Skekkjur í skólaskýrslu

Greinar

Marklaus er samanburður Íslands og umheimsins í nýjustu fjölþjóðaskýrslunni um kunnáttu nemenda í raungreinum. Svo miklir annmarkar eru á forsendum nýja samanburðarins, að ekkert stendur eftir af fullyrðingum um betri árangur en í fyrra samanburði.

Þetta var skýrsla um raungreinakunnáttu íslenzkra framhaldsskólanema. Áður höfðu birzt skýrslur um slíka kunnáttu nemenda á tveimur mismunandi stigum grunnskólans, í 7. og 8. bekk annars vegar og í 3. og 4. bekk hins vegar. Þær höfðu sýnt slæma stöðu okkar.

Nýja skýrslan nær ekki til sumra þeirra þjóða, sem beztum árangri náðu í fyrra samanburði, einkum Asíuþjóða. Þetta lyftir Íslandi í röðinni, án þess að aukin kunnátta sé að baki. Niðurstöðurnar draga ekki úr þörf okkar fyrir að kynna okkur skólana í Singapúr.

Nýja skýrslan nær aðeins til þeirra þriggja af hverjum fjórum nemendum, sem kusu að mæta til prófs. Það er mun lakara hlutfall en var að meðaltali hjá öðrum þjóðum. Þar sem gera má ráð fyrir, að hinir lakari hafi setið heima, gefur þetta Íslandi óeðlilega háar tölur.

Nýja skýrslan nær aðeins til þeirra, sem eru í framhaldsskólum. Hlutfallslega færri stunda slíkt nám hér á landi en í flestum samanburðarlöndunum. Þetta skekkir myndina, því að gera má ráð fyrir, að lakara raungreinafólkið heltist frekar úr lestinni í framhaldsskólum.

Þegar leiðrétt hefur verið fyrir þessum þremur stórtæku skekkjuvöldum, stendur enn það, sem sást af fyrri skýrslum, að ástand raungreinakunnáttu á Íslandi er dapurlegt. Því er ekki nokkur ástæða til að nota nýju skýrsluna til að ýta vandanum út af borðinu.

Fremur er ástæða til að ítreka, að skýrslur þessar sýna í heild ekkert samhengi milli árangurs annars vegar og fyrirhafnar hins vegar, eins og hún mælist í fjárframlögum, fjölda kennslustunda og hlutfallslegum fjölda kennara. Fátæk lönd standa sig betur en við.

Þótt getuleysi okkar í raungreinum stafi ekki af of lítilli fyrirhöfn okkar í skólamálum yfirleitt, getur það sumpart stafað af rangri skiptingu menntunarframlaga þjóðarinnar, rangri skiptingu kennslustunda og rangri kennaramenntun. Raungreinar séu öskubuska.

Einnig hefur oft verið bent á, að tízkustraumar í skólastefnu bárust hingað fyrir tveimur áratugum og hafa tröllriðið ráðuneyti, námsstjórum og kennaraháskóla æ síðan. Þetta er stefna fúsks og leikja að hætti Piagets, sem dregur úr líkum á, að nemendur læri að puða.

Lítill árangur í raungreinum er eðlileg afleiðing þeirrar stefnu, að skólar eigi að vera skemmtilegar félagsmiðstöðvar fyrir jafnaðarsinnað fólk, sem líði vel í vinnuhópum, þar sem einn vinnur verkið fyrir alla. Í slíku kerfi er ræktaðir embættismenn, en ekki framtaksfólk.

Opinber umræða á Íslandi ber einmitt merki agaskorts, sem stafar af of lítilli rökfestu og of lítilli tilvísun til staðreynda í málflutningi margra þeirra, sem telja sig eiga erindi á umræðumarkaðinn. Opinber umræða einnkennist í allt of miklum mæli af hreinu blaðri.

Stór hópur skólastjóra fór nýlega til Singapúr til að kynna sér skólana þar og finna mismuninn. Við þurfum líka að kynnast góðri stöðu Hollendinga. Meira gagn er og verður af slíkum ferðum en villandi skýrslu, sem gefur þægilega niðurstöðu í skjóli rangra aðferða.

Þegar skólastjórarnir koma frá Singapúr, skulum við heyra, hvað þeir telja okkur geta lært af þarlendum, svo að þjóðin verði samanburðarhæf og samkeppnishæf.

Jónas Kristjánsson

DV

Saddam er sigurvegarinn

Greinar

Kofi Annan gat ekki komið með Saddam Hussein í járnum frá Bagdað. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur ekki hermenn, bara umboð til að semja. Ferð hans varð því sigur forseta Íraks, áður en hún var farin, hver svo sem texti samningsins yrði að lokum.

Framkvæmdastjórinn stóð sig vel. Hann fékk forsetann til að samþykkja nánast allt, sem deilt hafði verið um. Eftirlitsmenn samfélags þjóðanna mega skoða leyndarhverfin, sem kölluð hafa verið hallir Saddams Husseins, eins og aðra grunsamlega staði í landinu.

Gallinn við samninginn er, að Saddam Hussein mun ekki taka neitt meira mark á honum en öðrum samningum, sem hann hefur skrifað undir. Forsetinn mun alls ekki efna loforð sín. Hann hefur aldrei í manna minnum efnt eitt einasta loforð, sem hann hefur gefið.

Þetta var raunar vitað, áður en Kofi Annan fór til Bagdað. Ferðin gat ekki leyst nein vandamál og átti ekki að leysa þau. Hún hefur hins vegar ýtt þeim fram á veginn, svo að Bandaríkin geta sennilega sætt sig við þá ódýru aðferð að lýsa yfir sigri og slíðra sverðin.

Fljótlega mun koma í ljós, að steinar verða lagðir í götu eftirlitsmanna Sameinuðu þjóðanna í Írak. Þeir fá ef til vill að skoða einhverjar hallir, þegar búið er að flytja eiturbirgðirnar brott. En þeir verða alltaf stöðvaðir og tafðir nógu lengi, þegar þeir eru orðnir heitir.

Eftir svo sem eitt ár verður komið í ljós, að þráteflið er það sama og það var áður. Munurinn verður einkum sá, að fækkað hefur færum helztu andstæðinga vígbúnaðarstefnu Saddams Husseins á að hafa hemil á getu hans til að valda umheiminum vandræðum.

Bandaríkjastjórn er hinn sigraði í málinu. Hún hleypti málinu fram á brún hengiflugs án þess að hafa tök á framhaldinu. Hún lyfti ágreiningnum við Saddam Hussein upp í æðra veldi og eggjaði önnur ríki í eins konar “jihad”, heilagt stríð við hin illu öfl heimsins.

Bandaríkin fengu sanngjarnan stuðning Bretlands og ýmissa fleiri ríkja, svo sem Íslands. Það dugði bara ekki, því að mikilvæg ríki á borð við Frakkland og Rússland, Saudi-Arabíu og Egyptaland þurftu líka að vera með á báti. En slík ríki neituðu alveg að taka þátt.

Bandaríkin geta sjálfum sér um kennt. Þau neyttu ekki meðan á nefinu stóð í Persaflóastríðinu. Bush Bandaríkjaforseti bar ábyrgð á, að sameinaður herafli Vesturveldanna var kallaður heim í miðju kafi, án þess að stjórn Saddams Husseins væri velt úr sessi.

Eftir það var ljóst, að forseti Íraks yrði aldrei knúinn með vopnavaldi til að haga sér að óskum Vesturlanda. Viðskipta- og efnahagsbann er lélegt ígildi styrjaldar og náði ekki tilætluðum árangri. Saddam Hussein tók þjóð sína bara í gíslingu og lét hana svelta heilu hungri.

Reynslan hefur sannfært forseta Íraks um, að eftirgjafir andstæðinga sinna séu veikleikamerki, sem leiði til þess, að knýja megi fram meiri eftirgjafir. Gegn slíkri lífsskoðun duga engir samningar, ekki einu sinni góðir samningar, sem Kofi Annan kemur með frá Bagdað.

Bandaríkin hafa séð gegnum fingur sér við marga geðtrufluðustu afbrotamennina í stétt harðstjóra heimsins og beinlínis varið völd sumra þeirra. Þess vegna fer helgisvipurinn stjórnvöldum Bandaríkjanna ekki vel, þegar þau reyna að blása til heilags stríðs.

Stríðið við Saddam Hussein er tapað. Það tapaðist í Persaflóastríðinu fyrir sjö árum. Samningasigur Kofis Annans í Bagdað hefur engin áhrif á þann sigur.

Jónas Kristjánsson

DV

Miðlungsveldi og minni veldi

Greinar

Heimsmálin voru einfaldari, þegar risaveldin voru tvö, annað betra og sterkara, en hitt verra og veikara. Eftir andlát Sovétríkjanna eru valdahlutföll í heiminum óskýrari en áður. Einkum hefur daprazt aginn, sem risaveldin höfðu áður á óstýrilátum smáríkjum.

Svæðisbundnir vandræðaseggir ráða meiru en á tveggja póla tímanum. Milosevits Serbíuforseta hefur tekizt að framleiða mikil vandræði á Balkanskaga og Saddam Hussein Íraksforseta hefur hvað eftir annað tekizt að standa uppi í hárinu á samfélagi ríkja.

Áður voru slíkir í skjóli annars hvors risaveldisins og lutu aga, þegar í harðbakka sló. Nú hefur Bandaríkjunum, sem sitja eitt eftir risaveldanna, ekki tekizt að verða heimslögregla. Dæmin sýna raunar, að völd Bandaríkjanna hafa minnkað við andlát Sovétríkjanna.

Sumpart stafar það af víðtækri og gamalgróinni óbeit í Bandaríkjunum á afskiptum af umheiminum. Margir líta svo á, að heimsvandamál séu eitthvað, sem innflytjendur til Bandaríkjanna hafi viljað skilja eftir, þegar þeir fluttu yfir hafið til fyrirheitna landsins.

Að nokkru stafar það af tregðu innan pólitíska geirans í Bandaríkjunum að taka afleiðingunum af stöðu heimsveldis í umheiminum. Bandaríkin borga til dæmis ekki skuldir sínar við Sameinuðu þjóðirnar og geta því ekki lengur farið sínu fram á þeim vettvangi.

Í þriðja lagi þolir bandarískt almenningsálit ekki lengur mannfall. Þess vegna flúði bandaríski herinn frá Líbanon og Sómalíu og einkum þó frá Víetnam. Þess vegna hætti herinn við ólokið verk í Persaflóastríðinu. Heimsveldi, sem ekki þolir mannfall, er ekki heimsveldi.

Bandaríkin hafa lyppazt niður í að verða miðlungsveldi, áhrifamest ríkja heims, en samt ófært um að blása vinveittum ríkjum til sameinaðra lögregluaðgerða og ófært um að hafa sitt fram í fjölþjóðlegum samskiptum. Smákóngar standa uppi í hári stóra kóngsins.

Ekkert vald hefur fyllt skarð Sovétríkjanna eða tekið upp slakann í valdi Bandaríkjanna. Rússland er rúst af ríki, með takmarkaða getu til að hafa hemil á fyrri skjólstæðingum Sovétríkjanna, til dæmis í Serbíu og Írak. Og herinn réð alls ekki við uppreisn Tsétsjena.

Evrópusambandið hefur styrkt stöðu sína sem efnahags- og fjármálaveldi og mun gera það enn frekar með innreið evrunnar sem gjaldmiðils. Þetta vald hefur ekki færzt yfir í pólitíkina, þar sem Evrópa rambar enn út suður, þegar eitthvað bjátar á, til dæmis í Bosníu.

Evrópusambandið getur hins vegar eins og Bandaríkin, Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrisstofnunin í krafti peninga sinna haft góð áhrif til að draga úr sveiflum og kreppum í öðrum heimshlutum, þar sem ekkert heimaríki hefur reynzt geta tekið að sér forustu.

Japan hefur sett niður sem miðlungsveldi við kreppuna í Suðaustur-Asíu. Þótt japanskir bankar séu helztu lánardrottnar gjaldþrotanna í Suður-Kóreu, Indónesíu og víðar, horfa japönsk stjórnvöld máttvana á þróun mála og láta Vesturlönd um skipulag gagnaðgerða.

Komið hefur í ljós, að embættismenn stjórna Japan upp að vissu marki, en þar fyrir ofan stjórnar enginn og allra sízt hinir formlegu landsfeður stjórnmálanna. Þegar kemur að viðkvæmum utanríkismálum, segir Japan ævinlega pass. Japan fyllir engin skörð.

Við búum þannig við nokkur minni háttar veldi og eitt miðlungsveldi í heiminum, en risaveldi hafa lagzt af með brotthvarfi Sovétríkja og afturhvarfi Bandaríkja.

Jónas Kristjánsson

DV

Auðlindagjald svæft í nefnd

Greinar

Málamiðlunin innan Alþýðubandalagsins um að drepa auðlindagjaldi á dreif með því að setja það í þverpólitíska nefnd fellur vel að þörfum stjórnarflokkanna fyrir að láta líta svo út sem eitthvað sé verið að gera, þegar ekkert er í rauninni verið að gera.

Þess vegna tóku stjórnarflokkarnir vel í þingályktunartillögu Alþýðubandalagsins þessa efnis. Skipun nefndar er gamalkunn aðferð til að fresta óþægilegum málum fram yfir næstu kosningar, svo að þau verði ekki til trafala og óþæginda í næstu kosningabaráttu.

Víðtækt samkomulag á þingi um þessa tillögu staðfestir um leið, að fleygur er milli Alþýðubandalagsins annars vegar og Grósku, Alþýðuflokksins og jafnaðarmanna hins vegar. Það staðfestir, að A-flokkarnir munu ekki ná saman í landsmálum fyrir næstu kosningar.

Veiðileyfagjald skiptir nú þegar árlega milljörðum í sjávarútvegi. Það greiða allir, sem taka kvóta á leigu eða kaupa hann. Annaðhvort greiða þeir beint leigugjald eða þeir greiða vexti og afborganir af fjárfestingu sinni í aðgangi að skömmtuðum verðmætum.

Núverandi veiðileyfagjald rennur ekki í sameiginlegan sjóð landsmanna, heldur í vasa þeirra, sem leigja út kvóta eða selja hann. Að sinni rennur gjaldið að mestu til aðila innan sjávarútvegs, en smám saman verður það að gjaldi til aðila utan sjávarútvegs.

Það gerist með þeim hætti, að sumir sjá hag sínum bezt borgið með því að hætta útgerð og nota leigu- eða sölutekjurnar annaðhvort í öðrum rekstri eða þá sér til lífeyris. Í báðum tilvikum er fjármagnið notað utan gömlu verstöðvanna, einkum á höfuðborgarsvæðinu.

Núgildandi veiðileyfagjald er ranglátt, af því að það rennur ekki til ríkisvaldsins, sem hefur gert auðlindina verðmæta með því að semja við umheiminn um stóra fiskveiðilögsögu og halda uppi skömmtunarkerfi, sem hefur komið í veg fyrir algert aflahrun.

Eðlilegast væri, að þjóðin nyti í heild ávaxtanna af þessu pólitíska afreki sínu og léti jafnframt markaðinn um að ákveða verðgildi auðlindarinnar að núímalegum hætti. Það gerist með því að ríkið bjóði út kvótann á alþjóðamarkaði og taki hagnaðinn á hreinu.

Því miður rúmast svona stór hugsun ekki í músarholum stjórnmálaflokkanna. Þess vegna er þar aðeins deilt um, hvort eigi að afnema svokallað kvótabrask eða ekki og hvort auðlindagjaldið megi fara út úr sjávarútveginum eða ekki. Um annað er ekki rifizt á Alþingi.

Sumir stjórnarþingmenn vilja breyta núverandi kerfi með því að afnema svokallað kvótabrask og taka upp gjald, sem haldist innan sjávarútvegsins en fari ekki úr honum til annarra þarfa þjóðarinnar. Aðrir eru harðir í hagsmunagæzlu fyrir valdamikla heimamenn.

Stuðningsmenn innangreinargjalds og hagsmunagæzlumenn kvótaeigenda eiga sameiginlega alls kostar við þá, sem vilja, að tekjurnar renni til sameiginlegra þarfa og verði notaðar til að lækka skatta í landinu. Þarna á milli er fleygurinn í pólitísku umræðunni.

Styrkleikahlutföll umræðunnar á Alþingi endurspegla ekki skoðanir kjósenda. Úti í þjóðfélaginu er meiri stuðningur við róttækari breytingar. Þess vegna vill meirihluti stjórnmálamanna drepa málinu sem mest á dreif og setja það helzt í langvinna nefnd.

Umræðan á Alþingi í fyrradag var gagnleg, af því að hún auðveldar almenningi að skilja, hvers vegna eðlilegt auðlindagjald nær ekki fram að ganga.

Jónas Kristjánsson

DV

Evran drepur krónuna

Greinar

Evran tekur við sem gjaldmiðill meginlands Vestur-Evrópu um næstu áramót. Hún er þegar farin að stýra hagþróun álfunnar, einkum þeirra ríkja sem áður áttu bágt með að halda aga. Þau stefna nú öll ótrauð að því að hafa komið málum sínum í lag í tæka tíð.

Evran heldur raunar saman sundurleitri ríkisstjórn ólífubandalags Prodis á Ítalíu. Innan bandalagsins eru margir kröfugerðarmenn á vinstra jaðri stjórnmálanna, en þeir hafa hægt um sig, af því að þeir vilja, að Ítalía fái að vera með í sameiginlegum gjaldmiðli Evrópu.

Svipaða sögu er að segja í Frakklandi. Evran knýr hægri forsetann Chirac og vinstri forsætisráðherrann Jospin til að starfa saman að því að hafa hemil á skuldum og hallarekstri ríkisins. Í flestum ríkjum evrunnar er andstaða við hana aðeins yzt á hægra kanti.

Evran stýrir óbeint hagþróun Íslands. Ósjálfrátt hafa viðmiðunarmörk fyrir þátttöku í henni orðið að markmiðum stjórnkerfisins og Seðlabankans. Þótt Ísland taki ekki upp evru sem gjaldmiðil, vilja menn, að hagþróun landsins standist kröfur um aðild að henni.

Ríkisskuldir eru komnar niður fyrir evrumörk, 60% af vergri landsframleiðslu. Verðbólgan er við evrumörk, um 1,5% meiri en í þremur ríkjum, sem hafa minnsta verðbólgu. Langtímavextir eru við evrumörk, um 2% yfir langtímavöxtum þriggja ríkja með lægstu vexti.

Það má hafa til marks um ágæti evrunnar, að hún skuli hafa víðtæk jafnvægisáhrif í Evrópu áður en hún er komin í notkun. Kostir hennar munu svo koma enn betur í ljós eftir áramótin, þegar menn fara beinlínis að nota hana í viðskiptum Evrópu og raunar heimsins.

Samkeppnisstaða fyrirtækja á evrusvæðinu mun batna. Þau þurfa ekki að taka gengisáhættu, kostnaður milliríkjaviðskipta minnkar, verðbólga og vextir lækka og fjármagnskostnaður þeirra minnkar. Evrópubandalagið verður enn meiri efnahagsrisi en áður.

Fyrirtæki í löndum, sem standa utan evrunnar, byrja um næstu áramót að greiða eins konar gjaldmiðlaskatt, það er að segja herkostnað við að reka eigin mynt, með gengisáhættu, gengiskostnaði, vaxtamismun og fjármagnskostnaði umfram þá, sem mega nota evru.

Það stórkostlegasta við evruna er, að hún kemur í veg fyrir, að stjórnvöld í hverju landi fyrir sig geti framleitt efnahagsleg vandræði með atkvæðakaupum af ýmsu tagi. Evran hríðlækkar tjónakostnað þjóða af rekstri ríkisstjórna, sem skipaðar eru skrumurum.

Ef við ímyndum okkur til dæmis, að evran væri gjaldmiðill Íslands, gætu ráðamenn landsins ekki notað uppákomur á borð við óvenjulega mikinn eða lítinn fiskafla til skaðlegra handaflsaðgerða út fyrir evrumörk, að gamalkunnum hætti Steingríms Hermannssonar.

Yrði evran íslenzkur gjaldmiðill, mundi berlega koma í ljós, hversu ábyrgðarlaust er af stjórnvöldum að treysta á sveiflugrein sem undirstöðu hagkerfisins. Evran yrði eins konar hagfræðilegt kennslugagn, sem mundi knýja fram breytta atvinnuhætti tölvualdar.

Um það bil ári eftir að evran hefur verið tekin í notkun hér á landi, mun enginn skilja lengur, hvernig þjóð, sem stundar hlutfallslega meiri utanríkisviðskipti en nokkur önnur þjóð, gat árum saman lifað án hennar og staðið undir herkostnaði af sérstökum gjaldmiðli.

Auðvitað verður evran fyrr eða síðar tekin hér upp. Heimalningar stjórnmálanna geta tafið hana um mörg ár, en þeir hindra ekki innreið hennar að lokum.

Jónas Kristjánsson

DV

Umbi umbanna

Greinar

Umboðsmaður Alþingis er orðinn svo þreyttur á fyrirlitningu ráðherra og ráðuneytisstjóra fjármála á embætti umbans að hann hefur klagað ráðuneytið fyrir forsætisráðherra og forseta Alþingis. Í greinargerð segir hann að ráðuneytið magni bölið sem það á að bæta.

Erfitt er sjá forsætisráðherra og forseta Alþingis sem eins konar yfirumba, sem aðrir umboðsmenn þurfi að kæra sín mál til, þegar ráðuneyti svarar ekki bréfum þeirra í meira en heilt ár og leggur sig á meðan í líma við að starfa þvert gegn efnisatriðum bréfanna.

Íslenzka stjórnkerfið er svo fjandsamlegt venjulegu fólki að umboðsmaðurinn er að drukkna í kærum. Stofnað hefur verið sérstakt embætti umboðsmanns barna og forsætisráðherra hefur stungið upp á að efnt verði til þriðja umbans, umboðsmanns skattgreiðenda.

Ríkisskattstjóri hefur raunar beðið ríkisendurskoðun um að rannsaka, hvort ásakanir um misbeitingu valds héraðsskattstjóra og ríkisskattstjóra eigi við rök að styðjast. Ekki hefur samt enn verið auglýst eftir reynslusögum almennings utan úr bæ, en þær eru nægar.

Neytendasamtökin hafa lagt til, að stofnað verði sérstakt embætti umboðsmanns neytenda. Vegna aukinnar þekkingar í sölu- og markaðstækni hefur hallað á neytendur í viðskiptum og þjónustu. Þeir geta margir hverjir ekki varizt nútímavæddum seljendum.

Fjölgun umboðsmanna er raunar afar brýn. Bezt væri, að slagkraftur þeirra væri sameinaður í einni umboðsmannastofnun á vegum Alþingis. Þeir gætu þá sparað í skrifstofuhaldi og samnýtt rannsóknir, stutt betur hver annan og lært meira af reynslu hver annars.

Hrokinn í fjármálaráðuneytinu er ekkert einsdæmi, þótt hann sé fyrirferðarmestur vegna mikilla umsvifa ráðuneytisins. Hrokinn nær niður í örlitlar stofnanir á borð við Vátryggingaeftirlitið, sem árum saman hefur neitað að gefa Alþingi nauðsynlegar upplýsingar.

Ekki er rekinn óhæfur og hrokafullur forstöðumaður Vátryggingaeftirlitsins, sem oft hefur komið fram sem umboðsmaður tryggingafélaganna gegn almenningi og fulltrúum hans á Alþingi. Í staðinn er þingið að framlengja störf nefndar, sem á að afla upplýsinganna.

Flugmálastjóri er eins og smalahundur í forstofu samgönguráðherra og fer eftir öllu ruglinu úr honum. Þar á meðal var á hans vegum sett upplýsingabann á sjálft Flugráð vegna réttlátrar skoðunar eins ráðsmanns á ólöglegri mismunun í eldsneytisgjaldi flugfélaga.

Stjórnsýsla landsins er morandi í embættismönnum, sem telja sig hafa eignarhald á ríkisvaldinu og vilja skammta eftir eigin geðþótta af hlunnindum þess. Þeir líta niður á fólkið í landinu og fulltrúa þess á Alþingi. Þetta stafar af ofurvaldi íslenzkrar stjórnsýslu.

Hér á landi var aldrei gerð borgaraleg bylting eins og á meginlandi Evrópu né stofnað nýtt borgararíki eins og í Bandaríkjunum. Hér ruddu borgararnir aldrei forréttindastéttunum úr vegi. Við höfum því miður aldrei farið gegnum hreinsunareldinn, sem hófst árið 1789.

Frelsisbarátta Íslands var fyrst og fremst barátta innlendra embættismanna gegn erlendum embættismönnum. Við súpum seyðið af því núna, þegar umboðsmaður okkar fórnar höndum og er uppiskroppa með leiðir til að lækka rostann í óhæfum embættismönnum.

Það væri séríslenzkur flötur á umboðsmannakerfinu, ef við þyrftum að koma á fót embætti yfirumboðsmanns til að hlusta á klögumál allra hinna umbanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Steiner í ráðherraskjóli

Greinar

Fjölmiðlum hefur tekizt með töngum að komast að margvíslegum leyndarmálum um afskipti lögreglu og stjórnvalda af þekktasta fíkniefnasala landsins. Á hverju stigi hafa valdamenn reynt að þyrla upp ryki til að koma í veg fyrir upplýsingar til almennings.

Tveir dómsmálaráðherrar hafa flækzt í málið, núverandi ráðherra og núverandi utanríkisráðherra. Meðal annars hefur komið í ljós, að núverandi dómsmálaráðherra gaf út villandi hártoganir um, að hann hafi ekki haft afskipti af leyndarmáli fíkniefnadeildar.

Yfirmaður og lögmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar höfðu samband við ráðherrana til að fá þá til að stuðla að óvenjulegri styttingu refsitíma fíkniefnasalans á þeim forsendum, að hann mundi í staðinn koma lögreglunni á spor annarrar fíkniefnasölu.

Verndarenglarnir fengur góðar viðtökur. Núverandi ráðherra sendi fullnustunefnd málið samdægurs. Hún lét samdægurs undan þrýstingi hans, sneri við fyrri úrskurði og heimilaði reynslulausn fíkniefnasalans að lokinni aðeins hálfri afplánun refsingarinnar.

Ekkert kom út úr uppljóstrunum fíkniefnasalans, sem greinilega hafði fíkniefnalögregluna að fífli. Eftir stóð leyndarmál, sem málsaðilar vildu ekki kannast við. Margt mannorðið hefur skaddazt á langvinnu undanhaldi þeirra fyrir spurningum fjölmiðla.

Málið sprakk í höndum verndarenglanna, þegar kom í ljós, að ný mál á hendur fíkniefnasalanum höfðu hreinlega týnzt á lögreglustöðunni í Reykjavík! Eftir það var aðeins tímaspursmál, hvenær sannleikurinn yrði togaður upp með töngum fjölmiðla.

Efnismesta uppljóstrunin er birting hluta úr skýrslu, sem gerð var um málið á vegum ríkissaksóknara. Núna stendur slagurinn innan Alþingis og utan um að fá opinberaða hina hlutana, sem enn eru taldir vera of mikið leyndarmál fyrir almenning.

Furðulegir hlutir koma fram í kaflanum, sem birtur hefur verið. Þar stendur, að fíkniefni hafi verið kæruleysislega varðveitt hjá lögreglunni, þau hafi jafnvel horfið og hafi sumpart verið notuð til að kaupa upplýsingar utan úr bæ um fíkniefnasölu.

Með því að birta bara hluta skýrslunnar stóð meðal annars til að halda áfram að hilma yfir aðild ráðherranna tveggja. Það tókst ekki, því að lögmaður fíkniefnadeildar játaði í DV í fyrradag, að hann hefði átt þátt í að ganga á fund ráðherra vegna málsins.

Á þessu stigi er ekki vitað, hversu víðtæk voru afskipti hvers málsaðila. Við sjáum þó óvönduð vinnubrögð lögreglumanna, sem létu fíkniefnasala draga sig á asnaeyrunum. Við sjáum líka afskiptalitla yfirmenn, sem létu undirmenn leika lausum hala.

Loks sjáum við ráðherra, sem að lítt athuguðu máli tók vel í málaleitan lögreglumannanna og fékk því samdægurs (!) framgengt, að bragð fíkniefnasalans gengi upp. Ráðherranum varð fótaskortur á geðþóttanum, sem löngum hefur verið dálæti slíkra.

Skýrast sjáum við þó skert mannorð allra þeirra, sem leynt og ljóst reyndu að hindra sannleikann og höguðu svörum sínum á þann hátt, að spyrjendur mundu fá ranga mynd af málsatvikum. Núverandi dómsmálaráðherra fer þar fremstur í flokki.

Fleiri maðkar kunna að vera í mysunni. Sumir leynast í óbirtum þáttum skýrslunnar. Og enn er ekki vitað, hvernig og hvers vegna skjölin týndust.

Jónas Kristjánsson

DV

Rófan dillar hundinum

Greinar

Þrjár ástæður valda því, að stjórn Bandaríkjanna getur ekki beitt hervaldi til að knýja Saddam Hussein Íraksforseta til að leyfa fullnægjandi eiturvopnaleit að fyrirmælum Sameinuðu þjóðanna. Vegna þeirra eru aðstæður núna lakari en við upphaf Persaflóastríðs.

Ein ástæðan er sagnfræðileg og ekki breytanleg. Hún felst í örlagaríkum mistökum, þegar bandaríski herinn hætti í miðju Persaflóastríði, lýsti yfir sigri og fór heim. Hinn yfirlýsti sigurvegari reyndist ekki hafa þau tök á framhaldi málsins, sem hann taldi sig hafa.

Ekki reyndist hægt að framfylgja eftirleik stríðsins, því að Saddam Hussein tók ekki mark á niðurstöðunni og komst upp með það. Þáverandi Bandaríkjaforseti skildi ekki, að enginn árangur mundi nást án þess að hrekja glæpaflokk Saddams Husseins frá völdum.

Ráðamenn Bandaríkjanna skildu ekki, að Saddam Hussein Íraksforseti lætur aldrei beygja sig og að honum verður aldrei þröngvað til uppgjafar á neinu sviði. Þeir skildu ekki, að hann lítur á sérhverja tilraun til málamiðlunar, sem veikleikamerki andstæðinganna.

Af þessari ástæðu er herstyrkur Íraks svipaður og hann var fyrir stríð og efnavopnabirgðir Saddams Husseins eins uggvænlegar og þær voru þá. Á hinn bóginn eru tækifæri vesturveldanna til að heyja stríð gegn honum mun þrengri en þau voru fyrir stríð.

Þar koma til sögunnar önnur og þriðja ástæðan. Önnur ástæðan er óviðráðanleg. Hún felst í, hversu auðvelt er að kúga Vesturlönd í mannúðarmálum. Það er list, sem Saddam Hussein kann vel og hefur beitt til að veikja stuðning almennings við stefnu vesturveldanna.

Saddam Hussein tekur einfaldlega þjóð sína í gíslingu. Það litla, sem hún aflar sér, tekur hann til að byggja ótal hallir handa sjálfum sér. Hún sveltur hálfu hungri og hana skortir heilbrigðisþjónustu. Hann kennir síðan viðskiptabanni Vesturlanda um hörmungar hennar.

Þessi gíslataka hefur heppnazt. Góðviljað fólk á Vesturlöndum heimtar, að tekin verði upp hefðbundin viðskipti við Írak, svo að póltísk deila komi ekki niður á almenningi í landinu. Þetta hefur fordæmisgildi og mun hvetja aðra harðstjóra til svipaðrar gíslatöku.

Þriðja og síðasta ástæðan er viðráðanleg. Hún felst í vanhelgu bandalagi Bandaríkjanna og Ísraels, sem hefur magnazt í tíð núverandi Bandaríkjaforseta. Ísrael er fjárhagslegur og hernaðarlegur skjólstæðingur Bandaríkjanna og notfærir sér aðstöðuna til yfirgangs.

Núverandi stjórn Ísraels hefur þverbrotið Óslóar-samkomulagið um friðarferli í Palestínu og hyggst koma í veg fyrir það. Hún stundar póltísk, efnahagsleg og félagsleg hryðjuverk gegn Palestínumönnum. Í skjóli Bandaríkjanna er hún andstyggð allra góðra manna.

Ruddalegur yfirgangur Ísraels í umhverfi sínu leiðir óhjákvæmilega til haturs íslamskra þjóða á verndaranum að baki, Bandaríkjunum. Því getur Bandaríkjastjórn ekki safnað liði meðal íslamskra ríkja gegn Saddam Hussein Íraksforseta eins og í Persaflóastríðinu.

Rófan dillar hundinum í bandalagi Bandaríkjanna og Ísraels. Með því að láta rófuna ráða, fórnar Bandaríkjastjórn vestrænum hagsmunum í heimi íslamskra ríkja. Með því glatast brýn tækifæri til að koma á sögulegum sáttum milli Vesturlanda og íslamskra ríkja.

Bandaríkin hafa tekið bandalag við hryðjuverkasinnað smáríki fram yfir stærri hagsmuni og geta því ekki lengur reitt sig á Saudi-Arabíu og Egyptaland.

Jónas Kristjánsson

DV

Vítahringur vangetu og hroka

Greinar

Birtingarmyndir hrokans eru margvíslegar. Stundum telja sumir gikkir nauðsynlegt að ganga svo langt í hrokanum, að þeir missa stjórn á samhenginu og verða vanhæfir í starfi. Þannig hefur farið fyrir yfirmönnum fjármálaráðuneytisins, sem eiga Íslandsmet í hroka.

Umboðsmaður Alþingis hefur kortlagt dæmi um þetta. Í fjórtán mánuði svaraði ráðuneytið ekki bréfi hans um lífeyrissjóð, sem ráðuneytið hafði skaðað. Með því að svara ekki bréfinu í fjórtán mánuði, magnaði ráðuneytið vísvitandi tjónið, sem það olli sjóðnum.

Engar skýringar fengust frá ráðuneytinu, þótt eftir væri leitað. Þegar svar kom loksins, var það ófullnægjandi. Þannig reyndi ráðuneytið að leggja stein í götu umboðsmanns Alþingis og draga úr líkum á, að réttlætið kæmi þolanda rangindanna að gagni í tæka tíð.

Umboðsmaður Alþingis hefur sent forseta Alþingis og forsætisráðherra álitsgerð, þar sem kemur fram, að fjármálaráðuneytið sker sig úr öðrum stofnunum stjórnsýslunnar í hrokafullum viðbrögðum eða öllu heldur viðbragðaleysi við fyrirspurnum umboðsmanns.

Umboðsmaðurinn segir, að borgarar ríkisins eigi rétt á, að stjórnvöld afgreiði mál þeirra, en liggi ekki á þeim langtímum saman, meðal annars til að vinna tíma til að framleiða nýjar leikreglur. Telur hann, að ráðuneytið geti orðið bótaskylt af völdum stærilætis síns.

Álit umboðsmanns er mun harðorðara en tíðkast á vettvangi embættiskerfisins. Það beinist fyrst og fremst gegn fjármálaráðherra og ráðuneytisstjóra, sem bera beinasta ábyrgð á viðbrögðum ráðuneytisins við tilraunum annarra stjórnvalda til að hafa vit fyrir þeim.

Í Kardimommubæ íslenzka þjóðfélagsins tekur forsætisráðherra við pappírum af þessu tagi, hummar kurteislega og stingur þeim undir stól. Hvorki fjármálaráðherrann né ráðuneytisstjórinn eru látnir taka pokann sinn eins og vanhæfir gikkir í stjórnkerfi annarra ríkja.

Komið hefur í ljós, að stjórnsýsla fjármálaráðuneytisins er í molum. Ekki er svarað mikilvægum bréfum, sem varða stöðu ráðuneytisins í tilverunni. Ráðamenn þess láta geðþótta leysa lög og reglur af hólmi. Þeir tefja réttlætismál meðan þeir eru að smíða nýjar leikreglur.

Á sama tíma og ráðuneytið leggur sig í líma við að valda sumum vandræðum og fjárhagstjóni, fer það yfir lækinn að hjálpa öðrum aðila, sem stundað hefur mestu skattsvik aldarinnar. Ríkisendurskoðandi telur, að ráðuneytið hafi með því valdið ríkissjóði miklu tjóni.

Harðorðar greinargerðir tveggja embættismanna, sem eru óháðir stjórnsýslunni, gefa þá mynd af fjármálaráðuneytinu, að þar fari saman vangeta og hroki. Upphaflega framleiðir ráðuneytið vandræði með vangetu sinni og magnar þau síðan á vængjum hrokans.

Engum, sem horfir á málflutning ráðherrans í sjónvarpi, dylst, að þar fer persónugervingur hrokans. Langar setur hans í ráðuneytinu hafa magnað svipaðar tilhneigingar æðstu embættismanna þess og framkallað þá meinsemd, sem ráðuneytið er orðið í stjórnsýsluni.

Hroki byrjar á þeirri ranghugmynd, að menn viti og geri betur en aðrir. Þegar hrokinn magnast, gerir hann þá ófæra um að taka ráðum og sönsum og leiðir þá út í ófærur. Afleiðingin verður fljótlega sú, að gikkirnir vita minna og skila lakara starfi en aðrir.

Ráðuneytið er læst á vítahring vangetu og hroka, þar sem hvort leiðir af hinu. Vítahringurinn verður aðeins rofinn með mannaskiptum á æðstu stöðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Regnhlíf flækir mál fyrir flokki

Greinar

Styrkleikahlutföll flokkanna í prófkjöri Reykjavíkurlistans eru ólík því, sem þau voru löngum í borgarstjórn, þegar Alþýðubandalagið átti fjóra fulltrúa, Alþýðuflokkurinn tvo og Framsóknarflokkurinn einn. Nú var jafnvægi með þessum þremur stjórnmálaflokkum.

Í ljósi sögunnar er rangtúlkun, að Alþýðubandalagið sé sigurvegari innan Reykjavíkurlistans. Þvert á móti hafa hinir flokkarnir brúað bilið og standa nú jafnfætis Alþýðubandalaginu. Tveir fulltúar á hvern flokk endurspegla raunveruleg styrkleikahlutföll í prófkjörinu.

Athyglisverðastur er mikill atkvæðafjöldi Framsóknarflokksins í prófkjörinu. Þetta er gerbreytt staða flokksins frá fyrri tíð, þegar hann var talinn merkisberi óbeitar landsbyggðarinar á höfuðborginni. Nú er hann orðinn gjaldgengur á mölinni til jafns við aðra flokka.

Í aðdraganda prófkjörsins voru efasemdir meðal ráðamanna Framsóknarflokksins, þar á meðal flokksformannsins, um aðildina að samstarfinu um Reykjavíkurlistann. Sagt var, að starf og staða flokksins hefði dofnað við þátttöku í öðru afli, sem sogaði til sín athyglina.

Þessi varfærni gagnvart sameiningarhreyfingu vinstri vængsins einkennir Framsóknarflokkinn í flestum öðrum sveitarfélögum. Víðast hvar eru það aðeins A-flokkarnir tveir, sem standa að sameiginlegum lista í anda Grósku, sums staðar með aðild Kvennalistans.

Þegar nær dró prófkjöri, áttuðu ráðamennirnir sig á, að efasemdirnar að ofan gátu leitt til lítils stuðnings við flokkinn í prófkjörinu. Var þá skyndilega snúið við blaðinu, formaðurinn fór að hrósa árangri samstarfsins innan Reykjavíkurlistans og flokksvélin var sett í gang.

Góður árangur flokksins í prófkjöri Reykjavíkurlistans hlýtur að verða ráðamönnum flokksins tilefni bakþanka um, hvort rétt hafi verið að stefna að sérstöku framboði hans í mörgum sveitarfélögum, þar sem A-flokkarnir eru að ná saman um framboðslista.

Ef Reykjavíkurlistinn heldur meirihlutanum í Reykjavík og samstarfslistar A-flokkanna ná góðum árangri í öðrum sveitarfélögum í sumar, mun það setja Framsóknarflokkinn í nokkurn vanda. Hann á þá á hættu að verða minnsta aflið í stjórnmálum landsins.

Fylgi mun þá eflast við það sjónarmið, að hagkvæmara sé að vera aðili að stjórnmálaafli, sem getur haldið til jafns við Sjálfstæðisflokkinn og boðið upp á leiðtoga, sem selur. Slík hyggindi, sem í hag koma, eru einmitt lykillinn að velgengni Reykjavíkurlistans.

Þeirri skoðun vex ásmegin, að hagkvæmnin skuli ráða; flokkum henti að sameinast í regnhlífarsamtökum og velja þeim foringja, sem líklegir eru til að höfða til kjósenda. Þetta sé betri kostur en að reyna að selja kjósendum hvern stjórnmálaflokk fyrir sig.

Í Reykjavík er flokkurinn fyrirferðarmikill í samstarfi, sem hefur væntingar um meirihlutavöld. Annars staðar getur hann orðið minnsta aflið, en þó þriðja aflið, sem getur samið til hvorrar áttar sem er um að verða minni aðilinn í samkomulagi um meirihlutavöld.

Ráðamönnum flokksins geðjast betur að síðari kostinum. Prófkjörið í Reykjavík setti þá í vanda, sem þeir leystu þó með snarræði. Góð útkoma A-flokka í kosningunum í sumar getur aukið vandann og flækt undirbúning næstu þingkosninga fyrir framsóknarmönnum.

Stjórnmála- og viðskiptasaga Vesturlanda segir, að til skamms tíma litið geti minnsta aflið af þremur prúttað um völd, en til langs tíma sé það markað dauðanum.

Jónas Kristjánsson

DV

Fíflast með fjöreggið

Greinar

Sjómannaverkfallið stafar af því, að þjóðfélagið hefur látið undir höfuð leggjast að láta alþjóðleg uppboð á veiðileyfum leysa dauðþreytt kvótakerfi af hólmi. Fyrir bragðið láta deiluaðilar eins og fífl í skjóli aðstöðu, sem þeim hefur verið skömmtuð með kvótakerfi.

Verkfallið er ein margra birtingarmynda vandræðanna, sem þjóðfélagið bakar sér með því að afhenda völdum aðilum fjöregg þjóðarinnar. Nú ætti að grípa tækifærið og taka fjöreggið úr höndum þeirra, sem enn einu sinni hafa sýnt, að þeir kunna ekki með að fara.

Dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð láta deiluaðilar opinberlega eins og börn í sandkassa. Í gær var deilan eins óleysanleg og hún hafði verið á fyrsta degi. Mikil verðmæti fara senn í súginn, af því að þjóðfélagið lætur deiluaðila komast upp með þetta.

Deiluaðilar notfæra sér, að þjóðfélagið hefur meiri hagsmuna að gæta en þeir sjálfir. Þeir telja sig vita, að stjórnvöld vilji leggja meira en lítið af mörkum til að fá deiluna leysta og því leysa þeir ekki deiluna sjálfir, heldur halda áfram að kasta skít hver í annan.

Grundvallarvillan felst í að afhenda útgerðarmönnum auðlindina til ráðstöfunar. Það jafngildir eignarhaldi þeirra, svo sem fram kemur í, að veiðiréttur gengur kaupum og sölum, gengur í arf og er ágreiningsefni í hjónaskilnaðarmálum. Þetta er þjóðinni að kenna.

Kjósendur hafa látið þingmenn komast upp með að ljúga sig frá málinu með því að setja lög, þar sem sagt er í einni málsgrein, að þjóðin eigi auðlindina, en í öllum hinum rakið í smáatriðum, hvernig útgerðarmenn megi eiga hana í raun, svo sem komið hefur í ljós.

Þeir þurfa ekki að semja, sem eiga auðlindina. Þeir bíða bara átekta í sandkassaleik um kaup og kjör. Þeir bíða eftir, að Alþingi setji lög um verkfallið eins og það hefur gert eftir síðustu sandkassaleiki. Þeir segja, að lög komi ekki til greina, en þeir vænta þeirra samt.

Þjóðfélagið hefur búið til notagildi auðlindarinnar með því að stækka fiskveiðilögsöguna hvað eftir annað og setja reglur um hámarksafla einstakra tegunda. Ef ekki hefðu verið þessar pólitísku gerðir, væri íslenzk útgerð í hundunum og aflabrestur á öllum vertíðum.

Þjóðfélagið á sjálft að taka gróðann af þessum aðgerðum sínum með því að lýsa eignarhaldi sínu á auðlindinni og bjóða út aðgang að leyfðum afla á alþjóðlegum uppboðsmarkaði. Engu máli skiptir, hver veiðir, ef íslenzka þjóðfélagið hirðir arðinn af uppboðunum.

Þegar uppboð hvers árs hafa farið fram, skiptir þjóðfélagið litlu máli, hvort málsaðilar rífist eins og hundar og kettir um skiptingu síns hluta. Það er með sinn arð á hreinu. Hinir óhæfu geta þá hjálparlaust valið, hvort þeir eyða tímanum í að fíflast í sandkassaleikjum.

Við erum þjóðfélagið. Sem kjósendur getum við á fjögurra ára fresti rekið fulltrúa okkar á Alþingi úr starfi og fengið nýja, sem samþykkja lög um alþjóðleg uppboð veiðileyfa og mynda nýja ríkisstjórn til að framkvæma lögin. Þetta getum við gert eftir hálft annað ár.

Slík mannaskipti gerast ekki meðan við leyfum núverandi stjórnmálaflokkum að ráða ferðinni. Þeir bera allir ábyrgð á núverandi rugli í sjávarútvegi og munu varðveita ruglið eftir kosningar, ef þeir fá til þess færi. Breytingar kalla á ný stjórnmálaöfl, bæði menn og flokka.

Við óbreytt ástand er það kjósendum sjálfum að kenna, að fulltrúar deiluaðila láta eins og fífl í sandkassanum, þar sem þeir kasta fjöregginu milli sín.

Jónas Kristjánsson

DV

Eitt skref á langri leið

Greinar

Einn flokkur var utangátta í prófkjöri Reykjavíkurlistans um helgina, eins konar rótgróin amma ofan úr sveit á heimili með óstýrilátum unglingum. Framsóknarflokkurinn horfði kurteislega á lætin í Gróskuliði hinna flokkanna og studdi áfram sína gömlu fulltrúa.

Sérstaða og innri fjarlægð Framsóknarflokksins á Reykjavíkurlistanum og fjarvera hans af ýmsum sameiningarlistum, sem verða bornir fram víða um land í sveitarstjórnakosningunum í vor, er eitt af nokkrum dæmum um erfiðleika, sem enn eru á vegi sameiningar.

Prófkjörið sjálft var áfangasigur fyrir sjónarmið sameiningar. Annars vegar var þáttakan mikil og hins vegar sigruðu þeir frambjóðendur, sem kenndir eru við sameiningu. Stuðningsmenn sameiningar fjölmenntu og merktu við sína menn þvert gegnum flokkslínur.

Niðurstaðan verður fólki í öðrum sveitarfélögum hvatning til að bjóða fram sameiginlega lista á vinstri vængnum, með eða án Framsóknarflokksins. Ef það gefst vel í sumar, verður það fólki hvatning til að reyna að yfirfæra sameiningarstefnuna yfir í landsmálin.

Enn er svo langt í land, að ótrúlegt er, að sameiginlegir listar verði bornir fram í þingkosningum að hálfu öðru ári. Ef virkin halda þó áfram að falla hvert af öðru, eins og gerðist um helgina í prófkjörinu, kunna aðstæður að verða orðnar gerbreyttar árið 1999.

Þjóðmálastefnan er þröskuldurinn, en ekki framkvæmd hennar. Flokkarnir hafa meira eða minna hagað sér á svipaðan hátt við stjórnvölinn, en hafa sérhæft sig sem þrasflokka í stefnumálum. Milli Alþýðuflokks og Alþýðubandalagsins er himinn og haf í stefnuskrám.

Alþýðubandalagið staðfesti á landsfundinum í nóvember, að flokkurinn stendur föstum fótum í fortíðinni. Það er enn andvígt bandalögum, sem nánst öll Austur-Evrópa heimtar að fá að ganga í. Það efast enn um auðlindagjald og styður eindregið fjáraustur í landbúnað.

Alþýðubandalagið staðfesti á landsfundinum, að það á einkar erfitt með að taka nýjum hugmyndum. Það hafnaði sjónarmiðunum, sem höfðu komið fram í stefnuskrá Grósku. Í rauninni horfir Alþýðubandalagið í máttvana skelfingu á ferlið í átt til sameiningar flokka.

Við undirbúning sveitarstjórnakosninga er unnt að leggja til hliðar Evrópu, Atlantshafsbandalag, auðlindagjald, svo og velferðarkerfi landbúnaðar, sem kemur í veg fyrir velferðarkerfi almennings. Sveitarstjórnasamstarf er bara létt æfing fyrir alvöru landsmálanna.

Sem dæmi um líklega niðurstöðu í stefnu sameinaðs flokks jafnaðarmanna má nefna, að stefnuskrá Grósku segir pass í Evrópumálinu og býður upp á þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkar kosningar eru í sjálfu sér góðar, en koma ekki í staðinn fyrir pólitíska stefnu.

Allar langferðir hefjast með einu skrefi. Hvert skref breytir aðstæðum, sem stuðla að nýju skrefi. Prófkjörið í Reykjavík hefur fyllt sameiningarsinna eldmóði og komið á framfæri nýjum stjórnmálamönnum, sem hugsa og starfa þvert á gömlu flokkslínurnar.

Nauðsynleg forsenda samstarfs og samruna A-flokka og Kvennalista er, að sumt af gömlu forustufólki víki fyrir nýju og annað lagi sig eftir aðstæðum. Það uppgjör var fyrir jól í Kvennalistanum og er að hefjast í hinum flokkunum með sigri nýrra manna í prófkjörinu.

Ekki er síður mikilvægt, að prófkjör Reykjavíkurlistans staðfestir fyrri kannanir um, að betur náist til almennings með sameinuðu framboði en sundruðu.

Jónas Kristjánsson

DV

Gálaus meðferð sjúkragagna

Greinar

Íslenzk erfðagreining og Samtök áhugamanna um áfengisvandann hafa brugðizt trausti. SÁÁ hefur látið frá sér fara viðkvæm gögn og ÍE hefur varðveitt þau á þann hátt, að tugir starfsmanna höfðu aðgang að þeim, hvort tveggja án nægilegs samráðs við Tölvunefnd.

Upplýsingar um heilsu fólks eru einna viðkvæmustu heimildir, sem til eru. Sumum sjúkdómum fylgir óorð, sem getur leitt til erfiðleika við að fá vinnu eða líftryggingar til jafns við aðra. Vegna erfða getur fólk lent í slíkum erfiðleikum vegna sjúkdóma ættingja.

Af þessum og skyldum ástæðum hefur ævinlega verið lögð meiri áherzla á vandaða meðferð sjúkragagna en annarra gagna í þjóðfélaginu. Nauðsyn þessa hefur margfaldazt á síðustu árum, síðan aðstæður fóru að leyfa samkeyrslu gagnaflokka úr ýmsum áttum.

Tölvunefnd vill láta dulkóða nöfn, sem notuð eru í ættartrjám, þegar verið er að kanna arfgengi sjúkdóma. Hún vill, að unnið sé með nafnlaust erfðaefni. Þetta er svo eðlileg siðferðiskrafa, að undan henni verður ekki vikizt, þótt rannsóknir verði þeim mun torsóttari.

Í máli þessu rekast á óbeinir hagsmunir þeirra, sem gætu öðlazt betri á heilsu á grundvelli rannsókna í erfðafræðifyrirtæki, og hinna, sem í því skyni leggja til sjúkrasögu sína, án þess að vera spurðir. Augljóst er, að réttur hinna síðarnefndu vegur þyngra á metunum.

Nauðsynlegt er, að Tölvunefnd fái aukinn mannafla til að vernda friðhelgi fólks á þessu afmarkaða sviði. Rekstarumsvif fyrirtækis á borð við Íslenzka erfðagreiningu eru svo mikil, að hálfur eftirlitsmaður getur tæpast komið í veg fyrir öll slys af þessu tagi.

Hins vegar er Tölvunefnd einnig umdeild stofnun, sem hefur sóað tíma sínum í afskipti, er skaða almenning. Hún hefur til dæmis reynt að koma í veg fyrir, að fólk geti séð tjónasögu bifreiða, sem boðnar eru til sölu. Því verður að fara varlega í að efla umsvif hennar.

Tölvunefnd er að reyna að hafa afskipti af ættfræðiritum til að koma í veg fyrir, að þar birtist upplýsingar á borð við barneignir utan hjónabanda og lágar einkunnir embættismanna á háskólaprófum. Hún hefur almennt hallazt að stuðningi við leyndarstefnu stjórnvalda.

Tölvunefnd hefur óviljandi verndað spillingu í þjóðfélaginu með því að reyna að vernda upplýsingar um fjármál rekstraraðila á sama hátt og upplýsingar um heilsu einstaklinga. Leyndarstefna nefndarinnar í spillingar- og fjármálum hefur rýrt traust sumra á henni.

Þess vegna er mikilvægt, að aukinni afkastagetu nefndarinnar verði eingöngu beint að óumdeildum málum á borð við sjúkraskýrslur fólks af holdi og blóði, en alls ekki að umdeildum málum á borð við tjónaskýrslur bifreiða og skattaálagningu á rekstraraðila.

Skilgreina þarf í lögum snertifleti persónuverndar og upplýsingaskyldu stjórnvalda og koma upp ferli ágreiningsmála fyrir dómstólum, svo að Tölvunefnd verði ekki lengur rannsóknarlögregla og dómstóll í senn. Slík breyting væri í samræmi við lýðræðishefðir.

Þótt efasamdir séu um sum fyrri störf Tölvunefndar, er nauðsynlegt, að hún fái aðstöðu til að koma í veg fyrir, að sjúkraskýrslur fólks séu viljandi eða óviljandi misnotaðar af stofnunum og fyrirtækjum, þar sem ráðamenn líta stórum augum á gildi rannsókna.

Siðferðilegt leiðarljós við lausn málsins hlýtur að vera, að mestur sé réttur þeirra, sem leggja til sjúkrasögu sína án þess að hafa sjálfir verið spurðir leyfis.

Jónas Kristjánsson

DV

Reykjavík og Rómaborg

Greinar

Þegar litið er yfir mannkynssöguna, er hægt að halda fram, að verkfræðingar hafi bætt heilsu þjóða meira en læknar hafa gert. Hreinlætismannvirki hafa frá ómunatíð verið áhrifamesti heilsugjafi fólks. Stórveldi Rómar reis á flóknu og frægu kerfi vatnsriða og holræsa.

Eitt merkasta mannvirki á Íslandi hefur að hálfu verið tekið í notkun. Holræsakerfi Reykjavíkur er hreinlætisbylting, sem þarf að verða fordæmi öðrum sveitarfélögum, sem veita úrgangi sínum út í læki og ár, hafnir og fjörur og bjóða þar til veiru- og sýklaveizlu.

Enginn vafi er á, að heilsa fólks mun batna á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Framkvæmdin er bylting, sem er hliðstæð hinu fræga Cloaca Maxima í Rómaborg fornaldar. Veirur og sýklar munu ekki lengur fjúka í hvassviðrum úr fjörum um borg og bý.

Framtak Reykjavíkur nær í þessum áfanga til Garðabæjar, Kópavogs og suðurstrandar Reykjavíkur allt til Örfiriseyjar. Að tveimur árum liðnum verður norðurstönd borgarinnar komin inn í kerfið, allt til Korpúlfsstaða. Sóðafjörur svæðisins munu hreinsast.

Afdrifaríkasti þáttur kerfisins eru tvær hreinsistöðvar, sem sía úrgang frá skolpinu. Þær valda því, að miklu mildara skolp fer í sjóinn en áður var. Stöðin við Ánanaust var tekin í notkun í þessum mánuði og stöðin við Laugarnes verður tekin í notkun eftir tvö ár.

Hinn mikilvægi þátturinn eru skolpleiðslurnar, sem liggja á hafsbotni fjóra kílómetra á haf út, þar sem hreinsað skolpið rennur úr þeim á 35 metra dýpi. Það er því ekki aðeins, að heildarmengunin minnki stórlega, heldur nær hún aldrei ströndum borgarinnar.

Brosleg uppákoma varð í fréttatíma Stöðvar tvö fyrir nokkrum dögum, þegar rökheldur málflutningsmaður undir gæru fréttamanns kallaði til formann félags smábátaeigenda, sem sagði, að grásleppukarlar hefðu kynnt sér framkvæmdina og væru sáttir við hana.

Hinn rökheldi tók ekkert mark á trillukarlinum, heldur margspurði hann, hvort ekki væri verið að eitra fyrir grásleppuna. Fréttin var kynnt á undan og eftir sem eins konar hneyksli, þar sem mengun væri flutt af einum stað á annan, en ekki minnzt á hreinsunina.

Ekki er og ekki verður deilt um ágæti framtaks Reykjavíkur. Munur stjórnar og stjórnarandstöðu er sá einn, að stjórnarandstaðan vildi ekki fjármagna það með sérstöku holræsagjaldi, heldur fara hægar í sakirnar og draga til jafns úr öðrum framkvæmdum og rekstri.

Á sama tíma og Reykvíkingar, Seltirningar, Kópavogsbúar og Garðbæingar hafa stigið inn í 20. öldina í hreinlætismálum sínum veður landsbyggðin meira eða minna í skít. Sums staðar er verið að gera áætlanir til úrbóta, en framkvæmdir eru víðast af skornum skammti.

Búast má við, að Akureyri og Hafnarfjörður feti í fótspor bæjarfélaganna, sem lengst eru komin, svo og Blönduós og Hofsós. Annars staðar eru ráðagerðir skammt á veg komnar eða metnaðarlausar, enda hefur hreinlæti lengi verið í litlum metum hér á landi.

Til sveita eru nánast engar marktækar kröfur gerðar um frárennsli, nema helzt frá sumarbústöðum. Rotþrær koma að takmörkuðum notum, því að mikil gerlamengun fylgir þeim. Meiri hreinsun þarf að verða til að fullnægja hreinlætis- og heilsusjónarmiðum nútímans.

Sveitarstjórnarmenn halda að sér höndum og segja hreinlætið of dýrt. Eftir framtak Reykjavíkur sker samanburðurinn í augu og erfiðara verður að yppta öxlum.

Jónas Kristjánsson

DV

Stjörnuhrap um rennilás

Greinar

Kynlíf er rúmfrekt í bandarísku þjóðlífi. Leiðbeiningarit á því sviði eru jafnan fyrirferðarmikil í efstu sætum metsölulista bóka. Það er til umræðu í tímaritum, sem vilja láta taka sig alvarlega. Næst á eftir ofbeldi skipar það efsta sæti sem aðalefni kvikmynda.

Af bókum og tímaritum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum mætti ætla, að Bandaríkjamenn stundi erfiðisvinnu á þessu sviði. Fólk megi tæpast sjást á almannafæri án þess að stofna til iðkunar frjálsra ásta af ýmsu tagi, þar á meðal hvers konar óvenjulegu tagi.

Daglegt tal er klúrt í Bandaríkjunum. Menn strá um sig dónaskap í samræðum, rétt eins og Íslendingar spakmælum. Skemmst er að minnast Nixons forseta, sem gat varla komið út úr sér heilli málsgrein, án þess að hún væri krydduð klámfengnum áherzluorðum.

Þjóðir, sem hafa samneyti við bandarískt þjóðlíf og bandaríska afþreyingu, verða tæpast klumsa, þótt fréttir berist af því, að forseti Bandaríkjanna þrífi í rennilásinn, þegar færi gefst. Slíkt þykir ekki annað en eðlilegur þáttur atferlis, sem þar er á stalli þjóðareinkennis.

Svo virðist hins vegar sem Bandaríkjamenn sjálfir verði forviða, ef kona sezt í fang forsetaframbjóðanda. Sá varð umsvifalaust að hverfa frá framboði. Og nú er Clinton forseti talinn valtur í sessi, af því að honum hafi ekki tekizt að halda leyndu framhjáhaldi sínu.

Mitterand Frakklandsforseti átti dóttur í meinum, en það komst ekki í hámæli fyrr en að honum látnum og var hún þá orðin uppkomin kona. Slíkt þætti ógn og skelfing í Bandaríkjunum í samanburði við tiltölulega hversdagslegar uppákomur, sem þar eru í fréttum.

Bretar eru eina vestræna þjóðin, sem kemst í hálfkvisti við Bandaríkin í pólitískum vandræðum í kynlífi. Það var lengi afskrifað, sem eitthvert óeðli, sem menn hefðu lært í kynskiptum einkaskólum brezku yfirstéttarinnar. Slíku er ekki til að dreifa í Bandaríkjunum.

Við hljótum að spyrja Bandaríkjamenn, hvort þeir telji frjálslegt kynlíf vera eitthvað til að skrifa um og sýna, tala um og kæra, en hins vegar megi ekki undir neinum kringumstæðum iðka það. Þverstæðan og tvískinnungurinn eru greinilega saman í einni lest þar vestra.

Þetta sérstæða ástand getur leitt ístöðulitla stjórnmálamenn á villigötur meinsæris. Clinton er kjörið fórnardýr slíkra vandræða. Hann er maður, sem skiptir sífellt um skoðun, ef hann hefur nokkra, og skoðar sjálfan sig sífellt í spegli umhverfisins, einkum skoðanakannana.

Fólk með veika sjálfsmynd þarf sífellt að sanna sig fyrir umhverfi sínu og fá þaðan staðfestingu, jafnvel á rúmstokknum, ef ekki vill betur. Veik sjálfsmynd er algengur samnefnari bandarísks frægðarfólks, hvort sem er í stjórnmálum eða skemmtanabransanum.

Ekki er eftirsjá að Clinton, ef hann verður felldur á króki meinsæris. Hann er illa hæfur handhafi framkvæmdavalds, á erfitt með að ákveða sig og er sífellt að hlera þjóðarsálina. Stjórnarathafnir hans hafa rambað út og suður. En hann hélt lengi stjörnuskini sínu.

Skyndilegt gengishrun hans ætti að vera Bandaríkjamönnum umhugsunarefni. Af hverju var svona skammt milli vinsælda og útskúfunar? Hvers vegna hefur orðið lítið úr bandarískum forsetum að undanförnu? Er eitthvað bogið við sjónarmiðin, sem ráða vali þeirra?

Bandaríkjamenn ættu að íhuga, hvers vegna hneyksli eru fylgifiskur einnota frægðarfólks, hvort eitthvað sé athugavert við sjálfa dýrkendur stjörnuskins?

Jónas Kristjánsson

DV