Mikið veður hefur verið gert út af stöðvuninni á fréttasendingum Norðmanna til Íslands. Verður þó ekki betur séð en sú lokun sé í samræmi við þróun mála á undanförnum árum. Norska fréttastofan NTB er hætt að nota loftskeyti í fréttasendingum innanlands. Loftskeytafréttirnar hafa um nokkurt skeið eingöngu verið notaðar af Íslendingum og Færeyingum.
Ekki er hægt að ætlast til, að Norðmenn reki ókeypis þessa þjónustu fyrir útlendinga. Hún er dýr í rekstri og viðskiptavinirnir fáir. Því miður er greiðsluþörf Norðmanna vegna þessara sendinga miklu meiri en greiðsluvilji okkar. Þess vegna virðist ekki vera grundvöllur fyrir frekara samstarfi á þessu sviði.
Íslenzkir fjölmiðlar eru ekki lengur háðir fréttum NTB. Þeir eru komnir í mun nánara samband við umheiminn. Þeir fá fréttir með loftskeytum frá Associated Press og með kapli frá Reuter. Þessar fréttir eru mun ítarlegri og nákvæmari en fréttir norsku fréttastofunnar.
Þær eru líka tiltölulega ódýrar í innkaupi og fjölmiðlar kveinka sér ekki undan greiðslum fyrir þær. Engum íslenzkum fjölmiðli mundi hins vegar detta í hug að greiða það verð, sem norska fréttastofan og norska póst- og símamálastjórnin vilja fá fyrir sína þjónustu.
Ríkið hefur hingað til greitt fyrir norsku fréttaþjónustuna, sjálfsagt til þess að stuðla að góðu sambandi Íslendinga við umheiminn. Þessi forsenda er nú brostin, síðan íslenzkir fjölmiðlar tóku upp beint samband við alþjóðlegu fréttastofurnar.
Fjármunum íslenzka ríkisins hlýtur að vera betur varið á annan hátt en að halda uppi loftskeytastöð í Noregi. Þróunin hefur gert þá þjónustu óþarfa. Ef ríkið vill auka stuðning sinn við fjölmiðlun á Íslandi, er betra að gera það á annan hátt en þennan. Og raunar er sá stuðningur nægur fyrir og ekki þörf á að auka hann með því að kasta peningum í sjóinn.
Af því, sem hér hefur verið sagt, er ljóst, að engin ástæða er fyrir Norðmenn að halda áfram þjónustu sinni við Íslendinga á þessu sviði. Enn fremur er ljóst, að engin ástæða er fyrir Íslendinga að greiða þessa þjónustu. Eina skynsamlega niðurstaðan er sú, að báðir aðilar þakki fyrir samstarfið á liðnum árum og fari síðan hvor sína leið.
Gott samband
Beina línan milli alþjóðlegu fréttastofunnar Reuters og íslenzkra fjölmiðla er með merkustu samgöngubótum á Íslandi á síðustu árum. Þetta samband tryggir stöðugan og truflanalausan straum upplýsinga frá umheiminum til Íslands. Og bili neðansjávarstrengurinn um tíma, geta loftskeyti Associated Press nægt, þótt þau séu stundum nokkuð trufluð. Við erum því í góðu sambandi við upplýsingastraum umheimsins.
Jónas Kristjánsson
Vísir