Efnahagslífið á Íslandi er verulega frábrugðið efnahagslífi annarra ríkja Vestur-Evrópu. Það er meira eða minna úr tengslum við markaðslögmál. Verðmyndun hér á landi er að verulegu leyti ákveðin með opinberum aðgerðum, svo sem millifærslum, verðlagsnefndum, niðurgreiðslum, uppbótum og pólitískri lánafyrirgreiðslu.
Landbúnaðurinn er hér lokaður og einokaður markaður. Sérstakar stofnanir reikna rekstrarkostnað vinnslustöðva landbúnaðarins og tekjuþörf ímyndaðs bónda á ímynduðu búi. Verð Iandbúnaðarafurða ræðst nokkurn veginn sjálfkrafa eftir þessum útreikningum. Það verð er gersamlega úr samhengi við hliðstætt verð i nágrannalöndunum og á alþjóðlegum markaði.
Sjávarútvegurinn sætir alþjóðlegu markaðsverði, en fær ekki að njóta árangurs erfiðis síns, ef vel gengur. Með röngu gengi er afrakstrinum dreift út í þjóðfélagið í heild. Síðan taka opinberar stofnanir að reikna afkomu fiskiðju og útgerðar, svo að unnt sé að haga fiskverði, gengi og sjóðamillifærslum á þann hátt, að meðalfyrírtæki í þessum greinum komi út á sléttu. Þannig er sjávarútvegurinn slitinn úr tengslum við markaðslögmálin, þótt endanleg sala afurða hans sé á alþjóðlegum markaði.
Byggingaiðnaðurinn er sjálfverndaður vegna einangrunar landsins og skorts á erlendri samkeppni. Verðlag hans er ákveðið i samningum sveina og meistara, sem báðir hafa hag af hækkun byggingakostnaðar. Þetta verðlag hefur síðan veruleg áhrif út á við vegna mikilvægis vísitölu byggingakostnaðar í verðmyndunarkerfinu.
Iðnaðurinn er í nánustu tengslunum við markaðslögmál. Hann keppir við innflutning og reynir einnig að framleiða fyrir erlendan markað. En hin ranga gengisskráning hefur svipuð áhrif í iðnaði og hún hefur í sjávarútvegi. Hún veldur þvi, að ógerningur er að komast að því, hve arðbær og þjóðhagslega hagkvæmur iðnaðurinn er.
Rikisbáknið, viðamesti atvinnuvegur landsins, er svo alveg utan markaða. Verðlag þjónustu ríkisins hækkar i samræmi við meira eða minna ímyndaðar þarfir stofnana þess. Enginn sparnaðarhvati er í ríkiskerfinu, eins og kemur bezt í ljós af því, að útilokað er að skera niður fjárlög, þótt um það séu teknar pólitískar ákvarðanir. Ríkisbáknið þenst út með sjálfvirkum hætti.
Í þessu undarlega efnahagslífi er engin leið að átta sig á, hvar starfskraftar og fjármagn ná beztum árangri. Engin leið er að beina orku og peningum þjóðarinnar að þeirri starfsemi, sem gefur beztan arð, bezt lífskjör og mesta skatta. Þar sem markaðslögmálum er lítt eða ekki beitt, er útilokað að finna, hvar hagkvæmni er og hvar hún er ekki.
Hér á landi koma opinberar og hálfopinberar aðgerðir embættismanna og stjórnmálamanna í staðinn fyrir markaðslögmálin. Þorrinn af fjárfestingarfé þjóðarinnar er tekinn af almennum markaði og látinn í pólitíska sjóði. Verðlag er ákveðið með rangri gengisskráningu, millifærslum, verðlagsnefndum, niðurgreiðslum og uppbótum.
Og svo erum við að furða okkur á verðbólgu og efnahagserfiðleikum!
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið