Mannasiðir ferðamanna

Punktar

Yfirvöld í Flórens og Feneyjum eru farnir að siða lata og þreytta ferðamenn, sem halda að þeir séu á sólarströnd og sýna helgum stöðum ekki næga virðingu. Þeir fá 50 evru sekt fyrir að setjast niður fyrir utan höfuðkirkjurnar Duomo og heilagan Markús.

Al Kaída í nýju skjóli

Punktar

Að sögn Michael R. Gordon í New York Times heldur bandaríska hernámsstjórnin í Írak því fram, að hryðjuverkasamtök með tengsli við Al Kaída séu að koma sér fyrir í Bagdað. Paul Bremer landstjóri segir þau bera ábyrgð á hryðjuverkinu við sendiráð Jórdaníu, þar sem 17 manns létust. Athyglisvert er, ef þau geta frekar starfað í landinu, þegar Bandaríkjamenn stjórna, heldur en þegar Saddam Hussein stjórnaði. Hann var andvígur Al Kaída hreyfingunni, sem sakaði hann um trúvillu og trúleysi.

Nató á nýjum slóðum

Punktar

Á morgun tekur Atlantshafsbandalagið formlega við fyrsta verkefni sínu utan Evrópu. Það hyggst framlengja viðburðasnauð ævilok sín með því að reyna að hreinsa upp eftir Bandaríkin í Afganistan. Þar hefur óöld magnazt og eiturlyfjaframleiðsla margfaldazt í skjóli hernáms Bandaríkjamanna. Ástandið í landinu er mun verra en það var á valdatímum Talibans. 5000 manna herlið frá Þýzkalandi og Hollandi tekur kaleikinn næstu sex mánuði. Ólíklegt er, að hernám Afganistans verði bandalaginu til mikillar frægðar í aðildarríkjum þess.

Kolbilaður Kalígúla

Punktar

John Hooper segir í Guardian, að nýjar fornleifarannsóknir í Róm staðfesti frásögn sagnaritarans Svetoníusar af framkvæmdum keisarans Kalígúla, sem taldi sig vera guð. Komið hefur í ljós, að hann byggði höll sína utan um musteri Castor og Pollux eins og Svetoníus sagði, til að geta búið með hinum guðunum. Þetta er talið benda til, að Svetoníus hafi rétt fyrir sér í fleiri atriðum, svo sem að Kalígúla hafi verið snarbilaður, en ekki bara gamansamur sérvitringur, sem vildi gera hestinn Incitatus að ráðherra.

Vígreifir valdamenn

Punktar

Simon Tisdall nefnir í Guardian dæmi um, að vígreifir stjórnendur í bandaríska stríðsmálaráðuneytinu, einkum John Bolton, Paul Wolfowitz og Douglas Feith, séu önnum kafnir við að koma illu af stað í samskiptum Bandaríkjanna við Íran og Norður-Kóreu. Hann segir þá stefna að stríði við þessi ríki.

Boðlegar bíómyndir

Punktar

Marina Hyde segir í Guardian frá rannsókn á kvikmyndasmekk ýmissa valdhafa. Eisenhower neitaði að horfa á stríðsmyndir og Roosevelt vildi bara hamingjusama enda. Saddam Hussein vill helzt sjá Godfather og George W. Bush vill helzt sjá Saving Private Ryan. Godfather er miklu betri mynd, segir Hyde.

Dýrkeypt hræsni

Punktar

Margar ríkisstjórnir og fjölmiðlar hafa fordæmt íslenzku ríkisstjórnina fyrir að ákveða að hefja nú þegar hvalveiðar að nýju eftir fjórtán ára hlé. Þar á meðal er ríkisstjórn Bandaríkjanna og ýmsir bandarískir fjölmiðlar. Réttilega er sagt, að það sé hræsni Íslendinga að kalla þetta vísindaveiðar. Vakin er athygli á mótmælum íslenzkrar ferðaþjónustu, sem telur hagsmuni hvalaskoðunar vera langtum þyngri á metaskálunum en hagsmunir hvalveiða. Almennt má segja, að sýnd sé neikvæð mynd af Íslandi í vestrænum fjölmiðlum þessa dagana. Vafalaust leiðir það til þess, að miklu færri en ella taki ákvörðun um að heimsækja Ísland. Segja má því, að Íslendingar stundi dýrkeypta hræsni á þessu sviði til að þjónusta minni hagsmuni á kostnað meiri hagsmuna í þjóðfélaginu.

Búðarglugginn hvíslar

Punktar

Erlendis er kominn til sögunnar tækni, sem flytur hljóð gegnum gler. Hún er meðal annars notuð til að ávarpa vegfarendur, sem eiga leið hjá. Tilraunir hjá Peter Jones í Sloane Square í London benda til, að 50% fleiri en áður staðnæmist við glugga verzlunarinnar. Tæknin mælir umferðarhávaðann og stillir hvíslið örlítið hærra án þess að gera það óþægilegt. Engar kvartanir hafa borizt að sögn talsmanna verzlunarkeðjunnar. Verður tæknin nú sett upp víðar og berst vafalaust fljótlega til Reykjavíkur. Frá þessu segir Richard Adams í Guardian.

Terminator IV

Punktar

Peter Bradshaw gerir í Guardian grín að fyrirætlunum Arnold Schwarzenegger um framboð til ríkisstjóra í Kaliforníu. Höfundurinn segir leikarann ekki gera sér neina grein fyrir, að kröfur til stjórnmálamanna séu mun strangari en kröfur til leikara. Meðal annars verði grafin upp óþægileg atriði í sögu mannlegra samskipta leikarans og einnig minnt á, að faðir hans var nazisti í Austurríki. Bradshaw rifjar í leiðinni upp sérstakar forsendur þess, að Ronald Reagan varð stjórnmálamaður og forseti. Hann telur, að Glenda Jackson og Clint Eastwood hafi ekki riðið feitum hesti frá stökki inn í stjórnmálin.

Powell látinn fara

Punktar

Maureen Dowd segir í New York Times, að róttæklingarnir kringum George W. Bush Bandaríkjaforseta séu önnum kafnir við að bola Colin Powell utanríkisráðherra úr starfi, þar sem hann sé ekki af þeirra sauðahúsi og vilji til dæmis hafa samráð við erlend ríki í stað þess að skipa þeim fyrir.

Samráð eru hagkvæm

Punktar

Þegar stórfyrirtækjum hefur fækkað niður í þrjú eða færri í hverri grein, svo sem hefur orðið hér á landi í bönkum, olíuverzlun, tryggingum og samgöngum, má slá því föstu, að ráðamenn þeirra hafi samráð sín í milli um verð og margt fleira, svo sem aðgerðir gegn nýjum aðilum á markaði. Samráð fáokunarfyrirtækja er einfaldasta og fljótlegasta leið þeirra í markaðshagkerfinu til að efla hag fyrirtækjanna og hluthafa þeirra á kostnað almennings. Gera má ráð fyrir, að ráðamenn fyrirtækjanna gangi eins langt og þeir þora og dómvenja leyfir. Ef ríkiskerfið herðir aðgerðir gegn fáokun, má búast við tímabundnum erfiðleikum fyrirtækjanna við að laga sig að nýjum aðstæðum, svo sem nú er orðin raunin hér á landi. Það breytir því ekki, að rökrétt endastöð markaðshagkerfisins er einokun.

Aðeins fyrir þá ríkustu

Punktar

Ekki er víst, að George W. Bush Bandaríkjaforseti nái endurkjöri, þótt hann láti á réttum tíma finnast fölsuð sönnunargögn um gereyðingarvopn Saddam Hussein. Miklar skattalækkanir hinna ríkustu, Bandaríkjamet í halla á ríkisrekstri, aukið atvinnuleysi og niðurskurður velferðar mun smám saman opna augu margra Bandaríkjamanna og færa þeim sanninn um, að Bush er ábyrgðarlaus í fjármálum og stjórnar aðeins í þágu hinna allra ríkustu, en engra annarra.

Bandaríkin þurfa aðstoð

Punktar

Max Boot segir í New York Times, að Bandaríkin þurfi nú á Sameinuðu þjóðunum að halda, þótt þau hafi hunzað þær við undirbúning stríðsins gegn Írak. Þau hafi ekki ráð á að borga fjóra milljarða dollara á mánuði til að halda uppi 150.000 manna herliði í Írak og hafi ekki mannafla til að leysa þreytulegt setuliðið af hólmi. Frakkar, Þjóðverjar og Rússar, Indverjar, Egyptar og Tyrkir neita að taka þátt, nema Sameinuðu þjóðirnar samþykki. Boot segir, að kominn sé tími fyrir Bandaríkjastjórn að brjóta odd af oflæti sínu og taka Sameinuðu þjóðirnar í sátt.

Gagnslausar innrásir

Punktar

Osama bin Laden hefur tekizt ætlun sín. Óttinn við hryðjuverk gegnsýrir stjórnarskrifstofur í Bandaríkjunum og Bretlandi. Bandaríska innanríkisráðuneytið varar hvað eftir annað við yfirvofandi hryðjuverkum. Sameinuðu þjóðirnar segja, að alþjóðlegt samstarf gegn hryðjuverkum hafi farið út um þúfur. Utanríkismálanefnd brezka þingsins segir, að hryðjuverkahætta hafi aukizt við Íraksstríðið. Jessica Stern segir í Foreign Affairs, að Al Kaída samtökin hafi lagað sig vel að nýjum aðstæðum. Simon Tisdall segir í Guardian, að svar Bandaríkjanna, innrásir í Afganistan og Írak, hafi ekki komið að neinu gagni.

Setulið magnar hryðjuverk

Punktar

William Pfaff heldur því fram í International Herald Tribune, að bezt heppnuðu aðgerðir gegn hryðjuverkasamtökjum hafi verið á vegum þýzkrar, franskrar og brezkrar lögreglu. Hins vegar hafi hin bandaríska stefna að koma upp herstöðvum nálægt átakassvæðum, svo sem í Pakistan, Afganistan og Írak, ekki aukið öryggi Bandaríkjanna. Nefnir hann ýmis sagnfræðileg dæmi um, að bandarískt setulið hafi magnað óvild í garð Bandaríkjanna og ræktað hugarfarið að baki hryðjuverka.