Draumaverksmiðjur

Greinar

Vinsældir kvikmyndarinnar, sem flestir hafa séð í vetur, eru í beinu samhengi við auglýsinga- og markaðskostnað hennar. Titanic sýnir, að langdregin miðlungskvikmynd getur rakað saman peningum og jafnvel hlotið ótal Óskarsverðlaun, ef áróðurinn tekst vel.

Þekking og tækni ímyndarfræðinga, markaðsfræðinga og auglýsingafræðinga í að villa um fyrir fólki eykst hraðar en þekking og geta fólks til að vernda sig gegn atvinnumönnunum. Í vaxandi mæli stjórna fagmenn kauphegðun og neyzluvenjum fákæns almennings.

Stjórnendur draumaverksmiðjanna í Hollywood hafa löngum haft forustuna. Framarlega eru einnig atvinnumenn gosdrykkjamerkja, sem hafa náð ótrúlegri tækni við að tengja koffínblandað sykurvatn við alls konar óskyld atriði, sem ungt fólk sækist eftir.

Frægt er, að Íslendingar hafa löngum fallið einu sinni á ári fyrir fótanuddtækjum, segularmböndum og öðru slíku, sem reynist vera gersamlega gagnslaust, þótt flest sé það ekki beinlínis skaðlegt eins og koffínblandaða sykurvatnið, sem er raunar hættulegt fíkniefni.

Ef litið er í innkaupakörfur fólks í stórmörkuðum, má sjá óeðlilegar neyzluvenjur, sem stýrt er af ímyndar-, markaðs- og auglýsingafræðingum. Fólk kaupir rándýrar vörur á borð við tilbúna rétti óæta, en sniðgengur flest það, sem bragðgott er og heilsusamlegt.

List atvinnumannanna felst einkum í að tengja óskyld atriði. Með auglýsingum er notkun vöru eða þjónustu tengd ýmsum óskyldum lífsgæðum, sem markhóparnir sækjast eftir, félagsskap, vináttu, ást, kynlífi, hamingju, öryggi, auði, fríi, sólskini, valdi og virðingu.

Hástigi nær þetta í töfraorðunum “it’s the real thing”, sem hafa megnað að telja fólki trú um, að hin hreina ímyndun sé hinn hreini raunveruleiki. Milljónir ungmenna um allan heim hlaupa eftir hljóðpípu rottufangarans, sem bjó til þessa vel heppnuðu þverstæðu.

Síðustu misserin hefur tækni tryggðarbanda haldið innreið sína hér á landi. Með ýmsum girnilegum tilboðum er fólk fengið til að halda tryggð við ákveðna vöru eða þjónustu, sem annað hvort er dýrari en sambærileg vara og þjónusta eða óþörf með öllu.

Þúsundir Íslendinga hafa fallið fyrir tryggðarkortum og ganga fyrir þeim, þótt almenningur hafi haft greiðan aðgang að málflutningi með þeim og gegn. Það gildir raunar um flesta tækni á þessu sviði, að fólk hefur aðgang að upplýsingum gegn moldviðrinu.

Allt skiptir þetta máli, því að fólk hamast við að vinna fyrir hinum ímynduðu lífsgæðum og ver fé sínu í þau. Fólk hefur því hvorki tíma né fé til raunverulegra lífsgæða. Fólk velur sér líka á sama hátt kolranga leiðtoga, sem sumir hverjir skaða umbjóðendur sína.

Almenningur á erfitt með að átta sig á, að þeir, sem bezt koma fyrir, hafa liðugastan talanda og einlægastir virðast á svipinn, eru oft einmitt þeir, sem sízt er treystandi. Þannig tókst til dæmis að tvíselja Bandaríkjamönnum lélegan og siðlítinn Clinton forseta.

Fátt væri betur til þess fallið að auka raunveruleg lífsgæði alls almennings en að neyzlu- og kaupafræðsla yrði sett til jafns við lestur, skrift og reikning í skólum, svo að unga fólkið geti fengið nasasjón af þeirri tækni og þeirri list, sem notuð er til að hafa fólk að fífli.

Slík innsýn í raunveruleikann að baki ímyndana stríðir gegn sérhagsmunum í stjórnmálum og viðskiptum og mun því miður ekki ná fram að ganga.

Jónas Kristjánsson

DV

Mirabelle

Veitingar

Mirabelle við Smiðjustíg skilur eftir ljúfar minningar um fínan ætiþistil og fínni spergil. Við vandað hráefni bætist gamalfrönsk matreiðsla alla leið yfir í profiteroles og crème brûlée. Eftir enn eina kollsteypuna í eignarhaldi reykvískra veitingastaða er Mirabelle komin á gott skrið.

Undirtitill staðarins er Café-Brasserie, þótt hann sé hvorugt. Kaffihús býður ekki þríréttaðan mat á 4.000 krónur, áður en kemur að víni. Og brasserie þarf að hafa eitt af þrennu, matreiðslu frá Alsace, áherzlu á bjór eða messing í innréttingum. Ekkert af þessu er á Mirabelle.

Evrópska andrúmsloftið byrjar framan við vandfundið húsið, þar sem lítið miðborgartorg rúmar bæði tré og bílastæði. Stemmningin sígur síðan, þegar gengið er hjá berskjaldaðri fordrykkjastofu upp ljótan og frekjulegan stiga, sem endar á miðju gólfi í kuldalegu lagerplássi.

Þetta er opinn geimur í ljósum litum, með óhefluðum viði í útveggjum og beru steinlofti, einföldu gleri í gluggum og vel slípuðu trégólfi. Gluggatjöldin eru svo síð, að þau dragast í gólfinu. Yfirstærðar vínrekkur stúkar opið eldhús og yfirhlaðið fatahengi í salarmiðju sídregur að sér augað.

Brúnin lyftist aftur, þegar setzt er að borðum við hvíta dúka og munnþurrkur, sem eru úr taui, jafnvel í hádeginu. Gróft og gott brauð kemur á borð, stundum með sojakornum og stundum með olífubitum. Smörið er tvenns konar, venjulegt og sterkkryddað með hvítlauk og papriku.

Vatn er drukkið úr óbrjótanlegum, íslenzkum þjóðernis-kaffiglösum, sem komin eru í tízku í veitingabransanum samkvæmt formúlunni, að tízkan þurfi að vera svo ljót, að auðvelt sé að skipta um hana tvisvar á ári. Þessi ruddalegi glasastíll er líka á Einari Ben.

Góð og hefðbundin var reykt laxakæfa með steinselju og tómati. Enn betri voru gufusoðinn spergill og ætiþistill með anísblandaðri smjörsósu. og stökkum kúrbít. Betri spergil hef ég ekki fengið hér á jaðri freðmýrabeltisins.

Fiskisúpa var fremur góð, en fiskhlassið í henni miðri var fremur þurrt, þorskur og lax. Tómatsúpa var bragðmikil og bragðgóð, full af grænmeti.

Þorskasteik var nákvæmlega rétt grilluð, borin fram á sveppum í soðnu rauðvíni. Piparristaður steinbítur var örlítið meira eldaður, en samt góður, borinn fram með pönnusteiktu grænmeti og daufri hvítlaukssósu.

Fínar voru steiktar andabringur með ætiþistli, rjómasoðnu spínati, grilluðum kartöfluþráðum og appelsínusósu, sem skilaði sér hæfilega í gegn í bragði.

Crème brûlée var léttur búðingur með nettri karamelluskán, afar góður eftirréttur. Profiteroles reyndust hins vegar vera þungar og kaldar vatnsdeigsbollur með ís og heitri súkkulaðisósu. Kaffi var gott.

Að lokum má súpa hveljur yfir reikningi, sem nemur 4.000 krónum á mann. Hagkvæmara er að koma í hádeginu, þegar tvíréttað kostar ekki nema 1.270 krónur á mann, þótt ekkert sé gefið eftir í matreiðslu, aðbúnaði og afbragðs þjónustu.

Jónas Kristjánsson

DV

Hrepparenningar í ólgusjó

Greinar

Sveitarstjórnafrumvarp félagsmálaráðherra verður sífellt umdeildara eftir því sem fleiri kynna sér það. Á fjölmennum fundum ýmissa samtaka er samþykkt að biðja Alþingi um að rasa ekki um ráð fram í vor og leyfa málinu heldur að malla í umræðunni fram til hausts.

Það fer fyrir brjóstið á fólki, að fjörutíu hreppum skuli vera afhent stjórnsýsluvald yfir öllu miðhálendi landsins. Þetta er enda augljóslega ekki sanngjörn skipan mála, því að miklu fjölbreyttari hagsmunir eru í húfi en þeirra einna, sem hafa fé sitt á fjalli á sumrin.

Í fyrsta lagi er óeðlilegt, að landsmönnum skuli vera mismunað eftir búsetu. Það stríðir gegn einu helzta grundvallaratriði lýðræðisins, jafnrétti allra manna. Félagsmálaráðherra er beinlínis að ögra mönnum og efna til óþarfra átaka milli strjálbýlis og þéttbýlis.

Í öðru lagi varðar stjórnsýsla og skipulag miðhálendisins margvíslega hagsmuni, sem síður en svo er sérstaklega gætt af hreppunum fjörutíu. Þetta eru meðal annars hagsmunir orkuvinnslu, ferðaþjónustu, náttúruverndar, útivistar og almennra lífsgæða í landinu.

Allir þessir mismunandi hagsmunir eru ótengdir mismunandi hagsmunum sveitarfélaga. Tilvist þeirra sýnir, að réttlát skipting valds milli sveitarfélaga dugir ekki einu sinni til að ná skynsamlegri niðurstöðu. Hin óstaðbundnu sjónarmið þurfa einnig að hafa vægi.

Af þessari ástæðu er heppilegra, að miðhálendið sé ein stjórnsýslueining fremur en fjörutíu og að ríkisvaldið skipi því stjórn með aðild fulltrúa orkuvinnslu, ferðaþjónustu, náttúruverndar, útivistar og almennra lífsgæða, auk aðildar fulltrúa samtaka sveitarfélaga.

Svokölluð málamiðlun umhverfisráðherra um skipun umsagnarnefndar með sýndaraðild fulltrúa þéttbýlis er verri en engin breyting. Sú tillaga um einn sjötugasta hluta úr atkvæðisrétti er blaut tuska í andlit þeirra, sem kvarta um misvægi atkvæða eftir kjördæmum.

Furðulegast við þetta er, að þingmenn, sem beinlínis eru kjörnir á svæðum, er frumvarpið gerir áhrifalaus, skuli ekki gæta betur hagsmuna umbjóðenda sinna en þeir hafa reynzt gera. Þeir verða vafalaust minntir á eymd sína, þegar dregur að næstu þingkosningum.

Meðal þingmanna, sem vilja knýja þetta mikla óréttlætismál í gegn strax í vor, þvert á vilja flestra þeirra, sem fjalla um málið utan þingsala, eru Sif Friðleifsdóttir fyrir Framsóknarflokk, Ögmundur Jónasson fyrir Alþýðubandalag og Pétur Blöndal fyrir Sjálfstæðisflokk.

Afstaðan til frumvarps félagsmálaráðherra skiptist nánast eftir hreinum flokkslínum, en ekki kjördæmum. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Alþýðubandalagsins styðja frumvarpið, en þingmenn Alþýðuflokks og Kvennalista eru andvígir því.

Samkvæmt þessu er mikill meirihluti á þingi fylgjandi skiptingu miðhálendisins í fjörutíu mjóa renninga undir stjórn fjörutíu hreppa, sem fyrst og fremst hafa áhuga á sauðfjárbeit. Þessi mikli meirihluti endurspeglar engan veginn hlutföll sjónarmiða úti í þjóðfélaginu.

Forsætisráðherra leggur svo mikla áherzlu á framgang óréttlætisins, að hann lætur þau boð út ganga, að Alþingi verði látið sitja svo lengi fram á sumar sem dugi til að ljúka umræðu og málþófi um frumvarpið. Hann þarf stundum að láta menn finna, hver valdið hefur.

Alþingismenn hlýða ráðherrunum og hafna röksemdunum. Það verður sorgardagur á hnignunarferli Alþingis, þegar það gerir hrepparenningana að lögum.

Jónas Kristjánsson

DV

Gagnsókn bankastjórans

Greinar

Sókn og gagnsókn Sverris Hermannssonar í Landsbankamálinu felst einkum í að nafngreina valdamenn, sem hann telur hafa verið sér þungir í skauti og saka þá um að vera ekki hótinu betri, nema síður sé. Þetta er hefnd hans fremur en útskýring á vandamálinu.

Samkvæmt greinum Sverris hafa ýmsir menn gert samsæri um að koma upp um hann og hann ætlar í staðinn að koma upp um þá. Siðalögmál koma hvergi nálægt þeim blóðnóttum, sem hann hefur boðað til. Við erum að horfa á frumstætt uppgjör milli stríðsherra.

Til dæmis segir Sverrir, að ráðherra og ríkisendurskoðun hafi valið rannsóknarefni og -tímabil til að hlífa bankastjóra, sem hafi verið í ferðaspillingu fremur en laxi og til að sleppa laxveiðiferð sama bankastjóra með núverandi bankaráðherra á kostnað bankans.

Sverrir sakar einn stjórnmálamann um að hafa stolið heilu ríkisfyrirtæki og annan um að hafa reynt að fá aflétt veði til að bjarga húsi undan hamri. Hann sakar ráðamenn óskabarns þjóðarinnar um að hafa reynt að beita bankanum til að koma höggi á keppinaut.

Greinar Sverris gefa um leið innsýn í spillt þjóðfélag, þar sem forustumenn stjórnmála, stórfyrirtækja og skömmtunarstofnana brugga ráð til að flytja völd og peninga, en koma jafnframt fram út á við með engilhreinan áhyggjusvip ábyrgra máttarstólpa þjóðfélagsins.

Fólk á erfitt með að sjá veruleikann að baki ímyndarinnar. Það treystir jafnvel bezt þeim, sem sízt skyldi. Með skorti sínum á mannþekkingu freistar almenningur þeirra, sem vilja komast til auðs og áhrifa. Þetta er forsenda spillingar á borð við Landsbankamálið.

Stjórnmál nútímans snúast ekki um hugmyndafræði, misjafnar leiðir til að þjóna Íslendingum. Hugsjónafólk er í miklum minnihluta meðal áhrifafólks stjórnmálanna, þótt Jóhönnu Sigurðardóttur hafi tekizt að fella þrjá bankastjóra, sem fóru óvarlega í spillingunni.

Flestir stjórnmálamenn landsins eru atvinnumenn í sjónhverfingum. Þeir brugga ráð til að tefla sér í valdastöðu, sem þeir geta notað sér og gæludýrum sínum til framdráttar. Almenningi halda þeir uppi á snakki, algerlega óskyldu því, sem þeir meina í rauninni.

Ráðabrugg af þessu tagi fólst í ákvörðuninni um að fórna þremur bankastjórum til að geta fremur slegið skjaldborg um bankaráðsmenn, ráðherra og ríkisendurskoðanda, sem allir vissu fyrir löngu, hvað bankastjórarnir voru að gera, en létu allir kyrrt liggja.

Ríkisendurskoðandinn vissi um málið fyrir tveimur árum, þegar hann fékk nótu frá endurskoðanda bankans. Ráðherrann vissi um málið fyrir fimm árum, þegar hann fór í lax með bankastjóranum. Bankaráðsformaðurinn hafði verið á 500 fundum með bankastjórunum.

Græðgi einstaklinga er hluti af þessari spillingu. Menn velta sér upp úr lífsþægindum, sem þeir láta borga fyrir sig. Þeir koma sér upp laxveiði og ferðahvetjandi reglum um greiðslur á ferðalögum. Fremstir fara í þessu ráðherrar, bankastjórar og æðstu embættismenn.

Minna ber á spillingunni að baki, samspili stórfyrirtækja, stjórnmála og skömmtunarstofnana. Í skjóli bókhaldsleyndar stjórnmálaflokka, sem þekkist ekki í nágrannalöndunum, eru flokkar fjármagnaðir af stórfyrirtækjum, sem vilja tryggja heppilega skömmtun.

Spillingin þrífst í skjóli almennings, sem treystir þeim bezt, sem mest eru á kafi í spillingunni og sízt eru til þess fallnir að breyta þeim leikreglum, sem breyta þarf.

Jónas Kristjánsson

DV

Flokkslausa stefnuskráin

Greinar

Í samantekt af stefnuskrám flokkanna í DV í gær mátti sjá fróðlegan samanburð á stefnu þeirra á ýmsum mikilvægum sviðum. Engin þeirra var sérstaklega girnileg, því að flokkarnir eru of uppteknir við að þjóna því, sem þeir telja, að meintir markhópar þeirra vilji.

Sæmilega stefnuskrá væri hægt að búa til með því að velja mola hér og þar úr stefnu ýmissa flokka. Til að hámarka lífsgæði þjóðarinnar væri þó einfaldast að búa til nýja, sem að flestu leyti siglir fram hjá loforðum flokkanna. Hún gæti litið út á þessa leið:

Við skulum sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evruna sem gjaldmiðil. Við munum fá beina aðild að framförum álfunnar og festa efnahagslegan stöðugleika í sessi. Við munum fá sérákvæði um fisk, sem við þurfum ekki, því að við munum bjóða út veiðileyfi.

Við þurfum ekki að deila um herstöðina á Keflavíkurvelli. Fremur fyrr en síðar áttar bandaríska þingið sig á, að þar megi spara peninga, án þess að áreita byggðastefnumenn neins staðar í Bandaríkjunum. Þá verður herstöðin á Íslandi formálalítið lögð niður.

Við neyðumst þá til að reka Keflavíkurvöll fyrir eigin reikning. Þar með höfum við ekki efni á að reka sérstakan flugvöll fyrir innanlandsflug, hvorki Reykjavíkurflugvöll, Skerjafjarðarflugvöll né Engeyjarflugvöll. Innanlandsflugið verður þá flutt til Keflavíkur.

Við skulum hefja frjálst útboð fiskveiðikvóta, helzt á alþjóðlegum markaði. Við skulum árlega bjóða út fimmta hluta kvótans til fimm ára og setja það að skilyrði, að öllum afla verði landað hér heima. Við munum raka inn peningum á þessu og viðhalda verndarstefnunni.

Við skulum gefa landbúnaðinn frjálsan, þannig að hann megi framleiða eins og honum sýnist og flytja megi inn tollalágar eða tollafrjálsar landbúnaðarafurðir eins og hverjum sýnist. Ekkert mun lækka vöruverð í landinu og bæta lífskjörin eins mikið og þetta.

Við skulum markvisst hvetja til flutnings starfa úr frumframleiðslu á borð við sjávarútveg, landbúnað og stóriðju yfir í þekkingariðnað. Á því sviði mun atvinnutækifærum fjölga mest á Vesturlöndum á næstu árum og þar munu langhæstu launin verða greidd.

Við skulum hætta stóriðjuórum. Álverin og hliðstæðar verksmiðjur kosta gífurlega röskun á náttúru, fjármagni og byggingavinnu, en veita sáralitla vinnu, þegar starfsemin hefst. Við skulum alfriða hálendið fyrir þessum atvinnuvegi, sem á heima í þriðja heiminum.

Við skulum taka upp græna þjóðhagsreikninga, þar sem við metum umhverfi okkar til fjár. Óspillt og ómenguð náttúra er engu ómerkari hluti af lífsgæðum okkar en kaupgeta, vegir, skólar og sjúkrahús. Marklitlir eru þjóðhagsreikningar, sem ekki taka tillit til þessa.

Við skulum taka upp þá byggðastefnu, að byggð haldist á Íslandi sem heild, en ekki í hverjum firði og hverjum dal. Ísland stendur og fellur með, að ekki bresti landflótti í mannskapinn. Litlu máli skiptir hins vegar, hvort fólk flytji sig innanlands úr einum stað í annan.

Við skulum hafa sama, flata tekjuskattinn á vinnu og fjármagni, flatan eignaskatt og flatan vask, en leysa tekjujöfnunarþörfina utan skattkerfisins. Við skulum í staðinn taka upp föst laun fyrir óvinnufær börn, gamalt fólk og öryrkja og kalla það laun en ekki styrki.

Sumir flokkar snerta sum þessara sjónarmiða, en allir eru þeir andstæðir þeim í heild. Ekki hefur enn birzt flokkur, sem getur hámarkað lífsgæði kjósenda.

Jónas Kristjánsson

DV

Við höfum það gott

Greinar

Við höfum gengið til góðs götuna fram eftir veg. Ævi okkar er dans á rósum í samanburði við ævi forfeðra okkar, svo langt sem rakið verður. Við eigum sum hver við erfiðleika að stríða, en þeir eru yfirleitt barnaleikur í samanburði við hörmungar forfeðra okkar.

Nánast alla sögu mannkyns hefur meirihluti fólks búið við sult og seyru, ótímabær andlát ástvina, sífelldan þrældóm og þreytu. Hér á landi bættust kuldi og hvassviðri, eldgos og skriðuföll við andstreymi almennings og komu í stað styrjalda, sem geisuðu í útlöndum.

Hefðbundin sagnfræði fjallaði ekki um líf forfeðra okkar eða annarra nútímamanna á Vesturlöndum. Hún fjallaði um örþunna skel yfirstéttar, sem var yfir almenning hafin. Þetta fór ekki að breytast fyrr en með bandaríska lýðveldinu og frönsku byltingunni.

Að baki okkar eru tvær aldir framfara almennings frá þeim atburðum, sem gerðust í Evrópu og Norður-Ameríku í lok átjándu aldar. Síðan hafa lifað sex kynslóðir af þeim þúsundum kynslóða, sem horfnar eru af hólmi og aldrei væntu betri tíðar í þessum veraldlega heimi.

Nánustu forfeður okkar kynntust hins vegar voninni um betri tíð með blóm í haga. Hver kynslóðin af annarri hefur tekið við betra búi af foreldrum sínum. Um þessar mundir trúa flestir Vesturlandabúar og þar á meðal Íslendingar, að ástandið muni batna enn frekar.

Hver byltingin á fætur annarri hefur afsannað spádóma um takmörkuð gæði lífsins. Samgöngur, verkmenntun og fjölþjóðaviðskipti hafa lagt grundvöll að síbyltingu, þar sem hver uppgötvunin rekur aðra og framkallar nýtt spor á velsældargöngu almennings.

Sjónvarp og myndbandstæki, bíll og tölva, gemsi og hljómtæki eru orðnir hlutar af því, sem kallaðar eru brýnustu lífsnauðsynjar unga fólksins á Íslandi við lok tuttugustu aldar. Sumt af þessu eru atriði, sem tæpast voru til í heiminum fyrir svo sem hálfri öld.

Fólk á frístundir á hverjum degi, frídaga í hverri viku, frívikur á hverju ári. Það hefur notið skólagöngu meira eða minna á kostnað samfélagsins og sér fram á náðuga elli í skjóli sparnaðar í lífeyrissjóðum af ýmsu tagi. Ekkert virðist geta rofið þessa samfelldu sælubraut.

Við búum í senn við verðmætasköpun markaðshyggjunnar og öryggi velferðarþjóðfélagsins. Að vísu erum við aldrei ánægð, því að hver áfangi á leið okkar veitir okkur útsýni til verkefna, sem við höfum ekki leyst. Uppfylling gamalla þarfa kallar á nýjar þarfir.

Við gætum staðið okkur miklu betur, framleitt meiri verðmæti og þétt öryggisnetið. Við gætum farið að bjóða upp veiðileyfi í sjávarútvegi. Við gætum hætt fjárhagslegum afskiptum ríkisins af landbúnaði. Við gætum tekið upp óheft utanríkisviðskipti á öllum sviðum.

Við gætum dregið úr ofurvaldi framkvæmdavalds ríkisins í þjóðfélaginu og breytt ráðherra- og embættismannalýðræðinu í venjulegt lýðræði að vestrænum hætti. Við gætum gengið í Evrópusambandið, aukið neytendavernd og tekið upp evruna sem gjaldmiðil.

Lykillinn að flestum óloknum verkefnum er að losna úr viðjum hugarfars kreppuáranna, að það sé í verkahring ríkisvaldsins að vera Fjárhagsráð, skömmtunarstjóri misjafns aðgangs miselskaðra gæludýra, eins konar úthlutunarnefnd hins daglega afla þjóðarinnar.

Eitt af öðru, hægt en örugglega, munu falla forréttindavirkin, sem bandaríska lýðveldinu og frönsku byltingunni var stefnt gegn fyrir tveimur öldum.

Jónas Kristjánsson

DV

Skólabrú

Veitingar

Fagurt og frægt hús á einni beztu lóð miðbæjarins, hóflega merkt að utan, vekur væntingar, sem dempast af æpandi rauðri forstofu, en rísa aftur í stílhreinum og sældarlegum matsal. Húsbúnaður Skólabrúar er vandaður og látlaus, allt frá mataráhöldum yfir í málverk, frá línþurrkum yfir í ljósakrónur.

Umferðargnýrinn heyrist varla og dósatónlistin er lágvær. Þjónusta er kurteis og hófsöm. Gestir raða sér í þægilega armstóla og fá sér bita af sætu brauði snarphituðu. Ég reikna franskættaðan matseðilinn og fæ út, að þríréttað með kaffi kosti heilar 4.500 krónur, áður en kemur að víni.

Matreiðslan er fögur og fín, vönduð og létt, en dálítið frosin. Matseðillinn er fastur og virðist ekki taka tillit til árstíðabundins framboðs af sjávarfangi og villibráð. Hér ræður fagleg nákvæmni fremur en listræn tilþrif. Kuldaleg og blóðlaus Skólabrú stingur að því leyti eins og flestu öðru í stúf við hlýlegan og fjörugan keppinautinn Við Tjörnina á hinu horni Kirkjutorgs.

Sjávarréttasúpa og humarsúpa voru mildar og ljúfar, einfaldar að sniði. Lúðukæfa með rauðpiparkornum bráðnaði á tungu. Góð verkun var á grafinni súlubringu og taðreyktum lunda, fagurlega fram bornu á næfurþunnu, lauflaga hrökkbrauði. Bragðgóður humar og hörpuskel voru með sama umbúnaði á sams konar hrökkbrauði.

Góður hlýri, sæmilegur lax og of þurr karfi voru saman á sjávarréttadiski, með óvenjulega góðum hrísgrjónum, blönduðum grænmeti, og nákvæmlega elduðum kartöflum. Ég hefði viljað hlýrann einan. Þessar blöndur rétta, súla og lundi, humar og hörpuskel, hlýri og lax og karfi, segja óbeint, að í eldhúsinu eigi menn erfitt með að ákveða sig. Niðurstaðan verður þá eins konar sýnishorn, meðaltal eða hlutleysi.

Létteldað Skólabrúarlamb er sérgrein staðarins, afar meyrt og fínt, borið fram á sveppa- og spínatbeði með kartöfluflöguköku. Léttsteiktur lundi var fagur réttur og fremur góður, borinn fram með blóðbergs- og bláberjasósu.

Allar léttar ostakökur eru kallaðar Tiramisu á Íslandi, þótt þær séu óþekkjanlegar sem slíkar, ekki sízt á Skólabrú. Mangókrap í sítrónukörfu var ofurlétt og gott. Pina Colada ís var grófur og góður. Espresso-kaffi var fremur þunnt og borið fram á undan eftirétti, þótt beðið væri um það á eftir, enda skilja íslenzkir þjónar alls ekki, að sumir vilji slíkt kaffi sér á parti. Venjulegt kaffi var hins vegar gott.

Jónas Kristjánsson

DV

Hrepparenningarnir

Greinar

Umhverfisráðherra hefur fengið snert af góðvild og lagt fram skyndifrumvarp um, að þéttbýlið og Vestfirðir fái einn sjötugasta hluta af áhrifarétti dreifbýlisins á skipulag hálendisins. Áður hafði verið gert ráð fyrir að dreifbýlið eitt réði öllu um þetta skipulag.

Samkvæmt áður fram komnu frumvarpi félagsmálaráðherra til sveitarstjórnarlaga á öll stjórnsýsla og skipulag hálendisins að vera í höndum 40 aðliggjandi sveitarfélaga, sem hvert um sig á að stjórna einum hrepparenningi án tillits til landfræðilegra aðstæðna.

Samkvæmt nýju viðbótarfrumvarpi umhverfisráðherra má fjalla um skipulag hálendisins í nefnd, þar sem sveitarfélögin 40 með 4% landsmanna hafi tólf fulltrúa, en hin sveitarfélögin, með samtals 96% landsmanna, hafi fjóra fulltrúa. Misvægi réttindanna er sjötugfalt.

Þessar ruður af borði umhverfisráðherra duga ekki til að bæta fyrir skelfilegt frumvarp félagsmálaráðherra, sem því miður verður samþykkt á Alþingi innan skamms. Málið er í heild sinni enn sem fyrr ein mesta atlagan að almannarétti frá upphafi Íslandsbyggðar.

Ekki er hægt að sætta sig við, að fulltrúar 96% landsmanna hafi aðeins einn sjötugasta af umsagnaráhrifum á skipulag hálendisins og engan aðgang að stjórnsýslu þess. Skipulag og stjórnsýsla hálendisins á skilyrðislaust að vera í höndum fulltrúa landsmanna allra.

Svo virðist þó, sem þingmenn þéttbýlisins og Vestfjarða ætli flestir að sætta sig við, að sparkað sé í mikinn meirihluta þjóðarinnar á þennan hátt. Enda er raunar löng reynsla fyrir því, að þingmenn þéttbýlisins eru ófærir um að gæta hagsmuna þess, þegar á reynir.

Engin frambærileg rök hafa komið fram gegn kröfunni um, að landsmenn standi allir jafnir að skipulagi og stjórnsýslu hálendisins. Engin frambærileg rök eru fyrir því, að hálendinu sé skipt niður í fjörutíu hrepparenninga, þar sem sérhagsmunir ráða á hverjum stað.

Þar að auki stingur frumvarpið í stúf við þjóðlendufrumvarp forsætisráðherra, sem gerir ráð fyrir, að ríkið kasti eign sinni á allt það hálendi, sem aðrir geta ekki sannað, að þeir eigi. Með því frumvarpi verður ríkið landeigandi að mestum hluta hálendisins.

Þjóðin öll hefur hagsmuna að gæta á hálendinu. Þar eru flestir virkjanakostirnir, sem mestu máli skipta, bæði vatnsafl og jarðhiti. Orkuverin munu hvert fyrir sig þurfa að sæta fjárkúgun nokkurra hreppa, svo sem við þekkjum frá Blönduvirkjun í nágrenni Höllustaða.

Þjóðin hefur öll beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta af ferðamennsku á hálendinu og margvíslegra óbeinna hagsmuna af lífsgæðum, sem tengjast hálendinu, þótt þau verði ekki metin til fjár. Þess vegna á öll þjóðin að hafa sama áhrifarétt á hálendinu.

Þjóðlendufrumvarpið tekur skynsamlega á skipan margvíslegra hagsmuna á hálendinu, annars vegar ýmissa mannvirkja á borð við orkuver og vegi, og hins vegar hagsmuna náttúruverndar og umhverfismála. Það byggist á rannsóknum og sátt milli sjónarmiða.

Félagsmálaráðherra kastaði hins vegar sínu frumvarpi eins og olíu á eld umræðunnar um réttarstöðu fólks eftir búsetu og á eld umræðunnar um mannvirki og umhverfi á hálendinu. Um það er enginn friður úti í þjóðfélaginu, þótt þingmenn flestir lúti flokksaga.

Þótt Alþingi vilji hrepparenninga, hafa í umræðu fólks úti í þjóðfélaginu orðið ofan á þau sjónarmið, að ekki skuli búa til slíka renninga á hálendinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir vissu og þögðu þó

Greinar

Ríkisendurskoðandi vissi í meira en tvö ár af sukkinu í Landsbankanum án þess að gera neitt í því. Hann hefur því hag af, að málið sé einangrað við bankastjórana, sem sögðu af sér. Hann er því ekki lengur marktækur umsagnaraðili um hversu alvarlegt málið sé.

Ríkisendurskoðandi vísar til meintrar verkaskiptingar milli sín og endurskoðanda Landsbankans og enn fremur til þess, að bankastjórarnir hafi lofað bót og betrun fyrir tveimur árum. Hann taldi enga ástæðu til að fylgjast með hvort loforð þeirra yrðu efnd.

Samkvæmt þessu hefur ríkisendurskoðandi talið sig vera eins konar sálusorgara endurskoðanda bankans en ekki eftirlitsmann af hálfu Alþingis. Hvorki bankaendurskoðandinn né ríkisendurskoðandinn létu meðvitundarlaust bankaráð eða Alþingi vita um stöðuna.

Þetta sýnir auðvitað að Ríkisendurskoðun virkar ekki ef nógu hátt settir menn lenda í vafasömum málum. Þetta er umhugsunarefni fyrir Alþingi, sem valdi meðvitundarlausa bankaráðið og býr við ríkisendurskoðanda, sem leynir Alþingi alvarlegum staðreyndum.

Við verðum að muna, að það var ekki Ríkisendurskoðun, sem vakti málið. Það var óbreyttur þingmaður, sem kom skriðunni af stað. Og það var einn bankastjóranna, sem óskaði eftir þeirri rannsókn, sem síðan var falin hagsmunaaðilanum Ríkisendurskoðun.

Fleiri vissu en þögðu þó. Meðal þeirra er núverandi bankaráðherra, sem fór sem óbreyttur þingmaður í lax með einum bankastjóranna á kostnað bankans án þess að neinir viðskiptahagsmunir væru í húfi. Hann vissi vel, hvernig kunningjasiðferðið var í bankanum.

Þótt bankaráðherra vissi þannig af eigin reynslu, að meðvitundarlausa bankaráðið gegndi ekki eftirlitshlutverki sínu, valdi hann sama meðvitundarlausa bankaráðsfólkið í nýtt bankaráð, þegar eigandavaldið var um áramótin flutt frá Alþingi til ráðherrans.

Þannig eru hagsmunir ráðherrans hinir sömu og ríkisendurskoðandans, að málið sé einangrað við bankastjórana og ekki sé horft til þeirra, sem vissu af gangi þess, en gerðu ýmist ekkert í því eða vernduðu ástandið með endurvali meðvitundarlausra bankaráðsmanna.

Bankaráðherrann bætir gráu ofan á svart með því að kasta skít í þann eina bankaráðsmann, sem tók afleiðingum aðgerðaleysis síns með því að segja af sér, eina bankaráðsmanninn, sem tók persónulega ábyrgð á því að hafa ekki verið á vaktinni í bankaráðinu.

Í stað þess að þakka honum fyrir að hafa axlað ábyrgð fyrir hönd hinna, sem ekki hafa enn vaknað til meðvitundar um ábyrgð sína, segir ráðherrann, að bankaráðsmaðurinn treysti sér ekki til að axla ábyrgðina. Þetta eru óvenjulega ósvífin og ósanngjörn ummæli.

Með skítkasti sínu hefur bankaráðherrann niðurlægt sjálfan sig að ástæðulausu. En það er ekki auðvelt fyrir hefðbundinn pólitíkus að láta hjá líða að reyna að hefna fyrir þá uppljóstrun, að ráðherrann hafi hótað ráðsmanninnum uppsögn, ef hann makkaði ekki rétt.

Það gildir jafnt um ríkisendurskoðandann og bankaráðherrann, að þeir hafa árum saman vitað um spillingu Landsbankans og haft aðstöðu til að gera eitthvað í málinu, en látið undir höfuð leggjast að gera það. Báðir virðast því vera sekir um vanrækslu í starfi.

Þetta skýrir fyrir öllum, sem vita vilja, hvers vegna málinu hefur verið beint í þann farveg, að allt vont sé bankastjórunum að kenna og alls engum öðrum.

Jónas Kristjánsson

DV

Okkar maður

Greinar

Fyrir mörgum árum var stúdentsárgangur á siglingu um Breiðafjörð, þegar óvænt hófst freyðivínsburður í fólk. Þetta olli hrifningu flestra. “Okkar maður er orðinn ráðherra,” sögðu menn og skáluðu fyrir að vera loksins, loksins orðnir þátttakendur í spillingunni.

Auðvitað átti ráðherrann ekkert með að gefa skólafélögum sínum freyðivín. Engir hagsmunir ríkis og þjóðar voru í veði. Þetta var nákvæmlega sama málið og þegar vinir og kunningjar hafa verið að skjótast í laxveiði með bankastjórunum, sem nú hafa verið hengdir.

Hefðbundinn Íslendingur hefur það helzt við spillingu að athuga, að hann hafi ekki aðstöðu til að taka þátt í henni sjálfur. Menn öfundast út af henni, en hafa ekki á móti henni, ef hún er á réttum stöðum. Þess vegna mun takast að vernda gestalista bankastjóranna frægu.

Þetta jafngildir ekki, að þjóðinni ofbjóði aldrei. Tvennt þarf til að fólk reiðist eins og nú er orðin raunin í Landsbankamálinu. Upphæðirnar þurfa að vera nógu lágar til að fólk skilji þær. Og sökin þarf fremur að felast í persónulegri græðgi en greiðasemi við vildarvini.

Fólk reiðist út af tugmilljóna prívatrisnu bankastjóra, en lætur sér fátt um finnast, þótt sömu menn kasti tugum milljarða króna út um gluggann í spilltum lánveitingum. Það er í lagi að skera Lind úr snörunni fyrir tæpan milljarð, en ekki að veiða lax fyrir milljón.

Í Landsbankamálinu á þjóðin þess kost að opna augun og sjá inn í þríhyrning stórfyrirtækja, stjórnmálaflokka og skömmtunarstofnana, þar sem framkvæmdastjóri stærsta stjórnmálaflokksins situr 500 fundi með bankastjórunum frægu sem formaður bankaráðsins.

Fólk kveikir á því, að formaðurinn hljóti að hafa verið meira eða minna meðvitundarlaus á 500 fundum, úr því að hann náði hvorki tökum á innra eftirliti bankans né sérbókhaldi fyrir bankastjóra og vissi ekkert um gífurlega risnu, sem talað var um úti um allan bæ.

Fólk kveikir síður á, að bankinn hefur á sama tíma tapað nokkrum tugum milljarða í furðulegum útlánum og fyrirgreiðslum á borð við þær, sem skáru kaupleigufyrirtækið Lind úr snörunni. Það stafar af, að upphæðirnar eru of háar og græðgi ekki í spilinu.

Þótt bankastjórar hafi misst fótanna í græðgi sinni og orðið að segja af sér, stendur eftir samtryggingarkerfi þar sem fáokun í stjórnmálum, viðskiptum og fjármálum styður hver við bak annarrar. Þetta kerfi hafa kjósendur látið viðgangast og munu áfram þola.

Í svona kerfi situr framkvæmdastjóri stærsta stjórnmálaflokksins á 50 fundum með forstjórum stórfyrirtækja, sem fjármagna flokk hans, og situr þess á milli sem formaður á 500 fundum með bankastjórunum, án þess að víkja orði að ruglinu í rekstri bankans.

Við búum í rússlandi, þar sem helztu geirum viðskiptalífsins er hverjum fyrir sig stjórnað af einu til þremur stórfyrirtækjum, sem fjármagna stjórnmálin. Við búum í þjóðfélagi, þar sem bankarekstur og stjórnmál hafa spyrt sig saman í bandalagi fáokunar.

Bankastjórunum hefur verið fórnað til að sefa almenning. Opinber fyrirtæki hafa hrönnum saman afturkallað laxveiðipantanir. En spillingin á stóru sviðunum heldur áfram, af því að þjóðin gerir sér ekki rellu út af gagnkvæmri greiðasemi í valdastöðum.

Hér á landi munu menn áfram fagna, þegar “okkar maður” er orðinn ráðherra og tækifæri gefst fyrir smælingjann að taka pínulítinn þátt í spillingunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Meðvitundarlaus formaður

Greinar

Bankaráð Landsbankans er hvergi þvegið, hvað þá hvítþvegið, í skýrslu Ríkisendurskoðunar um risnu og laxveiðar Landsbankans. Sama er, hversu oft skýrslan er lesin, niðurstaðan er alltaf sú, að ráðherrar og aðrir, sem slíku hafa haldið fram, fara með rangt mál.

Ekki kemur á óvart, að öflugustu stjórnmálaöfl landsins vilji koma í veg fyrir, að pólitískt valið bankaráð sé látið bera nokkra ábyrgð á því, sem fór fram undir eftirliti þess. Bankaráðsmenn sukktímans verða því varðir fram í rauðan dauðann, einkum formaðurinn.

Hitt kemur á óvart og niðurlægir embættið, að ríkisendurskoðandi skuli ekki segjast gera athugasemdir við þessa túlkun ráðherra, jafnvel þótt hún stangist á við þær reglur, sem gilda í lögum um skyldur stjórna og ábyrgð þeirra á stjórnendum, sem þær ráða til starfa.

Um tvennt er að ræða. Annaðhvort hefur bankaráðið, sem starfaði á tímabilinu 1991­1997, vitað meira eða minna af sukkinu eða verið gersamlega úti að aka og þannig séð verið ófært um að gegna hlutverki sínu. Hvort tveggja er hrein og klár brottrekstrarsök.

Sukkið í Landsbankanum hefur árum saman verið haft í flimtingum úti í bæ og oft komizt á síður fjölmiðla. Það þarf nánast meðvitundarlausa bankaráðsmenn til að átta sig ekki á, að ástæða væri til að rannsaka, hvernig innra eftirliti bankans væri háttað.

Þáverandi formaður bankaráðsins hlaut því að vita, að risna bankastjórnar væri óeðlilega há og að laxveiðar væru óeðlilega miklar, þar á meðal veiðar, sem ekki höfðu viðskiptalegan tilgang, svo sem veiðar með kunningjum bankastjóranna og stjórnmálamönnum.

Þáverandi formaður bankaráðsins hlaut ennfremur að vita, að innra eftirlit bankans heyrði samkvæmt skipuriti undir einn bankastjórann, en ekki bankaráðið. Hann hefði í krafti valds bankaráðsins getað breytt þessu skipuriti, sem lá á hvers manns borði í ráðinu.

Þáverandi formaður bankaráðsins hlaut að vita, að risnubókhaldi bankastjóranna var haldið fyrir utan venjulegt bókhald og falið sérstökum trúnaðarmanni bankastjóranna. Það er grundvallarstarf hvers stjórnarformanns að kynna sér slíka skipulagsbresti.

Þáverandi formaður bankaráðsins hlaut að vita, að bankastjórar voru oft að veiðum í á, sem fjölskyldufyrirtæki eins bankastjórans leigði út. Annaðhvort var hann meðvitundarlaus í sjö ár eða meðsekur um afbrotin, sem framin voru undir verndarvæng hans.

Hreinsun Landsbankans hófst ekki fyrir tilverknað bankaráðsins, hvorki hins gamla né hins nýja, sem er skipað sömu mönnum. Það var Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður, sem sprengdi kýlið. Og það var Sverrir Hermannsson, bankastjóri, sem bað um rannsóknina.

Málefnalega séð eru tveir kostir í stöðu fyrrverandi formanns bankaráðsins. Annaðhvort verður hann látinn víkja úr ráðinu á þeim forsendum, að hann sé óhæfur vegna meðvitundarleysis eða þá að hann verður bæði látinn víkja og sæta kæru vegna vanrækslu í starfi.

Engin málefnaleg forsenda er fyrir þeirri niðurstöðu, að bankaráðsformaðurinn sitji áfram sem óbreyttur ráðsmaður. Það er hins vegar niðurstaðan, sem landsfeðurnir hafa ákveðið, af því að framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins er utan og ofan við lög og rétt.

Niðurstaðan er því sú, að bankastjórunum einum er kennt um allt, sem aflaga fór. Þeim er fórnað til þess að draga athyglina frá þeim, sem ábyrgð eiga að bera.

Jónas Kristjánsson

DV

Daðrað við kjarna málsins

Greinar

Bezta ráðið til að bæta lífskjörin til langs tíma er að auka samkeppnishæfni atvinnulífsins. Því minna, sem kosta þarf til framleiðslu á vöru og þjónustu, að beinum launum starfsmanna frátöldum, þeim mun meiri hluti andvirðisins er til ráðstöfunar í lífskjörin.

Í fróðlegu riti, sem var að koma út á vegum Vinnuveitendasambandsins, Samtaka iðnaðarins og samtaka evrópsks iðnaðar, er borin saman samkeppnishæfni atvinnulífs Íslendinga og helztu auðþjóða heims. Þar kemur fram, að við stöndum að mörgu leyti vel að vígi.

Af neikvæðum atriðum sker helzt í augu, að vextir eru tveimur prósentustigum hærri en þeir eru í samkeppnislöndunum. Þetta eykur fjármagnskostnað atvinnulífsins, einkum þeirra fyrirtækja, sem eru að auka rekstur sinn og leggja út á nýjar og spennandi brautir.

Vaxtamunur Íslands og Evrópu mun aukast, þegar evran kemur til sögunnar um næstu áramót. Margvíslegt hagræði af völdum hennar mun lækka vexti í samkeppnislöndum okkar um hálft prósentustig, en ekki hér á landi. Munurinn fer því í hálft þriðja stig.

Veigamesta ástæða hárra vaxta er illa rekið bankakerfi með hrikalegum afskriftum útlána vegna óráðsíu bankastjóra og bankaráða í vali gæludýra sinna. Þessarar ástæðu er ekki getið í ritinu, þótt hún valdi óeðlilega miklum mun á innláns- og útlánsvöxtum.

Ekki þýðir að lækka vexti með handafli, því að þeir þurfa að fylgja framboði og eftirspurn fjármagns. Unnt er að hafa áhrif á jafnvægið með því að halda niðri þorsta ríkisins í lánsfé, efla sparnaðarhvata í reglum um sparifé og taka upp evruna sem gjaldmiðil.

Einnig sker í augu, að útgjöld þjóðfélagsins til rannsókna og þróunarstarfs eru mun lægri hér á landi en í samkeppnislöndunum. Þetta heftir útþenslu hátæknigreina, sem borga mönnum hátt kaup, og varðveitir lágtekjugreinar á borð við landbúnað.

Í ritinu er ekki fjallað um óhagræðið, sem stafar af stuðningi ríkisins við lágtekjugreinar. Með beinum styrkjum, innflutningsbanni og tollum ver þjóðfélagið einum til tveimur tugum milljarða króna á hverju ári til að hindra þróun úr landbúnaði til hátekjugreina.

Bent er á, að ríkið þurfi að gæta hófs í mannahaldi, útgjöldum og skattlagningu. Ekki er samt nefnd bezta leiðin til þess. Hún er sú að lækka venjulega skatta á fólk og fyrirtæki með því að láta auðlindaskattinn renna til ríkisins, en ekki milli fyrirtækja í sjávarútvegi.

Margt er í betra horfi hér en hjá helztu auðþjóðum heims. Lífeyrissjóðakerfið er komið í góðan farveg, sem ekki ýtir vandanum inn í framtíðina. Launatengdur kostnaður er samt tiltölulega hóflegur hér á landi. Atvinnuleysi er lítið og atvinnuþátttaka mikil.

Skýrsluhöfundar telja réttilega, að sveigjanleiki sé að ýmsu leyti meiri í hagkerfi okkar en annarra þjóða. Fólk telur ekki eftir sér að flytja búferlum í átt til tækifæranna. Hlutastörf eru tiltölulega algeng. Takmarkanir á sveigjanleika á vinnumarkaði eru tiltölulega vægar.

Ritið daðrar víða við kjarna málsins, en segir ekki fullum fetum, að stórtækustu aðferðirnar við að auka samkeppnishæfni Íslands felist í hreinsun bankakerfisins, alþjóðlegum uppboðum veiðileyfa í sjávarútvegi og afnámi sértækra afskipta ríkisins af atvinnuvegum.

Sameiginlegt einkenni ýmissa beztu leiðanna er, að þær fela í sér, að ríkið dragi sig í hlé sem skömmtunarstjóri verðmæta og verndari gæludýra í atvinnulífinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Laugaás

Veitingar

Laugaás er franskt bistró að íslenzkum hætti. Þessi nágranni sundlauganna hefur árum saman dregið til sín hverfisbúa, sem ekki nenna að elda í kvöld, barnafjölskyldur utan úr bæ, ferðamenn utan af landi og frá útlöndum.

Í Frakklandi fer fólk í bistró til að borða góðan alvörumat fyrir 100 franka á mann í stað þess að éta hamborgara og pítsur. Á Íslandi fer almenningur af sömu ástæðum í Laugaás og borgar líka 100 franka, það er að segja 1.300 krónur fyrir súpu og aðalrétt.

Ef innréttingin væri óhreinni og þreyttari, gæti hún verið frönsk. Þarna eru köflóttir borðdúkar, ljósaskermar og gluggatjöld, svo og þægilegir tréstólar. Full þjónusta er komin til sögunnar og borð boðstólum.

Andrúmsloftið er mettað venjulegu fólki, innlendu og erlendu, sem nýtur slökunar og samræðna yfir mat, er ekki stendur á sporði þess, sem annars staðar er boðið á 3.600 krónur á mann. Hér koma hvorki uppar né ímyndunarfræðingar. Hér hef ég aldrei heyrt í gemsa.

Í hádeginu fást hefðbundnir dansk-íslenzkir millistríðsréttir á 890 krónur með súpu. Þar á meðal var indæll plukfisk, þar sem saman var blandað ýsu, kartöflum og lauki, borinn fram með volgu rúgbrauði. Ennfremur angurværar frikadeller með rauðrófum og pönnueggi. Það vantaði ekkert nema rødgrød med fløde.

Saltfiskurinn var vel útvatnaður, borinn fram með sterkri tómatbasilsósu og miklu af olífum, en hvorki lauki né papriku, hvergi betri í landinu nema í Þremur Frökkum. Rauðar og meyrar skarfabringur voru líka góðar, bornar fram með sólberja- og grænpiparsósu.

Auk skarfa má fá lunda, grágæs og sel af villibráðarseðli. Af fiskréttum má nefna djúpsteiktan steinbít í súrsætri sósu, pönnusteikt ýsuflök með lauk og tómati og ofnbakaða bleikju með rækjum. Í öllum tilvikum er eldun fiskjar traust og eldunartímar skammt yfir eðlilegu marki.

Laugaás gælir líka við illræmda þjóðarrétti á borð við djúpsteikta ýsu í deigi með béarnaise-sósu og frönskum kartöflum og glóðarsteikt lambalæri með sömu béarnaise-sósunni og sömu frönsku kartöflunum.

Súpur Laugaáss eru ómerkar hveitisúpur að þjóðlegum hætti. Hrásalatið er jafnan nákvæmlega eins ár eftir ár, áratug eftir áratug, raspað hvítkál með þúsundeyjasósu. Og í eldhúsinu elska menn þjóðlega ostbökun fiskrétta, svokallaða gratineringu.

Einn bezti matur Laugaáss reyndist vera fiskisúpa, þykk chowder að bandarískum hætti, ljósrauð rækju- og laxasúpa með þeyttum rjóma, afar bragðgóð og matarleg.

Jónas Kristjánsson

DV

Sukkið er pólitískt

Greinar

Orðheppnasti bankastjóri Landsbankans og tregastur þeirra til að segja af sér naut á sínum tíma svo mikils trausts kjósenda á Austfjörðum, að þeir kusu hann á þing til að gæta austfirzkra hagsmuna. Það var upphafið að löngum og afdrifaríkum stjórnmálaferli hans.

Á þingi naut hann svo mikils trausts flokksbræðra sinna, að þeir gerðu hann að ráðherra til að gæta hagsmuna flokksins. Eftir viðburðaríka setu í þeim stóli naut hann nægilegs trausts flokkseigendanna til að fá að gæta hagsmuna þeirra sem bankastjóri Landsbankans.

Bankastjórahrunið er eðlileg afleiðing þjóðskipulags, sem gerir ráð fyrir, að stjórnmál spanni rekstur fjármálafyrirtækja, stórfyrirtækja og sendiráða. Nú er raunar verið að víkka út þessa séríslenzku spillingu með því að fela fjármálaráðherra að reka Landsvirkjun.

Árum saman hefur Landsbankinn verið illa rekið fyrirtæki, svo sem sést af milljarðaafskriftum lána og framlögum úr ríkissjóði. Sukk bankastjóra í útlánum er mörghundraðfalt stærra en laxveiðisukkið, sem að lokum hefur orðið þeim að snöggu og maklegu falli.

Einn bankastjórinn hefur reynt að firra sig ábyrgð, væntanlega af því að hann hefur ekki hirt brennivín bankans. En hann vissi af laxveiðisukkinu og tók þátt í því, meðal annars með núverandi bankaráðherra, sem ekki hefur getað skýrt forsendur aðildar sinnar.

Þyngsta ábyrgð ber bankaráðið, sem sat fram til síðustu áramóta undir sterkri forustu framkvæmdastjóra stærsta stjórnmálaflokksins, þess manns sem harðast hefur barizt gegn því, að upplýst verði, hvaða stórfyrirtæki standi undir rekstri hvaða stjórnmálaflokka.

Í umboði Alþingis vakti bankaráðið yfir sukki og spillingu Landsbankans, tók þátt í laxveiðinni og leit mildum augum á útlánatapið. Það var ekki fyrr en með nýjum formanni ráðsins á þessu ári, að togaðar voru upp úr endurskoðanda bankans fyrstu hneykslisfréttirnar.

Fyrrverandi bankaráðsformaðurinn er raunar meiri persónugervingur hinnar pólitísku stýringar á þjóðlífinu en bankastjórinn, sem brennivínið hirti. Það er í gegnum slíka umboðsmenn, sem flokkseigendafélög stjórna fjármálastofnunum og stórfyrirtækjum ríkisins.

Landsbankamálið sýnir, hversu nauðsynlegt er, að ríkið selji fjármálastofnanir sínar og stórfyrirtæki og verður væntanlega til þess að flýta fyrir því. Ráðherrar eru meira en nógu valdamiklir, þótt þeir séu ekki að skipa fulltrúa sína í áhrifastöður utan stjórnmálanna.

Jafnframt verður að gæta þess, að flutningur valds frá stjórnmálamönnum til atvinnuforstjóra leiði ekki til aukinna yfirráða stórfyrirtækja yfir stjórnmálaflokkum. Með einkavæðingu ríkisfyrirtækja er brýnna en áður, að með lögum verði fjármögnun flokkanna upplýst.

Eins verður að gæta þess, að einkavæðing sé framkvæmd á markaðsverði, en ekki á undirverði eins og sala Síldar- og fiskimjölsverksmiðja ríkisins. Ekki má heldur framselja ríkiseinokun í hendur einkaaðila eins og gert var með Bifreiðaskoðun Íslands.

Fáokun hefur hingað til ríkt í bankarekstri og auðveldað Landsbankanum að standa undir sukkinu með óhóflegum vaxtamun inn- og útlána. Ástæða er til að óttast, að fáokunin haldist og harðni jafnvel, ef bankar verða sameinaðir um leið og þeir verða einkavæddir.

Vanda verður til einkavæðingar bankanna, því að hún er eina leiðin til að hindra sukk og óráðsíu á borð við þá, sem áratugum saman hefur einkennt Landsbankann.

Jónas Kristjánsson

DV

Flas er ekki til fagnaðar

Greinar

Ættfræðilegur heildargagnabanki íslenzkra heilbrigðismála er spennandi verkefni, sem Íslenzk erfðagreining vill taka að sér í framhaldi annarra stórvirkja, sem fyrirtækið hefur axlað. Eðlilegt er að liðka fyrir slíku, ef það rekst ekki á aðra og þungvægari hagsmuni.

Frumvarp til laga um leyfi handa fyrirtækinu til að búa til slíkan banka og hafa einkaleyfi á honum í tólf ár verður samt ekki að lögum á þessu þingi. Til þess er málið of viðamikið og of illa undirbúið. Þjóðfélagið þarf meiri tíma til að melta sjónarmiðin, sem vegast á.

Það er ekki gott veganesti væntanlegs flýtifrumvarps, að mikilvægir umsagnaraðilar skuli koma af fjöllum, svo sem Tölvunefnd og Landlæknir, Læknafélag Íslands og siðaráð þess. Enda hafa nærri allir slíkir aðilar brugðizt ókvæða við og finna frumvarpinu flest til foráttu.

Í lýðræðisríkjum er eðlilegt, að lagafrumvarp á nýju og flóknu sviði sé samið af aðilum, sem eru óháðir hagsmunum, það fái gott svigrúm í tíma, fari til umsagnar margra aðila og verði til umfjöllunar á fundum og ráðstefnum, þar sem það sé skoðað frá ýmsum hliðum.

Gerð heildargagnabankans býr til hálaunastörf og umsvif, sem koma þjóðfélaginu að gagni. Hún ýtir því eitt skref í átt frá frumframleiðslugreinum fortíðarinnar til þekkingargreina framtíðarinnar. Þetta er eitt lóðið, sem þarf að leggja á metaskálar væntanlegs frumvarps.

Notkun bankans mun væntanlega leiða til þekkingar á erfðabrautum sjúkdóma, sem gerir þjóðfélaginu kleift að vara einstaklinga við arfgengum áhættuþáttum og bent þeim á, hvernig þeir geti forðazt afleiðingar. Margir eiga því í framtíðinni að geta lifað bjartara lífi en ella.

Þessi sama þekking getur einnig leitt til, að tryggingafélög, bankar og atvinnurekendur geti komizt að þessum sömu áhættuþáttum og hafnað sömu einstaklingum eða skaðað þá fjárhagslega með því að setja þá í áhættuflokka, neita þeim um lánstraust eða vinnu.

Eitt grundvallaratriða, sem spurt verður um, er eignaraðild fólks að upplýsingum um sjálft sig. Verður mönnum gert kleift að strika sig af skrá yfir þá, sem heildargagnabankinn nær yfir, rétt eins og menn geta nú strikað sig af þjóðskránni, sem fyrirtæki fá að nota?

Verður ákvörðun um ráðstöfun viðkvæmra persónuupplýsinga hjá ráðherra samkvæmt frumvarpinu eða á vegum hlutlauss aðila, eins konar dómstóls, svo sem gildir í Evrópusambandinu og á að gilda hér innan skamms í samræmi við ákvæði Evrópska efnahagssvæðisins?

Hver verður réttur ríkisvaldsins fyrir hönd þjóðfélagsins til gagnabankans að loknu tólf ára einkaleyfistímabili Íslenzkrar erfðagreiningar? Hvert er verðgildi auðlindar, sem ríkið skammtar einum aðila einkaleyfi til að nota? Getur ríkið leigt út þá auðlind eða selt?

Hér hafa verið nefndar nokkrar mikilvægar spurningar, sem þarf að skoða vel. Vegna þeirra og annarra slíkra er útilokað, að frumvarpið fái þá hraðferð gegnum Alþingi, sem heilbrigðisráðherra virðist ætlast til. Þingmenn geta ekki leyft sér slíkt skeytingarleysi.

Á hinn bóginn er ekki rétt, að nýstárlegt mál verði látið gjalda þess að hafa hafa borið að með óviðurkvæmilegum hætti. Rétt er að láta það fá eina umræðu á þingi í vor, skipa síðan í það milliþinganefnd og hafa það til umsagnar úti í þjóðfélaginu fram á næsta haust.

Þjóðfélagið fær þá tíma til að melta hugmynd, sem er svo óvænt, að ekki eru fordæmi til að styðjast við. Þannig eru leikreglurnar í okkar heimshluta.

Jónas Kristjánsson

DV