Öxin fellur

Greinar

Almenningur ber af eðlilegum ástæðum lítið traust til landsfeðranna. Ráðherrar og þingmenn hafa allir með tölu verið staðnir að því að svíkja á kerfisbundinn hátt hlunnindi sín undan skatti. Jafnframt hafa þeir verið staðnir að því að hækka laun sín mest allra landsmanna.

Þeir blaðra um verðbólguna án þess að gera neitt í málinu. Þeir þurfa líka á verðbólgunni að halda til að efla þau völd sín, sem felast í aðstöðunni til að stjórna fjármagni þjóðarinnar. Þeir ráðstafa því í formi lánagjafa til gæðinga og braskara, sem sitja eins og mý á mykjuskán flokkseigendafélaganna.

Almenningur hyggst ekki lengur sætta sig við þetta framferði. Það hefur greinilega komið fram í prófkjörum stjórnmálaflokkanna að undanförnu. Þar hafa þingmenn fallið hver um annan þveran fyrir nýjum mönnum.

Flokkseigendur allra flokka sameinast nú í reiði út af þessari þróun mála. Þeir halda því fram, að kjósendur gangi milli flokka og greiði atkvæði í prófkjörum þeirra allra. Hið sanna er hins vegar, að kjósendur í hverjum flokki fyrir sig eru ákveðnir í að breyta til í sínum flokki.

Þeir þingmenn, sem fallið hafa í prófkjörum, eru engir sérstakir fulltrúar spillingarinnar. Sem einstaklingar geta þeir verið hinir mestu heiðursmenn. En þeir komast ekki hjá því að bera sinn hluta ábyrgðar landsfeðranna á spillingunni.

Sumir segja, að í einhverjum þessara tilvika hafi bakari verið hengdur fyrir smið. Líklega geta ýmsar tilviljanir ráðið því, hvar öxin fellur hverju sinni. En hinir föllnu heiðursmenn áttu heldur ekkert inni hjá kjósendum, úr því að þeir létu spillinguna viðgangast.

Það leysir auðvitað ekki allan vanda að skipta um þingmenn í öllum flokkum. Sumir hinna nýju manna kunna að valda kjósendum sínum vonbrigðum. Ef til vill ganga þeir í flokkseigendafélögin eða stofna ný. Ef til vill sópa þeir ekki vel, þegar á þing er komið.

Kjósendur verða að gera ráð fyrir slíkum möguleikum. Freistingar valdsins eru miklar í þjóðfélagi, þar sem allt pólitískt og peningalegt vald er sameinað í fáum flokkseigendafélögum.

Aðalatriðið er, að sumir hinna nýju manna munu ekki bila, þegar á hólminn er komið. Þeir munu afnema skattsvik þingmanna og ráðherra. Þeir munu lækka laun sín öðrum til eftirbreytni. Þeir munu höggva á Gordíonshnút stjórnmála og fjármála.

Eftir því sem slíkum mönnum fjölgar í hópi landsfeðra, mun traust almennings eflast. Það er þróun, sem tekur langan tíma. Hún gerist ekki í einum kosningum. En fyrsta skrefið er mikilvægast og það hefur þegar verið stigið í prófkjörum vetrarins.

Því fleiri þingmenn. sem felldir verða, þeim mun skjótari verður siðvæðingin. Niðurstöður undanfarinna prófkosninga eru því almenningi jafnmikið fagnaðarefni og þær eru flokkseigendum harmsefni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið