Ef mark væri á gamalli þjóðtrú, ættu olíufurstar Araba að hafa hnerrað stanzlaust síðustu árin. Svo mjög eru menn þeim reiðir fyrir tíðar hækkanir á bensíni.
Satt er, að verðspírall bensíns byrjar hjá olíufurstunum. En þeir hafa í rauninni bara verið að lagfæra allt of lágt verð á afurðum takmarkaðrar auðlindar.
Olían á langa leið fyrir höndum, þegar hún kemur úr borholunum. Margir maka krókinn á þeirri leið. Ef íslenzkir bíleigendur sætu að arabiskum hækkunum einum, kostaði bensínlítrinn innan við 100 krónur í stað 256 króna.
Samkvæmt formúlunni þurfa dreifendur olíu eins og annarrar vöru að hækka álagningu sína og halda fastri álagningarprósentu til að hafa efni á sömu birgðum og áður.
Eitthvað hefur þessi formúla raskazt hjá stóru olíufélögunum úti í heimi. Síðustu ársreikningar þeirra sýna svo ofsalegan gróða, að olíufurstarnir blikna sumir í samanburðinum.
Þessi gróði hefur aðeins að hluta verið festur í birgðum, því að stóru olíufélögin hafa verið önnum kafin við að kaupa upp fyrirtæki á alls óskyldum sviðum.
Staðreyndin er sú, að stóru olíufélögin hafa hagnýtt sér framtak Araba og tekið enn stærri sneið sjálf. Þess vegna er heimsmarkaðsverð bensíns komið upp í 77 krónur á hafnarbakka á Íslandi.
Gagnvart Íslandi leika Sovétríkin hlutverk olíufurstans og hins stóra dreifingarfyrirtækis. Olíusamningarnir fylgja heimsmarkaðsskráningu í Rotterdam. Rússar hagnast á braski vestrænna olíufélaga ekki síður en olíufurstanna.
Þegar olían er hingað komin, taka íslenzku olíufélögin við. Í bensíninu eru þau heldur betur þurftarfrek, því að þau leggja 35 krónur ofan á 77 krónurnar eða heil 45%.
Þessi álagning á að duga fyrir öllum kostnaði við heildsölu og smásölu á landinu. Hún gerir það tæpast, því að olíufélögin eru sífellt fjárvana. En raunar er undarlegt, að 45% álagning á benzíni skuli ekki vera rífleg.
Allt eru þetta smámunir í samanburði við síðasta okrarann, ríkið. Það leggur sjálft 191% ofan á innflutningsverðið eða 144 krónur á hvern lítra bensíns. Það er meira en helmingur af því, sem bíleigendum er gert að greiða, 256 krónur.
Sovétmenn fá sem olíufurstar og -dreifendur ekki nema 30% af þessari upphæð, olíufélögin íslenzku 14%, en ríkið fær 56%. Hefur græðgi ríkisins nú leitt til þess, að benzín er hvergi dýrara í heiminum.
Margoft hefur verið bent á, að engin sanngirni sé í fastri álagningarprósentu skatta á bensíni, því að ríkið hafi engan kostnað af dreifingunni. Ríkið sé einfaldlega að auka skattheimtuna.
Viðskiptaráðherra og aðrir ráðherrar hafa viðurkennt ósanngirnina í aukningu bensínskatta. Samt hefur ríkisstjórnin ákveðið að hagnast um rúman milljarð á árinu af síðustu benzínhækkun.
Það skiptir engu, þótt fé þetta sé notað til tvöföldunar olíustyrks og afnáms söluskatts á gasolíu. Þetta er skattur eigi að síður, notaður til fjármagnstilfærslna í olíumálum.
Þessar tilfærslur eru hættulegar eins og margar slíkar. Þær geta leitt til minni áhuga sveitarfélaga á virkjun jarðhita. Slíkum atriðum gleyma stjórnmálamenn oft, þegar þeir færa til fé.
Spírall olíufurstanna er enn kominn í gang og mun leiða til frekari hækkunar hér á næstunni. Mun ríkið þá loksins geta hamið græðgi sína?
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið