Farmannaverkfallið í vor minnti okkur óþægilega á, hve háðir við erum samgöngum við útlönd. Umtalsverður hluti fæðu okkar kemur frá útlöndum; helmingur orkunnar, er við notum; svo og flestar vélar og tæki.
Styrjöld úti í heimi gæti hæglega einangrað Ísland frá umheiminum að miklu eða öllu leyti um skamman eða langan tíma. Þótt við vonum, að svo verði ekki, er það skylda okkar að hafa einhverja hugmynd um, hvernig bregðast skuli við.
Einna sízt er hætta á matarskorti. Töluverðar birgðir af fiski eru jafnan í geymslum vinnslustöðvanna. Þessar geymslur fyllast og tæmast, en að öllu samanlögðu ætti jafnan að vera til nægur forði fyrir landsmenn til langs tíma.
Svo vel vill til, að yfirleitt ganga frystigeymslurnar fyrir innlendri raforku, sem ekki ætti að bregðast, þótt Ísland einangraðist af einhverjum orsökum.
Því miður er ástandið ekki svona gott á öðrum sviðum. Nærri allt atvinnulíf þjóðarinnar byggist á innfluttu eldsneyti. Og við höfum nú komizt að raun um, að þetta er orðin lúxusvara, sem stundum er ekki einu sinni hægt að fá, þótt boðið sé uppsprengt verð fyrir hana.
Við höfum ekki einu sinni komið okkur upp birgðum af bensíni og olíum til nokkurra mánaða. Við notum skipsfarmana jafnóðum. Og verði seinkun á olíuskipi, komast olíufélögin strax í vanda.
Einu verulegu olíubirgðirnar í landinu eru í eigu Atlantshafsbandalagsins. Ástæðulaust er að gera sér vonir um, að á styrjaldartímum sé hægt að fá af þessum birgðum til borgaralegra þarfa. Þetta eldsneyti er einmitt varðveitt til hernaðar.
Það skiptir kannski ekki miklu, þótt dráttarvélarnar stöðvist í landbúnaði. Verra er, þegar stöðvast samgöngurnar, lífæð atvinnulífsins í landinu. Allra verst er þó, að olíuleysi mundi í einu vetfangi stöðva fiskveiðar okkar, hornstein nútímaþjóðfélags á Íslandi.
Ekki þarf einu sinni styrjöld til að hindra innflutning eldsneytis. Engin leið er að spá um, hvað samtökum olíuframleiðsluríkja getur dottið í hug að gera til að vekja athygli umheimsins á því, hve merkileg afurð olían er.
Við getum ekki heldur skákað í því skjólinu, að í Sovétríkjunum séu alténd ekki við völd neinir ofsatrúarklerkar af trú Múhameðs, heldur bara gamaldags og traustir kaupsýslumenn af trú Mammons. Sú staða gæti komið upp, að Sovétmönnum þætti henta að beita okkur pólitískum þrýstingi á viðkvæmu sviði.
Í leiðara Dagblaðsins á fimmtudaginn var því haldið fram, að innflutt eldsneyti væri orðið svo dýrt, að hliðstætt eldsneyti heimatilbúið væri um það bil orðið eða að verða samkeppnisfært. Var þar átt við framleiðslu vetnis úr vatnsorku með rafgreiningu og framleiðslu hefðbundinna bensín- og olíutegunda úr vetni með kolefni úr mó.
Það er ekki aðeins fjárhagslega hagkvæmt að hefja nú þegar af fullum krafti undirbúning að hönnun þeirra orkuvera og iðjuvera, sem til þarf. Það er þar á ofan beinlínis nauðsynlegt öryggis okkar vegna.
Þetta eru engar skýjaborgir. Tæknin er komin á það stig, að telja má barnaleik að framleiða bensín og olíur úr mó og vatni. Í því á ekki að vera fólgin nein hætta á Kröfluævintýri.
Við getum vel gert okkur í hugarlund, hve notalegt yrði að vera engum háður í orku, hvorki í landi, á sjó né í lofti. Að því eigum við að stefna, ekki hægum nefnda-skrefum, heldur hröðum vinnuskrefum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið