Víða um land urðu menn í desemberkuldunum að sætta sig við það hlutskipti forfeðranna að skorta bæði eldivið og ljósmeti. Gekk þessi orkuskortur svo langt, að sumir Hornfirðingar urðu að flýja til Reykjavíkursvæðisins vegna húskulda heima fyrir. Gripið var til rafmagnsskömmtunar mjög víða og jafnvel í Reykjavík römbuðu menn á barmi skömmtunar.
Þessi reynsla sýnir, að upp á síðkastið hefur slaknað á klónni í orkuöflun innanlands. Orkunotkunin hefur aukizt mjög hratt, en framleiðslan ekki að sama skapi. Fyrir nokkrum árum var bjartsýnin meiri á þessu sviði, Búrfellsvirkjun var komin í gagnið og hafnar framkvæmdir við miklar virkjanir í Laxá og Lagarfljóti. Þar á ofan var reiknað með að virkjun við Sigöldu eða Hrauneyjarfoss væri á næsta leiti.
Síðan hefur myndin breytzt. Deilur risu um Laxárvirkjun og ónýttu hana sem stórvirkjun Jafnframt hefur dregizt að finna aðra virkjun í staðinn og ákvörðun tekin allt of seint um virkjun gufuafls í nágrenni Mývatns. Hálendislínal frá Þjórsárvirkjunum til Norðurlands þykir af veðurfarsástæðum ekki vera sú lausn á orkuskorti nyrðra, sem margir væntu.
Við þetta bætist, hve seinlega hefur gengið að fjármagna Sigölduvirkjun. Hún er því seinna á ferðinni en æskilegt hefði verið. Minni líkur en áður eru á því, að hún verði aflögufær með rafmagn út fyrir Landsvirkjunarsvæðið eða til húsahitunar á eigin orkudreifingarsvæði. Þessi seinkun er dæmi um óhóflega rósemi stjórnvalda við öflun innlendrar orku.
Svo hrökkva menn við, þegar olíuskortur er farinn að segja til sín í nágrannalöndunum. Allir sjá nú, að við þurfum sem skjótast að láta jarðhita og vatnsafl leysa olíuna af hólmi í húsahitun og rafmagnsframleiðslu. Hin ódýra innlenda orka verður ár eftir ár sífellt hagstæðari í verði í samanburði við olíuna, sem hækkar stöðugt í verði.
Við slíkar kringumstæður á orkuráðherra ekki að verja dýrmætu fé til Öxnadalsheiðarlínu, sem ekki kemur að notum á næstu árum. Hann á ekki að neita Hornfirðingum um vararafstöðvar að láni hjá varnarliðinu. Og hann á ekki að standa í verðstöðvunarofsókn á hendur Hitaveitu Reykjavíkur, sem nú er einmitt að undirbúa lagningu hitaveitu í kaupstaði og kauptún nágrennisins. Pólitískt brölt verður að víkja fyrir orkuhagsmunum þjóðarinnar.
Orkunotkun þjóðarinnar byggist í vaxandi mæli á olíuknúnum vararafstöðvum. Þeirri þróun ber að snúa við hið bráðasta og leggja kapp á að framkvæma sem hraðast áætlanir um virkjun jarðhita og vatnsafls víða um land. Til þess þarf virkari forustu af hálfu ríkisins og meiri stuðning við framtak sveitarfélaga á þessu sviði. Eftir olíukreppuna hafa stjórnvöld enga afsökun fyrir því að sofa áfram á verðinum.
Jónas Kristjánsson
Vísir