Hinir nýju, frönsku heimspekingar, sem mesta athygli vekja um þessar mundir, eru andvígir öllum útgáfum pólitískrar hugmyndafræði, einkum marxismanum. Þeir telja slíka hugmyndfræði vera hættulega ímyndun og blekkingu.
Það ætti líka að liggja í augum uppi, að mannfélagið og breytingar þess eru alltof flókin atriði til að rúmast innan ramma kenninga, sem byggjast á hugarleikfimi og þrætubókarlist. Allar slíkar kenningar, hversu vísindalegar, sem þær þykjast vera, hljóta að reynast rangar í veigamiklum atriðum.
Þessir heimspekingar telja kapítalismann jafnvillimannlegan og sósíalismann. Þeir segja kapítalismann þó vera skárri að því leyti, að hann hefur alltaf verið fullur sjálfsgagnrýni og felur því alltaf í sér breytingar á sjálfum sér. Þannig er hann ekki eins mikil blindgata og sósíalisminn.
Sósíalismann skortir þessa sjálfsgagnrýni, þessa sjálfsefahyggju. Verra er þó, að hann ber í sér frækorn alræðisins. Í kjölfar hvers konar tilrauna við sósíalisma fylgir alræði, að dómi hinna frönsku heimspekinga. Enda sé stefnan upprunnin í ríkisdýrkun Fichtes, Hegels, Nietzsches og Marx.
Þessi heimspeki er nú komin á oddinn, meðal annars vegna vonbrigðanna með stjórnmálaþróunina í Sovétríkjunum og Kína. Þessi ríki eru ekki lengur taldar fyrirmyndir, heldur fyrst og fremst skriffinnskualræði og herveldi.
Hin aldna hugmyndafræði, sem þessi ríki og ýmis önnur byggja á, hefur glatað sannfæringarkrafti sínum. Fáir alvarlega hugsandi menn trúa því lengur, að unnt sé að búa til verkfræðiteikningar um framtíð mannfélagsins og byggja á þeim ódáinsakra félagslegrar samhljómunar.
Hinir nýju heimspekingar segjast ekki vita, hvort þeir séu til hægri eða vinstri í stjórnmálum. Þeir telja eðlilegast, að fólk reyni að fást við aðkallandi vandamál og prófi endurbætur án þess að byggja á neinu kerfi. Enda hljóta slík kerfi að vera röng og villa mönnum sýn.
Íslendingar verða í smáum stíl varir við sjálfvirkt böl sósíalískra vinnubragða. Þegar vandamál er skilgreint hér á landi, eru sett um það lög og byggð upp stofnun með stjóra á oddinum. Þessi stjóri verður smám saman einræðisherra með viðamikið skriffinnskukerfi, sem lamar sviðið, er stofnunin á að starfa við.
Hinir helztu einræðisherrar mynda með hinum helztu stjórnmálamönnum eins konar fámennisstjórn í landinu, sem starfar undir yfirvarpi lýðræðis og þingræðis. Fólkið telur sig hafa áhrif í kosningum, en í rauninni verða allar ríkisstjórnir eins, bæði hægri og vinstri stjórnir. Þær grafa undan lýðræðinu, byggja upp stofnanir og opinbera sjóði, ná fleiri og fleiri þráðum í sínar hendur og efla fámennisveldið Í átt til alræðis.
Flókið mannfélag verður ekki skipulagt með slíkum hætti, án þess að það hverfi frá lýðræði til alræðis. Valdið í landinu verður að vera dreift. Og menn verða að hætta að trúa á opinberunarrit á borð við Das Kapital eftir Marx. Þrætubókarlist er og verður rugl.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið