Skoðanakönnun Dagblaðsins um úrslit alþingiskosninganna bendir til stórsigurs Alþýðuflokksins og fylgishruns Framsóknarflokksins. Ennfremur bendir hún til, að Alþýðubandalagið muni vinna nokkuð á og Sjálfstæðisflokkurinn tapa nokkru. Loks bendir hún til hvarfs Samtaka frjálslyndra og vinstri manna úr hópi þingflokka.
Víðtækari ályktanir er ekki unnt að draga af könnuninni. Hópar þeirra, sem annaðhvort vildu ekki svara eða höfðu ekki tekið afstöðu, eru of fjölmennir til þess, að unnt sé að spá jafn hrikalegri sveiflu og könnunin sýnir.
Að vísu kom ekkert það fram í könnuninni, sem venjulega er haft til marks um lasleika slíkra kannana. Hinir spurðu skiptust jafnt milli kynja og hlutfallslega jafnt milli kjördæma. Einnig er athyglisvert, að þeir, sem ekki vildu svara eða höfðu ekki gert upp hug sinn, skiptust í eðlilegum hlutföllum milli kjördæmanna.
Svo virðist sem framsóknarmenn hljóti að vera sérstaklega fjölmennir í hópum þeirra, sem ekki vildu svara eða tvístigu í afstöðu sinni. Á því höfum við enga skýringu, ekki sízt þar sem við spáðum Framsóknarflokknum réttu fylgi í skoðanakönnuninni um úrslit borgarstjórnarkosninganna. Þá voru framsóknarmenn ekki óeðlilega fjölmennir í hópum þeirra, sem vildu ekki svara eða taka beina afstöðu til flokka.
Við eigum hins vegar mjög bágt með að trúa því, að Framsóknarflokkurinn muni tapa kjördæmiskosnum þingmanni í öllum kjördæmum og báðum þingmönnum sínum í Reykjavík. Jafnerfitt er að trúa því, að Alþýðuflokkurinn muni vinna kjördæmiskosinn þingmann í öllum kjördæmum nema á Austfjörðum.
Margir hafa spáð Sjálfstæðisflokknum meira fylgistapi en könnunin sýnir. Hún bendir til, að flokkurinn muni ekki tapa hærra hlutfalli en hann vann í síðustu kosningum og halda óbreyttri hinni sterku stöðu sinni sem þingflokkur. Hefði fremur mátt halda, að meira samræmi væri milli fylgisaukningar Alþýðuflokksins og fylgistaps Sjálfstæðisflokksins en skoðanakönnunin bendir til.
Ef trúa má könnuninni, er um tvennt að ræða. Annaðhvort er meiri samgangur milli fylgis Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins en menn hafa hingað til haldið. Eða þá, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi bætt sér upp fylgismissinn til Alþýðuflokksins með fylgisaukningu frá Framsóknarflokknum.
Einu niðurstöður skoðanakönnunarinnar, sem koma ekki á óvart, eru andlát Samtaka frjálslyndra og vinstri manna og þriggja prósentustiga fylgisaukning A1þýðubandalagsins. Hafa verður þó í huga, að skoðanakönnunin um úrslit borgarstjórnarkosninganna vanmat nokkuð fylgisaukningu bandalagsins og gæti sú orðið raunin einnig nú.
Fróðlegt verður að bera niðurstöðurnar saman við úrslit kosninganna. Ef frávikin verða ekki mun meiri en þau voru í borgarstjórnarkosningunum, hafa skoðanakannanir Dagblaðsins fest sig endanlega í sessi. Því miður eru niðurstöðutölurnar í þetta sinn svo ótrúlegar, að lítil ástæða er til bjartsýni á því sviði.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið