Orkukreppa eða greindarkreppa?

Greinar

Í orkukreppunni hafa Íslendingar á oddinum ráðherra, sem hefur í hatti sínum þá skrautfjöður helzta að hafa persónulega fengið frestað virkjun Hrauneyjafoss. Og það með ærinni fyrirhöfn.

Skammsýni Hjörleifs Guttormssonar, iðnaðar- og orkuráðherra, á eftir að verða Íslendingum dýr. Hið sama má raunar segja um aðra stjórnmálamenn íslenzka, þótt þeir hafi að vísu ekki sömu völd til að láta illt af sér leiða og Hjörleifur hefur.

Í orkukreppunni hafa Íslendingar framvarðarsveit alþingismanna, sem eru sammála um fátt annað en að ekki megi halda áfram tilraunum til að nýta sextán milljarða króna fjárfestingu í orkuverinu við Kröflu.

Í orkukreppunni hafa Íslendingar ráðamönnum sínum til aðhalds stjórnarandstöðu, sem leggur höfuðáherzlu á að telja kjósendum trú um, að hátt olíuverð hér á landi sé vondum kommúnistum í Sovétríkjunum að kenna.

Í orkukreppunni hafa Íslendingar svonefnda ráðherra, sem eru svo forviða á þróun orkumála, að þeir éta upp óskhyggju stjórnarandstöðunnar um breyttan verðgrundvöll innfluttrar orku og fremja þá séríslenzku patentlausn að skipa nefnd í málið.

Engum heilvita manni dettur í hug, að Sovétmenn séu fáanlegir til að selja okkur olíu á lægra verði en samkvæmt skráningunni í Rotterdam. Í orkukreppu er einfaldlega borgað það, sem upp er sett.

Í orkukreppu hrósa happi þau ríki, sem hafa gömul viðskiptasambönd við olíuframleiðsluríkin og hafa eigin olíuhreinsunarstöðvar. Þau ná lægra verði en því, sem fæst í Rotterdam, að minnsta kosti í bili.

Við höfum engin slík olíusambönd utan Sovétríkjanna og enga olíuhreinsunarstöð. Olíufélögin okkar hafa reynt að fá olíu á Vesturlöndum og hafa orðið að greiða fyrir hana meira en Rotterdam-verð.

Okkur finnst olían orðin dýr. En við eigum eftir að sjá það svartara. Engum heilvita manni dettur annað í hug en að olían muni halda áfram að hækka í verði, hversu margar nefndir sem landsfeður okkar skipa.

Samtök olíuríkja hafa iðnaðarríkin í snörunni. Olíuríkin ákveða einhliða sitt verð og iðnaðarríkin verða að greiða það, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þannig gerast kaupin á eyrinni, þegar skortur er á nauðsynjavöru.

lnnflutt orka mun því áfram hækka í verði. Hún var í fyrra 12% af innflutningnum og verður 25% á þessu ári. Á næsta ári verður hún enn stærri hluti innflutningsins. Og síðan koll af kolli.

lnnflutt orka hækkar í verði meðan Hjörleifur Guttormsson tefur fyrir virkjun Hrauneyjafoss. Hún hækkar í verði meðan alþingismenn tefja fyrir borunum við Kröflu. Hún hækkar í verði meðan stjórn og stjórnarandstaða eyða tímanum í óskhyggjunefnd til að senda Rússum bænaskrár.

Innflutt orka hækkar í verði meðan fjárveitinganefnd alþingis neitar að fella niður innflutningsgjöld af einum rafbíl handa háskólanum í tilraunaskyni. Hún hækkar í verði meðan landsfeður okkar hamast ekki við að undirbúa framleiðslu innlends eldsneytis með rafgreiningu.

Þannig er ástandið í landi, þar sem ómæld orka fossar ónotuð til sjávar. Þannig er ástandið í landi, sem flýtur eins og þunn skorpa ofan á heljarafli undirdjúpanna. Þannig er ástandið í landi, sem á næga orku til næstu alda, ef ekki árþúsunda.

Þannig er ástandið í landi, sem á þó vísindamenn á borð við Braga Árnason, Gísla Jónsson og Ágúst Valfells, er hafa bent okkur á lausnir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið