Orkan er næg

Greinar

Eðlilegt er, að Íslendingar fari að hugsa nánar um framtíð orkumála sinna, þegar Hornfirðingar halda jól í myrkri og kulda, rafmagnsskömmtun er daglegt braut víða um land, verð á bensíni og olíu til hitunar húsa, framleiðslu rafmagns og keyrsluvéla fer sífellt hækkandi og þegar skuggi orkuskorts leggst yfir nágrannalöndin.

Við sjáum strax, að við erum vel settir að því leyti, að við höfum næga orku til hitunar, ljósa og keyrslu staðbundinna véla. Vatnsaflið hefur aðeins verið beizlað að sáralitlu leyti og enn lægra hlutfall er notað af jarðhitanum. Þessar tvær orkulindir virðast næsta óþrjótandi.

Við þurfum bara að vinda bráðan bug að því að beizla þær af meiri krafti. Enn er það svo, að víða um land er lítið rekstraröryggi í framleiðslu rafmagns, auk þess sem við höfum víða enn ekki getað látið vatnsorkuna leysa olíuna af hólmi í framleiðslu rafmagns. Þá hafa fæstir íbúar strjálbýlisins aðgang að þriggja fasa rafmagni til að knýja vélar á hagkvæman hátt. Síðast en ekki sízt er meirihluti íslenzkra húsa enn kyntur með olíu, þótt við eigum nógan arðhita og vatnsorku.

Við eigum einnig aðrar orkulindir ónotaðar. Vindurinn er ekki beizlaður, þótt fundnar hafi verið upp vindmyllur, sem framleiða óhemjulegt rafmagn og.hlaða þar að auki rafgeyma til geymslu á rafmagni til notkunar í logni. Síðan er það sólarorkan sjálf, sem menn eru erlendis farnir að nota ekki aðeins til hitunar, heldur einnig til framleiðslu rafmagns.

Olíuskorturinn hefur leitt til stóraukinnar áherzlu á rannsóknir á nýtingu orku sólar og vinda. Má því vænta mikilla framfara á þeim sviðum á næstu árum. Hið sama gildir um jarðhitann, því að þjóðir um allan heim ern nú að uppgötva þennan hentuga og útbreidda orkugjafa.

Vandinn er meiri í framleiðslu orku fyrir hreyfanlegar vélar, einkum skip og flugvélar. Samgöngur á landi mætti leysa með rafmagnsjárnbrautum til langferða og rafmagnsbílum til skotferða, ef olían gengur til þurrðar. En flutningar á sjó og í lofti eru meiri vandkvæðum bundnir.

Að vísu eru olíubirgðir heimsins margfalt meiri en ætla mætti af tölum. Það er aðeins tímaspursmál, hvenær menn komast upp á lag með að hagnýta olíusetlög, sem til eru í ótrúlegum mæli. En auðvitað kemur að því um síðir, þótt frestur verði á, að ekki verður lengur hægt að reikna með olíu sem orkugjafa.

Þess vegna keppast vísindamenn nú við að finna betri leiðir til að hagnýta kjarnorku til keyrsluvéla. Það úraníum, sem nú er notað, er af skornum skammti. En menn reikna með, að fljótlega verði fundnar leiðir til að hagnýta allar tegundir úraníums. Og fræðilega séð er ekkert því til fyrirstöðu að enn síðar, líklega fyrir aldamót, verði fundnar leiðir til að nota deuterium, sem til er í ótakmörkuðum mæli, sem hráefni í stað úraníums.

Hvorki mannkynið í heild né Ísland sérstaklega stendur andspænis óleysanlegum orkuvanda. Olíuskorturinn hefur hins vegar vakið menn til meðvitundar um, að þeir verði að fara að snúa sér frá olíunni til annarra, óþrjótandi orkugjafa.

Jónas Kristjánsson

Vísir