Ósk um frið og ró

Greinar

Við erum svo lánsöm þjóð að geta haldið okkar jól án uggs og ótta, meðan margar nágrannaþjóðirnar búa við ótrygga framtíð vegna olíukreppu og atvinnuleysis. Við búum við frið og öryggi, meðan ýmsar aðrar auðugar þjóðir eru í efnahagslegri, félagslegri og.sálrænni spennitreyju.

Útlitið var ekki svona gott hjá okkur á miðju árinu, þegar verðbólga ársins stefndi í 60-70%, hrunið blasti við atvinnuvegunum og vofa almenns atvinnuleysis var í uppsiglingu. Drákonskar aðgerðir stjórnvalda hafa komið skútunni okkar á flot. Það hefur kostað eyðingu launahækkananna frá 1. marz. En við höfum sloppið vel, að björgunin skuli ekki hafa kostað meira.

Árangurinn er sá, að allt snýst um þessar mundir á fullu í atvinnulífinu. Skorturinn á vinnuafli eykst jafnvel á sama tíma og atvinnuleysi magnast um allan helming í nágrannalöndunum. Og ekki er í bili sjáanleg nein kreppa, meðan friður helzt um núverandi ástand mála.

Þetta mótar auðvitað jólahaldið og jólagleðina að nokkru. Kvíði nagar menn síður og spillir síður hátíðinni. Verðhækkanir valda því að vísu, að menn hafa um þessi jól minna handa milli en þeir höfðu gert sér vonir um fyrr á árinu. En kaupgetan í jólaverzluninni skiptir minna máli en tilfinningin um, að þjóðfélagið muni verða í traustum skorðum og öruggum farvegi enn um sinn.

Við megum líka gæta okkar á að láta ekki verzlunaræði jólanna rugla okkur í ríminu og spilla hátíðinni sjálfri. Við látum jólaundirbúninginn kalla yfir okkur allt of mikla spennu og streitu. Við erum of upptekin af jólahreingerningum, jólabakstri, jólagjafa- og jólamatarkaupum, jólaskreytingum og öðru jólavafstri.

Þessi ytri umbúnaður jólanna er ágætur, meðan hann er í hófi og yfirgnæfir ekki gersamlega innra eðli jólanna. Í þetta sinn hafa flestir óvenju mikla möguleika á að hvíla sig um jólin og öðlast frið í sál sinni. Frídagarnir eru með mesta móti að þessu sinni. Margir hafa ekki nema fimm vinnudaga á 16 daga tímabilinu frá 21. desember til 5. janúar.

Þessar óskir um friðsæl jól eru ef til vill dálítið út í hött á Þorláksmessu, annasamasta degi ársins hjá flestu fólki og ekki sízt verzlunarfólki. Margir verða orðnir sárþreyttir, áður en þessi dagur er á enda. Og undir lokin þurfa sjálfsagt sumir að ljúka meira verki á skömmum tíma en þeir komast yfir.

Ef streita jólaundirbúningsins heldur svo áfram jóladagana, ef menn verða uppteknir af jólamat, jólapökkum, jólaboðum og jafnvel jóla.drykkju, er illa farið. Jólahaldið hlýtur að vísu að endurspegla lífskjörin og þjóðlífshraðann. En svo sannarlega er óskandi, að sem fæstir fari á mis við rósemi hugans og friðinn á jólunum sjálfum.

Í von um, að jólaandi megi sem víðast ríkja næstu daga, óskar dagblaðið Vísir lesendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Jónas Kristjánsson

Vísir