milli lífeyrissjóða. Hver sjóður mun áfram einoka sína stétt. Þannig geta sjóðir starfað áfram, þótt þeir hafi langtum lakari ávöxtun og langtum hærri rekstrarkostnað en aðrir sjóðir. Fólk getur ekki flutt sig annað.

Meðalávöxtun sjóða er misjöfn. Lakastur er Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbankans, sem nær 3% ávöxtun. Beztur er Lífeyrissjóðurinn Hlíf, sem nær 9,7% ávöxtun. Hann er rúmlega þrisvar sinnum betri en hinn. Svona munur þrífst eingöngu í lénsherrakerfi.

Athyglisvert er, að stórir sjóðir, sem eru áberandi í þjóðfélaginu og eru stundum taldir hafa staðið sig vel, hafa aðeins náð meðaltalsárangri í ávöxtun. Þannig er Lífeyrissjóður verzlunarmanna í miðjum hópi með 6,9% ávöxtun og ætti að geta staðið sig betur.

Munurinn á rekstrarkostnaði er enn hrikalegri. Lífeyrissjóður framreiðslumanna er einna lakastur. Hann ver 17% af tekjum sínum í rekstrarkostnað. Einna beztur er Eftirlaunasjóður starfsmanna Búnaðarbankans, sem ver aðeins 0,7% tekna sinna í rekstrarkostnað.

Athyglisvert er, að stórir sjóðir, sem ættu í skjóli stærðar sinnar og starfslengdar að hafa lágt hlutfall rekstrarkostnaðar, sigla raunar í miðjum flokki sjóðanna. Þannig ver áðurnefndur Lífeyrissjóður verzlunarmanna 2,6% af tekjum sínum í rekstrarkostnað

Lífeyrir okkar ætti auðvitað að safnast upp í sjóðum, sem finna góða ávöxtun sparifjár og hafa lítinn rekstrarkostnað. Eftirlaun mundu stórhækka, ef þau væru fremur ávöxtuð í sjóðum, sem eru á 8­10% ávöxtunarbili, heldur en í þeim, sem eru á 3­6% ávöxtunarbili.

Ef fólk gæti valið milli sjóða, mundu lélegu sjóðirnar skyndilega vakna til lífsins og bæta stöðu sína til að halda viðskiptavinum. Þannig vinna markaðslögmálin að hagsbótum allra, sem fá aðgang að þeim. En lífeyrisnefndin neitar okkur um slíkan aðgang.

Birting samanburðartalna, sem sýna misjafnan árangur sjóðastjóra, kemur að nokkru gagni, en takmörkuðu. Sjóðfélagar í lélegum sjóðum geta látið gremju sína bitna á sjóðstjórnarmönnum, en þeir geta ekki greitt atkvæði með því að færa sig annað.

Nefndarmönnum lífeyrisfrumvarpsins var kunnugt um hinn hrikalega mun lífeyrissjóðanna, þegar þeir ákváðu að standa vörð um lénsskipulagið, sem er forsenda lélegs árangurs sumra sjóða. Samt ákváðu þeir að vernda rótgróna hagsmuni skussanna við stjórnvölinn.

Nefndin hafði tækifæri til að spara þjóðinni mikið fé og afla henni mikils fjár. Hún lét tækifærið renna sér úr greipum. Hún náði málamiðlun um lénsherrahag.

Jónas Kristjánsson

DV

Símgjöldin hækka

Greinar

Breytingar á gjaldskrá símans verða notaðar til að afla símanum meiri tekna. Það er eins konar náttúrulögmál, sem hefur haldizt óbreytt í manna minnum. Ríkisfyrirtæki, sem ekki þurfa að stunda samkeppni, breyta gjaldskrám á þann hátt, að það auki tekjurnar.

Síðan ímyndarfræðin hélt innreið sína í rekstur slíkra fyrirtækja, er þess jafnan gætt að hafa eitthvert girnilegt agn á króknum. Að þessu sinni felst það í sameiningu landsins í eitt gjaldsvæði. Það felur í sér, að ódýrara verður en áður að hringja milli landshluta.

Í fámennum landshlutum, þar sem menn þurfa mikið að sækja út fyrir landshlutann, getur þetta leitt til lækkunar símreikninga. Hafa verður þó í huga, að mikið af slíkum símtölum er á grænum númerum og dragast því frá símtölum milli svæða í slíkum samanburði.

Ef samtöl innan svæðis eru lögð á aðra vogarskálina og á hina samtöl utan svæðis önnur en við græn númer, má reikna með, að allur þorri landsmanna muni greiða hærri símreikninga eftir breytinguna. Það er einmitt markmiðið að baki faguryrða um eitt gjaldsvæði.

Samtöl við útlönd verða ódýrari en áður. Hins vegar verða samskipti á netinu dýrari, því að innansvæðislínan vegur þyngra en áður. Þannig hyggst einokunarfyrirtækið ná sér í meira fé út úr nýrri samskiptatækni, sem var farin að ryðja sér til rúms hér á landi.

Við erum orðin kunnug uppstokkunum á gjaldskrám. Þær hafa einkennt einokunarfyrirtæki hins opinbera, svo sem á sviði rafmagns- og hitaveitna. Venjulega er farið hóflegar í sakirnar en síminn gerir nú, enda hafa slíkar breytingar verið háðar pólitísku aðhaldi.

Með breytingu símans úr einokunarstofnun í einokunarfyrirtæki hafa brostið fjötrar, sem áður héldu verðhækkunum í skefjum. Niðurstaðan verður fyrirbæri, sem sameinar verstu galla ríkiseinokunarfyrirtækja og fáokunarfyrirtækja á samkeppnismarkaði.

Með því að hækka gjaldskrár á sviðum, þar sem stofnunin nýtur einokunar, getur hún millifært tekjur í bókhaldi og aflað sér gífurlegs fjár til að halda uppi óheiðarlegri samkeppni við venjuleg einkafyrirtæki á þeim sviðum, þar sem samkeppni fær að ríkja.

Þannig haslar síminn sér völl í netþjónustu og fjölmiðlun í samkeppni við aðra aðila og notar til þess fjármagn, sem streymir stríðum straumum úr einokunarþætti starfseminnar. Þannig fór Mjólkusamsalan á sínum tíma út í brauðgerð og blöndun ávaxtasafa.

Hugsjón einkavæðingar hefur gersamlega úrkynjast hér á landi. Ein þekktasta birtingarmynd hennar er, að tiltölulega mildum ríkisfyrirtækjum er breytt í harðskeytt einokunarfyrirtæki, sem ráðast inn á samkeppnismarkaðinn í skjóli verndaðra einokunartekna.

Hin birtingarmynd einkavæðingarinnar er rússneska afbrigðið, það er að segja einkavinavæðingin, sem felst í, að opinber fyrirtæki eru afhent gæludýrum kerfisins, jafnvel þótt aðrir aðilar bjóði betur. Dæmi um það var salan á síldar- og fiskimjölsverksmiðjum ríkisins.

Segja má, að þessar tvær leiðir séu afbrigði sömu leiðar. Annars vegar eru stofnanirnar afhentar ytri gæludýrum úti í bæ og hins vegar eru þær afhentar innri gæludýrum, það er að segja forstjórahópi, sem notar tækifærið til að margfalda laun sín í kyrrþey.

Gjaldskrárbreyting símans er dæmigerð séríslenzk afurð einkavæðingarinnar. Með sjónhverfingu er settur fagur stimpill á stórfellda hækkun á verði símaþjónustu.

Jónas Kristjánsson

DV

Léttar æfingar vinstra samflots

Greinar

Horfur á vinstra samfloti hafa heldur vaxið með haustinu eftir vinsamlega meðferð framkvæmdastjórnar Alþýðubandalagsins á málinu í upphafi þessa mánaðar. Má búast við, að jákvætt verði tekið í þetta umdeilda mál á landsfundi bandalagsins í næsta mánuði.

Komið hefur í ljós, að andstaðan er fyrst og fremst í þingflokki bandalagsins. Sú andstaða var ítrekuð í síðustu viku á sameiginlegum fundi þingflokks og framkvæmdastjórnar. Talið er, að einungis þrír eða fjórir þingmenn bandalagsins séu fylgjandi samfylkingu.

Hafa verður í huga, að þingflokkurinn er afar sterkt afl, skipað fólki, sem meira eða minna á sín kjördæmi. Þingmenn bandalagsins eru eins og margir fleiri þingmenn meira gefnir fyrir að gæta meintra hagsmuna úr héraði en að gæta málefnahagsmuna flokksins.

Sem dæmi má nefna Steingrím Sigfússon, sem er einn harðasti stuðningsmaður kvótakerfisins og afsals auðlinda hafsins í hendur útgerðarmanna. Um önnur mál má segja, að hann sé í þeim öllum á þveröfugri skoðun við sjónarmið hins flokksins, Alþýðuflokksins.

Það léttir málið í þessari umferð, að sveitarstjórnarkosningar eru í aðsigi á vori komanda, en ekki alþingiskosningar. Málefna- og hagsmunaágreiningur, sem einkennir þingstörf, skiptir minna máli í sveitarstjórnum, þar sem tæknileg og lítt pólitísk atriði vega þyngst.

Þess vegna er sveitarstjórnarlið Alþýðuflokks og Alþýðubandalags víða komið fram úr þjóðmálafólki sömu flokka. Í flestum stórum bæjum landsins er búizt við sameiginlegu framboði, sums staðar með Framsóknarflokknum og annars staðar hugsanlega án hans.

Það flækir málið, að í senn er verið að tala um vinstra samflot með Framsóknarflokknum að hætti Reykjavíkurlistans, ýmist með eða án Kvennalistans, og svokallað A-samstarf, þar sem Framsóknarflokkurinn er ekki með í spilinu og sums staðar ekki Kvennalistinn heldur.

Skilaboðin inn í framtíðina til næstu alþingiskosninga að hálfu öðru ári liðnu væru ákveðnari, ef samstarfslínurnar væru ekki svona fjölbreyttar í undirbúningi sveitarstjórnarkosninganna. En þetta endurspeglar, að tengingar í grasrótinni eru með ýmsum hætti.

Þar sem Framsóknarflokkurinn er ekki með í vinstra samfloti, mun hann í langflestum tilvikum mynda meirihluta í hina áttina, ef hann er í aðstöðu til að vega salt milli tveggja vængja. Hann gerir það bara til að sýna fram á, að án sinnar aðildar sé samflotið marklaust.

Varla fer framhjá neinum, að Framsóknarflokkurinn er ekki minna hamingjusamur í landsstjórninni með Sjálfstæðisflokknum en hann er í borgarstjórn Reykjavíkur með vinstri flokkunum. Framsóknarflokkurinn er ævinlega hamingjusamur í stjórnaraðstöðu.

Í landsmálum er styttra frá Framsóknarflokknum yfir lækinn til Sjálfstæðisflokksins en yfir jökulfljótið til Alþýðuflokksins. Alþýðubandalagið er framsóknarmegin þessa jökulfljóts. Allt þetta má greinilega og hversdagslega sjá af framgöngu manna á alþingi.

A-samstarf á landsvísu á langt í land og enn frekar vinstra samstarf yfirleitt. Á landsvísu er auðveldara að samfylkja Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, heldur en Alþýðuflokknum og Alþýðubandalaginu. Þetta er bara það, sem allir sjá, sem sjá vilja.

Raunar kemst ekki hreyfing á samflot í þingkosningum fyrr en menn geta farið að meta, hvernig léttu æfingarnar í sveitarstjórnarkosningunum hafa tekizt eða ekki.

Jónas Kristjánsson

DV

Gegnsæ ímyndun þjóðareignar

Greinar

Lög um þjóðareign auðlinda hafsins minna á lög um bann við hundahaldi, sem fólu í sér, að hundahald var þá fyrst opinberlega leyft. Í upphafsgrein hundalaganna var sagt, að hundahald væri bannað, en allar hinar greinarnar fjölluðu um framkvæmd hundahalds.

Þegar Alþingi setur lög um afhendingu auðlinda hafsins í hendur fárra, hefjast þau lög einnig alltaf á málsgrein um, að auðlindirnar séu eign þjóðarinnar. Síðan fjalla allar hinar greinar laganna um, hvernig útgerðarmenn eigi þessar auðlindir í raun.

Síðast á þessu ári samþykkti Alþingi lög um, hvernig veðsetja megi eignarhald útgerðarmanna á auðlindunum. Þegar stuðningsmenn eignarhalds þjóðarinnar kvörtuðu, var þeim bent á, að í upphafi laganna stæði skýrum stöfum, að þjóðin ætti auðlindirnar!

Þetta minnir líka á skáldsöguna “1984″ eftir George Orwell, þar sem lögregluráðuneytið hét “ástarráðuneyti” og stríðsráðuneytið hét “friðarráðuneyti”. Íslenzkir stjórnmála- og embættismenn hafa náð töluverðri leikni í að gera martröð Orwells að íslenzkum veruleika.

Vafalaust hafa sumir þingmenn verið nógu heimskir til að samþykkja veðsetningarheimildina í góðri trú, en aðrir hafa gert það í markvissum stuðningi við þá, sem veiðileyfin, völdin og peningana hafa. Eignarhald útgerðarmanna er verndað af fulltrúum þjóðarinnar.

Sumir styðja eignarhald hinna fáu á þeim forsendum, að féð haldist heima í héraði. Raunar er svo ekki, eins og dæmin sanna. Kvótar flytjast milli landshluta. Á endanum fara sjóðirnir úr landi, þegar kvótaerfingjar selja og flytjast með gróðann til Karíbahafs.

Eignarhald útgerðarmanna á svonefndum auðlindum þjóðarinnar tekur á sig margvíslegar myndir. Komið hefur í ljós, að þetta eignarhald erfist eins og aðrar eignir. Einnig hefur komið í ljós, að þetta eignarhald er orðið að þungamiðju eignaskipta við hjónaskilnaði.

Sem dæmi um, að þjóðin er farin að átta sig á þessu, hafa menn nú í flimtingum, að senn muni mikill kvóti á Vestfjörðum lenda í höndum hins mikla mannvinar Moons, sem ekur um á tíu kádíljálkum og lætur sanntrúaða Moonista arfleiða sig að eigum sínum.

Sumir hagsmunagæzlumenn útgerðar eru að átta sig á, að svo kunni að fara, að þjóðin sætti sig ekki við, að auðlindunum sé stolið með lögum frá Alþingi. Einn þeirra hefur stungið upp á, að öllum landsmönnum verði send ávísun á kvóta til veiða á norsk-íslenzkri síld.

Stofnað hefur verið félag áhugamanna um, að þjóðin endurheimti aftur auðlindirnar, sem alþingismenn hafa stolið og afhent útgerðarmönnum. Félagið er núna að stofna deildir í einstökum kjördæmum og verður vonandi nógu öflugt til að valda skelfingu pólitíkusa.

Gegnsæ er orðin sú ímyndun, að eignarhald á auðlindunum hafi ekki verið afhent litlum hópi. Núna er hlegið, ef stjórnmálamaður eða embættismaður vísar til lagagreinar um, að þjóðin eigi auðlindirnar. Núna veit almenningur um veðin, arfinn og skilnaðarmálin.

Vegna hinna afkáralegu dæma um raunverulegt eignarhald útgerðarmanna á auðlindunum hefur myndast jarðvegur fyrir þá, sem vilja skipuleggja pólitíska andstöðu við ábyrgðaraðila stuldarins og vilja láta þá svara skipulega til saka í næstu þingkosningum.

Fólk er seinþreytt til vandræða, þótt það telji rangt og ósiðlega að málum staðið. En svo má brýna deigt járn, að bíti. Kannski veldur kvótinn þeim þáttaskilum.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkið veldur fáokun í flutningum

Greinar

Skipafélögin tvö hafa náð undir sig miklum hluta vöruflutninga á landi í skjóli þeirra sérréttinda að þurfa ekki að greiða virðisaukaskatt af flutningunum. Einyrkjarnir, sem áður stunduðu þessa flutninga, verða að greiða skattinn og eru því ekki samkeppnishæfir.

Virðisaukaskattur til ríkisins er 24,5% af flutningskostnaðinum, það er að segja umtalsverður hluti hans. Þessi mismunun á samkeppnisaðstöðu af völdum ríkisins er því lykill að heljartökunum, sem skipafélögin hafa náð á vöruflutningum á þjóðvegum landsins.

Útþensla skipafélaganna tveggja í vöruflutningum með bílum á landi stafar ekki af, að þau séu samkeppnishæfari en einyrkjarnir í rekstri. Útþenslan stafar eingöngu af gífurlega verðmætum forréttindum, sem skipafélögin njóta, en eigendur flutningabíla ekki.

Fyrir tilstilli ríkisins hefur samkeppnismarkaði þannig verið breytt í fáokun. Hinir tveir stóru hafa rutt litlu körlunum út af markaði að frumkvæði ríkisins, sem ákveður leikreglurnar. Þetta er ný staðfesting á, að skipafélögin eru fremst í flokki gæludýra ríkisins.

Skipafélögin tvö hafa löngum verið hornsteinar forréttindakerfis, sem áratugum saman var kallað helmingaskiptafélagið, en í seinni tíð fremur þekkt sem kolkrabbinn og smokkfiskurinn. Hvort gæludýrið um sig nýtur stuðnings annars ríkisstjórnarflokksins.

Það hefur hamlað framförum í landinu, að mikilvægir þættir viðskiptalífsins lúta ekki markaðslögmálum, heldur lögmálum fáokunar. Skortur á samkeppni gerir þessa þætti mun dýrari en þeir eru í öðrum löndum og veldur atvinnulífi og almenningi miklum kostnaði.

Hóp ástsælustu gæludýranna mynda tvö skipafélög, tvö tryggingafélög, hálft þriðja olíufélag, eitt flugfélag, þrír bankar og eitt hermangsfélag. Milli þeirra eru eignatengsli á ýmsa vegu og þau eiga síðan stóra og smáa hluti í fyrirtækjum í allt öðrum rekstri.

Stærra skipafélagið er þannig aðaleigandi flugfélagsins, sem er síðan eigandi hótela, ferðaskrifstofu og bílaleigu, sem mælt er með við flugfarþega, þegar þeir eru boðnir velkomnir til landsins. Ferðamenn þurfa aldrei að yfirgefa fáokunarhringinn á dvalartíma sínum.

Oft njóta þessi fyrirtæki opinberrar fyrirgreiðslu umfram önnur fyrirtæki, svo sem sýnir mismununin í virðisaukaskatti í landflutningum. Annað dæmi var áratuga einkaréttur á olíuverzlun. Stærsta dæmið var síðan einkaréttur gæludýrakerfisins á áætlunarflugi.

Þegar mismunun af hálfu ríkisvaldsins hefur tryggt gæludýrakerfinu yfirburðastöðu, er stundum fallið frá hinni opinberu mismunun, en í staðinn kemur mismunun, sem byggist á sölu viðskiptapakka, þar sem viðskiptamenn fá afslætti, ef þeir kaupa allan pakkann.

Einkareknar bílaleigur, ferðaskrifstofur og hótel geta ekki keppt við bílaleigu, ferðaskrifstofu og hótel, sem eru innan fáokunarhringsins. Viðskipti innan fáokunarhringsins njóta sérstakra fríðinda, sem eru brot á alþjóðlegum reglum um viðskiptasiðferði.

Yfirtaka skipafélaganna á vöruflutningum á landi er dæmi um ástand, þegar báðar leiðir eru farnar samtímis. Annars vegar niðurgreiðir ríkið flutninga á vegum skipafélaganna og hins vegar bjóða skipafélögin viðskiptapakka um flutninga á sjó og landi í senn.

Þetta hafa áratugum saman verið hin raunverulegu stjórnmál landsins. Þau eru pólitíska deildin í starfsemi gæludýranna tveggja, kolkrabbans og smokkfisksins.

Jónas Kristjánsson

DV

Ölæði er viðurkennd hegðun

Greinar

Reykjavík mun áfram verða illræmd af ófagurri framkomu fólks að næturlagi um helgar. Austurvöllur mun áfram verða hættulegri en Dam og Kongens Nytorv, Times Square og Leicester Square. Máttarvöld ríkis og borgar hafa ákveðið, að ástandið verði óbreytt.

Engin merki eru um, að hér verði farið að með svipuðum hætti og gert hefur verið í borgum á borð við Amsterdam og New York til að tryggja borgurum og ferðamönnum óáreitta göngu um miðborgir. Leiðirnar til þess eru þekktar, en þeim verður ekki beitt hér.

Afstaða máttarvalda á borð við dómsmálaráðuneyti, lögreglustjóraembætti og borgarstjórn byggist á útbreiddum skorti meðal þjóðarinnar á tilfinningu fyrir því, hvað sé ósæmileg hegðun. Því miður er ölæði viðurkennd hegðun á íslenzku almannafæri.

Miklir hagsmunir eru einnig í húfi, innlendir sem erlendir. Mjög öflugir eru þeir, sem hafa hag af sölu og dreifingu áfengis. Þeir ráða til dæmis ferðinni í Verzlunarráði. Þeir stefna að auðveldari sölu og dreifingu áfengis sem þáttar í auknu viðskiptafrelsi hér á landi.

Erlendar rannsóknir sýna, að aukið framboð áfengis eykur neyzlu þess og hin margvíslegu vandræði, sem fylgja henni, svo sem slys og sjúkdóma, skemmdir og vinnutap. Fleiri knæpur og fleiri útsölur og fleiri auglýsingar valda auknum áfengisvandamálum.

Þrátt fyrir þetta verður frelsið aukið. Sumpart er það vegna þrýstings frá útlöndum, einkum frá Evrópusambandinu. Sá mikli kontór hefur að einu meginhlutverki sínu að gæta hagsmuna vesturevrópsks landbúnaðar, sem rekur gífurlega offramleiðslu á víni og áfengi.

Svíar hafa rekið sig á, að sjónarmið hollustu og heilsugæzlu mega sín lítils, þegar hagsmunir offramleiðslunnar ryðjast fram í skjóli hugsjóna frjálsrar verzlunar. Vegna aðildar sinnar að evrópsku samstarfi neyðast þeir til að fara að liðka lög um dreifingu og sölu áfengis.

Hér á landi eru hagsmunaaðilar í þann mund að brjóta á bak aftur bann við auglýsingum áfengis. Þeir veifa ennfremur hótunum um málaferli fyrir evrópskum dómstólum, ef ekki verði auðveldað aðgengi fólks að áfengi. Einkavæðing áfengisverzlunar er líkleg.

Hin ytri skilyrði stuðla þannig ekki að hnignun áfengisvandamála Íslendinga. Við komumst ekki hjá því að horfast í augu við þjóðarbölið sjálft. Það felst í, að hér á landi er þjóðfélagslega viðurkennt, að menn megi láta sjást á sér, að þeir séu undir áhrifum áfengis.

Þar sem sterkar félagslegar skorður eru við áfengislegri hegðun í útlöndum fá unglingar og ungt fólk allt önnur skilaboð frá umhverfinu en hér á landi. Á meginlandi Evrópu er ekki talið fínt að veltast um í spýju sinni, létta af sér á þinghúsdyr, góla og garga.

Ef máttarvöld þjóðfélagsins fengjust til að lýsa yfir neyðarástandi og kalla út öryggissveitir til að hreinsa miðborg Reykjavíkur að næturlagi, væri stigið fyrsta skrefið í þá átt að senda ný skilaboð til ungra og aldinna um, að ölæði sé ekki lengur viðurkennd hegðun.

Í útlöndum eru foreldrar látnir sækja börn sín á lögreglustöðvar og sektaðir, ef um ítrekuð mál er að ræða. Í útlöndum eru menn umsvifalaust sektaðir fyrir að kasta af sér vatni og fleygja rusli á götur. Þar er framfylgt banni við útivist barna á kvöldin.

Samanlögð áhrif slíkra aðgerða fela í sér byltingu. Í New York hefur morðum fækkað um 40%. Stórglæpir hjaðna, þegar tekið er á ölæði almennings.

Jónas Kristjánsson

DV

Villimenn átu lakkrísgerðina

Greinar

Bitur reynsla íslenzkra kaupsýslumanna, sem komu á fót lakkrísverksmiðju í Kína, sýnir vel, hversu vitlaust er að fórna fé og fyrirhöfn í viðskipti við aðila, sem skipta um tromp í miðju spili. Viðskipti án vestrænna leikreglna eru ávísun á fjárhagstjón og tímasóun.

Íslendingarnir voru engir græningjar í viðskiptum. Þeir komu úr ýmsum þáttum athafnalífsins, einkum verzlun og sjávarútvegi. Þeir lögðu fram séríslenzka þekkingu á lakkrísgerð og lakkrísmarkaði og rúmlega hundrað milljónir króna í hlutafé og rekstrarfé.

Á móti lögðu kínverskir aðilar fram rústir af verksmiðjuhúsi. Það var gert upp sem nýtt og keyptar vélar fyrir íslenzka hlutaféð. Þegar auka þurfti hlutafé í fyrirtækinu, lögðu kínversku aðilarnir aldrei fram krónu en héldu samt eignarhluta sínum óbreyttum.

Hvenær sem vandamál komu upp, voru búnar til nýjar leikreglur á staðnum, íslenzku aðilunum í óhag. Þegar fyrirtækið strandaði eftir eitt ár, urðu Íslendingarnir að hypja sig heim með skottið milli fótanna, en kínversku aðilarnir héldu nýuppgerðri verksmiðju.

Íslenzka utanríkisráðuneytið hefur ekkert gert til aðstoðar við að fá skaðabætur vegna eignarnámsins, sem fólst í geðþóttaákvörðunum í Kína. Ráðuneytismenn eru með það á heilanum, að ekki megi styggja kínverska ráðamenn út af viðskiptahagsmunum.

Þessir hagsmunir eru nánast engir, enda er viðskiptajöfnuðurinn okkur afar óhagstæður. Við flytjum út til Kína fyrir um það bil hálfan milljarð króna á ári, sem er afar lítið, til dæmis miðað við Taívana, sem kaupa af okkur fyrir tvo milljarða króna á ári.

Reynsla Íslendinga af viðskiptum við Kína er ekki óhagstæðari en margra erlendra aðila. Munurinn er fyrst og fremst sá, að íslenzka utanríkisráðuneytið gerir ekkert til að fá Kínverja til að virða leikreglur, heldur sendir embættismenn til að slefa fyrir þeim.

Mörg fjölþjóðleg stórfyrirtæki þreyja þorrann til að vera komin með fótinn inn fyrir dyrnar, þegar farið verði að virða spilareglur viðskiptanna í Kína. Þessi fyrirtæki hafa bolmagn til að tapa peningum árum saman, en það hafa Íslendingar engan veginn.

Við höfum hvorki bolmagn né stuðning ráðuneytis til að starfa með Kínverjum. Þeir hafa engar afurðir að bjóða, sem við getum ekki fengið annars staðar. Við ráðum aldrei við að framleiða fyrir nema brot af þeim hluta heimsins, sem virðir lög og rétt í viðskiptum.

Reynslan sýnir, að nýlega opnað sendiráð Íslands í Kína er ekki bara gagnslaust, heldur beinlínis skaðlegt. Það stuðlar raunar að því, að fleiri íslenzkir aðilar tapi fé og tíma á kínverskum markaði. Kostnaði við sendiráðið væri betur varið í sendiráð í Tokyo.

Japan er glæsimarkaður fyrir íslenzkar afurðir. Þar eru keyptar dýrum dómi ýmsar vörur, sem áður höfðu ekki markað. Þar er farið eftir leikreglum, en ekki skipt um tromp í miðju spili. Við eigum auðvitað að efla slík viðskipti með því að koma á fót sendiráði þar.

Sannleikurinn um Kínaviðskiptin nær því miður ekki eyrum þeirra, sem stjórna utanríkismálum okkar. Þvert ofan í staðreyndir er sífellt verið að tauta gamlar klisjur um mikla möguleika í Kína. Þessi meinloka er inngróin í heilabúið og læknast ekki með upplýsingum.

Einn eigenda íslenzku lakkrísverksmiðjunnar í Kína komst að kjarna málsins, þegar hann lýsti viðskiptunum með því að segja: “Þetta eru villimenn”.

Jónas Kristjánsson

DV

Feitan lífeyrisgölt er að flá

Greinar

Stórhveli fjármagnsmarkaðarins berjast um þjóðarsálina um þessar mundir. Þau auglýsa grimmt og láta framleiða fyrir sig skoðanakannanir með hlöðnum spurningum til að hjálpa hinum spurðu að komast að niðurstöðu, sem er greiðanda skoðanakönnunarinnar í hag.

Hér er feitan lífeyrisgölt að flá. Lífeyrissjóðir vilja halda fáokunartökum sínum á sparnaði landsmanna. Bankar og nýsprottnar fjármálastofnanir vilja komast að kötlunum. Báðir aðilar vilja stýra innihaldi lífeyrisfrumvarpsins, áður en það verður að lögum.

Fleiri hafa hagsmuna að gæta en þeir, sem fyrirferðarmestir eru í áróðursstríðinu. Einn þessara aðila er ríkisvaldið fyrir hönd skattgreiðenda. Það eru augljósir hagsmunir skattgreiðenda, að fólk leggi svo mikið í sameignarsjóði, að ríkið þurfi ekki að bæta þar við.

Sameignarsjóðirnir hafa þann kost, að þeir greiða fólki, hvort sem það lifir lengur eða skemur og hvort sem það forfallast frá vinnu fyrr vegna örorku eða síðar vegna aldurs. Í sameignarsjóðunum felst trygging, sem sparar ríki og skattgreiðendum velferðarkostnað.

Ríki og skattgreiðendur geta litið svo á, að ekki sé fært að leyfa fólki að afla meiri ávöxtunar í séreignarsjóðum, því að það leiði til þess, að margir éti út slíkan sparnað með óvæntri örorku eða langlífi og verði þá að leita sér velferðar í sameiginlega sjóði þjóðarinnar.

Með núgildandi 10% lífeyrissparnaði í sameignarsjóðum má telja, að hóflegur elli- og örorkulífeyrir fáist af 120.000 króna mánaðartekjum. Þegar slíku tekjumarki er náð, er eðlilegt að fara að gæta fleiri sjónarmiða en hagsmuna ríkis, skattgreiðenda og velferðar.

Eðlilegt er, að sparendur geti við einhver slík mörk farið að ráða eðli sparnaðarins. Það gerist með því að gefa fólki kost á að leggja umframsparnaðinn í séreignarsjóði. Þeir gefa fólki betri ávöxtun en sameignarsjóðir, þegar það er búið að tryggja velferð sína.

Mikilvægt er, sparendur geti valið sér sjóði í báðum kerfum. Lífeyrissjóðum hefur tekizt misjafnlega vel að ávaxta sitt pund. Sparendum og þjóðinni kemur vel, að lélegum sjóðum verði refsað með fólksflótta, en góðir sjóðir verði verðlaunaðir með aukinni aðsókn.

Því miður eru hagsmunir verkalýðsrekenda samofnir hagsmunum þeirra sjálfra sem stjórnarmanna í lífeyrissjóðum. Ótilneyddir sleppa þeir ekki hendinni af stéttarfjötrum, sem þeir hafa lagt á félagsmenn með því að skylda þá til að vera í sjóði stéttarfélagsins.

Bezt væri, að hafa frjálsan markað sameignarsjóða og séreignarsjóða, en skylda sjóðina til að hafa skörp skil milli þessara tveggja deilda. Ennfremur þarf að setja starfsemi sjóða svo strangar og traustar reglur, að ekki sé umtalsverð hætta á, að þeir verði gjaldþota.

Litlar líkur eru á, að samið verði um skynsamlegustu leiðina. Verið er að reyna að bræða saman misjafna hagsmuni og ekki endilega þá, sem mestu máli skipta fyrir sparendur og skattgreiðendur, heldur þá, sem eru mest í þágu fyrirferðarmestu þrýstihópanna.

Niðurstaðan verður jákvæð að því leyti, að sett verða mörk við einhverja krónutölu á mánuði milli verksviðs sameignarsjóða og séreignarsjóða. Hún verður neikvæð að því leyti, að stuðningur verkalýðsrekenda verður keyptur með verndun stéttafjötra í lífeyrissjóðum.

Niðurstaðan verður meira jákvæð en neikvæð, því að hún felur í sér, að jafnóðum verði sparað, en vandanum ekki varpað á skattgreiðendur framtíðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðherraferð í svartholið

Greinar

Utanríkisráðherra ætti ekki að heimsækja Indónesíu. Ferðaþörf ráðherrans væri betur þjónað hjá einhverju af okkar góðu viðskiptalöndum, þar sem nægir möguleikar eru á auknum viðskiptum. Indónesía er ekki eitt af slíkum löndum, heldur svarthol í tilverunni.

Við getum ekki selt öllum heiminum vörur okkar. Til þess erum við of fáir og umheimurinn of fjölmennur. Bezt er að halda áfram að gera það, sem okkur hefur gefizt bezt. Það er að leita uppi auðugar viðskiptaþjóðir, sem vilja kaupa fiskafurðir okkar dýru verði.

Þessi ríki eru öll í Vestur-Evrópu, Norður-Ameríku og í Japan. Samtals eru þessir þrír markaðir raunar miklu meira en níu tíundu hlutar heimsmarkaðarins. Við getum því aldrei annað meira en brotabroti af þeim ágætu mörkuðum, sem við erum þegar að rækta.

Fullyrðingar um markaði í öðrum heimshlutum, svo sem í Kína og Indónesíu, eru helbert rugl, sem þjónar ekki öðrum tilgangi en að afsaka ferðalög ráðamanna. Það þarf miklu öflugri þjóðir en okkur til að hasla sér völl í löndum, sem virða ekki viðskiptareglur.

Indónesía hlýtur að vera einna neðst á óskalista íslenzkra kaupsýslumanna. Að vísu er ekki eins vonlaust að festa fé og fyrirhöfn þar og í Kína. Risinn á meginlandinu vermir botnsætið, af því að hann tekur fé og fyrirhöfn manna í gíslingu til að kúga þá til þjónustu.

Indónesía er hins vegar stærsta þjófræðisríki heimsins, síðan Marcos hrökklaðist frá völdum á Filippseyjum. Ætt Suhartos forseta mjólkar þjóðina sér til framdráttar. Erlendir kaupsýslumenn eru metnir eftir því, hvað þeir geta mútað ættinni stórkarlalega.

Nái íslenzkur kaupsýslumaður fótfestu í Indónesíu, þýðir það aðeins, að hann hefur borgað vel undir borðið. Ef hann rekur sig síðan á, að allt er unnið fyrir gýg, stafar það af, að annar hefur komið og boðið betur. Íslendingurinn situr uppi með tapað fé og fyrirhöfn.

Spillingarkostnaður í Indónesíu er 20% af vinnsluvirði. Til samanburðar er slíkur kostnaður í Taílandi 10%. Spillingarkostnaðurinn í Indónesíu er tvöfaldur launakostnaðurinn, sem er 10% af vinnsluvirði. Hér á landi er launakostnaður 80­90% af vinnsluvirði.

Þessar grófu hlutfallstölur sýna sérkennilegt viðskiptaástand í Indónesíu. Þjófræðið er þó ekki eina vandamál ríkisins, því að ofbeldi ríkisvaldsins er það, sem illræmdast hefur orðið í umheiminum. Friðarverðlaunanefnd Nóbels minnti nýlega á þá staðreynd.

Herinn í Indónesíu er frægur fyrir að hafa slátrað 300.000 pólitískum andstæðingum þjófræðisins og 200.000 íbúum eyjarinnar Tímor. Þetta eru mestu fjöldamorð áratuganna, sem liðnir eru síðan Hitler var upp á sitt bezta, næst á eftir fjöldamorðunum í Rúanda.

Ef utanríkisráðherra Íslands er svo ferðasjúkur, að hann þiggur boð um að heimsækja svartholið Indónesíu, mun það senda röng skilaboð til umheimsins, eftir að Ísland var áður búið að senda rétt skilaboð vegna Eystrasaltsríkjanna og síðan vegna Taívans.

Ekki er ástæða til að ætla, að utanríkisráðherra okkar gangi betur að ýta þjófum og morðingjum ríkisstjórnar Indónesíu inn á þröngan veg dyggðanna en honum hefur gengið að sannfæra stjórnir Tyrklands og Noregs um að taka mark á kvörtunum sínum og kveini.

Sú staðreynd, að ferðalag til Indónesíu skuli vera til umræðu í utanríkisráðuneytinu, staðfestir, að þar sitji menn, sem ekki valda verkefnum sínum.

Jónas Kristjánsson

DV

Skuldunautar sendiherrans

Greinar

Þekktur Íslendingur, sem ferðaðist til Kína án þess að þurfa sjálf að borga fyrir það, sagði fyrir helgina í blaðagrein, að hundruð, ef ekki þúsundir Íslendinga hefðu heimsótt Kína fyrir milligöngu kínverska sendiherrans. Lægri talan er sennilegri, en óhugnanlega há samt.

Greinarhöfundur vakti sérstaka athygli á, að mikið af þessu fólki væri úr röðum yfirstéttarinnar, þar á meðal æðstu stjórnmála- og embættismenn ríkisins. Hvatti hún þetta fólk til að taka saman höndum til varnar sendiherranum, núna þegar að honum er sótt.

Vitað er um einn ferðalanganna, að hann telur sig ekki eiga pólitíska skuld að gjalda sendiherranum eða ríkisstjórninni að baki honum. Það er Davíð Oddsson forsætisráðherra, sem tók eðlilega á málunum, þegar varaforseti Taívans vildi koma hingað til lands.

Við vitum ekki um hina, en vonandi eru fáir sama sinnis og greinarhöfundur að telja sig þurfa að endurgjalda kínverska sendiherranum greiða með því að styðja ömurlegan málstað hans og ríkisstjórnarinnar að baki honum. Slíkt héti ekkert annað en spilling.

Ein af aðferðum ríkisstjórnar Kína til að koma óviðurkvæmilegum áhugamálum sínum á framfæri í öðrum löndum er að hlaða gestrisni á fólk, sem það telur vera í lykilstöðum í þjóðfélaginu. Þetta er gömul mútuaðferð, sem kínversk stjórnvöld telja vera í fullu gildi.

Önnur aðferð, sem ríkisstjórn Kína beitir til að efla málstaðinn, er að taka í gíslingu fé og fyrirhöfn þeirra manna, sem ginntir hafa verið til að líta á Kína sem taumlausa markaðsmöguleika. Þetta minnir á, þegar lénsherrar tóku syni lénsmanna í fóstur á miðöldum.

Í Kína ríkja ekki fastar leikreglur um stöðu fjár og fyrirhafnar eins og við þekkjum á Vesturlöndum. Yfirvöld ríkisins og einstakra héraða fara með slíkt að geðþótta og nota gerræðisvaldið óspart til að þvinga útlenda gróðahyggjumenn til að þjónusta hagsmuni sína.

Mörg vestræn stórfyrirtæki hafa sökkt miklum fjármunum í þessa botnlausu mýri. Forstjórar þeirra eru eins og útspýtt hundsskinn við að sannfæra ráðamenn vestrænna þjóða um að þeir eigi að vera góðir við Kínastjórn og leyfa frekju hennar að ná fram að ganga.

Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessu. Tilraun var gerð til að setja á fót íslenzka lakkrísverksmiðju í Kína. Þegar allt var komið í gang, skiptu stjórnvöld á staðnum um tromplit í miðju spili og bjuggu til sjónhverfingar, sem gerðu verksmiðjuna gjaldþrota.

Menn eiga erfitt með að læra af mistökum annarra. Þess vegna eru sumir Íslendingar í biðröð hjá kínverska sendiherranum til að fá tækifæri til að festa fé og fyrirhöfn í Kína eða viðskiptum við Kína. Sumir þeirra munu vafalaust styðja pólitísk markmið Kínastjórnar.

Jarðarkringlan er stór. Hún er þúsund sinnum stærri en hugsanlegt áhrifasvið samanlagðra íslenzkra athafnamanna. Til eru ótal ríki milljónaþjóða, þar sem fé og fyrirhöfn útlendinga njóta verndar laga og réttar án þess að vera stjórnað að geðþótta stjórnvalda.

Þess vegna er bezt, að kínverski sendiherrann og ríkisstjórnin að baki honum framkvæmi ógeðfelldar hótanir um að tefja fyrir viðskiptum Kínverja og Íslendinga. Það verður til þess eins að draga úr líkum á, að Íslendingar verði fyrir tjóni af slíkum viðskiptum.

Í umræðunni um þessi mál eru marklaus innlegg þeirra, sem telja sig þurfa skuld að gjalda fyrir að hafa ferðazt til Kína án þess að borga sjálfir fyrir það.

Jónas Kristjánsson

DV

Brennivíns- og bjórborgin

Greinar

Lögreglustjórinn í Reykjavík sagði í blaðaviðtali í gær, að hann ætlaði að biðja um lista yfir veitingahús, sem eru án vínveitingaleyfis, en veita eigi að síður vín. Þessi merkilega yfirlýsing segir milli lína, að lögreglustjórinn hafi þá ekki enn látið semja slíkan lista.

Komið hefur fram í fréttum, að veitingahúsið, sem menn sækja helzt, áður en þeir drepa fólk, hefur í mánuð veitt vín án leyfis. Nágrannar hafa óspart og árangurslaust kvartað út af þessum illræmda stað, sem er að hluta í eigu sonar lögreglustjórans í Reykjavík.

Lögreglustjórinn sagði í sama blaðaviðtali, að hann hefði beðið lögfræðideild sína um að vinna af kappi við að finna hreint og klárt mál um brot á lögum um auglýsingar á áfengi. Þessi merkilega yfirlýsing segir milli lína, að kapp deildarinnar hafi verið einkar lítið.

Fyrir vankunnáttu tapaðist mál fyrir héraðsdómi, þar sem ekki var um að ræða hreina áfengisauglýsinu, heldur dulbúið millistig auglýsingar og fréttar. Þessi úrskurður skelfdi lögreglustjórann svo mjög, að hann þorir ekki að láta dómstóla reyna á fleiri mál að sinni.

Lögreglustjóraembættið í Reykjavík er ekki eitt um skort á athafnavilja gegn brotum, sem tengjast áfengi. Dómsmálaráðuneytið hefur tekið fram fyrir hendur lögreglunnar og veitt leyfi margkærðum veitingamanni, sem ítrekað brýtur áfengis- og barnaverndarlög.

Borgarstjórnin í Reykjavík er engu skárri og vísar mest á stofnanir ríkisins, sem eigi að halda uppi lögum og reglu í borginni. Um mitt síðasta ár ætlaði hún að hætta að mæla með vínveitingaleyfum í borginni, en hefur ekki enn komið samþykktinni til framkvæmda.

Getuleysi stjórnvalda er magnað með hótunum áfengissala, sem meðal annars segjast siga Evrópusambandinu á stjórnvöld, ef þau makki ekki rétt. Þeir hafa þannig komizt upp með að þverbrjóta lög um bann við áfengisauglýsingum og færa sig hratt upp á skaftið.

Fyrirhugaðar öryggismyndavélar í miðborginni eru eini ljósi punkturinn í almennri uppgjöf þeirra stjórnvalda, sem stjórna brennivínsmálum borgarinnar. Erlend reynsla er fyrir því, að slíkar vélar snarfækka minni og meiri háttar glæpum í miðborgum.

Fyrir nokkrum áratugum var ástandið svipað í miðborg Amsterdam og borgin eins illræmd og Reykjavík er að verða. Þá var óeirðalögreglan kölluð til að hreinsa miðborgina. Síðan geta borgarar og ferðamenn gengið óáreittir að nóttu og degi um miðborg Amsterdams.

Það sama væri auðvitað hægt að gera hér, ef við hefðum lögreglustjóra með bein í nefinu, hvað sem núverandi lögreglustjóri segir. Lögreglustjóri með bein í nefi mundi afla sér stuðnings annarra stjórnvalda ríkis og borgar við að spúla ósómanum út úr miðborginni.

Hörð viðbrögð gegn brotum á lögum um áfengi og hliðstæðum lögum leysa ekki drykkjuvanda þjóðarinnar á einu bretti. En reynslan frá útlöndum sýnir, að slík viðbrögð draga úr afbrotum og ónæði, sem hljótast af ótæpilegri neyzlu áfengis og annarra fíkniefna.

Með núverandi getuleysi lögreglustjóra, dómsmálaráðuneytis, alþingis og borgarstjórnar er verið að afsiða ungu kynslóðina í borginni. Hún er í miðborginni að læra af fullorðnu drykkjurútunum hversu langt er hægt að ganga í að hætta að vera í húsum hæfur.

Því meira, sem fjallað er um þetta mál í fjölmiðlum, þeim mun ljósara verður, að embættis- og stjórnmálamenn hafa gersamlega brugðizt skyldu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Sparnaður á silfurfati

Greinar

Hagfræðistofnun Háskólans hefur reiknað, að sparnaður þjóðarinnar vegna lækkunar iðgjalda í bílatryggingum nemi 2,3 milljörðum króna á þessu ári. Þar af er 1,1 milljarður beinn sparnaður bíleigenda og 1,2 milljarðar sparnaður þjóðarinnar af 0,4% lækkun vaxtastigs.

Minni útgjöld heimilanna af bílatryggingum lækka vísitölu neyzluverðs. Stór hluti skulda heimilanna er verðtryggður með tengingu við vísitölur. Þar af leiðandi verða vextir lægri en ella hefði orðið. Þess vegna leggst 1,2 milljarðs sparnaður ofan á 1,1 milljarðs sparnað.

Þetta er árangurinn af framtaki nokkurra manna í Félagi íslenzkra bifreiðaeigenda. Þeir neituðu að trúa fullyrðingum íslenzkra tryggingafélaga um, að tap væri á bílatryggingum hér á landi. Þeir bentu á, að bílatryggingar væru mun ódýrari í nágrannalöndunum.

Niðurstaðan af athugunum leiddi til samnings við erlent tryggingafélag um að koma inn á íslenzka markaðinn með lægri tryggingar en áður höfðu þekkzt hér á landi. Gömlu fáokunarfélögin neyddust til að lækka sínar tryggingar og þjóðin öll naut framtaks fárra.

Auðvelt verður fyrir þjóðina að tapa aftur þessum 2,3 milljörðum á ári. Það gerir hún með því að halda tryggð við fáokunarfyrirtækin, svo að nýja tryggingafélagið festist ekki í sessi og verði á endanum keypt af fáokunarfyrirtækjunum eins og fyrra Skania-dæmið sýndi.

Stór hluti þjóðarinnar heldur enn tryggð við einokunarflugfélagið, sem sagði, að tap væri á rekstri innanlandsflugs, áður en það lækkaði verð til að mæta nýrri samkeppni. Þar sem of fáir fluttu sig milli félaga, munu innlend flugfargjöld hækka að nýju á næsta ári.

Meðan samkeppnin stendur í innanlandsflugi spara landsmenn ógrynni fjár í flugfargjöldum og annað eins í minni verðbólgu á samkeppnistímanum. Þegar samkeppnin dofnar aftur, missir fólk sparnaðinn til baka, bæði fargjaldasparnaðinn og verðbólgusparnaðinn.

Tímabundinn sparnaður þjóðarinnar í innanlandsflugi og vonandi varanlegur sparnaður hennar í bílatryggingum eru hrein skiptimynt í samanburði við sparnaðinn, sem hlytist af samkeppni banka. Okkur vantar sárlega útlendan banka hingað til lands.

Reiknað hefur verið, að íslenzkir bankar taka tvöfalt meira af veltunni í rekstrarkostnað en útlendir bankar. Þetta stafar af gífurlegum afskriftum vegna tapaðra útlána. Vaxtamunur inn- og útlána er tvöfalt hærri en hann væri við eðlilegan rekstur bankanna.

Af samanlögðum slíkum ástæðum telja stjórnvöld víða á Vesturlöndum hagkvæmt að auka viðskiptafrelsi erlendra aðila og stækka þannig markaðinn, svo að samkeppni aukist og fólk spari peninga. Þetta dregur úr verðbólgu og léttir stjórnvöldum vinnu sína.

Hér á landi eru stjórnvöld hins vegar lítt gefin fyrir samkeppni. Þau knúðu fram sameiningu flugfélaga og eru að reyna að sameina banka. Öll slík sameining dregur úr samkeppni og hækkar kostnað fólks. Hún hækkar vísitölur, sem stjórnvöld reyna að halda niðri.

Dýrasta fáokunarhneigð stjórnvalda felst í kvótakerfum landbúnaðar og sjávarútvegs. Þessi opinberu skömmtunarkerfi draga úr samkeppni í atvinnulífinu, sem sést bezt af snöggum flutningi auðs í fáar hendur. Uppboð veiðileyfa mundu færa þjóðinni hagnaðinn.

Þjóðin verður sjálf að hafa þrek til að gæta hagsmuna sinna. Hún getur ekki treyst, að alltaf séu einhverjir úti í bæ, sem færi henni vinning á silfurfati.

Jónas Kristjánsson

DV

Bosníu verði skipt í þrjú ríki

Greinar

Ljóst er orðið, að engin ákvæði Dayton-samkomulags vesturveldanna og málsaðila í Bosníu ná fram að ganga. Ekkert hefur gengið að sameina landið í eitt ríki. Ekkert hefur gengið að hafa hendur í hári stríðsglæpamanna. Ekkert hefur gengið að byggja upp stofnanir lýðræðis.

Þjóðahreinsun málsaðila var að mestu lokið, þegar Atlantshafsbandalagið drattaðist á staðinn. Menn skera ekki lengur hver annan á háls. Deila má svo um, hvort það sé að þakka nálægð Nató eða þeirri staðreynd, að málsaðilar búa nú að mestu hver í sínu lagi.

Hitt er víst, að setuliðið verður einhvern tíma að fara og að þá hefst blóðbað að nýju, meðan arftakaríki Bosníu eru að laga landamæri sín. Setuliðið fer, af því að bandaríska þingið mun ekki sætta sig við langvinna þátttöku Bandaríkjanna í misheppnaðri aðgerð.

Þegar það hentar einhverjum málsaðila í Bosníu, munu nokkrir bandarískir hermenn falla í valinn og Bandaríkin fara á taugum, eins og þau gerðu í Líbanon og Sómalíu. Bandaríska setuliðið mun þá flýja af hólmi, eins og það gerði á sínum tíma í Líbanon og Sómalíu.

Þá fara evrópsku hermennirnir líka. Málsaðilar í Bosníu verða skildir eftir til að gera út um mál sín með því að skera hver annan á háls. Miklu betra er að skipta landinu áður formlega í þjóðahreinsuð svæði og styrkja fólk til að flytjast til svæða fólks af sama þjóðerni.

Bezt væri að lagfæra landamærin, þótt það kosti enn meiri þjóðflutninga. Þá verður léttara að verja landamærin, þegar ýfingar hefjast um svæði, sem málsaðilar girnast í garði náungans. Vesturveldin gætu meira að segja veitt tímabundna aðstoð við landamæravörzlu.

Vesturveldunum ber nú að játa ósigur sinn og fara að búa jarðveginn undir brottförina. Mikilvægt er að byrja á því að viðurkenna loksins, að sameining Bosníu í eitt ríki er óframkvæmanleg. Bezt er, að þjóðirnar þrjár fái að búa hver út af fyrir sig í eigin ríki.

Frá því að Dayton-samkomulagið var undirritað, hafa aðeins 30.000 minnihlutaíbúar flutzt aftur til fyrri heimkynna, en 80.000 minnihlutaíbúar hafa flúið heimkynni sín. Íbúum blandaðra svæða hefur því fækkað í heild um 50.000 manns við afskipti vesturveldanna.

Þannig heldur flóttamannastraumurinn áfram, en í öfuga átt við það, sem Dayton-samkomulagið gerir ráð fyrir. Bosnía er því hægt og bítandi áfram að breytast í þrjú aðskilin og þjóðahreinsuð svæði, sem hvert fyrir sig lýtur yfirráðum róttækustu stríðsglæpamannanna.

Vesturveldin bættu gráu ofan á svart með því að hefja afskipti af valdastríði geðveikrar kerlingar og geðveiks karls, sem höfðu haft sig svo mikið í frammi í þjóðahreinsunum, að ekki mátti á milli sjá. Plavsic og Karadzic eiga raunar bæði heima í stríðsglæpafangelsi.

Atlantshafsbandalagið og vesturveldin þurfa ekki lengur að sanna sig í Bosníu. Fullreynt er, að afskipti þeirra hafa reynzt gagnslaus með öllu. Niðurlægingin er fyrir löngu orðin að staðreynd, sem ekki verður breytt. Skipulagt undanhald er eina leiðin úr stöðunni.

Atlantshafsbandalagið og vesturveldin áttu valið, þegar Dayton-samkomulagið var ferskt. Með hörku og festu hefði þá verið hægt að knýja það fram. En langvinnur ræfildómur hefur gert ókleift með öllu að reyna að gera það núna, sem þá hefði verið kleift.

Friður er líklegastur í Bosníu, ef þjóðirnar verða algerlega aðskildar í verjanlegum ríkjum og reistar verða voldugar varnargirðingar á landamærum þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

Ruddinn má fara heim

Greinar

Við getum ekki látið fulltrúa Kínastjórnar leika hlutverk skömmtunarstjóra í samskiptum okkar við útlenda aðila. Við getum ekki leyft ruddalegum sendiherra Kína hér á landi að flagga hótunum um, að Íslandi verði refsað fyrir samskipti við varaforseta Taívans.

Sendiherra Kína á Íslandi líkist ráðamönnum Kína að því leyti, að hann kann ekki mannasiði. Hann á því ekki að vera sendiherra hér á landi. Þar með er ekki sagt, að Kínverjar kunni ekki mannasiði. Þeir ráða bara engu um framferði dólganna, sem þar ráða ríkjum.

Kínverjar hafa enga skoðun á því, hvort ráðamenn erlendra ríkja eigi að taka á móti sendimönnum Taívans. Þeir eru bara þegnar í ríki, sem er stjórnað af ófyrirleitnum glæpaflokki, sem reynir að auka áhrif sín í útlöndum með alls konar hótunum og ögrunum.

Viðtal forsætisráðherra Íslands við varaforseta Taívans er engin móðgun við Kínverja. Virðingu Kína hefur hins vegar sett ofan við dólgslæti sendiherrans. Þeir, sem kunna ekki mannasiði, missa virðingu, en afla sér hennar ekki. Virðing kemur nefnilega að innan.

Raunar ber siðameistara utanríkisráðuneytisins að kalla sendiherra Kína á sinn fund og minna hann á mannasiði. Slíkt mundi senda þau skilaboð til glæpaflokksins í Kína, að dólgslæti hafi ekki áhrif hér á landi frekar en í Danmörku eða öðrum siðuðum ríkjum.

Því miður er utanríkisráðherra okkar hræddur að eðlisfari og mun verða í felum í máli þessu. Hann er alltaf hræddur, þegar útlendingar byrsta sig, svo sem í ljós kom í misheppnuðum samskiptum hans við norsk stjórnvöld út af hagsmunum Íslendinga á hafinu.

Ef frá er skilin lömun utanríkisráðuneytisins, er heimsókn varaforseta Taívans hið bezta mál. Hún undirstrikar, að við seljum fjórum sinnum meira til Taívans en til Kína, enda fara viðskipti við Taívan eftir markaðslögmálum, en ekki eftir geðþótta glæpaflokks.

Við erum bara 260.000 manna þjóð og getum aðeins framleitt vörur fyrir lítið brot af heiminum. Við eigum endalausa kosti í löndum, sem stunda heilbrigða viðskiptahætti og fara eftir lögum og rétti. Við þurfum því ekki að taka áhættu af geðþóttaviðskiptum við Kína.

Glæpaflokkar eru víðar við völd en í Kína. Við skiptum okkur ekki af slíku, enda viljum við síður blanda viðskipti stjórnmálum. Við áttum til dæmis mikil viðskipti við Sovétríkin sálugu, áður en þau hurfu snögglega af sjónarsviðinu sællar minningar.

Munurinn á Kína og öðrum slíkum ríkjum er, að ráðamenn í Kína eru jafnan reiðubúnir að taka viðskiptin í gíslingu til að reyna að ná markmiðum sínum í utanríkismálum. Þess vegna eru viðskipti við Kína allt önnur og áhættusamari en þau voru við Sovétríkin.

Fyrr eða síðar kasta Kínverjar af sér oki glæpaflokksins og koma á heilbrigðum viðskiptum við umheiminn. Fram að þeim tíma ætti íslenzk kaupsýsla ekki að kosta miklu til áhættusamra viðskipta og snúa sér heldur að réttarríkjum viðskipta á borð við Taívan.

Eðlilegt framhald af uppákomu vikunnar í sendiráði Kína er, að sendiherrann verði látinn fara og beðið verði um annan, sem veit meira um, hvað teljist til mannasiða í umheiminum. Virðing og sæmd fer ekki eftir afli, heldur eftir framgöngu og framkomu hvers og eins.

Sendiherra Kína á Íslandi hefur áður gerzt brotlegur við mannasiði. Hann er fyrir löngu orðinn þaulsætnari hér á landi en viðurkvæmilegt má teljast.

Jónas Kristjánsson

DV