Orkan er undirstaða lífsins á jörðinni og gífurleg orkunotkun er forsenda velmegunarþjóðfélaga nútímans. Saga efnahagslegra framfara fylgir sögu vaxandi orkunotkunar. Þess vegna er orkubúskapurinn vafalítið mikilvægasti atvinnuvegur nútímans, svo sem iðnaðarríkin hafa komizt áþreifanlega að raun um í olíuskömmtunaraðgerðum Arabaríkja.
Fyrir iðnbyltinguna notaði mannkynið lítið af orku, aðallega plöntur og dýr, sér og húsdýrum sínum til framfæris. Einnig voru þó notuð segl til að beizla orku vinds og mylluhjól til að beizla orku vatns. Reiknað hefur verið út, að samanlagt hafi þetta gert hverjum manni kleift að nota að meðaltali 12 kílóvattstundir af orku á dag.
Nú notar hins vegar hver íbúi orkuþróaðs ríkis um og yfir 1700 kílóvattstundir af orku á dag, eða rúmlega 140 sinnum meira en menn notuðu fyrir iðnbyltingu. Þessi gífurlega aukning er ein helzta forsenda velmegunarinnar í mestu orkunotkunarríkjum heims.
Verulegur hluti þessarar orku kemur frá birgðum í iðrum jarðar. Segja má, að þær séu birgðir óbeinnar sólarorku, sem safnazt hafa fyrir á milljónum ára. Við göngum ört á þessar birgðir. Árlega eru notuð kol, sem samsvara um hundrað alda framleiðslu sólarinnar á kolum, svo að dæmi sé nefnt. og olían gengur langtum hraðar til þurrðar.
Við höfum líka varanlegri orku í mynd kjarnorku, vatnsafls og jarðvarma. Sú orka eyðist lítt eða ekki, þótt af sé tekið, og sama gildir um beina notkun sólarorkunnar, sem alltaf er verið að reyna.
Á Íslandi erum við svo lánsamir að vera fámenn þjóð í stóru landi mikillar vatnsorku og jarðvarma. Við höfum náð ágætum árangri í að virkja þessa orku og þurfum jafnframt að leggja aukna áherzlu á virkjunina.
Við urðum snemma mjög framarlega í virkjun jarðhita til húsahitunar, þótt margt sé enn ógert á því sviði. En við höfum einnig dregizt aftur úr að því leyti, að við erum rétt að byrja að beizla jarðvarmann til rafmagnsframleiðslu. Við höfum þó um nokkurt skeið vitað, að slíkar virkjanir eru jafnvel ennþá hagkvæmari en vatnsaflsvirkjanir. Margar litlar jarðvarmastöðvar úti um byggðir landsins geta framleitt jafnódýra raforku og stórar vatnsaflsstöðvar á borð við Sigöldu.
Á undanförnum árum hefur verið farið of rólega í rannsóknir á þessu sviði. Nú er kominn tími til að taka til óspilltra málanna og reisa fyrst gufuaflstöð við Kröflu og síðan margar fleiri stöðvar til almennrar raforkunotkunar. Hinar dýru og stóru vatnsaflsvirkjanir getum við svo fremur notað til að koma upp stóriðju í landinu.
Við þurfum að stefna að því að nota eftir skamman tíma eingöngu innlenda orku til ljósa, hitunar og til að knýja staðbundnar vélar. Jafnframt þurfum við að fylgjast miklu betur með tilraunum til að nota raforku til að knýja farartæki, ekki aðeins bíla, heldur einnig skip. Hugvitsmönnum heimsins mun fyrr eða síðar takast að leysa hin óleystu vandamál á þeim sviðum.
Það verða ein merkustu tímamót í sögu þjóðarinnar, þegar við erum orðnir sjálfum okkur nógir í orkuframleiðslu. Ekkert framfaramál okkar er mikilvægara en einmitt að flýta þeirri þróun sem mest.
Jónas Kristjánsson
Vísir