Ótraust haldreipi

Greinar

Rafmagnið leikur lykilhlutverk í þjóðfélagi nútímans. Heimili manna og vinnustaðir ganga fyrir þessu yfirlætislausa fyrirbæri. Menn verða ekki svo mjög varir við þetta, meðan allt leikur í lyndi. En fari rafmagnið af, sjá menn skyndilega, hve mikill þáttur það er orðið í lífi þeirra.

Heimilishald fer úr skorðum, þegar rafmagnið lætur á sér standa. Heimilistækin verða óvirk og matvæli liggja undir skemmdum í frystikistum og ísskápum. Kyndingar og hitaveitur kunna að stöðvast. Ekki bætir úr skák, að útvarpið fer venjulega úr sambandi við slíkar kringumstæður, og magnar það ótta og óvissu fólks.

Enn alvarlegra ástand myndast í atvinnulífinu. Jafnvel í skrifstofufyrirtækjum, þar sem engin vöruframleiðsla fer fram, verður ringulreið. Símaborð verða óvirk, sömuleiðis rafmagnsritvélar og reiknivélar. Enn alvarlegra verður ástandið í fyrirtækjum í vöruframleiðslu.

Þetta er því bagalegra sem framleiðsluaðferðirnar verða flóknari. Í sumum tilvikum er um svo nákvæmar vinnsluraðir að ræða, að langan tíma tekur að koma framleiðslunni af stað aftur að rafmagnsleysi loknu.

Hámarki nær þessi viðkvæmni í fyrirtækjum á borð við álverið í Straumsvík, þar sem tuga og hundruða milljóna króna eyðilegging er yfirvofandi í hvert sinn, sem rafmagnið fer af. En jafnvel bóndinn lendir í öngþveiti, t.d. við mjaltir. Þannig er rafmagnið orðið undirstöðuatriði í öllum þáttum atvinnulífs.

Prentun Vísis fer hvað eftir annað úr skorðum vegna rafmagnsbilana. Sumar bilanir stafa af óhæfilegri atorku í meðferð jarðvinnsluvéla, aðrar af ólagi á spennistöðvum, línum og tengivirkjum. Þetta ástand er langtum verra en eðlilegt má teljast.

Rafmagnsleysið er ekki eina dæmið um skort á rekstraröryggi á þessu sviði. Víða eru óhæfilegar spennusveiflur á rafmagni, sem valda skemmdum á rafmagnstækjum, allt frá heimilistækjum yfir í tölvur. Sumar rafveitur færa jafnvel niður spennuna á álagstímum af ásettu ráði.

Rafmagnsframleiðsla og rafmagnsdreifing er flókin og vandasöm starfsemi, sem þarfnast mikillar nákvæmni, ef hún á að gegna hlutverki sínu með sóma. Reynslan sýnir, að menn eru aldrei of árvökulir á þessu sviði, þótt þeir leggi hart að sér. Fólk er orðið svo háð rafmagni, að það gerir sérstakar og óvenjulegar kröfur til öryggis í rekstri rafmagnsmála.

Mikil nauðsyn er á að beita ströngum refsiaðgerðum til að reyna að draga úr skemmdum jarðvinnsluvéla á rafstrengjum. Ennfremur þarf að gera línur og tengivirki þannig úr garði, að íslenzk veðrátta geti ekki valdið skemmdum á þeim. Og svo þarf að fjölga samtengingum og varalínum til að auðvelda undankomuleiðir, þegar óhöpp ber að garði.

Þegar Búrfellsvirkjun var reist, óttuðust margir, að kenjar Þjórsár mundu oft gera hana óstarfhæfa. Tæknimönnum virðist hafa tekizt að leysa vandamál ísingar, þrepahlaupa og annarra hamfara Þjórsár. Slíkum sigrum má ekki glopra niður með mistökum á einfaldari sviðum, í byggingu tengivirkja og rafmagnslína.

Jónas Kristjánsson

Vísir