Ósæmilegur endasprettur.

Greinar

Alþingi lauk störfum fyrir jólin á endaspretti, sem ekki var jafnglæsilegur og hann var hrikalegur. Inn á þing fauk skæðadrífa stjórnarfrumvarpa, sem urðu að lögum í belg og biðu, án þess að nokkur gæti áttað sig i kófinu.

Það eru svona tímabil, sem setja Alþingi niður sem sjálfvirka afgreiðslustofnun stjórnvalda. Þetta gerist oft fyrir jólin og á vorin og hefur stundum verið jafnhastarlegt og núna. Ríkisstjórnin er ekki sekari um þetta en fyrri ríkisstjórnir, ef það er þá einhver afsökun.

Ríkisstjórnin hefur sýnt Alþingi óvirðingu með þvi að kasta í það flóknum frumvörpum og heimta tafarlausa afgreiðslu. Þingmenn hefðu ekki átt að láta bjóða sér þetta. En þeir beygðu sig og hjálpuðu þannig til við að endurnýja stimpil afgreiðslustofnunar á Alþingi.

Fjárlögin eru stærsti bitinn í þessu kófi. Þar varð hlutur Alþingis betri en oftast áður. Venjulega hafa þingmenn smurt verulega útgjöldum ofan á fjárlagafrumvörp ríkisstjórna. En stjórnarmeirihlutinn á þingi stóðst freistinguna í þetta sinn.

Meirihluti fjárveitinganefndar hafði forustu um að neita nær allri óskhyggju og kjördæmabrölti einstakra þingmanna, svo og kröfum þrýstihópa, sem hafa róið í fjárveitinganefnd í allan vetur. Hækkunin á fjárlögunum við meðferð þeirra byggist fyrst og fremst á upplýsingum rikisstjórnarinnar um ýmsar vanáætlanir.

Því miður fela fjárlögin það í sér, að hlutur hins opinbera heldur áfram að þenjast út á kostnað hluta launþega og atvinnulífs. Rikisstjórnin virðist ekki hafa kraft í sér til að víkja frá stefnu fyrri ríkisstjórnar á þessu sviði.

Rikisstjórnin átti vitanlega að hafa frumkvæði að lækkun fjárlaga. Á þetta er margbúið að benda, en hún hefur samt flanað forustulaust út i ófæruna. Fjárlagasmíðin er einn mesti ósigur, sem þessi rikisstjórn hefur beðið.

Jólavertíð Alþingis lauk með tiu prósent hækkun útsvarsálagningar, framlengingu vörugjalds og tveggja prósentustiga hækkun söluskatts. Þetta eru feikilegar og ósanngjarnar álögur á almenning, sem hefur þegar orðið að sæta verulegri kjararýrnun á undanförnum misserum.

Ríkisstjórnin ber ábyrgð á þessu öllu. Það bætir ekki úr skák, er hún reynir að fela þessa ábyrgð með þvi að velta útgjöldum og tekjum yfir á sveitarfélögin til þess að hagræða sínu eigin fjárlagabókhaldi. Í raun og veru eru hinar nýju álögur hennar hærri en niðurstöður fjárlaga gefa til kynna, og eru þó 60 milljarðar væn tala, þrátt fyrir alla verðbólgu.

Nú er logn eftir storminn. Stjórnmálamennirnir eru komnir i jólafriðinn. Gott væri, að þeir notuðu tímann til að líta í eigin barm og kanna ofan í kjölinn, hvort aðgerðir þeirra siðustu vikurnar bendi til þess, að þeir valdi hlutverki sínu eða ekki.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið