Þótt undarlegt megi virðast, er sennilegt, að olíuslysið mikla við Bravo-borholuna í Norðursjó verði þjóðum Norðursjávar og Norður-Atlantshafs fremur til gæfu en tjóns. Líta má á slysið sem geigvænlega aðvörun, er ráðamenn viðkomandi ríkja geta ekki látið sem vind um eyru þjóta.
Um tíma leit út fyrir, að olíuslysið mundi valda óbætanlegum skaða. Þar sem björgunarmönnum hefur nú tekizt að ná tökum á gas- og olíuflaumnum, er sennilegt, að olían berist ekki til stranda Norðursjávar. Ekki er vitað, hve mikið tjón verður á fiskistofnum og öðru lífríki hafsins, en sennilega munu áhrif olíunnar þverra, þegar fram líða stundir.
Norðmönnum, Bretum og öðrum þeim, sem beðið hafa skjótfengins gróða af olíu- og gaslindum Norðursjávar, hlýtur nú að verða ljóst, að varlegar en áður verður að fara í sakirnar. Ljóst er, að þeir kunna ekki enn að hemja þær höfuðskepnur, sem þeir eru að reyna að virkja.
Mörgum holum í Norðursjó hefur orðið að loka, þar sem þrýstingurinn í þeim var orðinn svo gífurlegur, að ekki var þorandi að virkja þær. Eftir Bravo-slysið spyrja menn hvort einhverjar af þessum holum fari fyrr eða síðar að blása og hvort ekki beri nú að gera ráðstafanir til að halda þeim í skefjum.
Ennfremur hlýtur Bravo-slysið að leiða til þess, að kröfur um margfalt meira öryggi og betri frágang á borpöllum nái fram að ganga. Í brezkri skýrslu hefur verið gizkað á, að 80% líkur væru á útblæstri eins og á Bravo í hinum brezka hluta Norðursjávar og 50% líkur væru á fleiri en einu slíku stórslysi.
Nú verða ráðamenn ríkja Norðursjávar og ráðamenn borpalla á svæðum þeirra að stöðva sig á olíufluginu og leggja höfuðáherzlu á að auka kunnáttu og öryggi í þessum áhættusama námugreftri, sem þegar hefur kostað tugi manna lífið og ógnar nú velferð ríkja um allt Norður-Atlantshaf.
Hjá Norðmönnum stóð fyrir dyrum að hefja tilraunaboranir norður á íslenzkum breiddargráðum, þar sem veður eru vályndari en í Norðursjó. Þessum tilraunum verður nú. að fresta, að minnsta kosti á meðan vísindamenn standa jafn ráðþrota gagnvart duttlungum olíunnar og lítil börn með eldspýtur.
Þetta sýnir okkur Íslendingum, að okkar stjórnvöld hafa gert rétt í að flýta sér hægt í þessum efnum, þótt fjölmargir aðilar hafi óskað leyfa til tilraunaborana fyrir Norðausturlandi. Eftir Bravo-slysið er ljóst, að engin slík leyfi má veita í náinni framtíð.
Við verðum svo að vona, að vísinda- og tæknimönnum takist um síðir að afla sér nægilegrar þekkingar og leikni til að virkja auðlindir sjávarbotnsins án þess að stofna lífi hafs og stranda í neina hættu. Ef svo verður, mun gasið og olían í Norðursjó reynast Vestur-Evrópu mikil og þörf lyftistöng.
En á meðan hlýtur gasið og olían að teljast hinn mesti ógnvaldur og ráðamenn auðlindanna að teljast í hópi hinna hættulegustu manna álfunnar. Við megum ekki láta hagnaðarvonina eyðileggja framtíð okkar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið