Osturinn minnkar enn

Greinar

Fjárlagafrumvarpið nýja er eins og önnur slík frumvörp á þessum áratug gott dæmi um, hvernig apinn í sögunni skipti ostinum milli músanna tveggja, sem ekki gátu komið sér saman um skiptinguna.

Þær báðu apann vera dómara og skipta ostinum jafnt milli þeirra. Hann beit ostinn í tvo hluta og sá, að annar var stærri. Til að leita jafnvægis beit hann af stærri hlutanum og át.

Þá kom í ljós, að hlutinn, sem áður var stærri, var nú orðinn minni. Apinn beit því og át af hinum hlutanum. Síðan gekk þetta koll af kolli. Alltaf minnkuðu hlutarnir, en aldrei náðist jafnvægi.

Að lokum voru hlutarnir orðnir svo litlir, að ekki tók því að skipta þeim frekar. Apinn tók þá upp í dómaralaun, strauk magann og hvarf, en mýsnar sátu eftir með sárt ennið.

Ríkisvaldið situr jafnan í dómarasæti yfir atvinnuvegum og launafólki, sem deila um skiptingu þjóðarkökunnar. Ríkisvaldið þykist jafnan vera að leita jafnvægis, sem tryggi heilbrigðan rekstur atvinnuveganna og batnandi lífskjör launafólks.

Í hvert sinn sem nýtt fjárlagafrumvarp lítur dagsins ljós, sést, að dómarinn er fyrst og fremst að fita sjálfan sig á skiptingunni. Á hverju ári dregur hann til sín stærri hluta af þjóðarkökunni.

Afleiðingin er sú, að of lítið verður afgangs til skiptanna milli atvinnuvega og launafólks. Því eykst spennan milli þeirra og ríkið fær aukna ástæðu til að setjast í dómarasæti.

Þannig gekk í tíð vinstri stjórnarinnar, sem ríkti frá 1970-1974. Þannig gekk líka í tíð helmingaskiptastjórnarinnar, sem ríkti frá 1974-1978. Og fyrsta fjárlagafrumvarp hinnar nýju vinstri stjórnar bendir til, að á þann hátt verði áfram skipt.

Fjárlagafrumvarpið, sem lagt verður fyrir alþingi þessa dagana, er vont frumvarp. Niðurstöðutölur þess eru of háar. Það gerir ráð fyrir, að ríkisvaldið þenjist enn út á kostnað skjólstæðinga sinna.

Frumvarpið gerir ráð fyrir, að ríkið auki skattheimtu sína umfram verðbólgu. Það þýðir, að skattgreiðendur gera meiri launakröfur til atvinnuveganna, sem gera meiri kröfur til hækkaðs verðlags og lækkaðs gengis.

Þannig hefur vítahringurinn snúizt í átta ár með vaxandi hraða. Þannig hefur ríkisvaldið staðið fyrir hinni hrikalegu verðbólgu þessa tímabils. Og þannig hefur ríkið grafið undan hornsteinum efnahagslífsins.

Upphaflega er nýja fjárlagafrumvarpið samið á vegum Matthíasar Á. Mathiesen, fyrrum fjármálaráðherra. Eins og venjulega mótast það af takmarkalítilli óskhyggju embættismanna þeirra, sem leggja fram fjárlagatillögur á sínum sviðum.

Tómas Árnason hefur ekki treyst sér til að krafsa neitt utan af þessari óskhyggju. Hann hefur ekki heldur nennt að hafa samráð við leiðtoga samstjórnarflokkanna um málið, enda kannski lítið á slíku að græða.

Sjónarspil er að fylgjast með endurteknum mótmælagöngum þingmanna á fund ráðherra, fyrst þegar frumvarpið fór í prentun og síðan þegar það kom úr prentun. Þvarg þetta hefur ekki haft hin minnstu áhrif á Tómas og kerfið. Frumvarpið heldur sinni Matthíasarmynd.

Sjónarspilið og samgönguerfiðleikarnir milli ríkisstjórnarflokkanna mega þó ekki skyggja á þá staðreynd, að fjárlagafrumvarpið er vont. Með því er ríkisstjórnin enn að éta ostinn almennings.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið