Ólíkt hafast þeir að

Greinar

Landhelgisdeila okkar við Breta og Vestur-Þjóðverja hefur tekið tvær ólíkar stefnur. Gagnvart Bretum fer deilan sífellt harðnandi og möguleikar á samkomulagi verða sífellt fjarlægari. Deilan við Vestur-Þjóðverja þokast hins vegar smám saman í átt til samkomulags.

Aðalsamningamaður Þjóðverja, Hans Apel aðstoðarráðherra, hefur gefið tímamótayfirlýsingar í leiðara, sem hann skrifaði í eitt dagblað jafnaðarmanna í Þýzkalandi. Þar leggur hann áherzlu á, að Þjóðverjar reyni að ná samningum við Íslendinga, áður en deilan verði að alþjóðlegu stórmáli.

Apel varar við hinum útbreidda hugsunarhætti meðal andstæðinga Íslendinga í deilunni, að ekki megi semja, vegna þess að útfærsla Íslendinga sé einhliða og ólögleg. Hann segir stjórnmálamenn verða að hafa víðari sjóndeildarhring, kunna að taka staðreyndum og hindra, að landhelgisdeilan snúist upp í stórmál á alþjóðavettvangi.

Apel viðurkennir hreinskilnislega, að Þjóðverjar verði að draga úr sókn sinni á Íslandsmið, fækka skipum sínum og veiða utan íslenzkra bannsvæða. Og hann er nógu víðsýnn til að taka sérstaklega fram, að þennan mun megi bæta upp með því að kaupa meiri fisk en áður af Íslendingum. Svo virðist sem hann vilji jafnvel gera slík fiskkaup að einu atriði væntanlegs samkomulags.

Auðvitað er þetta sjónarmið nútímans. Þjóðverjar eiga ekki að vera að vasast í taprekstri á útgerð, þegar þeir hafa miklu betri tekjur af öðrum atvinnuvegum. Þjóðir verða að sérhæfa sig í atvinnugreinum, svo að rekstrarhagkvæmnin verði meiri. Apel sér, að Íslendingar kunna að reka útgerð með árangri. Og því þá ekki að kaupa fiskinn af Íslendingum. Þjóðverjar hafa nægar vörur til að selja hingað í staðinn.

Ef til vill er grein Apels merki um, að þýzk stjórnvöld hafi komizt að raun um, að þýzkir og íslenzkir þjóðarhagsmunir fari saman og séu andstæðir hagsmunum nokkurra þýzkra útgerðarmanna. Ef svo er, ættu viðræðurnar í október að geta leitt til samkomulags í deilunni. Íslendingar munu fyrir sitt leyti gera sitt bezta til að svo geti orðið.

Brezki íhaldsþingmaðurinn Laurence Reed hefur ekki sama hljómgrunn hjá stjórnvöldum síns heimalands, þegar hann segir Breta verða að vægja í landhelgisdeilunni, þar sem þjóðarhagsmunir beggja fari saman. Það er sorglegt, að brezka stjórnin skuli ekki átta sig á, að hagkvæmara er fyrir Breta að taka sjálfir upp 200 mílna landhelgi en standa í illdeilum við Íslendinga.

Brezka stjórnin herðir í þess stað deiluna stig af stigi. Hún hagar sér eins og hún eigi í styrjöld. Hún lætur skip sín valda árekstrum við íslenzku varðskipin og þykist svo vera blásaklaus. Þetta framferði er svo alvarlegt, að frekari viðræður milli Breta og Íslendinga eru útilokaðar. Þar á ofan hefur brezka stjórnin með þessu gert íslenzkum stjórnvöldum ókleift að standa við fyrri tilboð sín gagnvart brezku samningamönnunum. Íslendingar eru ekki lengur til viðtals um tilslakanir og undanþágur fyrir brezka togara.

Jónas Kristjánsson

Vísir