Svo virðist sem erfitt muni verða að kenna neinum um, hversu mikil tvísýna er orðin með orkuverið við Kröflu. Þau mistök, sem gerð hafa verið, hafa ekki ráðið úrslitum, heldur gosið, sem breytti eðli borunarsvæðisins. Enginn sá gosið fyrir, né vissi, að það mundi breyta svæðinu.
Orkustofnun taldi 7. ágúst 1974, að tvær tilraunaholur mundu nægja til að meta Kröflusvæðið. Er þær holur höfðu verið boraðar í árslok 1974, taldi Orkustofnun, að ná mætti 50-60 megavöttum til virkjunar og meira afli síðar. Sjálft svæðið hafði áður verið valið af Orkustofnun og Náttúruverndarráði. Og í marz 1975 segir Orkustofnun enn, að áhætta við Kröflu sé lítil, næstum engin.
Það er ekki fyrr en við gosið í desember 1975, að umtalsverður ágreiningur rís milli Orkustofnunar og vísindamanna utan stofnunarinnar. Sá ágreiningur snerist að mestu um goshættu, en ekki þá breytingu á eðli borunarsvæðisins, sem síðan kom í ljós síðari hluta ársins 1976. Orkustofnun hefur reynzt óheppin, en verður varla sökuð um vísindalega röng vinnubrögð, því að þau voru viðurkennd í fyrstu.
Allir alþingismenn samþykktu Kröfluvirkjun 4. apríl 1974 og enginn mótmælti þeirri yfirlýstu skoðun margra þeirra, að snör handtök þyrfti við virkjunina. Magnús Kjartansson, þáverandi orkumálaráðherra, skipaði síðan Kröflunefnd í júní 1974 í fullu umboði alþingis. Þá lá öllum geysilega mikið á.
Kröflunefnd gerði þau mistök að kaupa stærri hverfla en lög heimiluðu og knýja framkvæmdir svo hratt áfram, að kostnaður varð meiri en orðið hefði við venjulegar kringumstæður. Þessi atriði hafa hins vegar ekki bein áhrif á hina tvísýnu stöðu orkuversins eftir gosið.
Segja má, að Gunnar Thoroddsen, núverandi orkumálaráðherra, hefði getað sparað þjóðinni eitthvað af þeim milljörðum, sem Kröfluframkvæmdir kostuðu í fyrra, ef hann hefði stöðvað framkvæmdir með ráðherraúrskurði eftir gosið þá um áramótin. En þá hefði hann orðið að rísa gegn meðmælum Orkustofnunar og afskrifa það mikla fé, sem þegar var komið í Kröflu.
Fyrir ári töldu Kröflusinnar, að gosið væri frá og friður væri til að ljúka framkvæmdum og ná þaðan “ljósi og yl” fyrir áramót. Þá vissu ekki einu sinni vísindamenn innan eða utan Orkustofnunar, að gosið hefði breytt svo mjög eðli borunarsvæðisins, sem síðan kom smám saman í ljós síðari hluta ársins 1976.
Nú er ennþá minna eftir að greiða af stofnkostnaði Kröflu en var fyrir ári. Enn telja Kröflusinnar, að tilraunavinnsla geti hafizt eftir þrjá mánuði og sjálfur rekstur orkuversins á þessu ári. Það er því að vissu leyti skiljanlegt sjónarmiðið, sem Ragnar Arnalds Kröflunefndarmaður setti fram í Þjóðviljanum á sunnudaginn, að “harla óskynsamlegt” sé “að reyna ekki að ljúka því litla, sem á vantar”, úr því að allir þessir miklu peningar eru þegar komnir í Kröflu.
Enn veltur þó mest á, hvort Orkustofnun metur hina vísindalegu gagnrýni nógu alvarlega til þess, að hún mæli með stöðvun framkvæmda eða hvort hún vill halda áfram í þeirri von, að ólánið sé að baki og að þekkingaraukinn nægi til að ná upp nógu af heitu vatni.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið