Spunabloggarar

Punktar

Í gær mátti sjá í blogginu, hverjir eru spunakerlingar og hverjir ekki. Spunakerlingar fara eftir dagskipunum úr flokknum sínum um að kalla væntanlega ríkisstjórn Sjálfstæðis og Samfylkingar ákveðnu nafni. Annað hvort kalla menn hana Baugsstjórn eða Þingvallastjórn. Fyrra heitið er reiðilestur Framsóknar og síðara heitið er varnaraðgerð stuðningsmanna nýju stjórnarflokkanna. Svona nafngiftir eru óþarfar. Þær voru líka óþarfar um þá ríkisstjórn, sem nú er að hætta eftir heil þrjú kjörtímabil. En það er fínt að kíkja eftir nafngiftunum til að strika spunabloggara af lestrarlistanum.

Kvikmynd um einkaheilsu

Punktar

Margir álitsgjafar segja nýja kvikmynd Michael Moore frábæra. Hún er sýnd á hátíðinni í Cannes þessa dagana og fjallar um heilbrigðiskerfið í Guðs eigin landi. Lýsingar manna í myndinni eru skelfilegar. Þær minna á, að tugmilljónir manna eru ekki tryggðir fyrir veikindum. Að bandaríska heilbrigðiskerfið er langdýrast í heimi og það lélegasta á Vesturlöndum. Vonandi lætur ný ríkisstjórn Íslands sér ekki detta í hug að einkavæða heilbrigðiskerfið að hætti Bandaríkjanna. Betri fyrirmyndir eru í Frakklandi og á Norðurlöndum, þar sem er bezta heilbrigðiskerfi í heimi.

Vistkerfi, fegurð, gróður

Punktar

Kolefnisjöfnun bíla og flugferða er í tízku núna. Það er vistvæn stefna, sem ráðamenn fyrirtækja skilja. Fyrir nokkrum árum komst í tízku andstaða gegn spjöllum á náttúrufegurð. Það er hornsteinn stefnu stjórnmálaflokka, sem segjast vera grænir, til vinstri eða hægri. Lengi hefur verið rifizt um þriðja þáttinn, bann við lausagöngu sauðfjár á afréttum. Hún hefur átt erfitt, því að hún beinist gegn rányrkju bænda. Hún er öðrum þræði sagnfræðileg, stefnir að endurheimt gróðurs í landi, sem fyrir landnám var viði vaxið milli fjalls og fjöru. Allt þetta þrennt þarf að fara saman.

Flateyri höggvin

Punktar

Kvótinn er um þessar mundir seldur undan Flateyringum. Hálfur bærinn er atvinnulaus. Það þarf ekki að koma á óvart. Frá því að kvótinn var gefinn frjáls, hefur verið ljóst, að hann mundi enda í skúffum risafyrirtækja í Reykjavík. Smám saman hugnast kvótaeigendum í sjávarplássum að gefast upp í stríðinu. Og ná sér í stóran pening til að eyða í elliárin á sólarströnd. Samt vill veruleikafirrtur formaður Framsóknar láta alþingi lýsa yfir, að þjóðin eigi kvótann. Innantóm orð eru til einskis. Fyrir löngu gaf stjórnin kvótann útgerðarmönnum, sem síðan eru að selja hann burt.

Boðið upp í dans

Punktar

Níu hundruð þýzkar löggur réðust fyrir viku í 40 íbúðir andstæðinga hnattvæðingar. Aðgerðirnar náðust á myndband og sýnast harðvítugar. Þetta er upphaf að fundi áttveldanna í Heiligendamm í Þýzkalandi 6.-8. júní. Markmiðið var að trufla undirbúning andstæðinganna. Áttveldin eru fyrirbæri, sem stendur í fylkingarbrjósti hnattvæðingar. Fundir þess hafa sogað óeirðir til sín. Innrás löggunnar hafði auðvitað þveröfug áhrif. Nú búast andstæðingar hnattvæðingar til átaka. Áttveldin þurfa helzt að halda fundi á klettaeyjum fjarri mannabyggðum. Sjá grein í Spiegel.

Þríþættur litur grænn

Punktar

Fólk er ekki grænt nema hafa þrennt í lagi. Í fyrsta lagi á það að styðja sjálfbærni mannkyns á jörðinni og jarðarinnar í sólkerfinu. Það á að koma sér upp kolefnisjafnvægi og berjast fyrir bættu andrúmslofti og bættum sjó. Í öðru lagi þarf það að virða fegurð náttúrunnar og berjast gegn eyðandi öflum stóriðju og stórvirkjana. Þetta er sjónræn og menningarleg náttúruvernd, sem sameinaði fólk gegn Kárahnjúkavirkjun. Í þriðja lagi á fólk að skilja, að lausaganga sauðfjár á afréttum hefur breytt víðáttum landsins í eyðimörk. Margir eru tregir að játa eyðingarmátt sauðfjár.

Þrír frakkar fínir

Veitingar

Guði sé lof fyrir kokkinn Úlfar Eysteinsson. “Þrír frakkar” hans hafa lengi glatt bragðlauka mína. Önnur matarhús hafa risið og hnigið að íslenzkum hætti, en Úlfar er alltaf fínn. Hefur nokkrar ferskar tegundir fiskjar á hverjum degi og eldar allan fisk akkúrat. Í gærkveldi fengum við hjónin okkur pönnusteikta tindabikkju með kampavínssósu og hrognum. Svo og djúpsteiktan karfa með ljúfri piparrótarsósu. Fyrst þó forrétti undurljúfa og hráa, hörpufisk og hrefnukjöt. Stíll matreiðslunnar er íslenzkur með japönsku ívafi. Staðurinn og verðið eru notaleg, 2.500 kr aðalrétturinn.

Gandhi og Friedman

Punktar

Ég fór að ráði Óla Björns Kárasonar og tók pólitíska sannfæringarprófið á vefnum. Þar svaraði ég ótal spurningum og var staðsettur á tvívíðum fleti með fjórum höfuðáttum. Annar ásinn var hægri – vinstri, hinn ásinn var valdshyggja – frjálshyggja. Allar helztu stjórnir Evrópu árið 2006 hafa þar verið staðsettar í hægri valdshyggjufjórðungi, þar sem fyrir voru Hitler og Thatcher. Það þótti mér merkilegt. Ég mældist hins vegar hvorki til hægri né vinstri, heldur á miðjunni. En langt úti á róttæka frjálshyggjukantinum, óralangt frá öllum hugmyndafræðingum. Nema kannski Gandhi og Friedman.

Fimm tonn af kóngsins hassi

Punktar

Víða er súrt að vera blaðamaður, jafnvel í Evrópu. Jose Luis Gutiérrez er ritstjóri hins þekkta dagblaðs Diario 16 á Spáni. Hann hefur verið dæmdur fyrir að móðga kónginn í Marokkó. Blaðið birti sanna frétt um, að fimm tonn af hassi hefðu fundizt í trukki í eigu Domaines Royaux, fyrirtækis kóngsins. Allt er þetta satt og rétt, en samt talið móðgandi fyrir kónginn. Alþjóðasamband ritstjóra hefur gagnrýnt stjórn Spánar fyrir að afnema ekki úrelt lög um móðgun við kónga. Það hefur hvatt Evrópudómstól mannréttinda til að hrinda dóminum. Hér á Íslandi mátti ég þó móðga rónann Jeltsín.

Eðlilegt samstarf

Punktar

Eðlilegt er, að Sjálfstæðis og Samfylkingin vinni saman. Þau spanna yfir hægri og vinstri miðjuna og hafa góðan meirihluta. Framsókn og Vinstri grænir eru meiri jaðarflokkar, Framsókn orðin yzt til hægri í formennsku Jóns Sigurðssonar. Sjálfstæðis og Samfylkingin munu ná millilendingum, til dæmis í meiri hægagangi á stórvirkjunum og stóriðju. Báðir eru flokkarnir eindregið fylgjandi markaðskerfi í hagmálum. Merkast við þetta samstarf er, að Sjálfstæðis hefur loksins vaxið frá arfi Davíðs Oddssonar. Áhrif hans í flokknum eru nú engin, þegar Ingibjörg Sólrún er orðin sætust á ballinu.

Umhverfisóvinur

Punktar

Orkuveitan þykist vera voða græn. Hún ber sér á brjóst í dýrum auglýsingum fyrir að kolefnisjafna bíla sína og starfsmanna sinna. Það gerir hún með greiðslum til skógræktar á vegum Kolviðar. Henni væri nær að skammast sín fyrir framgöngu sína gegn náttúru Íslands. Ég þreytist ekki á að furða mig á risavöxnum leiðslum, sem Orkuveitan hefur lagt við þjóðveg eitt milli Kolviðarhóls og Gráuhnjúka. Þær liggja ofanjarðar til að spara peninga og auðvelda Orkuveitunni að niðurgreiða orku til stóriðju. Fyrirtæki, sem stundar svona brútalisma, getur ekki barið sér á brjóst í umhverfismálum.

Það er strætó sem bilar

Punktar

Ágætis graf í Mogganum í gær sýndi, að Reykjavík er ekki mitt á milli Evrópu og Ameríku í fararsniði fólks. Fjórum sinnum fleiri Reykvíkingar ganga eða hjóla í vinnuna en í Houston, Atlanta og Phoehnix hlutfallslega. Þeir voru raunar litlu færri hér en í Stokkhólmi og Osló. Það er fyrst og fremst strætó, sem bilar í samanburði við almenningssamgöngur í borgum Evrópu. Hér taka nánast engir strætó nema börn og gamalmenni. Aðstandendur grafsins telja sér trú um, að það sýni of mikinn einkabílisma hér í borg. Það er rangt, grafið sýnir lélega þjónustu hjá strætó og skort á lestum.

Björn grætur ofríkið

Punktar

Björn Bjarnason ráðherra segist hafa áhyggjur af ofríki í krafti auðs vegna auglýsingar Jóhannesar í Bónus. Björn rís ekki upp úr hefðbundinni þrætubók sinni. Hann tekur fram, að 80% flokkskjósenda hafi haft áskorun Jóhannesar að engu. Björn þarf ekki að hafa áhyggjur. Geir Haarde hefur tekið fram, að varhugavert sé að taka mark á útstrikunum yfirleitt. Björn mun því halda embætti sínu. Geta skipað gæludýr flokksins í embætti ríkissaksóknara og hálfvita flokksins í embætti hæstaréttardómara, ef þau losna. Einnig getur hann fengið sér her og öryggisverði. Björn þarf því ekki að gráta lengi.

Umhverfið tapaði og vann

Punktar

Umhverfisvernd tapaði í kosningunum, þótt vinstri grænir fengju fleiri þingmenn. Níu þingmenn af rúmlega sextíu er fámennt, þegar stefnt er að stórvirkjunum og stíflum í sumum helztu gróðurvinjum landsins. Stjórnin vill sem flestar virkjanir og leyfir innflutning á erfðabreyttu fóðri til að eyðileggja landbúnaðinn. Samt eykst umhverfishugsun í þjóðfélaginu. Fyrirtæki reyna sem óðast að fegra ímynd sína. Jafnvel innihaldið líka. Bílaumboð hrósa sér af aðgerðum til að ná jafnvægi í kolefni. Við erum grænir, segja allir. Til að byrja með í auglýsingum að minnsta kosti.

Falwell er dauður

Punktar

Jerry Falwell er dauður. Hann var einn af þessum ógeðfelldu mönnum, sem stjórnað hafa róttækri hægri kristni í Bandaríkjunum. Í vefritinu Slate er minningargrein eftir Timothy Noah um Falwell. Þar er úrval af ummælum Falwells, sem einkenndust af fordómum, hatri og mannvonzku. Fallwell sagði eyðni vera hefnd guðs á hommum. Hann réðist á Martin Luther King og Desmond Tutu biskups. Hann sagði kirkjur eiga að reka alla skóla í landinu. Hann sagði femínista vanta karlmenn til að segja þeim, hvað klukkan sé og leiða þær heim. Hann sagði hlægilegt að hafa áhyggjur af mengun andrúmsloftsins.