Evrópa missti áhuga

Punktar

Þegar sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins var hér í vikunni, kom í ljós, að sjávarútvegsstefna þess er farin að harðna að nýju. Liðið er tímabil tækifærisins, þegar sambandið taldi henta sér að lagfæra landakort sitt til norðurs. Næsta áratuginn verður það upptekið við að taka inn Austur-Evrópu og mun hafa minni áhuga á Íslandi en undanfarin ár. Samningsaðstaða okkar er því farin að versna og litlar líkur eru því á stuðningi hér á landi við aðild í náinni framtíð, því miður.

Miðaldir í Ameríku

Punktar

Nicholas D. Kristof bendir í New York Times á grundvallarmun lífsviðhorfa fólks í trúhneigðum Bandaríkjum og veraldlegri Evrópu. 83% Bandaríkjamanna trúa eingetnaði Krists, en aðeins 28% trúa þróunarkenningunni og þeim fer fækkandi. 58% Bandaríkjamanna trúa, að ekki sé til siðferði án kristinnar trúar, en aðeins 13% Frakka eru sama sinnis. Það er engin furða þótt gjáin víkki milli Evrópu og Bandaríkjanna, þegar grundvallarviðhorf vestan hafs færast í átt til miðalda og krossferðir gegn múslimum eru hafnar að nýju.

Hrunið heilbrigðiskerfi

Punktar

Tæplega 9000 bandarískir læknar hafa krafizt ríkisrekins heilbrigðiskerfis í Bandaríkjunum eins og Kanada hefur notað í nærri fjóra áraugi. Frá þessu segir m.a. Kate N. Grossman í Chicago Sun-Times. Læknarnir segja, að hið einkarekna bandaríska heilbrigðiskerfi sé það langdýrasta í heiminum, en nái samt ekki til 41 milljón manna, sem engar sjúkratryggingar hafa, og milljóna í viðbót, sem hafa ófullnægjandi sjúkratryggingar. Þeir segja, að bandaríska kerfið sé að hruni komið, enda geti það kostað fjölskyldu um 700.000 krónur á ári að fá sér einkarekna sjúkratryggingu. Helztu andstæðingar endurbóta á kerfinu eru tryggingafélögin og lyfjafyrirtækin, sem styðja repúblikana með himinháum fjárhæðum.

Óstjórn og útrýming

Punktar

Hrun ríkisstjórnar Taliban og bandaríska hernámið í Afganistan hafa skapað glundroða á mörgum sviðum. Lítið dæmi um hann er, að aukizt hafa ólöglegar veiðar á dýrum í útrýmingarhættu, svo sem snæhlébarðanum. Skinnin af þeim eru seld á 700.000 stykkið. Frá þessu segir Alex Kirby í BBC. Áður hefur komið fram, að morð, nauðganir og eiturlyfjaframleiðsla hafa margfaldazt í landinu á hernámstímanum. Vestrænar öryggissveitir þora ekki út fyrir höfuðborgina Kabúl og ekki batnar ástandið núna, þegar ellihrumt Atlantshafsbandalag hefur tekið við völdum.

Skítalaun sem markmið

Punktar

Grátkóngar sjávarútvegsins væla enn einu sinni um, að hátt kaup hér á landi geri fiskvinnslu óarðbæra. Krafan um, að fólk hafi það skítt, svo að atvinnulífið skrimti, nýtur auðvitað lítils hljómgrunns launafólks. Ef atvinnuvegur er svo hallærislegur, að fólk þarf að hafa það skítt, svo að hann skrimti, á þjóðfélagið ekki að hlaða undir hann. Talsmaður Samherja og fleiri slíkir eru í rauninni að segja, að sjávarútvegur sé lélegur og úreltur atvinnuvegur, sem standist ekki samanburð við aðra atvinnuvegi í landinu.

Sögulausir og staðlausir

Punktar

Skilningur á sagnfræði og landafræði fór út um þúfur á Vesturlöndum, þar á meðal hér á landi, þegar skólakerfið lét þau víkja fyrir samfélagsfræðirugli. Fáir skilja, þegar Evrópuríki á 21. öld er borin saman við ítölsk borgríki á 15. öld. Einnig skilja fáir, þegar Bandaríki 21. aldar eru borin saman við Rómarveldi 2. aldar. Enn færri skilja stöðu Íraks og Írans í hópi mikilvægustu menningarríkja heims, eða þekkja landfræðilegar forsendur þeirrar stöðu. Fólk og fyrirfólk, sem kann ekki sagnfræði og landafræði, er dæmt til að endurtaka gömul mistök, til dæmis að hefja dýrkeypt stríð.

Rússakerfi á Íslandi

Punktar

Markaðshagkerfi nútímans á Íslandi gengur ekki bara út á aukin samráð fáokunarstofnana. Það gengur einnig út á að gera atvinnumönnum kleift að stunda innherjaviðskipti, kaupa og selja pappíra í skjóli vitneskju, sem öðrum er ekki aðgengileg. Litlu munar á hagkerfi Rússlands síðasta áratuginn og núverandi hagkerfi Íslands.

Sofandi að feigðarósi

Punktar

George Monbiot segir í Guardian, að við sjáum hættuna, sem stafar af breyttu loftslagi af mannavöldum, en séum ófær um að bregðast við af skynsemi. Hann minnir á vaxandi ofsa og ýkjur í veðurfari, stórflóð og reginstorma, svo og manndrápshita eins og nú ríkir á meginlandi Evrópu. Hann segir mælingar sýna, að hraði óheillaþróunarinnar hafi þrefaldazt síðan 1976. Framtíð mannkyns sé í voða, ef ekki verði gripið til róttækra ráðstafana gegn mengun af völdum koltvísýrings.

Gera illt verra

Punktar

Hvort sem er í Afganistan eða Írak hefur hernaður og hernám Bandaríkjanna gert illt verra. Líf fólks í löndum þessum er mun erfiðara en það var á tímum Talibans í Afganistan og Saddam Hussein í Írak. Það er hrein sjálfsmorðstilraun Atlantshafsbandalagsins að gera tilraun til að moka flórinn eftir Bandaríkjaher í Afganistan og hið sama verður uppi á teningnum hjá þeim, sem láta blekkja sig til að leysa Bandaríkin af hólmi í Írak. Hernám Afganistan er fyrir löngu alræmt og í gær sagði Paul Krugman í New York Times frá ýmsu fáránlegu í hernámi Íraks, sem stafar af sjúklegri hugmyndafræði Bandaríkjastjórnar.

Írskar heiðríkjukrár

Punktar

Hart er sótt að reykingum á Vesturlöndum þessa dagana. Um næstu áramót verður bannað að reykja á krám og veitingahúsum á Írlandi af öllum löndum. Sama gildir um Noreg næsta vor og Holland um áramótin þar á eftir. Áður höfðu reykingar verið bannaðar í New York. Evrópusambandið hefur samþykkt bann gegn tóbaksauglýsingum, sem þegar hefur tekið gildi í nokkrum löndum. Lizette Alvarez segir frá þessu í New York Times. Það endar með þeirri byltingu, að maður getur farið á kaffihús á Íslandi án þess að fá hóstakast.

Sagnfræði hjá Prodi

Punktar

Í New York Times er fróðlegt viðtal Craig S. Smith við Romano Prodi, framkvæmdastjóra Evrópusambandsins, þar sem hann lýsir hugmyndum sínum um þróun Evrópusambandsins og samskipta þess við Bandaríkin. Hann segir evrópsk ríki á 21. öld vera eins og ítölsku borgríkin á 15. öld, auðug, en áhrifalaus í umheiminum. Evrópusambandið muni breyta þessu, en það geti tekið áratugi.

Vestrænt ósamkomulag

Punktar

David Clark segir í Guardian, að stríðið gegn Írak hafi eyðilegt möguleika á vestrænu samstarfi um stríð í þágu mannréttinda eins og þau, sem háð hafa verið í arfaríkjum Júgóslavíu heitinnar. Þau voru háð með samkomulagi ríkja Atlantshafsbandalagsins um frávik frá algildi fullveldis ríkja. Stríðið gegn Írak byggist hins vegar ekki á neinu vestrænu samkomulagi, heldur hægri sinnuðum bandarískum sjónarmiðum um algildi bandarísks einræðis, sem eigi sér ekki hljómgrunn í öðrum vestrænum ríkjum, ekki einu sinni Bretlandi.

Maður þekkir mann

Punktar

Maður þekkir mann, sem þekkir mann, sem þekkir mann. Þetta hefur verið staðfest í bandarískri rannsókn, sem sýnir, að það er aðeins fimm til sjö tölvubréfa vegalengd frá manni til manns milli meðaljónsins og frægðarfólks á borð við Nelson Mandela, Tiger Woods eða Madonna. Niðurstaða rannsóknarinnar er, að þú náir sambandi, ef þú ert nógu einbeittur og þolinmóður. Frá þessu segir Stefan Lovgren í National Geographic.

Böndin berast að Blair

Punktar

Samkvæmt frétt James Morrison og Jo Dillon í Independent hafa lekið til BBC nýjar og alvarlegri upplýsingar um falsanir brezku ríkisstjórnarinnar við undirbúning stríðsins gegn Írak. Samkvæmt þessum nýja leka var það ekki bara Alastair Campbell, yfirlygari forsætisráðuneytisins, sem sex eða átta sinnum heimtaði ýkjur frá leyniþjónustunni, heldur einnig Tony Blair forsætisráðherra sjálfur. Ennfremur eigi hann þátt í tilraunum forsætisráðuneytisins til að sverta minningu dr. David Kelly, sem lak fréttum af fölsunum þessum til BBC og framdi síðan sjálfsmorð. Vonandi fara Bretar að átta sig á, að Tony Blair er einhver ósvífnasti lygari og hræsnari, sem gegnt hefur embætti forsætisráðherra þar í landi frá upphafi.

Þreyttir kvarta

Punktar

Ættingjar þreyttra bandarískra hermanna í Írak fá nú straum kvartana um, að allt sé þar öðru vísi í raun en þeim hafði áður verið sagt. Hermennirnir átta sig á, að gasgrímurnar leka, að almenningur í Írak hatar þá og að ríkisstjórnin er að lækka kaupið. Hetjurnar vilja komast heim til mömmu, sem segir, að brennheit eyðimörkin í Írak sé að éta hermennina eins og frumskógurinn í Víetnam gerði á sínum tíma. Í Observer segja Paul Harris og Jonathan Franklin frá bréfum bandarískra hermanna og mótmælum mæðra þeirra.