Núverandi stjórnskipan í Frakklandi er orðin ein hin langlífasta þar í landi á síðustu 150 árum. Hún hefur staðið í 20 ár. Af sautján stjórnarskrám þessara 150 ára hefur aðeins ein staðið lengur.
Þessi festa er verk de Gaulles. Flokkur hans hefur að meira eða minna leyti stjórnað landinu í 20 ár. Eftir því sem fylgi flokksins hefur dvínað, hefur hann víkkað kosninga- og stjórnarbandalög sín meira inn til miðju franskra stjórnmála.
Kommúnistagrýlan hefur allan tímann verið hornsteinn valda Gaullista. Lengst af var kommúnistaflokkurinn stærsti flokkurinn á vinstri vængnum, svo að Gaullistar áttu auðvelt með að hræða fólk.
Nokkrar horfur eru á, að þetta kerfi verði fyrir áföllum í þingkosningunum í Frakklandi í þessum mánuði. Því veldur fyrst og fremst sú staðreynd, að í stað tveggja flokka kerfis Gaullista og kommúnista er nú komið fjögurra flokka kerfi.
Gaullistar höfðu teygt sig of langt inn til miðju til að hindra, að forsetaembættið lenti vinstra megin miðjunnar, hjá Mitterand, oddamanni jafnaðarmanna. Þeir mörðu sigur með því að bjóða fram hægrimiðjumanninn d’Estaing, núverandi Frakklandsforseta.
Hann hefur notað tækifærið til að efla um sig samband nokkurra frjálslyndra og miðjuflokka, sem sameiginlega eru orðnir jafnsterkt og jafnvel voldugra stjórnmálaafl en Gaullistar.
Á sama hátt hefur Mitterand jafnaðarmanni tekizt að ná forustunni á vinstri væng úr höndum kommúnista. Flokkur hans, sem var að dauða kominn fyrir áratug, nýtur nú fylgis 27% kjósenda. Kommúnistar hafa hins vegar ekki nema 21% fylgi.
Talið er, að d’Estaing hafi áhuga á að frysta bæði Gaullista og kommúnista með því að koma á fót meirihlutastjórn sinna manna og jafnaðarmanna. Mitterand hefur ekki tekið vel í slíkar hugmyndir en þær njóta þó mikils fylgis meðal Frakka.
Gaullistar og kommúnistar eru afar hræddir við þennan möguleika. Gaullistar hafa fjarlægzt d’Estaing án þess þó að rjúfa kosningabandalagið. Kommúnistar neita hins vegar að tjá sig um, hvort handalag þeirra við jafnaðarmenn muni haldast, þegar á reynir í annarri umferð kosninganna.
Horfurnar eru einkar óljósar. Styðji kommúnistar jafnaðarmenn í annarri umferð kosninganna, eru nokkrar líkur á vinstri stjórn, þar sem kommúnistar verða minni máttar aðilinn gagnvart jafnaðarmönnum. Bregðist þeir hins vegar, eru nokkrar líkur á framhaldi meirihlutans á hægri væng.
Í síðara tilvikinu er líklegt, að d’Estaing færi stjórn sína til vinstri og leggi aukna áherzlu á hugmyndir sínar um samstarf við jafnaðarmenn. Slík miðjustjórn gæti komið til skjalanna á miðju kjörtímabilinu, því að Gaullistar sætta sig vart við langt samstarf við forseta, sem er á leið til vinstri.
Að öllu samanlögðu verða fyrirhugaðar kosningar í Frakklandi líklega afdrifaríkar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið