Olíu kennt um allt

Greinar

Olíuskorturinn í heiminum er alvarlegt vandamál, en ekki þvílíkt hrun, sem margir virðast halda. Efnahags-og þróunarstofnunin hefur spáð fyrir næsta ár og telur olíuskortinn munu valda nokkurri verðbólgu og atvinnuleysi hjá iðnaðarþjóðum heimsins. Ekki á þó vandinn að verða meiri en svo, að iðnaðarþjóðirnar nái næstum því jafnvægi í viðskiptum sínum við umheiminn.

Hér á landi hækkar olían eins og annars staðar. Sú hækkun kostar okkur töluvert fé, en er þó ekki eins dýr og mörg önnur vandamál, sem við höfum horfzt í augu við á undanförnum árum og áratugum. Og svo má ekki heldur gleyma því, að verðbólgan í umheiminum mun hækka verðlag fiskafurða okkar og vega þannig að töluverðu leyti upp á móti verðhækkun olíunnar.

Atvinnuleysi mun ekki sigla í kjölfarið hér á landi eins og í mörgum nágrannalöndum okkar. Hér ríkir tilfinnanlegur vinnuaflsskortur, sem mun koma greinilegast í ljós á vertíðinni í vetur, þegar reynt verður árangurslaust að manna nokkra tugi veiðiskipa.

Þótt skortur á hráefnum, sem unnin eru úr olíu, muni valda samdrætti í sumum greinum, er útilokað, að það eitt út af fyrir sig leiði til atvinnuleysis hér á landi. Vinnuaflsskorturinn er mun meiri en nemur hugsanlegum samdrætti vegna olíuskortsins.

Í heild má segja um olíuskortinn, að Íslendingar hafa séð það miklu svartara í efnahagsmálum sínum. Hann er smámál í samanburði við verðhrunið á fiskafurðum okkar fyrir um það bil sex árum, er útflutningsverðmæti þeirra féll næstum því um helming. Það er því ástæðulaust að örvænta, þótt smávægilegur mótbyr í olíumálum sé framundan.

Við munum vissulega finna fyrir óþægindum. Til dæmis mun verð á veiðarfærum hugsanlega hækka upp úr öllu valdi. Ríkisstjórnin þarf að hafa vakandi auga á öllu slíku, svo að tryggt sé, að atvinnulífið gangi jafn smurt og lipurt og venjulega. Hún kann að þurfa að útvega lán og ábyrgðir í þessu skyni, og taka þátt í að fjármagna söfnun birgða af torfengnustu hráefnunum.

En þessar kröfur til árvekni stjórnvalda eru ekkert umfram það, sem jafnan verður að ætlast til af þeim. Í búskap Íslendinga eru sífelldar sveiflur, sem stjórnvöld verða að vinna gegn. Ein skynsamlegasta nýjungin á því sviði er verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins, sem gerður var að öflugum sjóði á viðreisnartímanum og sem núverandi ríkisstjórn er stöðugt að reyna að koma fyrir kattarnef.

Margt bendir til þess, að ríkisstjórnin hafi áhuga á að kenna olíuskortinum í heiminum um allt, sem aflaga hefur farið og aflaga er að fara í efnahagslífi Íslendinga. Má þó ljóst vera, að þau vandamál eiga að verulegu leyti aðrar og heimatilbúnar orsakir.

Jónas Kristjánsson

Vísir