Hverri annarri

Punktar

Steingrímur Sævarr Ólafsson, þáttarstjóri og fyrrverandi spunakerling, gerir sér stundum mat úr villum í fjölmiðlum. Hann kvartar yfir orðinu “miljörðum” í DV. Sjálfur kann hann lítið í íslenzku, eins og ég hef áður bent á. Fyrir neðan kvörtun hans kemur þessi sérkennilega málsgrein hans: “…tryggðu hverri annarri sæti í úrslitakeppninni.” Þarna á auðvitað að standa “… tryggðu hver annarri sæti í úrslitakeppninni.” Ég hef áður sagt og ítreka nú, að betra er að láta málfarsfræðinga um að leiðrétta íslenzku í fjölmiðlum. Berskjaldaðir menn á því sviði halli sér að öðrum sviðum.

Kosningavíxlar kvenna

Punktar

Tvær miðaldra konur í hópi ráðherra þjösnast við að gefa út innistæðulausa kosningavíxla á kostnað væntanlegra skattgreiðenda. Siv Friðleifsdóttir, hefur gefið út slíka víxla upp á 837 milljónir króna. Og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur gefið út slíka víxla upp á 628 milljónir. Stjórnlaus víxlaúgáfa síðustu vikur fyrir kosningar tíðkuðust í gamla daga, en núna aðeins hjá sárafáum ráðherrum, þeim ósvífnustu auðvitað. Þriðji ráðherrann, miðaldra trommuleikari, komst upp í 450 milljónir af innistæðulausum kosningavíxlum. Svona rugl á að banna með lögum í 90 daga fyrir kosningar.

Voða leyndó nöfn

Punktar

Hefðbundnir fjölmiðlar sögðu nýlega fréttir af illri meðferð hrossa. Fyrst var sýnt myndband af ógeðfelldri tamningu. Síðan voru birtar myndir af horuðum og sjúkum hrossum. Í fyrra skiptinu láðist að geta, hver var að verki. Í síðara skiptinu láðist að geta, hvaða jörð þetta var. Svo gegnsýrðir af feimni eru hefðbundnir fjölmiðlar. Í báðum tilvikum gat ég samt farið á spjallrásir hestamanna og komizt að hinu sanns. Í báðum tilvikum sögðu rásirnar mér það, sem hefðbundnir fjölmiðlar þögðu um. Þetta segir mér, að blogg og spjallrásir munu erfa ríkið af þögulum fjölmiðlum.

Gelatín í lýsispillum

Punktar

Innlendur og erlendur matvælaiðnaður setur gelatín í vörur, þótt þess sé ekki þörf. Gelatín er búið til úr hökkuðum beinum og húðum stórgripa. Sumir vilja forðast gelatín af ótta við Creutzfeldt-Jakob sjúkdóminn og aðrir af því bara að þeir eru grænmetisætur. Engin ástæða er til að neyða gelatíni ofan í slíkt fólk með því að segja ekki frá því í innihaldslista vörunnar. Komið hefur í ljós, að Lýsi setur draslið í lýsispillur án þess að geta þess á umbúðum. Það er auðvitað forkastanlegt eins og allar tilraunir matvælaiðnaðar til að hindra fólk í að vita, hvað það er að borða.

Innflutt Framsókn

Punktar

Kannski er hér fundin lausn á vanda Framsóknar hugsaði ég, þegar ég fletti Fréttablaðinu í morgun. Verðandi tengdadóttir Jónínu Bjartmarz var í gær á Laugaveginum að gefa frostpinna Framsóknar. Í skjóli sértæks aðgangs flokksins að innflutningi kjósenda getur hann flutt inn nýja flokksmenn. Til að bæta sér upp þá, sem tapast innanlands. Komið til Íslands kæru framsóknarmenn og þið fáið ríkisborgararétt á svipstundu. En svo kom bakslagið í hugsunina: Hvernig er hægt að finna framsóknarmenn í útlöndum? Verða það ekki bara sígaunar með harmóníku? Það dugar greinilega ekki.

Þær elztu eru beztar

Punktar

Þær elztu eru beztar
Ég sit í bát og halla mér aftur, horfi á hallirnar við Stóraskurð líða hjá. Elztu hallirnar í Feneyjum eru býzanskar, frá þrettándu öll, svífa yfir vatninu og eru fegurstar. Næstum eins góðar eru gotnesku hallirnar frá fjórtándu öld. Þær hafa burðarþolið í súlum og eru léttar, ekki upphafnar eins og gotneskar kirkjur. Endurreisnarhallirnar frá fimmtándu öld eru klossaðar og ljótar. Enn yngri hallir eru enn ljótari. Eftir gotnesku hefur enginn stíll verið í húsum, nema kannski júgend og fúnkis. Annað er afkáralegt. Í sexhundruð ár hefur heimur versnandi farið í arkitektúr.

Vandinn er hulinn

Punktar

Þótt dýrt sé að berjast, kosta stríðin gegn Írak og Afganistan aðeins eitt prósent af landsframleiðslu Bandaríkjanna. Það er helmingurinn af því, sem þjóðin kaupir í Wal-Mart. Bandaríska stríðsvélin kostar öll fjögur prósent af landsframleiðslunni, helmingi minna en Víetnamstríðið. Peningarnir eru ekki einu sinni teknir af fólki. Þeir eru bara fengnir að láni. Litlu börnin í Bandaríkjunum borga stríðið, þegar þau verða fullorðin. Svo eru menn ekki lengur kvaddir í herinn eins og áður var gert. Vegna alls þessa fara vandræði stríðsins meira eða minna framhjá núlifandi Bandaríkjamönnum.

Framsókn yzt til hægri

Punktar

Jón Sigurðsson segir í blaðaauglýsingum, að Heritage Foundation hrósi árangri Framsóknar við stjórn Íslands. Þetta er bandarísk stofnun yzt á hægri kantinum, hefur barizt fyrir Chicago-hagfræðinni og Washington-sáttinni. Sú stefna stjórnar Bandaríkjunum og Alþjóðabankanum, annarri stofnun, sem Jón vitnar til. Afleiðingar stefnunnar eru skelfilegar á báðum stöðum. Ef Heritage Foundation hrósar gerðum Framsóknar, er engin furða, þótt aldraðir, öryrkjar og biðlistafólk kvarti. Framsókn er komin út á yzta hægri jaðarinn og hrósar sér af því. Hún hefur sagt skilið við almenning.

Slakur stíll

Punktar

Stíll er lakasti þáttur íslenzkrar fjölmiðlunar. Hér er talið nægja að kunna ytra formið, stafsetningu, beygingar og meðferð orðtaka. Þá séu þeir færir í flestan sjó og forðist kjöldrátt í málfarsþáttum. Þessu fylgir aukin háskólamenntun með ritgerðastíl, þar sem froðan vellur um allt. Með firnalöngum málsgreinum, þolmynd, sagnorðaskorti, samtengingum, lýsingar- og atviksorðum. Flestan fréttatexta á Íslandi má stytta um helming án þess að nein upplýsing falli út. Vandað er til stíls í öðrum löndum, sem ég þekki til. En hér virðast menn hafa gleymt stíl fornritanna og Laxness.

Mladic hetja Evrópu

Punktar

Serbía tekur andmælalaust við forsæti Evrópuráðsins á föstudag. Allir eru sammála um, að ríkið stundaði stríðsglæpi og er stolt af því. Það hóf stríð við nágrannaríkin, pyndar og myrðir andstæðinga stjórnvalda, ofsækir homma og lesbíur. Enginn efast um, að Serbía er glæparíki, til einskis síður fallin en að stýra helztu mannréttindastofnun Evrópu. Hún heldur skildi yfir Ratko Mladic, einum frægasta stríðsglæpamanni Balkanskaga. Með kjöri Serba sem forseta Evrópuráðsins samþykkir ráðið svívirðu Serbíu og hefur gert Mladic að hetju Evrópu. Næst verður Robert Mugabe forseti Amnesty.

Stóri bróðir

Punktar

Wali Karzai, bróðir forseta Afganistan, er áhrifamikill í fíkniefnaheimi landsins. Þaðan kemur bróðurpartur efnanna, sem dreift er um alla Evrópu. Stjórn Hamid Karzai hefur aflétt hömlum talíbana á framleiðslu og dreifingu fíkniefna. Auðvitað með samþykki hernámsliðsins. Brezka blaðið Guardian komst að raun um, að brezki herinn dreifir flugmiðum um, að ræktun valmúa sé skiljanleg. Jafnvel nauðsynleg miðað við aðstæður. Nú hefur stjórn Karzai hafið ofsóknir gegn vestrænni fréttamennsku í landinu. Hún vill fá fjölmiðla til að birta glansmyndir af ástandinu í Nató-vernduðu landi.

Wang drap tugþúsundir

Punktar

Tugþúsundir manna hafa látizt af völdum eitraðs efnis í lyfjum frá Kína. Wang Guiping fann upp á því snjallræði að drýgja lyf með diethylene glycol. Hann var skraddari, fávís um efnafræði, en kunni að nota nýfrelsið, sem hefur farið hamförum í Kína undanfarin ár. Stofnaði CNSC Fortune Way og hóf að selja lyf víða um heim. Fólk dó hópum saman í Panama, Haiti, Bangladesh, Nígeríu, Indlandi og loks einnig í Kína. Rannsóknir röktu dauðsföllin til verksmiðju Wang gegn vilja kínverskra ráðamanna. Eftir margvísleg undanbrögð stjórnvalda er hann nú loksins kominn í fangelsi.

Megnunarskattur á flug

Punktar

Max Hastings mælir í Guardian með frábærri hugmynd, 13.000 króna mengunarskatti á farseðla í Evrópuflugi. Og 30.000 króna skatti á seðla í heimsálfaflugi. Farþegaflug á Vesturlöndum er komið út í öfgar, þegar menn eru farnir að fljúga út og suður um helgar. Skatthugmyndin er frá Mark Ellingham, útgefanda ferðabókanna Rough Guides. Hann talar um flugfíkn. Margir fara tíu sinnum á ári eða oftar í slíkt flug. Aukning farþegaflugs er ekki sjálfbær og leiðir til ófarnaðar mannkyns. Skatttekjurnar má nota til að hamla gegn mengun andrúmsloftsins, sem nú magnast stjórnlaust.

Skekkjan er mikil

Punktar

Skoðanakannanir hafa versnað. Í gamla daga voru símakannanir betri en þjóðskrárkannanir, því að allir höfðu skráðan síma og alltaf náðist 100% úrtak. Þá var skekkjan í símakönnunum 1-2%. Nú eru menn farnir að nota óskráða farsíma í stað heimilissíma. Úrtakið hefur því skekkzt. Auk þess svarar bara helmingur. Síminn er núna engu betri en þjóðskráin, hvor um sig sögð vera með 2-3% skekkju. Það er allt of lágt mat. Þegar talið verður, mun koma í ljós, að skekkjan í síðustu könnunum er komin upp í 3-4%. Það er rosalega mikil skekkja. Allt er því enn opið, hvað sem kannanir segja.

Arfaslappt ráðuneyti

Punktar

Ég skil ekki, hvers vegna landbúnaðarráðuneytið leggur ofuráherzlu á að losna við Náttúrufræðistofnun úr samstarfinu um Hekluskóga. Aðgerðir ráðuneytisins draga Hekluskóga niður og sá efasemdum um, að þar sé rétt staðið að verki. Guðni Ágústsson ráðherra skilur að venju ekki upp né niður í neinu og segir málið verða leiðrétt. Ég veit af eigin reynslu, að ráðuneytið er arfaslappt í stjórnsýslu og ráðuneytisstjórinn oft úti að aka. En þetta mál felur hins vegar í sér eindreginn brotavilja umfram hefðbundna heimsku. Verkefnisstjóri Hekluskóga segist vera miður sín.